Nýlega las ég texta eftir Unnstein Manuel, tónlistar- og sjónvarpsmann, með yfirskriftinni „Mér líður illa“. Mér leið sérlega vel áður en ég las grein Unnsteins, enda nýkominn úr bílferð með henni mömmu minni. Við borðuðum í Olísskálanum í Borgarnesi þann besta plokkfisk sem ég hef nokkru sinni bragðað. Ekki spillti fyrir að þjónusta starfsfólksins var óaðfinnanleg og maturinn ódýrari en hamborgari í flestum vegasjoppum. Verst þótti mér að gleyma að spyrja frá hvaða heimshorni uppskriftin væri, en það geri ég næst þegar ég á leið um Borgarnes. Það var ekki síðra kaffið sem við drukkum í heimleiðinni á veitingahúsinu Hraunsnefi, skammt ofan Bifrastar, með útsýni yfir Norðurána, sem innan fárra daga fer að iða af laxi.
En aftur að efninu. Í niðurlagi greinar sinnar segir Unnsteinn að hann þurfi að gæta þess að viðra ekki of mikið sínar pólitísku skoðanir, annars reki „ákveðnir framsóknarmenn“ útvarpsstjóra. Nú veit ég ekki við hvaða framsóknarmenn Unnsteinn hefur rætt hlutskipti flóttamanna, sem hugleiðing hans fjallar um. Né heldur hvaða framsóknarmenn hann telur hafa vald til að reka útvarpsstjóra.
Hins vegar held ég að þarna hafi Unnsteinn dottið í þá gildru að nota elsta bragðið úr elstu bókinni, sem er að gera hóp fólks tortryggilegan, í þessu tilviki framsóknarmenn. Væntanlega til að undirstrika ágæti eigin útgáfu af sannleikanum, líkt og höfundur bókarinnar um Jesú gerði við tollheimtumennina.
Þó að ég hafi ekki flokksskírteini í Framsóknarflokknum, eða öðrum flokkum ef út í það er farið, þekki ég nokkra framsóknarmenn og það er mín reynsla að þeir séu ekki verri eða betri en fólk úr öðrum flokkum. Þó að ég þekki morðingja og fleiri ógæfumenn persónulega gefur það mér ekki rétt til að kalla fjölskyldur þeirra glæpagengi. Sama ætti að gilda um Unnstein; þó að hann kunni að hafa óbeit á einstaklingum í Framsóknarflokknum má hann ekki gefa sér að þar á bæ séu allir rasistar. Sérlega ekki ef hann ætlar að fjalla um mál sem þessi sem fagmaður í fjölmiðlum.
Í greininni mælir Unnsteinn öðru hvoru fyrir munn ímyndaðs rasista sem eys úr brunni mannfyrirlitningar og ógeðs í garð annarra en hvítra Evrópubúa. Ef Unnsteinn er þarna að setja sig í stellingar sinnar eigin staðalmyndar af framsóknarmanni þarf hann sannarlega að vinna í fordómum sjálfs sín gagnvart þúsundum samlanda sinna.
Höfundur er kennari.