Eftir nokkra daga rennur stundin upp. Íslenska karlalandsliðið í fótbolta tekur þátt í stærsta íþróttaviðburði í sögu okkar. Eins og aðrir landsmenn erum við starfsfólk Símans full stolts yfir frammistöðu okkar manna, en við finnum líka til sérstakrar ábyrgðar. Ástæðan er sú að við erum nú svo lánsöm að hafa fyrir tveimur árum haft svo mikla trú á landsliðinu okkar, að við buðum veglega í sjónvarpssýningarrétt þessa magnaða móts. Það hafa ekki allir áhuga á fótbolta. Hver og einn Íslendingur finnur hins vegar fyrir hinum sameiginlega hjartslætti, sem magnast nú þegar nær dregur hinni þrjátíu daga þjóðhátíð. Við ákváðum því að fá ekki einungis gallharðar áhugamanneskjur um fótbolta til að skila stemningunni heim í stofu. Í teyminu eru líka lífskúnstnerar sem varpa ljósi á aðra þætti þessarar risavöxnu mannlífstilraunar.
Það er ekki ókeypis að skapa gott sjónvarp. Hér þurfti að kaupa dýrt efni, framleiða veglega umgjörð og dreifa um fjölda kerfa til fólks, hvort sem það er statt í þéttbýli, úti á landi eða jafnvel úti á sjó þegar leikirnir fara fram. Við stillum mjög í hóf áskriftarverði að öllu mótinu enda er hugsun okkar sú að allir eigi að njóta. Það kostar meira að fara í eitt skipti á söngleik, eins gaman og það getur verið, en fá aðgang að þessari upplifunarveislu í heild sinni, hundruðum klukkustunda. Grundvallaratriði var í okkar huga frá upphafi, að íslensku leikirnir yrðu í opinni dagskrá og aðgengilegir sem allra víðast. Sjónvarp Símans (sem áður hét SkjárEinn) er frístöð sem fjármagnar sig með auglýsingum og stendur öllum dreifikerfum til boða án endurgjalds, eina sem þarf er áhugi og vilji til að þjóna viðskiptavinum. Frístöðin næst í gegnum örbylgju og á myndlyklum allra fjarskiptafyrirtækja – einnig í gegnum vefinn og sjónvarpsöpp. Síminn kynnir einmitt á næstu dögum nýtt fríapp þar sem horfa má á stöðina.
Morguninn eftir að tilkynnt var um nafnbreytingu stöðvarinnar var lokað fyrir útsendingar Sjónvarps Símans á svokölluðu UHF-kerfi. Það nær til þeirra fáu prósenta heimila og bústaða á Íslandi, sem hvorki hafa aðgang að öðrum sjónvarpsdreifikerfum né internet-tengingu um þráð eða loft. Aðgangsgjaldið sem farið var fram á til að komast aftur inn á kerfið var samningur um dreifingu í lágmarksgæðum fyrir tugi milljóna króna. Eins og gefur að skilja getur frístöð ekki borið slíkan aukakostnað fyrir síðustu prósentin í áhorfi, ofan á allar aðrar dreifileiðir og annað sem kosta þarf til. Við vorum því afar þakklát þegar Ríkisútvarpið bauðst til að sýna íslensku leikina á sinni stöð og sýndi þar fullkominn skilning á að á svona stundum eru það hagsmunir viðskiptavina sem eru mikilvægastir. Allt er gott sem endar vel. Nú er gulltryggt að enginn þurfi að verða útundan og að við förum öll á EM2016 með Símanum.
Höfundur er forstjóri Símans.