Vegna tíðra umfjallana um lækkun trjágróðurs í opinberum miðlum undanfarið vill Félag skrúðgarðyrkjumeistara koma eftirfarandi á framfæri:
Ekki er æskilegt að taka ofan af trjám meira en sem nemur ársvexti trésins. Hvort sem það er stofn trésins eða leiðandi greinar.
Þegar lengdin er farin að mælast í metrum frekar en sentimetrum er í flestum tilfellum verið að saga í eldri við frekar en ársvöxt og þau sár sem ganga þvert á stofn trjáa gróa ekki að fullu. Sár á trjám gróa ekki í eiginlegum skilningi heldur bregst tréð við klippingum með því að einangra sárin frá heilbrigðum við.
Þetta hefur veruleg áhrif á líftíma trjánna auk þess sem þetta getur leitt til þess að af þeim skapist hætta síðar meir. Innri hluti stofnsins, sem er nokkurs konar beinagrind trésins, fúnar þegar sár af þessu tagi stendur opið. Þegar stofnviðurinn fúnar missir hann styrkleikann og eingöngu skelin utan um stofnviðinn heldur trénu uppi. Þegar svo er komið þarf ekki mikil veður til að þessi tré falli með tilheyrandi slysa- og tjónahættu.
Ef garðeigendur eru með skuggamyndandi tré en hafa áhyggjur af skjóli þá er ráðlegra að byrja á því að planta runnum eða smærri trjám og fjarlægja svo háu trén þegar viðunandi skjól hefur myndast með lægri gróðri sem hentar betur.
Tré í borgum eru verðmæt og hafa áhrif á loftslag og loftgæði auk þess sem þau hýsa fjölbreytt dýralíf. Þau eru þannig almennt talin hafa jákvæð áhrif á heilbrigði manna í þéttbýli. Þar af leiðandi er mikilvægt að tryggja að sem flest tré nái háum aldri.
Kollun trjáa er alltaf slæm og telst ekki til samþykktra vinnubragða hjá fagfólki í garðyrkju. Þetta eru fornaldarvinnubrögð sem margar þjóðir hafa spornað við vegna fjölmargra dæma um alvarleg slys og tjón af öðru tagi. Á Íslandi hafa ekki verið mörg stór tré til þessa en það er hratt að breytast og þar með hættan að aukast þegar svona vinnubrögð eru viðhöfð.
Hugsum okkur um, aukum lífsgæðin og fyrir alla muni búum ekki til slysagildrur.
Höfundur er formaður Félags skrúðgarðyrkjumeistara.