Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir
Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir
Eftir Guðfinnu Jóhönnu Guðmundsdóttur: "Þær lóðir sem verið er að byggja á eða til stendur að byggja á eru flestar í höndum fasteignafélaga á dýrustu stöðunum í borginni og hæpið að þar verði byggðar litlar og ódýrar íbúðir"

Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030 gengur út á þéttingu byggðar. Þrátt fyrir stefnu borgarinnar um þéttingu byggðar er varla hægt að segja að borgin hafi verið með til sölu lóðir á þéttingarreitum í borginni eftir hrun. Þær lóðir sem verið er að byggja á eða til stendur að byggja á eru flestar í höndum fasteignafélaga á dýrustu stöðunum í borginni og hæpið að þar verði byggðar litlar og ódýrar íbúðir en mikil þörf er á slíkum íbúðum. Það gengur of hægt að byggja til að mæta þeirri miklu eftirspurn sem er og slíkt leiðir af sér verðhækkanir. Ekki hjálpar síðan til lítið lóðaframboð borgarinnar og staðsetning húsnæðisins en þétting byggðar leiðir af sér hærra verð þar sem verið er að byggja á dýrustu stöðum borgarinnar, allt á kostnað unga fólksins sem hefur ekki ráð á því húsnæði sem er í boði.

Í aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 kemur fram að það þurfi að byggja um 700 íbúðir á ári. Í Reykjavík var byrjað að byggja 614 íbúðir á árinu 2013, 597 íbúðir á árinu 2014 og útgefin byggingarleyfi á árinu 2015 voru 926. Það tekur tíma að byggja eins og sjá má á vef Þjóðskrár Íslands en þar kemur fram að íbúðum í Reykjavík fjölgaði um sex á árinu 2011, 137 á árinu 2012, 229 á árinu 2013 og 398 á árinu 2014.

Einungis 10 fjölbýlishúsalóðum úthlutað á rúmlega fimm árum

Reykjavíkurborg hefur einungis úthlutað 10 fjölbýlishúsalóðum með fleiri en fimm íbúðum á rúmlega fimm ára tímabili. Aðgerðarleysið við lóðaúthlutanir og vanræksla við að fylgja húsnæðisstefnu borgarinnar frá 2011 hefur skapað mikinn vanda. Uppbyggingin gengur hægt og eftirspurnin er langt umfram framboð sem hefur í för með sér hærra húsnæðisverð. Þétting byggðar á lóðum sem eru í höndum annarra aðila leysir ekki húsnæðisvandann í Reykjavík enda er það ekki á allra færi að kaupa eða leigja íbúðir á dýrustu stöðunum í borginni.

Lóðaúthlutanir 2015

Á árinu 2015 úthlutaði borgin engri fjölbýlishúsalóð með fleiri en fimm íbúðum. Á síðasta ári úthlutaði borgin samtals 45 lóðum fyrir samtals 97 íbúðir, þ.e. 13 lóðum fyrir einbýlishús, 17 lóðum fyrir parhús, tveimur raðhúsalóðum fyrir þrjú hús á lóð, þremur raðhúsalóðum fyrir fjögur hús á lóð og fjórum raðhúsalóðum fyrir fimm hús á lóð. Þá var einni lóð úthlutað með fjórum íbúðum í blönduðu húsnæði. Auk þess sem á fimm lóðum, sem úthlutað var, eru samtals átta íbúðir, þ.e. fjögur sérbýli og eitt fjölbýli með fjórum íbúðum.

Af þeim 45 lóðum fyrir samtals 97 íbúðir sem borgin úthlutaði á síðasta ári voru einungis 15 íbúðir á lóðum annars staðar en í Úlfarsárdal eða Reynisvatnsási.

Einbýlishúsalóðir og ein parhúsalóð til sölu

Auk lóðanna tveggja í Vesturbugt fyrir svokölluð Reykjavíkurhús hefur borgin nú til sölu einbýlishúsalóðir í Úlfarsárdal og í Reynisvatnsási, auk einnar parhúsalóðar í Úlfarsárdal, sem sýnir að framboð borgarinnar á lóðum er mjög einsleitt og hefur svo verið um árabil. Þarf því að hafa hraðar hendur að úthluta allskonar lóðum fyrir fjölbreytt húsnæði víðsvegar um borgina ef það á að takast að leysa húsnæðisvandann í borginni í nánustu framtíð. Þó að til standi að borgin úthluti á þessu og næstu misserum lóðum fyrir 1.200 íbúðir þá eru þær nú þegar eyrnamerktar ákveðnum aðilum eða hópum og því ljóst að lítið framboð verður áfram á lóðum fyrir aðra en fáa útvalda í borginni og mun það gera ákveðnum hópum, t.d. ungu fólki, erfitt fyrir að eignast húsnæði í borginni.

Höfundur er borgarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina.

Höf.: Guðfinnu Jóhönnu Guðmundsdóttur