Í forsetakosningum í júní 2016 verður tekist á um hvort Íslandi verði þröngvað inn í ESB-samstarfið eða ekki.
Guðni Th. Jóhannesson, sem er í framboði, hefur lýst því yfir að hann styðji inngöngu Íslands í Evrópusambandið.
Ekki er það uppörvandi að eiga von á því að forseti þjóðarinnar vilji að Íslendingar afsali sér sjálfstæði sínu og endurtaki atburðinn frá árinu 1262.
Samkvæmt heimatilbúinni skoðanakönnun fréttamanna sem notuð er í áróðursskyni til styrktar Guðna nýtur hann umtalsverðs fylgis þeirra 700-800 Íslendinga sem spurðir voru.
Þetta eru Íslendingar sem eru þekktir fyrir að vera sammála skoðunum fréttamanna á ýmsum þjóðmálum og þar á meðal inngöngu í ESB og afsal Íslendinga á sjálfstæði sínu.
Ekki er ljóst hvort Íslendingar geri sér ljóst hver hættan sé ef Evrópusinni (Guðni) verður húsbóndi á Bessastöðum. Þar með yrði enginn baráttumaður gegn mesta böli er vofir yfir hinni íslensku þjóð með inngöngu í hið svokallaða Evrópusamband.
Það hefur verið viðurkennt að mesta böl sem leitt hefur verið yfir Íslendinga frá því landið fékk sjálfstæði, eftir áratuga baráttu, er aðild að hinu svokallaða Schengen-samstarfi sem hefur orðið Íslendingum til meira tjóns en menn almennt gera sér grein fyrir.
Ef Guðni Th. Jóhannesson nær kosningu sem húsbóndi á Bessastöðum verður vinstri vitleysa Samfylkingarinnar um inngöngu í Efnahagsbandalagið ekki stöðvuð á sama hátt og landráðasamningur sem hlaut nafnið Icesave-samningur Samfylkingar og Vinstri grænna.
Það eru of fáir Íslendingar sem gera sér grein fyrir hvaða þrælaklafa þessar tvær fylkingar, Samfylkingin og Vinstri grænir, voru búnir að samþykkja að leggja á Íslendinga með samþykkt á Icesave-samningnum. Ef ekki hefði komið til sjálfstæður húsbóndi á Bessastöðum sem þorði að veita þjóðinni úrslitaorðið varðandi þennan þrælaklafa þessara tveggja flokka á Alþingi Íslendinga þá værum við í mjög erfiðum málum sem líkja má við versta tímabil Íslandssögunnar undir erlendri stjórn, þegar Íslendingar sultu heilu hungri og þurftu að éta maðkað mjöl.
Er dregið í efa að Guðni hafi kjark eða pólitískt þor til að veita þjóðinni síðasta orðið í mikilvægum málum sem mislukkaðir alþingismenn hafa samþykkt. Sem dæmi um kjarkleysi húsbónda á Bessastöðum er að þjóðin fékk ekki tækifæri til að tjá sig um hið fyrirhugaða böl sem Schengen-samstarfið hefur leitt yfir þjóðina.
Með áframhaldandi valdagræðgi þingmanna á Alþingi Íslendinga er þörf á að sá er þjónar á Bessastöðum hafi skilning, hugrekki og pólitískt þor til að láta meirihluta þjóðarinnar eiga síðasta orðið þegar kemur að því að innleiða þrælaklafa á þegna landsins eins og Schengen-samstarfið er og aðild að Efnahagsbandalaginu verður fyrir þjóðina.
Höfundur er fv. skipstjóri.