Tryggvi V Líndal
Tryggvi V Líndal
Eftir Tryggva V. Líndal: "Starfsfólkið á svona stað er sífellt meðvitað um málefni aldraðra, svo sem að fólkið er að koma inn til okkar veikara."

Hvernig er að vera starfsmaður á elliheimili? Þetta virðist mér vera efni í eina hugleiðingu hér í blaði; þar eð stór hluti greinahöfunda og lesenda virðist vera kominn á eftirlaunaaldurinn! Ég hef nú unnið í fimmtán ár á dvalar- og vistheimilinu Grund sem starfsmaður við umönnun. Þegar ég byrjaði þar, var ég nánast eini karlmaðurinn í umönnuninni, hvað þá með háskólapróf. En á síðustu árum virðist að karlar, sem og fólk sem hefur lokið háskólaprófi af óhagnýtu tagi, finni að þetta ófaglærða starf sé í svo gefandi félagslegu umhverfi, að það geti vel hugsað sér að staldra þar lengi við, að loknu námi. Þannig má nú nefna þar fólk með menntun svo sem í heimspeki, mannfræði, félagsfræði, bókmenntafræði, stjórnmálafræði og guðfræði og eru þá sumir með bæði BA-gráðu og MA- gráðu í farteskinu og sumir þeirra nýbúar frá útlöndum! Sköpum mun hafa skipt um viðhorf slíkra til starfsins eftir að það varð aðallega að félagslegu starfi á síðustu öld, við það að ræstingar greindust frá og rafmagnslyftarar komu til við að lyfta rúmum og örvasa fólki. En þá eru eftir samtölin og félagsskapurinn og hjálpin við að klæða fólkið og baða og færa milli herbergja, svo sem á náðhúsið og í matstofuna, og einnig: í félagssamkomuna í morgunstundinni, sjúkraþjálfun, íþróttir, spurningar og spjall, iðjuþjálfun við handavinnu og föndur, sem og sunnudagsmessu og kór. Fyrir mig, sem er menntaður í mannfræði, hafa hin fjölbreytilegu smáatriði í daglegum kynnum við vistfólkið (og starfsfólkið) gert vinnustaðinn að sífrjóu áhugaefni alla tíð. (Ekki hefur og sakað að ég hef áður unnið með börn og geðsjúka og stundað kennslu; og er raunar með uppeldis- og kennslufræði til kennsluréttinda líka. Og heilsugóður í þokkabót!) Raunar kýs ég að vinna eingöngu á morgunvöktum, því þá er vistfólkið mest vakandi og flest félagsstarfsemin í gangi, sem og starfsmannamötuneytið gómsæta og félagslega til boða! Daglega tengist ég öðru starfsfólki, svo sem sjúkraliðum, hjúkrunarfræðingum, læknum, ræstingafólki, iðnaðarmönnum, skrifstofufólki, matseldarfólki og jafnvel klerkum og kórfélögum og aðstandendum skjólstæðinganna. En margt af þessu fólki er nýbúar frá helstu innflytjendalöndunum okkar, einkum þó ræstingafólkið og eldhúsfólkið, en einnig í vaxandi mæli starfsfólkið í aðhlynningu og hjúkrun. Þannig upplifi ég mig í daglegri snertingu við fólk frá Póllandi, Tælandi, Kanada, Kína, og jafnvel Rússlandi! Á sumrin og í fríum hópast svo skólanemar að í afleysingar, menntaskólanemar, læknanemar, og fólk í skyldum fögum, t. d. sálfræði, matvælaverkfræði og lyfjafræði. Er þá sífellt gaman að hitta og kynnast þessu unga fólki. Ekki vantar svo að starfsfólk deildarinnar fer stundum út að borða saman eða á skemmtanir sem og starfsmannafélagið! (Einnig var ég um tíma í Grundarkórnum og var þar með trompet-hlutverk! En kórinn er fyrir starfsmenn, heimilismenn og velunnara Grundar.) Ég mun líklega enda mína starfsævi þar! En ólíkt nemunum ungu, hafði ég ekki áður viljað vinna þar sjálfur, vegna svo mikillar nálægðar við dauðann, fyrr en ég varð svo að taka slíkt inn á mig við missi eigin foreldra! Og sjálfsagt er starfið þar síðan hluti af viðvarandi sorgarferli gagnvart vaxandi nálægð dauða míns og minna, meira en mig grunar! Starfsfólkið á svona stað er sífellt meðvitað um málefni aldraðra, svo sem að fólkið er að koma inn til okkar veikara og að elliheimilin eru að verða alltof fá, og einnig um fjölbreytilega afstöðu heimilisfólks í trúmálum og er varðar framhaldslífið, sem og um skoðanamuninn á hversu lengi sé eftirsóknarvert að lífa við síversnandi heilsu. En þess má að lokum geta, að starfsfólkið sem og heimilisfólkið á Grund er nú orðið eitthvað á fjórða hundrað talsins, hvert um sig; en voru áður fleiri. (Og að aðalbygging Grundar var reist í kringum 1930.) Vinnustaðurinn er farinn að smitast inn í ljóðagerðina mína. Þannig orti ég ljóð um árið sem var innblásið af einni samstarfskonu minni, og heitir það Náttfiðrildi. (Það hefur þó enn ekki ratað í Heimilispóst Grundar, Áss og Markar.) En þar segi ég m. a. svo:

Ég er einsog nóttin, segir hún, því hún mun verða þá á næturvakt; og bregður aðeins fyrir okkur ella. En þakkar mér nú bjartri röddu. Mér gæti þótt enn vænna um hana; en við erum víst ávallt dæmd til að hittast helst í hálfrökkrinu hérna á elliheimilinu; meðan heilsan leyfir.

Höfundur er skáld og menningar-mannfræðingur.

Höf.: Tryggva V. Líndal