Katrín Jónsdóttir fæddist 11. janúar 1954 í Reykjavík. Hún lést í París 27. júní 2016.
Katrín var fjórða barn foreldra sinna, Jóns Magnússonar sýslumanns, og Katrínar Sigurjónsdóttur húsmóður, þau eru bæði látin. Systkini Katrínar eru: Sigurjón, Sigríður, Ingibjörg, Högni, Rannveig, Áslaug og Sif Jónsbörn.
Eftir stúdentspróf frá Menntaskólanum í Reykjavík fór Katrín til Frakklands þar sem hún nam við Sorbonne-háskóla frönsku og leikhúsfræði. Seinna lagði hún stund á viðskiptalögfræði. Lengst af vann Katrín á ferðaskrifstofu í París þar sem hún bjó.
Katrín giftist Henry Amsellem 1986 og eignuðust þau þrjú börn. Henry og Katrín skildu. Börn þeirra eru: 1) Eiríkur, f. 4. júní 1988, 2) Audrey, f. 1. desember 1989, eiginmaður hennar er Thomas Weeks, og 3) Elsa Dóra, f. 9. september 1993.
Bálför Katrínar hefur farið fram. Minningarathöfn fer fram frá Stykkishólskirkju í dag, 15. júlí 2016, klukkan 15.

Elsku Lista, elsku besta Lista, hvað liggur á? Ég veit vel að þú er alltaf að og nóg að gera. En þú hefðir ekki átt að hlaupa svona fljótt frá okkur. Við hefðum getað gert meira sama.
Við höfum reyndar gert ýmislegt þó þú hafið verið hinum megin við hafið. Það sem við gerðum fyrir nokkrum árum þegar þú skipulagðir og varst farastjóri í ferð fyrir mig og Sævar um París og Versali. Allt á fullu, strætó tekinn á milli borgarhlut, farið í Lapera , tebúðina og tónleika, stoppað á kaffihúsi, aðeins að pústa og svo allez, aftur á stað. Svo auðvita kvöldmatur á hverju kvöldi. Eigum við að borða heima hjá Listu eða fara út að borða? Við Sævar getum afgreitt það, nei, nei við gerum svona og svona, kaupum þetta og þetta, segir Lista, vill alls ekki að við séum að hugsa neitt, bara njóta.
Við fórum líka víða um Ísland t.d Lónsöræfi ( ég, þú Sigurjón , Sif, Rannveig ofl.)
Þar var labbað alveg upp að herðablöðum og við orðin græn í framan. Gengið frá kl. 9.00 til ca kl. 22.00, alla vega þeir sem gengu mest og það voru ég og þú.
Í Núpstaðarskóg fórum við fjórar systur, (ég, þú Sif og Áslaug) , löbbuðum þar og klifruðum upp hamravegg í bandi (reyndar með aðstoð farastjórans) í sól og blíðu veðri. Á heimleiðinni, daginn eftir, komum við við á Kirkjubæjarklaustri og þú prílaðir í keðju upp brattann hamravegg á Systrastapa og Sif líka ef ég man rétt. Síðan var haldið inni Fjarðárgljúfur, það vaðið inn í botn. Þú og Sif voru á Evuklæðum og stungu ykkur til sunds í volgan hylinn, sem er þar. Ykkur var svo heitt. Þú komst frá hitanum í París og Sif frá Ameríku, en við Áslaug bjuggum og búum á kalda landinu og þurftum því ekki að kæla okkur.
Við heimsóttum líka Borgarfjörð og bröltum ofan í jörðina þar til þess að skoða helli, Víðgemill en hvað hann nú heitir, það var voða gaman. Við sváfum á bóndabænum sem er þar og borðuðum hjá bóndanum og bóndakonunni í eldhúsinu hjá þeim, í sveitinni eru oft stór eldhús og mikið fjör.
Ekki má gleyma ferð okkar uppá Langjökul. Þú vildir leggjast í jökulinn, þetta var einhver þráhyggja hjá þér. Ég skildi það ekki þá en ég skil það núna. Því nú er ég með svona þráhyggju, verð að fara þetta eða skoða hitt. Eitt ætla ég og Sævar líka , að klára í sumar sem ég er búin að tala um lengi. Baða mig í uppsprettu rétt hjá Kverkfjöllum. Á Langjökul fórum við þrjár ég, þú og Katrín Helga. Þetta var mikil ferð. Við fórum á jeppanum mínum og ég keyrði (og það er sko saga til næsta bæjar), að Langjökli miðjum, um Kaldadal. Vegurinn um hann hefur aldrei verið góður. Við upp á jökulinn, en ekki hvað! Farastjórinn datt ofan í sprungu, úpps. Ekki á bólakaf, en alveg nóg. Það var smá panik en allir fljótir að átta sig og hann komst upp. Þegar hann var kominn upp aftur, sagði hann: Ég er með allar græjurnar á mér talstöð ofl. ofl. Ég hefði átta að láta ykkur vera með talstöð líka. Ekki tók nú betra við þegar við fórum niður af jöklinum. Þessi líka svaka stóra og djúpa sprunga, sem við urðum að ganga fyrir, púff. Þú varst ekki lofthrætt eða neitt bara allez, allez. Við komumst öll niður af jöklinum. Ég fékk alveg nóg og fer aldrei á jökul, alveg nóg að horfa á þá. Þetta var líka mikil bílferð, við fórum um Húsafell og Hvalfjörð heim. Ég man að mér fannst þetta mikil keyrsla, ég var ekki vön að keyra svona mikið.
Við fóru líka upp í Hrútfellið á Kili, þar var ein þráhyggja hjá þér að fara upp í Fjallkirkju í Langjökli. Við keyrðum sem leið liggur norður Kjöl á jeppanum mínum. Á miðjum Kjalvegi ca. er beygt við stóran stein og þar liggur vegurinn niður að Þverbrekkumúlaskála. Þaðan hefst gangan, labbað og labbað í átt að Fjallkirkju og til baka aftur, við komumst aldrei alla leið, en það er nú önnur saga. Á heimleiðinni heyrðum við í fréttum að það væri mikið hlaup eða flóð í Hagavatni og göngubrúin þar farin. Við að skoða þetta. Brekkan upp að brú sem einu sinni var, er svo svakalega brött að ég lagði ekki í að keyra , svo við húkkuðum okkur far upp með tveimur strákum. Þannig að við sáum öll lætin.

Svo er alltaf eitthvað sem kemur upp í hugann frá ennþá lengri tíma. Ég var oft spurð af hverju er hún Lista kölluð Lista? Ég var farin að svara því þannig að hún Lista er listakona og þess vegna heitir hún Lista.
Við bjuggum líka saman í smátíma á Bestó. Þú í MR og ég að vinna. Það var svo stuttur tími að mér finnst hann hafa flogið út um gluggann.
Elsku Lista listkona með ljósa hárið og hvítu húðina. Nú sit ég hér og drekk te og pára þetta á blað en hvar ert þú. Kannski hér líka eða í París hjá börnunum þínum - hver veit.

Sigríður Jóns Katrínardóttir.