Sú lenska er harla íslensk að vísa gagnrýni á bug eða senda hana heim til föðurhúsa, eins og málvenja er. Þetta heyrum við í útvarpi og sjónvarpi eða lesum á prenti. Efnislegar rökræður um gagnrýni, rökstudd andsvör, eða að minnsta kosti viðurkenning á að eitthvað af henni geti átt við, eru sjaldgæf gæði í umræðunni. Í stað rökræðna er umræðan lömuð með þessu móti.
Greinar tveggja iðnmeistara í Morgunblaðinu undanfarið og gagnrýni þeirra m.a. á breytingar á iðnmenntun og ákvarðanir um fyrirkomulag bóklegs hluta og verklegs, hefur vakið athygli. Sama má segja um gagnrýni þeirra á stöðu iðna innan stærstu samtaka atvinnurekenda og á áætlanir um fækkun löggiltra iðngreina. Í greinunum er m.a. greint frá ýmsu sem þeir telja veikja fagmennsku, rýra iðnmenntun og letja ungt fólk til að afla sér öruggrar starfsmenntunnar. Ný svargrein frá formanni Samtaka iðnaðarins (28.5.) vegur í sama knérunn umræðu og margar aðrar rýrar greinar og viðtöl, í lítt árangursmiðaðri umræðu dagsins. Rökstudd andsvör eru þar fá, ef nokkur, en fullyrt að orð og viðhorf tvímenninganna séu úrelt.
Grafið undan fagmennsku?
Ég er leikmaður þegar kemur að iðnmenntun á Íslandi en ber hana samt fyrir brjósti, einkanlega af tveimur ástæðum. Ég er sprottinn úr fjölskyldu þar sem handverk, iðnverk, hönnun og listir koma mikið við sögu. Auk þess tel ég fagþekkingu, fagmennsku, faglega umræðu og þétt samspil þekkingar og reynslu ráða úrslitum um framtíðina í þessum efnum. Einmitt nú, þegar mikið er rætt um nauðsyn þess að auka áhuga ungs fólks á hvers kyns verkmenntun, iðnnámi, hönnun og listum. Einmitt nú, þegar margt bendir til þess að stytta eigi iðnnám án samráðs, hverfa frá löggildingu sumra iðngreina, aðskilja enn frekar handverk og hugverk, færa of mikið af verknámi af iðnnámsstigi yfir á háskólastig – eða með öðrum orðum: Búa til sérhæfðari vinnuaflshópa í iðngreinum með minni tilkostnaði en áður og færa þjálfun þeirra frá fólki með mikla fagþekkingu og raunverulega verkreynslu til fyrirtækja – og gera ólöggiltu starfsfólki kleift að vinna iðnverk sem það ber enga ábyrgð á vegna niðurfelldrar löggildingar á viðkomandi iðn. Full ástæða er til að iðnaðarmenn og skólafólk, jafnt sem atvinnurekendur og stjórnmálamenn, ræði saman af yfirvegun um framtíð iðn- og verkmenntunar. Fyrsta skref er að hætta að vísa gagnrýni á þennan síendurtekna, leiðinlega bug sem er gamaldags og úreltur. Það eru viðhorf reynslu og fagmennsku í iðnum hins vegar ekki. Alvöru umræða, ábyrgðafull afstaða löggjafans til iðna í landinu og öflug iðnmenntun er iðnfólki, fyrirtækjum og neytendum til góðs.
Höfundur er jarðvísindamaður og rithöfundur.