Yfir hundrað og fimmtíu sérfræðingar frá 30 löndum og úr mismunandi fræðigreinum, t.d. læknisfræði, lýðheilsu, lögfræði og siðfræði, frá stofnunum svo sem Yale, Harvard, Columbia, Oxford, Uppsölum og jafnvel Brasilíu, hafa skrifað Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) og hvatt til þess að Ólympíuleikunum verði seinkað eða þeir fluttir annað. Ástæðan er zika-faraldurinn í Ríó. Áhyggjur þeirra eru aðallega um frekari útbreiðslu til landa með skerta heilbrigðisþjónustu. Zika-veiran, sem nýlega hefur komið fram á sjónarsviðið, hefur fundist í um 60 löndum en hvað mest og þéttast í Ríó. Veiran er almennt meinlítil við smit á fólki en staðfest er að hún valdi fósturskaða við þungun sem leiðir til dvergheila (microcephaly). Nokkur tilfelli sjaldgæfs taugasjúkdóms hafa verið rakin til hennar.
Mót hafa verið flutt til vegna smitsjúkdómafaraldra en það má vera tæknilega erfitt að seinka eða flytja Ólympíuleikana. Bréfritarar eiga þó þakkir skildar fyrir að opna umræðuna.
Eftir áratuga starf í íþróttahreyfingunni við skipulag, stjórnun, læknisumönnun og dómgæslu á mótum innanlands og ekki síður utanlands tel ég mér siðferðilega skylt að leggja orð í belg.
Það er alltaf einhver hætta við ferðalög og samþjöppun hópa, t.d. veirusýkingar í öndunar- eða meltingarfærum eða svokölluð matareitrun vegna baktería. Þekktastar eru noro-sýkingar, t.d. á skemmtiferðaskipum, sem hafa tímabundið lagt alla að velli. Við matareitrun hér á landi á áttunda áratugnum þurfti að leggja 47 manns á sjúkrahús. Meginóttinn hingað til varðandi íþróttamót hefur hins vegar verið við heilahimnubólgusýkingar og mót verið flutt til þess vegna.
Keppni á Ólympíuleikum er æðsta takmark íþróttamanna og mikið ævintýri og þarf mikið til að hafna slíku. Auk fyrrnefndra áhættuþátta er nú sérstök áhætta við ferðalög til Brasilíu og verður ekki vikið frá með einföldum yfirlýsingum einstaklinga eða stofnanna. Það er mikið ábyrgðarleysi að gera íþróttafólki og aðstoðarliði ekki ítarlega grein fyrir henni og hvað hægt sé að gera til varnar.
Afstaða WHO er mótsagnakennd; stofnunin hefur skilgreint zika-faraldurinn sem „Global Health Emergency“, sem lauslega mætti þýða sem alheimsneyðarástand, en tekur ekki undir breytingar á tímasetningu. Bréfritarar ásaka WHO um hagsmunaárekstra.
Stofnunin Center for Disease Control (CDC) í Bandaríkjunum, sem þýða mætti lauslega sem miðstöð eftirlits með sjúkdómum, fylgist hvað best með útbreiðslu smitsjúkdóma. Stofnunin er virk vísindastofnun og þar er hvað mest sérfræðiþekking á smitsjúkdómum. CDC hefur ekki tekið undir breytingar á tímasetningu en mjög ákveðið lagt til að þungaðar konur fari ekki til sýktra svæða. CDC hefur einnig lagt til að sé þungun fyrirhuguð eða möguleg leiti konan ráðgjafar. Meginsmitun verður við stungu moskítóflugu en veiran getur einnig lifað nokkurn tíma í sæði karlmanns og smitun getur orðið þannig.
Talsverðar upplýsingar má finna á vefsíðu CDC en mikil áhersla er á lögð á hversu margt er enn óljóst um veiruna.
Ég vona að Ólympíusambandið geri íþróttafólki fulla grein fyrir áhættu og mögulegum vörnum og óska því góðs gengis.
Höfundur er sérfræðingur í lyflækningum, MACP, FRCP, AGAF, frv. aðstoðarprófessor við Yale School of Medicine. Hann var 12 ár í Læknanefnd Alþjóðafrjálsíþróttasambandsins (IAAF) og jafnframt alþjóðadómari og skrifaði m.a. bókarkafla um smitsjúkdóma í íþróttum.