Svava Þorbjörg Óladóttir fæddist í Reykjavík 16. janúar 1965. Hún lést á heimili sínu, Leynihvammi í Kópavogi, 22. maí 2016.Foreldrar hennar eru Jón Óli Gíslason, f. 20. maí 1934, og Jóhanna Þorbergsdóttir, f. 21. apríl 1940. Bræður Svövu eru: 1) Níels, f. 15. mars 1960, kvæntur Hrafnhildi Pálsdóttur. Börn Níelsar af fyrra hjónabandi eru Óli Jóhann og Hafdís Svava. 2) Þorbergur, f. 10. apríl 1961, d. 13. apríl 1961.

Þann 15. júní 1985 giftist Svava manni sínum Sveini Péturssyni, f. 14.október 1961. Foreldrar Sveins eru Sigurveig Helga Thorlacíus Jónsdóttir, f. 28. maí 1941, d. 24. nóvember 1991, og Pétur Sveinsson, f. 8. janúar 1941. Systkini Sveins eru: 1) Jón, f. 12. nóvember 1961, 2) Fríða, f. 2. júní 1965, 3) Pétur Ingi, f. 30. mars 1974.

Útför Svövu fer fram frá Lindakirkju í dag, 30. maí 2016, klukkan 13.

Ég sit við eldhúsborðið hjá ömmu og afa í Haukshólunum og bíð eftir því að útidyrahurðin opnist með tilheyrandi látum, en það heyrist alltaf sérkennilegt hljóð þegar gripið er í hurðarhúninn, ákveðinn forboði um að einhver sér að koma. Ég bíð eftir því að Hringur hlaupi flögrandi inn á undan þér og þú birtist síðan í forstofugættinni. Um leið og þú sérð mig breiðir þú út faðminn, brosir hið breiðasta og segir með þinni elskulegu og örlítið rámu rödd nei, hæ skotta litla, þú hér og faðmar mig að þér.
Það var einmitt á þessum stað sem ég sá þig seinast, þar sem ég talaði við þig seinast, þar sem ég faðmaði þig seinast, þar sem þú kallaðir mig skottu litlu seinast. Ég vil ekki trúa því að það hafi verið í síðasta sinn. Á svona stundu virðist sem sorgin og söknuðurinn sé óyfirstíganleg og ég hef oft spurt hvort þetta muni lagast, hvort þetta hætti einhvern tímann að vera sárt. Ég fæ þau svör að á svona stundu skuli maður reyna að hugsa um góðu stundirnar og rifja upp góðar minningar. Ég á sem betur fer nóg af þeim með þér, margar góðar og dýrmætar minningar.
Þú hefur fylgt mér allt mitt líf. Ég man eftir mér sem pínu lítilli skottu heima hjá ykkur Sveini í Hrísmóunum. Mikið sem mér þótti gaman að fara í pössun til ykkar og laumast til að hoppa og leika mér á vatnsrúminu ykkar. Þú færðir okkur systkinunum nammi á silfurfati og dekraðir okkur út í eitt. Þið Sveinn hafið alltaf hugsað svo vel um okkur Óla, eins og við værum ykkar eigin börn, enda erum við og verðum alltaf litlu grislingarnir ykkar. Þið eigið svo stóran part í lífi okkar og saman eigum við svo margar góðar minningar, jólin, fyrsta utanlandsferðin, hestaferðir, sveitaferðir, jeppaferðir og svo má lengi telja.

Ein af mínum uppáhalds minningum með þér er að sjálfsögðu úr Núpsdalnum, uppáhalds staðnum okkar allra. Það var verslunarmannahelgi og fjölskyldan saman komin á Neðra-Núpi eins og hefur tíðkast til fjölda ára. Ég var unglingur og var byrjuð að keyra bílana í sveitinni. Fyrr um daginn hafði amma farið með mig út á tún og leyft mér að keyra gamla bleik, en á þessum tíma var ég að smitast af þessari bíla- og tækjadellu sem virtist vera ættgeng. Þér fannst ekki koma annað til greina en að ég fengi líka að keyra Patrolinn ykkar Sveins. Mikið ofboðslega var ég spennt. Við keyrðum um dalinn með tónlistina í botni, kíktum austur fyrir á þar sem Guðmundur var að klára að heyja Fossatúnin og ferjuðum hluta af mannskapnum yfir ána. Svo var kominn tími til að fara út á Laugarbakka í grill- og söngvapartý. Það var mikil gleði og gamanið farið að færast í mannskapinn enda sjaldan róleg stund á þessum samkomum. Þetta var yndislegur ágústdagur, veðrið var svo gott, glampandi sól og brakandi blíða. Þú leyfðir mér að keyra Patrolinn út á Laugarbakka, í bílnum voru ég, þú og Sveinn. Þú settir geisladisk með Wigfield í græjurnar og lagið Saturday Night var spilað á repeat alla leiðina út á Laugarbakka. Dee dee na na na ómaði um endilangan Miðfjörðinn, og gerir enn, að minnsta kosti í höfðinu á mér. Þið dönsuðuð um í sætunum og sunguð, eða alla vegana reynduð að syngja og ég hló mig máttlausa. Það voru nú ekki allir jafn hamingjusamir og glaðir eins og við þegar við renndum loks í hlað á bakkanum og unglingurinn undir stýri, en þið höfðuð nú litlar áhyggjur af því. Ég var svo ánægð og montin þegar ég hoppaði út úr bílnum og brosið fór ekki af mér í lengri tíma eftir á. Mér þykir ofboðslega vænt um þessa stund og hugsa alltaf um hana þegar ég heyri lagið Saturday Night spilað.
Ég mun aldrei gleyma þegar ég sagði þér frá því þegar ég var ólétt. Þú táraðist af gleði og varst svo spennt. Það var alltaf svo gaman að sjá hvað þú ljómaðir þegar þú hittir Dagbjörtu Heklu. Ég hlakkaði svo til að Dagbjört myndi kynnast þér betur þegar hún færi að stækka og kæmi til vits. Þú elskaðir hana mikið, ég veit það og sá það vel. Ég mun gæta þess að hún fái að heyra um þig og allar góðu minningarnar af þér.
Við höfum átt óteljandi ómetanlegar stundir saman í Haukshólunum. Það voru forréttindi fyrir okkur systkinin að alast upp á neðri hæðinni, með ömmu og afa á efri hæðinni og þig og Svein þar líka um tíma. Á hverjum jólum snérist allt um okkur Óla og þú tókst alltaf fullan þátt í því að gera jólahaldið eins skemmtilegt og hægt var fyrir okkur. Það er einmitt eitt af því sem einkenndi þig hvað mest er að þér fannst svo gaman að gleðja aðra og varst alltaf tilbúin að hjálpa til þegar maður leitaði til þín. Það hefur alltaf verið svo hlýtt og notalegt að koma á heimilið þitt. Sama hvar það var, hvort sem það var lítið eða stór, nýtt eða gamalt, þú hreiðraðir alltaf svo vel um þig og innkoman var alltaf svo indæl. Það var allt svo hlýtt og kósý við þig og þannig mun ég minnast þín.
Elsku Svava, ef ég gæti bara fengið að faðma þig einu sinni enn, ef ég gæti bara fengið að finna hlýjuna frá þér einu sinni enn, ef ég gæti bara fengið að sitja með þér eina kvöldstund enn, ef ég gæti bara fengið að hlæja og syngja með þér einu sinni enn, þá myndi ég þakka þér fyrir allt sem þú hefur gert fyrir mig, elsku Svava mín. Ég mun aldrei koma því í orð hversu mikið mér þykir vænt um þig og hversu þakklát ég er fyrir að hafa haft þig í lífi mínu. Takk fyrir að vera þú.

Sumir hverfa fljótt úr heimi hér


skrítið stundum hvernig lífið er,

eftir sitja margar minningar

Þakklæti og trú.

Þegar einhvað virðist þjaka mig

þarf ég bara að sitja og hugsa um þig,

þá er eins og losni úr læðingi

lausnir öllu við.



Þó ég fái ekki að snerta þig

veit ég samt að þú ert hér,

og ég veit að þú munt elska mig

geyma mig og gæta hjá þér.



Og þegar tími minn á jörðu hér,

liðinn er þá er ég burtu fer,

þá ég veit að þú munt vísa veg

og taka á móti mér.



Elsku Svava, ég kveð þig með sorg og trega, þú varst tekin alltof fljótt í burtu frá okkur. Ég sakna þín og mun aldrei gleyma þér, þú munt alltaf eiga stað í hjarta mínu.

Hvíldu í friði.

Þín skotta litla,

Hafdís Svava.