Sigurður Sigurðarson
Sigurður Sigurðarson
Eftir Sigurð Sigurðarson: "Enn er ekki vitað af hverju Guðni spurði. Var það út af því að Davíð var ókurteis, ruddalegur, vondur eða ósanngjarn?"

Kurteis og prúður forsetaframbjóðandi spyr mótframbjóðanda sinn æsingslaust einfaldra spurninga en fær yfir sig holskeflu svívirðinga í fjölmiðlum. Hann er sagður óalandi og óferjandi, margir ráða sér ekki á samfélagsvefjum og kalla hann dóna, og mótframbjóðandinn sem átti ekki til svar við spurningunum spyr í nauðvörn sinni: Hefurðu enga sómakennd, Davíð?

Vissulega er þetta eftirminnileg spurning, en hvað var það eiginlega sem setti fésbókina á hliðina, breytti nokkrum borgurum í „ virka í athugasemdum “, og þeir sem eru vanir að tjá sig í örstuttum svívirðingum á vefnum urðu sem talibanar í réttarhaldi þar sem þeir semja jafnóðum lögin og fella svo hinn endanlega dóm með sverði?

Þetta sagði Davíð Oddsson og getur nú hver og einn metið hversu hræðileg þessi orð eru:

1. Guðni hefur nýja sýn á embættið, en segir ekkert um það hvaða sýn það er.

2. Almenningur veit ekkert um Guðna og fyrir hvað hann stendur.

3. Það sem vitað er um skoðanir Guðna hefur hann verið að hlaupa frá.

4. Síðasta ríkisstjórn vildi ganga inn í Evrópusambandið ... eins og Guðni.

5. Ríkisstjórnin vildi greiða Svavars-samningana ... eins og Guðni.

6. Guðni rökstuddi afstöðu sína með Icesave-samningunum nákvæmlega eins og Jóhanna og Steingrímur.

7. „Varstu virkilega að mæla með að við gerðum samning um Icesave sem við ætluðum svo ekki að standa við?“

8. Ríkisstjórnin vildi gera atlögu að stjórnarskránni ... eins og Guðni.

9. Guðni sagði: „ Gera þarf gagngera og róttæka endurskoðun á stjórnarskránni vegna hrunsins.

Hverju svaraði svo forsetaframbjóðandinn? Jú, með almennum orðum nema að honum þótti þetta með Icesave-samningana ósanngjarnt og orð sín væru slitin úr samhengi. Hefurðu enga sómakennd, Davíð? spurði loks Guðni Th. Jóhannesson. Hann hafði ekki annað að segja og svo var ekki meira um sómann rætt.

Enn er ekki vitað af hverju Guðni spurði. Var það út af því að Davíð var ókurteis, ruddalegur, vondur eða ósanngjarn? Nei, en ýmislegt bendir til þess að mótframbjóðandinn hafi ekki búist við því að þurfa að svara fyrir fyrri orð.

Þessi níu atriði eru þess eðlis að frambjóðandi þarf að geta svarað þeim og svörin gefa meðal annars til kynna hvort hann sé traustsins verður. Forsetaframbjóðanda á ekki að leyfast að hlaupa frá fyrri yfirlýsingum og skoðunum bara af því að hann er í framboði.

Lengi hefur það verið svo að allir hafa leyft sér að berja á Davíð, ausa yfir hann svívirðingum, saka hann um að þiggja mútur, ganga erinda auðmanna og svo framvegis. Enginn spyr það lið um sómakennd.

Allir sem vilja vita gera sér hins vegar grein fyrir því að þótt Davíð sé harður í horn að taka er hann heiðarlegur og vill landi sínu hið allra besta. Í því efni kann hann til verka. Hann er maðurinn sem sagði að Íslendingar ættu ekki að greiða skuldir óreiðumanna. Þjóðin fylgdi því ráði.

Þetta er ástæðan fyrir því að ég treysti Davíð Oddssyni betur en öllum öðrum til að sinna embætti forseta Íslands á fumlausan og virðulegan hátt.

Höfundur er sjálfstætt starfandi.