Kjartan Örn Kjartansson
Kjartan Örn Kjartansson
Eftir Kjartan Örn Kjartansson: "Hvernig skyldi standa á því að þjóð sem er andvíg innlimun Íslands í ESB og yfirgnæfandi meirihluti kaus gegn Icesave skuli ætla að velja frambjóðanda sem studdi og styður þetta?"

Ég hef hlustað á útvarp og sjónvarp þar sem nokkrir forsetaframbjóðendur hafa verið spurðir um viðhorf sín til hlutanna. Mér finnst ýmsar hugleiðingar frambjóðendanna hafa lítið sem ekkert með embætti forseta að gera heldur eitthvað sem passaði betur t.d. í forkosningum stjórnmálaflokkanna og lýsa þekkingarleysi á eðli og alvarleika embættisins og hvað það er sem skiptir máli.

Þáttur fjölmiðlanna

Það er eftirtektarvert að Stöð 2 skuli velja aðeins þá frambjóðendur til viðtals sem eru nú hæstir samkvæmt skoðanakönnunum sem stöðin hefur jafnvel sjálf staðið fyrir, skoðanakönnunum sem útiloka fólk eldra en 67 ára og þar með um 40 þúsund manns, kynslóðina sem kaus Davíð svo oft. Það var ekki síður kostulegt, en viðbúið, þegar Fréttablaðið sagði í ritstjórnargrein: Guðni sigldi lygnan sjó, tók litla áhættu og komst vel frá sínu þótt honum hafi vafist tunga um tönn þegar talið barst að Evrópusambandinu. Í sömu grein var sagt að Davíð ... reyndi að klóra í Guðna og ... þar var kominn gamli pólitíski vígamaðurinn sem stærði sig af eigin afrekum. 365 miðlar og Ríkisútvarpið eru gjarnan hlutdræg og þá pólitísk í eina átt eins og þekkt er og ofangreint, ásamt öðru, staðfestir það enn. Það kemst enginn undan RÚV og Fréttablaðinu er dreift gjaldfrjálst og eru þetta því oft einu miðlarnir sem fólk fær og sumir átta sig ekki á hve varasamir og skoðanamyndandi þeir eru. Einn frambjóðendanna sagði í útvarpsviðtali að hann teldi einsýnt að Ríkisútvarpið hefði skapað Guðna með því að kalla hann allt í einu fram sem sérstakan álitsgjafa, sem hann hafði ekki verið áður, til þess að kynna hann og tefla fram sínum manni með sínar og þá réttar skoðanir. Um Andra Snæ sagði Fréttablaðið í hrifningu sinni að hann fjallaði af eldmóði um hugsjónir sínar og að hann væri sá frambjóðendanna sem væri með skýrustu sýnina. Andri er einmitt haldinn sömu sjónblindu og Fbl. að vilja innlima Ísland í ESB og forgera sjálfstæðinu. Eru það virkilega slíkir menn sem hugsandi fólk vill í alvöru að verði forseti og verndi land og þjóð, menningu okkar og siði?

Áróðurinn ræður för

Núverandi forseti kemur frá vinstri og var uppáhald þess þar til hann setti Icesave í þjóðaratkvæðagreiðslu, en vegna þess og síðan að þjóðin hafnaði tilræðinu hefur hann mátt sæta ofsóknum sömu afla, sem er lýsandi dæmi um lyndiseinkunn þeirra. Þar til hann dró framboð sitt til baka ætlaði meirihlutinn sér að kjósa hann aftur vegna þess hvernig hann stóð einmitt að Icesave, en núna vill fólk mann sem hefur öndverða skoðun. Það er erfitt að skilja og sömuleiðis það að þótt Ólafur sé fimm árum eldri hafa sumir sagt að Davíð sé of gamall. Jafnvel flokksfélagar hans hafa látið hafa það eftir sér að þeir ætli ekki að kjósa Davíð af þeirri ástæðu einni og láta slíkir þá málefnin og hæfnina sigla sinn sjó.

Guðni á lygnum sjó?

Guðni Th. Jónsson svarar því til sem vinsælast er en er loðinn sem laupur þegar kemur að alvörumálunum og tekur litla áhættu. En það er samt eins og fólki finnist það vera heiðarlegt og traustverðugt miðað við skoðanakannanir. Þegar kemur að því að verja hagsmuni og sjálfstæði Íslands er Guðni þekktur stuðningsmaður vinstri velferðarstjórnarinnar sálugu, verstu ríkisstjórnar lýðveldisins, og af rangtúlkunum og stuðningi sínum við Icesave, sem var ekkert annað en tilræði og glæpur, og að vilja gangast undir ofurvald ESB, þótt popúlistanum vefjist tunga um tönn og reyni nú að gera sem minnst úr því. Þá er athyglisvert að sagnfræðingurinn segist skrifa söguna, í stað þess að skrá hana. Það er sjálfsagt rétt lýsing því hann hefur t.a.m. diktað það að Íslendingar hafi ekki unnið landhelgisstríðin heldur hafi útlendingar leyft þeim það! Sú sérstaka sögutúlkun sýnir litla virðingu þeim sem lögðu sig í hættu í miklum átökum eða þá þakklæti til þeirra sem börðust fyrir málstað Íslendinga, en Ísland er nú virt um allar álfur fyrir sín sjónarmið sem eru orðin að alþjóðalögum. Þær öldur voru ekki lygnar á sínum tíma, en hvernig skyldi standa á því að Samfylkingin mælist með um 6% fylgi en Guðni um 60% en eru af sama meiði? Hvernig skyldi standa á því að þjóð, sem er andvíg innlimun Íslands í ESB og yfirgnæfandi meirihluti kaus gegn Icesave, skuli ætla að velja frambjóðanda sem studdi og styður þetta?

Kunnátta og einurð í stað fagurgala og óvissu

Frambjóðendurnir eru kallaðir til þess að lýsa sjálfum sér og eigin afrekum. Það er hins vegar gagnrýnt þegar kemur að Davíð Oddssyni. Hvernig má það vera þegar Davíð getur þá ekki annað en einmitt lýst sjálfum sér? Er það vegna þess að þekking hans og yfirburðir koma þá svo glögglega í ljós? Enginn kann stjórnskipan landsins betur en hann og hann hefur sýnt sig að vera langvitur og yfirleitt skynsamari en aðrir. Hann hefur alla tíð verið sinn eigin maður, alveg laus við annarleg tengsl og spillingu. Hann var vinsælasti borgarstjóri allra tíma og afar farsæll forsætisráðherra, líklega sá afkastamesti og hið minnsta einn sá stórbrotnasti. Það er með ólíkindum að fólk skuli enn fara með það fleipur sem endalaus áróður vinstri elítunnar hefur logið upp á hann. Þótt allar ávirðingar á hann hafi verið hraktar er fólk enn að lepja upp ósannindin, þ.m.t. að hann hafi komið Seðlabankanum á hausinn. En það er ekki minnst á allt það góða sem hann kom til leiðar, þ.m.t. að minnka áhrif, völd og afskipti hins opinbera. Davíð er maðurinn sem varaði við Icesave og sá eini sem sá fyrir og varaði við því ástandi sem leiddi til bankahrunsins. Ef Davíð hefði ekki stjórnað því að skuldir ríkisins voru stórlækkaðar og ríkissjóður hefði ekki verið jafn sterkur og hann var þegar Davíð fór frá er alls óvíst hvernig hefði farið eftir hrunið. Þá er hann eini frambjóðandinn sem er einarðlega á móti aðild Íslands að ESB og afsali fullveldis landsins. Þetta ættu allir að vita, en áhrif fjölmiðlanna sem viðhalda áróðrinum eru samt svo mikil að það er veruleg hætta á að kjósendur velji skrumið og óvissuna. Hverjum er hægt að treysta nema þeim sem að hefur kunnáttuna, einurðina og heiðarleikann? Það þarf að forða alvarlegu stórslysi og velja þann langhæfasta í embættið með því að kjósa Davíð Oddsson til forseta Íslands.

Höfundur er fyrrv. forstjóri.