Nýverið sótti ég heimsráðstefnu Sameinuðu biblíufélaganna í Bandaríkjunum. Í leiðinni fór ég á safn sem er búgarður, þar sem þrælar bjuggu fyrir um tvö hundruð árum. Þar var stórt hús sem fjölskyldan bjó í og svo minni hús þar sem þrælarnir afrísku bjuggu. Áhugavert var að koma á slíkan búgarð og heyra söguna, ganga um og sjá í huganum fólkið sem þar bjó og starfaði. Hugsa til þess að fólk hafi verið numið brott frá heimilum sínum, flutt nauðugt til annarrar heimsálfu og þvingað til að vinna erfiðisvinnu til að efla hag og ríkidæmi eigenda sinna. Þetta er hluti af sögu mannkyns, nokkuð sem var en ekki er í hugum flestra í okkar heimshluta.
Þegar ég kom heim lá blaðabunki við útidyrnar. Á forsíðu eins blaðsins blöstu við fyrirsagnirnar: „Átti mig eins og þræl“ og „Flúði vinnumansal en framseldur til baka“. Þegar þessu blaði og öðrum var flett mátti sjá fleiri fréttir af fólki sem hafði verið sent úr landi, ekki til heimalandsins, heldur til þess lands sem það kom frá hingað til lands. Fólki sem hafði dvalist hér á landi svo að mánuðum skipti, jafnvel árum. Einn þeirra sem sendur var nauðugur úr landi ákallaði Jesúm er hann var snúinn niður í Leifsstöð. Slíkar fréttir vekja spurningar.
Viljum við tilheyra samfélagi sem sýnir ekki elsku í verki? Sem auðsýnir ekki mannúð? Sem fer ekki eftir þeim kristna boðskap að elska náungann eins og okkur sjálf? Okkur varðar nefnilega um náunga okkar.
Þjóðkirkjan hefur í sinni þjónustu prest innflytjenda. Hann hefur undanfarin ár unnið mikið með hælisleitendum. Margir þeirra eru ekki kristinnar trúar. Kirkjan sinnir þeim að sjálfsögðu líka, því að hún hefur orð Jesú um elsku til Guðs, náungans og okkar sjálfra að leiðarljósi. Hún er biðjandi, boðandi og þjónandi.
Þjóðkirkjuprestur innflytjenda og fleiri prestar á höfuðborgarsvæðinu hafa staðið fyrir reglulegum helgistundum á ensku. Sífellt fjölgar í þeim hópi sem þær sækja og þiggja þjónustu kirkjunnar, fræðslu og umhyggju.
Hælisleitendur gefa líka því þeir taka þátt og hjálpa til við ýmis verk sem sinna þarf. Sumir þeirra hafa verið sendir úr landi en fólk sem tekur kristna trú er víða óvelkomið aftur til heimalandsins. Talið er að 11 kristnir einstaklingar séu teknir af lífi á hverri klukkustund í heiminum vegna trúar sinnar. Það er skylda Íslendinga að sýna þann kærleik og þá gestrisni sem kristin trú boðar.
Í fyrirlestri, sem fluttur var á áðurnefndri ráðstefnu, kom fram að frá upphafi kristni hafa um 75 milljónir kristinna verið drepnar vegna trúar sinnar, þar af um 45 milljónir á síðustu öld. Það er ekki bara í löndum þar sem kristnir eru í minnihluta sem fólk lætur lífið vegna trúar sinnar. Ég hvet þau sem um mál hælisleitenda fjalla að líta til kristinna meðbræðra okkar og systra sem hér leita hælis og veita þeim örugga búsetu hér á landi.
Stöndum með meðbræðrum okkar og systrum, hverrar trúar eða lífsskoðunar sem þau eru, og látum það ekki um okkur spyrjast að við sendum fólk út í opinn dauðann. Þurfi lagabreytingu til þá er það Alþingis að vinna það verk. Þurfi breytingu á verklagsreglum, þarf að huga að því í innanríkisráðuneytinu.
Höfundur er biskup Íslands.