Jónína Ósk Pétursdóttir fæddist á Kirkjubæ í Vestmannaeyjum 12. nóvember 1926. Hún lést á Landspítalanum í Fossvogi 24. maí 2016 eftir stutta sjúkdómslegu.
Foreldrar hennar voru Pétur Guðjónsson, f. 12. júlí 1902, d. 21. ágúst 1982, bóndi og sjómaður að Kirkjubæ í Vestmannaeyjum, og Guðrún Rannveig Guðjónsdóttir, f. 17. apríl 1905, d. 18. október 1938, frá Tóarseli í Breiðdal. Alsystkini Óskar eru: 1) Guðlaug, f. 1928, 2) Magnús, f. 1931, 3) Jóna Halldóra, f. 1933 og 4) Guðjón, f. 1935, d. 1985. Hálfsystkini samfeðra eru: 1) Guðrún Rannveig, f. 1939, d. 2015, 2) Árni, f. 1941, d. 1996, 3) Brynja, f. 1946 og 4) Herbjört, f. 1951, d. 1999.
Ósk gekk í hjónaband þann 1. janúar 1952 með Birni Stefáni Hólmsteinssyni, f. 21. janúar 1926 að Grjótnesi á Melrakkasléttu í Norður-Þingeyjarsýslu. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Grund þann 11. júlí 2006. Foreldrar hans voru Hólmsteinn Helgason, f. 5. maí 1893, d. 29. apríl 1988, fyrrverandi oddviti og útgerðarmaður á Raufarhöfn, og Jóhanna Björnsdóttir, f. 3. júlí 1901, d. 5. janúar 1994. Börn Björns og Óskar eru: 1) Jóhanna Björnsdóttir, f. 18. mars 1953, læknir. Hún lést af slysförum 30. desember 2006. Eiginmaður hennar var Ásbjörn Sigfússon, læknir, en hann lést af slysförum 8. september 2001. Þau eignuðust tvær dætur: Ástu og Huldu. 2) Pétur Björnsson, f. 11. ágúst 1955, framkvæmdastjóri. Kona hans er Margrét Þorvaldsdóttir kennari. Börn þeirra eru: Kristinn, Ósk, Sunna Guðrún og Bryndís. 3) Hólmsteinn Björnsson, f. 16. maí 1959, framkvæmdastjóri. Kona hans er Þorgerður Ása Tryggvadóttir leirlistarmaður. Synir þeirra eru: Björn, Haukur og Hjörvar. 4) Guðrún Rannveig Björnsdóttir, f. 16. maí 1959, verslunarmaður. Fyrrverandi maður hennar var Bergur Júlíusson sjómaður, d. 2013. Þeirra börn eru: Júlíus Pétur, Gyða Ósk og Helga. 5) Lilja Valgerður Björnsdóttir, f. 19. október 1960, skrifstofumaður. Eiginmaður hennar er Jón Ómar Finnsson húsasmíðameistari. Börn þeirra eru: Viðar, Anna og Unnur. 6) Birna Björnsdóttir, f. 31. október 1968, skólastjóri. Eiginmaður hennar er Ríkharður Reynisson skipstjóri. Þeirra börn eru: Brynjar Þór, Karítas, Dagný og Björn Grétar. Barnabarnabörnin eru fimm.
Ósk ólst upp í Vestmannaeyjum. Þegar hún var tæplega 12 ára gömul og elst fimm systkina lést móðir hennar. Hún fullorðnaðist því snemma og ekki varð mikið úr skólagöngu eftir það. Hún fór snemma að vinna í frystihúsi og fór síðar til Reykjavíkur og vann þar ýmis störf. Þar kynntist hún Birni Hólmsteinssyni. Þau giftu sig 1. janúar 1952 og fluttu til Raufarhafnar þar sem þau bjuggu í rúm 50 ár. Auk þess að ala upp hóp af börnum þá vann Ósk við síldarsöltun öll sumur allt fram til þess að síldin hvarf. Þá tók við vinna í frystihúsi staðarins og síðar meir í fiskvinnslu fjölskyldunnar allt fram til þess tíma er þau fluttu sig um set til Reykjavíkur vegna veikinda Björns.
Útför Óskar verður gerð frá Raufarhafnarkirkju í dag, 31. maí 2016, og hefst athöfnin klukkan 14.

Það eru trúlega ekki margir strengir sterkari en sá sem myndast á milli móður og barns og ekki síst á milli móður og sonar. Og þegar hann slitnar þrátt fyrir að aldurinn sé orðinn hár þá er missirinn sár engu að síður.
Mamma fæddist í Vestmannaeyjum og var alltaf mikill Vestmannaeyingur í sér. En örlögin höguðu því samt svo að hún kynntist pabba í Reykjavík og fluttist með honum norður undir heimsskautsbaug, nánar tiltekið til Raufarhafnar en lengra er ekki hægt að komast frá Eyjum. Og þar bjuggu þau í rúm 50 ár. En henni til huggunar þá flutti systir hennar sem er tveimur árum yngri til Þórshafnar og var alltaf mikill samgangur og kærleikur þar á milli.
Þegar mamma var tæplega 12 ára gömul veiktist móðir hennar af lungnabólgu og dó. Mamma var elst fimm systkina og það er rétt hægt að ímynda sér þá stöðu. Þá var ekki mikill tími aflögu til þess að fullorðnast og öll frekari skólaganga úr sögunni. Það þurfti að sinna heimilinu og síðan að vinna og afla tekna.
Hún fór síðar til Reykjavíkur og sinnti þar ýmsum störfum. Þar lágu leiðir hennar og pabba saman. Þau opinbera trúlofun sína og fara í heimsókn norður í Grjótnes á Melrakkasléttu þar sem verðandi tengdamóðir hélt heimili fyrir bræður sína. Pabbi tók eftir því að móðir hans bjó um þau í sitthvoru herberginu og gerði athugasemdir við slíkt en þeirri gömlu varð ekki haggað. Þetta voru fyrstu kynni mömmu af tengdamóður sinni en þeirra samskipti urðu bæði mikil og góð þrátt fyrir þessa byrjun.
Foreldrar mínir giftu sig á nýársdag 1952 og flytja norður á Raufarhöfn þar sem þau bjuggu næstu 50 árin. Þau byrjuðu sinn búskap í húsi sem kennt var við Helga Kristjánsson en réðust fljótlega í byggingu á einbýlishúsi sem fékk nafnið Setberg og bjuggu þar allt til vors 2002 þegar þau fluttu til Reykjavíkur vegna veikinda pabba. Í Setbergi ólu þau upp barnahópinn sinn, tvo syni og fjórar dætur. Þau eignuðust þrjú þeirra á rúmu ári þannig að ekki hefur svefntíminn hennar mömmu verið mikill þau árin.
Mörg fyrstu árin í Setbergi bjuggu tengdaforeldrar hennar og mágur á efri hæðinni. Við systkinin sem vorum fimm á þeim tíma, urðum að láta okkur duga innri stofuna en þar smíðaði Guðmundur ömmubróðir okkar kojur fyrir fjóra og Jóhanna systir fékk dívan til umráða. Og á lóðinni var afi með tvær til þrjár kýr, mamma var með hænsni og nokkur hundruð metra uppi á Ásnum var pabbi með 30-40 kindur. Hans aðalstarf var samt útgerð og sjómennska þannig að í mörgu var að snúast og ekki síst hjá húsmóðurinni.
Mamma var hörkudugleg og svo var hún afar hagsýn og nýtin enda veitti ekki af slíku með marga munna að fæða og klæða. Það var heimaslátrun, sláturgerð, soðið niður kjöt, saltað kjöt í tunnu og svo endalaust bakað. Það var alltaf heimabakað brauð og kökur í Setbergi í öllum kaffitímum. Og svo saumaði hún á okkur föt og prjónaði. Á síldarárunum saltaði hún síld af miklum móð og voru ekki margar síldarstúlkurnar sem skiluðu inn fleiri merkjum en hún. Það er reyndar með ólíkindum hverju hún áorkaði. Þegar síldin hvarf tók við vinna í frystihúsinu og síðar meir í fiskvinnslu fjölskyldunnar þar sem margir afkomendur hennar fengu sumarvinnu. Og þá var eins gott að standa sig.

Tryggð og trúmennska var ríkur þáttur í fari mömmu. Hún var mjög dugleg að heimsækja sitt fólk og þegar frændur hennar úr Eyjum lönduðu síld og síðar loðnu á Raufarhöfn þá voru þeir aufúsugestir í Setbergi og sóttir niður í bát ef svo bar undir. Eftir að hún flutti suður þá var hún mjög dugleg að heimsækja vini og ættingja og sérstaklega þá sem áttu um sárt að binda sökum heilsubrests.
Pabbi byrjar að veikjast á seinni hluta tíunda áratugar síðustu aldar. Mamma sinnti honum af mikilli alúð allt til þess tíma að lengra varð ekki haldið. Þá fluttu þau til Reykjavíkur þar sem pabbi fékk fljótlega inni á Grund. Þangað heimsótti mamma hann nánast á hverjum einasta degi í þau tæplega fjögur ár sem hann átti ólifuð.
Mamma var mikil gæfumanneskja í sínu lífi. Foreldrar mínir voru hamingjusöm, þau voru býsna ólík en áttu vel saman og eignuðust stóran hóp af mannvænlegum afkomendum. Þau voru enda oftast nefnd saman þegar um var rætt. Hún notaði hvorki tóbak né áfengi og var mikið á móti slíku kannski vegna þess að faðir hennar var stórreykingamaður og þótti sopinn góður. Síðustu árin þáði hún þó glas af Bailey's þegar hún kom að snæða hjá okkur börnunum. En lífið var henni ekki áfallalaust. Áður hefur móðurmissisins verið getið. Haustið 2001 dó Ásbjörn tengdasonur hennar af slysförum. Pabbi deyr svo í júlí 2006 en í árslok sama ár deyr Jóhanna frumburðurinn hennar einnig af slysförum og þá var mömmu allri lokið og átti bágt með að skilja þessa röðun hjá almættinu. En hún bugaðist ekki og bjó áfram í sinni íbúð allt til þess dags 4. maí þegar hún fékk mikla heilablæðingu og átti ekki afturkvæmt til nokkurrar heilsu.
Eftir sitjum við afkomendur, tengdabörn, ættingjar og vinir með ótal minningar um einstaka konu sem alltaf var tilbúin til þess að fórna sér fyrir aðra.
Ég kveð móður mína með endalausu þakklæti fyrir allt sem hún var mér og mínum og óska henni góðrar ferðar til þess heims sem hún var sannfærð um að biði hennar að lokinni þessari jarðvist.
Guð geymi þig elsku mamma mín.
Þinn

Pétur.

Ég hitti Ósk fyrst síðsumars 1973 þegar ég kom í nokkuð óvænta heimsókn til Raufarhafnar með Pétri syni hennar og Björns. Móttökurnar voru góðar þrátt fyrir að drengurinn birtist fyrirvaralaust með nýja kærustu upp á arminn sem enginn vissi af. Sumarið 1976 hófum við Pétur okkar fyrsta búskap á Raufarhöfn og bjuggum við í sömu götu og tengdaforeldrar mínir. Stutt var á milli húsa og fyrirkomulagið var þannig að Birna yngsta systir Péturs gisti hjá okkur og Ósk kom svo á morgnana og sótti Kristin son okkar þegar ég var farin til vinnu í skólanum og gætti hans á daginn. Pétur var þá á togaranum Rauðanúpi. Oft var setið við eldhúsgluggann og fylgst með umferð þorpsbúa sem áttu leið um Ásgötuna. Þar fékk ég nákvæmar útlistingar á því hverra manna viðkomandi væru og ekki var laust við að stelpan undraðist flókin fjölskyldutengslin í þessu litla samfélagi, enda ættuð úr stórborginni Akureyri þar sem menn voru ekki endilega að velta sér mikið upp úr slíku. Á þessum fyrstu Raufarhafnarárum fannst mér fólk vera sívinnandi og Ósk var þar engin undantekning, fyrst í frystihúsinu þar sem endalaust var verið að bjarga verðmætum eins og hún orðaði það og svo í fiskverkun þeirra hjóna. Vinnan göfgar manninn tilheyrði tíðarandanum og leti og slór áttu ekki upp á pallborðið. Auk þess að sinna vinnu við sjómennsku og vinnslu í landi sinntu Ósk og Bjössi bústörfum, hún með hænur í bakgarðinum og hann með kindur uppi á Ási.Gestkvæmt var á heimilinu í Setbergi, barnahópurinn stór og einatt áttu einstæðingar athvarf hjá þeim. Það var gaman að koma í búrið í kjallaranum, þar sem hillur svignuðu undan heimaunnum kræsingum s.s. niðursoðnu kjöti, rabarbara- og berjasultum og heimabakkelsi. Í þá daga varð einhvern veginn svo miklu meira úr tímanum.
Eftir fjögurra ára búsetu í Reykjavík fluttum við Pétur til Englands árið 1981. Skólafríum barnanna var varið á Íslandi og þá var tímanum skipt á milli heimahaganna á Akureyri og Raufarhöfn. Þá fengu krakkarnir að spreyta sig í vinnu í saltfiskverkuninni og fengu góða leiðsögn hjá ömmu og afa. Þegar þarna var komið var aðeins farið að hægjast um hjá þeim hjónum og þau farin að taka sér frí af og til. Þá var farið í sólarlandaferðir og komið í heimsókn til Englands. Þegar heilsu Björns fór að hraka fluttust þau á Grandaveginn í Reykjavík. Dvöl hans þar varð þó ekki löng en hann lést á Dvalarheimilinu Grund í júlí 2006, en Ósk bjó þar til æviloka. Það var gaman að fylgjast með því hversu mikla ánægju Ósk hafði af því að klæðast fínum fötum og setja á sig skart nú síðustu árin en þann munað hafði hún sjaldan veitt sér í amstri dagsins. Það var okkur stelpunum í fjölskyldunni sérstök ánægja að versla á hana alls kyns föt og fínerí í ferðum okkar utanlands. Hún kunni alltaf vel að meta það og var ætíð vel til höfð á mannamótum eða bara þegar hún kom í sunnudagssteikina hjá okkur krökkunum. Ósk var stálminnug og fylgdist vel með stórum afkomendahópi þrátt fyrir að fólk væri endalaust á ferð og flugi um heiminn. Hún var ættfróð og hafði gaman að því að tengja saman ættir samborgaranna. Hún var einstaklega félagslynd og átti góða vini á Grandaveginum sem hún heimsótti reglulega. Við þá sem bjuggu fjær ræddi hún í síma. Ósk átti myndarlegt heimili á Grandaveginum en var farin að huga að því að senn þyrfti hún á meiri umönnun að halda. Aðgerðir í þá átt voru að fara í gang þegar hún veiktist skyndilega og átti hún ekki afturkvæmt af sjúkrahúsi.
Að leiðarlokum er mér efst í huga þakklæti til elskulegrar tengdamóður sem ávallt bar hag sinna nánustu fyrir brjósti. Hvíl í friði elsku Ósk.

Margrét Þorvaldsdóttir.