Eðvarð Örn Kristinsson fæddist í Reykjavík 29. ágúst 1981. Hann lést af slysförum er bát hans hvolfdi út af Aðalvík 11. maí 2016.Foreldrar hans eru Eyrún Hafdís Kjartansdóttir frá Súðavík og Kristinn Þór Ásgeirsson, búsettur í Hafnarfirði. Eiginmaður Hafdísar og stjúpfaðir Eðvarðs er Valgeir Rúnar Hauksson frá Torfastöðum í Fljótshlíð en hann og Eðvarð voru afar nánir allt frá þeirra fyrstu kynnum. Eðvarð átti ætíð skjól hjá móðurforeldrum sínum í Súðavík, þeim Salbjörgu Olgu Þorbergsdóttur og Kjartani Geir Karlssyni. Systur Eðvarðs eru Salbjörg og Sólveig Ólafsdætur. Faðir þeirra er Ólafur Björn Heimisson en hann gekk Eðvarði í föðurstað meðan móðir hans og Ólafur voru í sambúð. Sambýliskona Eðvarðs til 16 ára er Elma Dögg Frostadóttir frá Súðavík. Foreldrar hennar eru Frosti Gunnarsson frá Súðavík og Björg Valdís Hansdóttir frá Miðhúsum í Vatnsfirði. Dætur Eðvarðs og Elmu eru Hafdís Ása, fædd 5. október 2005, og Sædís Líf, fædd 21. janúar 2012.

Að loknu grunnskólanámi í Súðavík innritaðist Eðvarð í Vélskólann á Ísafirði og lauk þaðan vélavarðarnámi á meðan hann beið eftir að ná tilskildum aldri, til að hefja nám í Stýrimannaskólanum í Reykjavík. Þaðan lauk hann fiskimannsprófi með fyrstu einkunn vorið 2005. Sjómennskan var hans hans líf og yndi en hann byrjaði snemma að stunda sjómennsku og gerði það þar til yfir lauk.

Útför Eðvarðs Arnar fer fram frá Súðavíkurkirkju í dag, 21. maí 2016, klukkan 14.


Umhyggju og ástúð þína

okkur veitti hverja stund.

Ætíð gastu öðrum gefið

yl frá þinni hlýju lund.

Gáfur prýddu fagurt hjarta

gleðin bjó í hreinni sál.

Í orði og verki að vera sannur

var þitt dýpsta hjartans mál

(Ingibjörg Sigurðardóttir)





Að morgni þann 11. maí sl. hringdi síminn. Röddin í símanum sagði að strandveiðibáturinn Brekkunes ÍS væri á hvolfi út af  Aðalvíkinni. Mikil skelfing greip um sig, því um borð í Brekkunesinu var stjúpsonur minn, hann Eðvarð, og ekki væri vitað hvort hann væri á lífi. Svo kom höggið þegar síminn hringdi aftur og tilkynnt var að hann Eðvarð minn hefði fundist en ekki komist af. Hvað hafði gerst? Hvernig í ósköpunum stóð á því að hann var tekin svona fljótt frá okkur? Ungur maðurinn, sem átti allt lífið framundan og vonin um að stóri draumurinn hans rættist hvarf í einni svipan. Óskiljanlegt. En svona er lífið, það er ekki spurt um aldur né aðstæður þegar Ægisdætur taka völdin og svipta okkur því, sem okkur er kært.

Fyrstu kynni okkar Eðvarðs hófust þegar ég gekk með grasið í skónum á eftir móður hans. Ekki var var grasið alveg farið að sölna þegar hann fór að spjalla við mig um hitt og þetta. Fljótlega var hann farinn að trúa mér fyrir framtíðardraumum sínum, sem að sjálfsögðu var sjómennskan. Að ræða þessi mál við mig sveitadurginn sem hafði meira vit á kýrrössum og flórmokstri virtist ekki skipta máli. Það varð að fræða þennan sveitamann, sem var að tengjast sjómannsfjölskyldu hvað fiskibátur, veiðarfæri og sjómennska væri ef hann ætti á annað borð að verða gjaldgengur í fjölskyldunni.

Tengsl okkar Eðvarðs snerist fljótt upp í mikinn vinskap. Fljótlega var hann farinn að trúa mér fyrir ýmsum málum hvort sem það snerti drauminn um frama á sjónum eða hvaðeina sem honum lá á hjarta. Sterkt merki um hversu nánir við vorum og yljaði mér um hjartarætur, var eitt sumarkvöld þegar íbúar Súðavíkur gerðu sér glaðan dag á veitingastaðnum Jóni Indíafara. Á heimleiðinni eftir skemmtunina var hann á spjalli við samferðafólk okkar þegar orðið pabbi kom frá vörum hans. Kallarðu hann pabba? var spurt með dálitlum furðutón. Já, svaraði Eðvarð snöggur upp á lagið, er eitthvað athugavert við það? Fátt varð um svör og samtalið fjaraði út.

Vorið 2005 þá útskrifaðist Eðvarð með skipstjórnar- og stýrimannsgráðu með fyrstu einkunn. Það var stoltur drengur sem tók á móti fjölda verðlauna ásamt bikar fyrir frábæran árangur og ekki skyggði það á gleðina að ástin hans hún Elma gekk með þeirra fyrra barn, sem fæddist svo um haustið.

Fljótlega eftir útskrift fór Eðvarð á sjóinn og stundaði hann að mestu leyti, hvort sem hann væri skráður háseti, skipstjóri eða stýrimaður. Að vera á sjó skipti öllu máli, hver svo sem vinnan var. Eðvarð varð fljótt mjög vinsæll á meðal skipsfélaga sinna þegar hann gegndi skipstjóra og stýrimannsstöðum á ýmsum bátum. Oftar en ekki hringdu gömlu félagarnir til að fá fréttir af honum og hvort hann væri ekki væntanlegur aftur.

Seinna meir, þegar Eðvarð fór að fara í róðra á bátum sem gerðir voru út til strandveiða, þá vaknaði mikill áhugi hjá honum um að eignast slíkan bát og stofna eigin útgerð. Þegar tækifærin gáfust þá sat Eðvarð við tölvuna og skoðaði sölusíður bátasala. Þennan draum talaði hann mikið um og var hann alveg sannfærður um að hann myndi rætast og var það ákveðið að Salbjörg systir hans yrði meðeigandi.

Mikil og sterk tengsl hafði Eðvarð við Kjartan afa og ömmu Söllu. Hjá þeim  var hann daglegur gestur þegar hann var í landi og kom gjarnan oft á dag bæði til að fá sér kaffisopa og svo bara vera í návist þeirra. Heimili afa og ömmu var hans annað heimili. Hjá þeim ólst hann upp að hluta til og væntumþykjan og kærleikurinn á báða bóga var órjúfanlegur. Oftast voru þeir afi og Eðvarð að dunda í bílskúrnum eða snúast í kringum Kóp ÍS sem var báturinn hans afa. Svo var Eðvarð ósjaldan einn í bílskúrnum og var þá að hlúa að mótornum úr Kópnum eða utanborðsmótornum úr skektunni hans afa, eða þá hann fann sér önnur verkefni. Þegar Eðvarð var einn að dunda í skúrnum og var spurður hvað hann hefði verið að gera, þá svaraði hann gjarnan. Hvað ég var að gera? Ég var að gera og græja.

Seinna eignaðist Eðvarð lítinn bát með utanborðsmótor sem ber nafnið Hafdís ÍS eftir eldri dótturinni. Með Hafdísi stofnaði hann útgerð og gert var út á Álftafjörðinn. Að sjálfsögðu var pabbi skipstjórinn og dóttirin hásetinn. Svo kom það upp einn morguninn þegar Hafdís var ræst til að fara á sjóinn að mælirinn varð fullur, henni fannst það ómögulegt að þurfa að vakna eldsnemma á morgnana. Skólinn búinn og hún væri komin í sumarfrí. Ekki var pabbi alveg ánægður með þetta svar hennar og sagði henni að ef útgerðin ætti að ganga þá yrðu þau að fara á sjó. Hafdís Ása var nú ekki alveg sátt við þessa skýringu og sagði því hátt og snjallt. Pabbi ég segi upp!

Samheldni, vinátta og traust voru einkunnarorð Eðvarðs sem kom best í ljós hversu vænt honum þótti um systur sínar, þær Salbjörgu og Sólveigu. Þau ár sem ég hef verið svo lánsamur að vera þátttakandi í lífi þeirra, þá bar aldrei skugga á kærleik og traust á milli þeirra. Aldrei var rifist svo ég muni en óskiljanlegir brandarar og frasar flugu, sem þau ein skildu og svo var hlegið þar til magaverkir voru að verða óbærilegir. Að upplifa jafn mikinn systkinakærleik og samheldni er óborganlegt og ætti að verða öðrum til eftirbreytni.

Eitt var það sem Eðvarð hafði mjög gaman af. Það var að koma alls konar vitleysu inn hjá systrunum og ekki var hætt fyrr en þær voru svo sannfærðar um að allt þetta var nú heilagur sannleikur sem stóri bróðir sagði. Sem dæmi má nefna þegar hann útskrifaðist úr Stýrimannaskólanum þá fórum við og mamma hans á bílasölu. Eðvarð hafði séð bíl, sem hann langaði til að eignast. Bíllinn var á sínum stað og kaupin gerð. Þegar Eðvarð hafði gengið frá kaupunum þá hringdi hann í Sólveigu systur sína en hún hafði útskrifast, sem stúdent daginn áður. Hann spyr. Hvað fékkst þú í útskriftargjöf? Í útskriftagjöf spurði hún um hæl? Ekkert! Nú mamma og Valgeir gáfu mér bíl. Gáfu þau þér bíl? Nei Eðvarð, kanntu annan? Víst gáfu þau mér bíl, ég kem bara og sýni þér hann á eftir. Það var svo sem auðvitað svaraði Sólveig. Sjálfur prinsinn verður að sjálfsögðu að eiga bíl og þar við sat þar til hið sanna kom í ljós.

Í ársbyrjun 2001 hóf Eðvarð sambúð með Elmu Frostadóttur frá Súðavík fædd 14. maí 1980. Sú sambúð var mjög traust og ekki reist á sandi, því síðar meir bar sambúðin ávöxt þegar þeim fæddust tvær dætur. Þær eru Hafdís Ása fædd þann 5. október 2005 og Sædís Líf fædd þann 21. janúar 2012. Ást og sú umhyggja, sem hann veitti fjölskyldu sinni, var mjög til fyrirmyndar. Báðar stelpurnar unnu pabba sínum mjög og alltaf gaf hann sér góðan tíma með þeim þegar hann var í landi og mátti vart af þeim sjá.

Nánast alla sína sambúð bjuggu þau Eðvarð og Elma í Súðavík en fluttu í nóvembermánuði á síðasta ári í Grafarholtið í Reykjavík. Þrátt fyrir búsetuskiptin þá dvaldist Eðvarð að mestu í Súðavík og stundaði þaðan sjóinn ásamt því að grípa í önnur störf þegar ekki gaf á sjó.

Elsku Eðvarð minn. Nú ertu kominn á gjöfulli og betri mið. Stoltur, athugull og varkár siglir þú hlöðnu fleyi þínu til þess lands sem þú varst kallaður til. Þín verður sárt saknað en minningin um góðan stjúpson lifir. Dætur þínar og hún Elma þín sem voru ljós lífs þíns hafa misst mikið og það skarð sem þú skilur eftir verður ekki fyllt. Móðir þín hefur staðið sem klettur á brimþungri strönd þrátt fyrir þá brotsjói, sem á hafa dunið. Sonarmissirinn er henni mikið áfall og harmþrungin sorgin er sár. Það sár kemur tíminn aldrei til með að græða. Því það að missa barnið sitt eiga engir foreldrar að þurfa að upplifa. Ég og systur þínar sem eru mér sem mínar eigin dætur og eru ljós lífs míns, eigum margar fallegar minningar um þig. Þær minningar munum við ávallt geyma í hjörtum okkar, en þó munu eflaust nokkrir brandarar og frasar falla frá þeim systrum í framtíðinni þegar þín verður minnst. Salla amma og Geiri afi, sem voru þér svo mikils virði, þurfa líka að horfa á eftir drengnum sínum. Drengnum sem ekki kom bara oft á dag heldur hringdi líka daglega af sjónum þegar svo bar við og færði afa sínum fréttir af aflabrögðum. Nú lifir minningin um góðan dreng. Sú minning verður vel varðveitt og geymd í hjörtum þeirra um eilífð alla.



En komin eru leiðarlok

og lífsins kerti brunnið,

og þín er liðin æviönn

á enda skeiðið runnið.

Í hugann kemur minning mörg

og myndir horfinna daga,

frá liðnum stundum læðist fram

mörg ljúf og falleg saga



Þín vinartryggð var traust og föst

og tengd því sanna og góða,

og djúpa hjartahlýju og ást

þú hafðir fram að bjóða.



Og hjá þér oft var heillastund

við hryggð varst aldrei kenndur.

Þú komst með gleðigull í mund

og gafst á báðar hendur.



Svo vinur kæri vertu sæll,

nú vegir skilja að sinni.



Þín gæta máttug verndarvöld

á vegferð nýrri þinni.

Með heitu, bljúgu þeli þér

ég þakka kynninguna,

um göfugan og góðan dreng

ég geymi minninguna.

(Höf. ókunnur.)


Vertu sæll kæri vinur. Við munum örugglega taka upp þráðinn og spjalla saman um drauma þína og vonir þegar við hittumst á ný.

Megi góður Guð varðveita sálu þína og fjölskyldu þína um aldur og ævi.




Valgeir Hauksson