Reynir Eyjólfsson
Reynir Eyjólfsson
Eftir Reyni Eyjólfsson: "Þar til klínískar rannsóknir liggja fyrir er ekki hægt að halda öðru fram en að lúpínuseyðið sé ómerkilegt kuklarasull, jafnvel varasamt heilsu fólks."

Lúpínuseyði hefur verið fáanlegt hér á landi í mörg ár; framan af ókeypis frá framleiðanda en síðustu árin hefur það verið selt víða í verzlunum sem fæðuviðbót. Uppistaðan í vörunni er lúpínurætur auk fjögurra annarra jurta, sem rýmis vegna verða ekki gerðar að umtalsefni hér.

Framþróun á nýjum lyfjum er eitt erfiðasta og dýrasta verkefni sem hægt er að hugsa sér. Það tekur venjulega minnst hálfan annan áratug og kostar hundruð milljarða króna að koma nýju lyfi í gagnið. En höfundur lúpínuseyðisins fór aðra leið. Honum vitruðust nefnilega í draumi sálaður læknir og dauður indíáni, sem gáfu honum uppskriftina. Þessi nýlunda kom sem sagt að handan, kostaði ekkert og tók engan tíma þannig að strax var hægt að hefjast handa við framleiðsluna í eldhúsi höfundarins!

Alaskalúpína ( Lupinus nootkatensis ) er harðger og gróskumikil jurt sem skordýr, sníkjudýr, sveppir og fleiri afætur vinna lítt á vegna þess að hún inniheldur eitraða lýtinga (e. alkaloids) af kvínólízídín-flokki. Aðalefnið er spartein en um tveir tugir skyldra efna hafa fundizt í jurtinni og þau safnast m.a. saman í rótunum. Grasbítar sem éta plöntuna verða fyrir eitrunum, einkum lifrar- og nýrnaskemmdum. Kviðug (e. pregnant) dýr láta einatt fóstrunum og þau sem sleppa við það eignast oft vansköpuð afkvæmi. Ekki er vitað til þess að Alaskalúpína hafi verið notuð til alþýðulækninga erlendis; það eina sem er kunnugt í þá veru er að indíánakonur N-Ameríku notuðu hana til að framkalla fósturlát.

Spartein var eitt sinn notað við hjartsláttartruflunum en því hefur verið hætt fyrir löngu vegna eiturverkana. Þá hefur það örvandi áhrif á legið og getur framkallað hríðir, sbr. notkun jurtarinnar til að framkalla fósturlát. Rætt hefur verið um það hjá Íslenzka lífmassafélaginu að athuga hvort hægt væri að nota spartein unnið úr Alaskalúpínu sem „náttúrulegt“ skordýraeitur en ekkert orðið úr ennþá.

Eins og með ýmsar aðrar „náttúrulegar fæðuviðbætur“ þarf ekki að orðlengja að til hafa orðið óstaðfestar sögusagnir um lækningamátt seyðisins við margvíslegum sjúkdómum og kvillum, meira að segja krabbameini. Þetta varð til þess að fyrir allmörgum árum var gerð rannsókn á því við Háskólann í Chicago hvort seyðið hefði einhverja hemjandi virkni á vöxt 12 mismunandi krabbameinsfruma en ekkert slíkt kom í ljós. Ekkert hefur verið birt í vísindaritum um klínískar rannsóknir á Alaskalúpínu, hvorki við krabbameini né öðrum sjúkdómum. Menn geta sannreynt þetta bæði hjá www.webofknowledge.com og http://www.ncbi.nlm.nih.gov/pubmed.

Þar til klínískar rannsóknir liggja fyrir er ekki hægt að halda öðru fram vísindalega en að lúpínuseyðið sé aðeins lítt ígrundað kuklarasull, jafnvel varasamt fyrir heilsu fólks.

Höfundur er doktor í náttúruefnafræði með diplómu í jurtalækningum.

Höf.: Reyni Eyjólfsson