Skúli Jóhannsson
Skúli Jóhannsson
Eftir Skúla Jóhannsson: "Landsnet hefur ríghaldið í þann flottræfilshátt sem gegnsýrði áætlanir um uppbyggingu flutningskerfisins á árunum fyrir hrun 2008."

Í Morgunblaðsgrein 27. maí 2016 „Ekki er deilt um þörfina fyrir Suðurnesjalínu 2“ skrifar Sverrir Jan Norðfjörð, framkvæmdastjóri þróunar- og tæknisviðs Landsnets, athugasemdir við grein mína „Suðurnesjalínur og eignarnám“, sem birtist í Morgunblaðinu tveimur dögum fyrr.

Áður hafa komið fram skoðanir mínar á málinu og gæti ég nefnt óbirta skýrslu frá 2010 sem send var ýmsum aðilum innan orkugeirans á árunum 2010–2013 og ennfremur grein í Morgunblaðinu 1. apríl 2014: „Kári Jónasson, Valdimar K. Jónsson, Skúli Jóhannsson: Hvers vegna ekki sæstreng frá Straumsvík til Helguvíkur?“ Þess vegna er ég ekki sammála fyrirsögn greinar Sverris. Ekki hef ég fyrr fengið viðbrögð frá aðilum málsins við þessum skrifum mínum þannig að svar Sverris núna við síðustu grein minni kemur þægilega á óvart.

Orkubókhald

Þrátt fyrir aðgang sérfræðinga Landsnets að umfangsmiklum gagnagrunnum um raforkukerfi og -markað og tölvuforrit af fullkomnustu gerð sem reikna út rafmagnsflæði, skammhlaup og hvað eina, þá er gott að geta gripið til einfaldra útreikninga til að „baktékka“ niðurstöður. En eitthvað er að, ef aðrir hafa ekki möguleika á að mynda sér skoðun vegna þess að þeir hafa ekki aðgang að sömu rándýru verkfærum og starfsmenn og sérfræðingar Landsnets. Þetta eru því miður starfsaðferðirnar í dag og jafnframt eru utanaðkomandi aðilar beðnir um að vera ekki að skipta sér af þessu verklagi. Menn eiga bara að taka við því sem að þeim er rétt.

Í orkubókhaldi í grein minni 25. maí gerði ég ráð fyrir 175 MW í orkuframleiðslu á Suðurnesjum og 140 MW raforkunotkun á svæðinu og stóriðjan einungis samningur Landsvirkjunar við Thorsil um raforkusölu upp á 55 MW.

Svona eftir á að hyggja hefði verið betra að bæta við samningi HS-Orku til Thorsil upp á 32 MW og samningi Landsvirkjunar við United Silicon upp á 35 MW. Með því verður raforkumarkaðurinn á Suðurnesjum 172 MW, eða nánast jafnstór og framleiðslugetan 175 MW. Suðurnesjalína 1 verður nánast flutningslaus.

Þörf á Suðurnesjalínu 2

Þarna er kjörstaða komin upp, því Landsnet fær afnot af línu með 150 MW flutningsgetu til að halda uppi „lágmarksöryggi og sveigjanleika“ og til að geta mætt „sveiflum í framleiðslu og orkunotkun sem eiga sér stað bæði innan dags, milli daga og árstíða. Þá þarf líka að taka tillit til bilana og truflana sem geta valdið straumleysi.“ Ég held að Suðurnesjalína 1 gæti verið full góð til þess arna, a.m.k. þar til notkun hefur aukist á svæðinu með enn frekari stóriðju í Helguvík og/eða með mikilli aukningu á almennri notkun t.d. í tengslum við flugvöllinn og með fjölgun gagnavera. En það er seinni tíma aðgerð. Landsnet hefur ríghaldið í þann flottræfilshátt sem gegnsýrði áætlanir um uppbyggingu flutningskerfisins á árunum fyrir hrun 2008, en eiga ekki við í dag. Þá var lítið vitað um líklega framvindu í raforkuframleiðslu og -markaði á svæðinu, en nú vitum við miklu meira.

Sverrir segir í grein sinni að það sé „ekki ásættanlegt að mati Landsnets að tengja Reykjanesið einungis á 132 kV spennustigi við meginflutningskerfið, enda er flutningsgeta Suðurnesjalínu 1 þegar fullnýtt“. Þessi fullnýting er miðuð við núverandi stöðu, en með uppbyggingu á stóriðju í Helguvík minnkar álagið á Suðurnesjalínu 1 þannig að staðhæfing Sverris um fullnýtingu á ekki við í þessu tilviki. Þarna eru hin miklu reiknilíkön Landsnets að bera starfsmanninn ofurliði og hann sér ekki skóginn fyrir trjánum. Það væri gott fyrir hann að grípa til einfalds orkubókhalds til að fá yfirlit og styðjast við almenna skynsemi í sínu mati.

Sæstrengur

Sverrir kemur aðeins inn á þann möguleika að sæstrengur „milli Straumsvíkur og til Helguvíkur geti komið í stað nýrrar háspennulínu á Reykjanesi“ og segir það ekki vera á dagskrá. Þannig eiga menn að kokgleypa þessa staðhæfingu án þess að birtar séu neinar upplýsingar sem styðja það mat, hvorki framkvæmda- né kostnaðaráætlun. Aðeins er sagt „að sæstrengur er ennþá kostnaðarsamari en jarðstrengur og auk þess er viðgerðartími á slíkum streng mjög langur, sem krefst sérhæfðs skips. Því hefur sá kostur ekki verið talinn raunhæfur“.

Þessi staðhæfing hlýtur þá einnig að eiga við um Icelink-sæstrenginn til Bretlands, 1.000 km að lengd, og fer mest niður á 1.200 metra dýpi. Í liðlega sex ár hafa Landsvirkjun og síðar einnig Landsnet haldið uppi stöðugum áróðri um að leggja þann sæstreng. Er Icelink þá talinn óraunhæfur að mati framkvæmdastjóra þróunar og tæknisviðs Landsnets?

Kostnaðaráætlanir

Það er einhver lenska hjá orkufyrirtækjum í almannaeigu, Landsneti og einnig hjá Landsvirkjun, að birta ekki kostnaðaráætlanir. Má þar nefna t.d. Sprengisandslínu (Landsnet), Suðurnesjalínur (Landsnet) og Icelink-sæstreng frá Íslandi til Bretlands (Landsvirkjun). Það er ekki hægt og reyndar óábyrgt að taka afstöðu til framkvæmda án kostnaðaráætlunar.

Höfundur er verkfræðingur.

Höf.: Skúla Jóhannsson