Bergljót fæddist 3. maí 1922 í húsi sem var nefnt Jerúsalem á Akureyri. Hún lést í Sunnuhlíð, Kópavogi, 23. júní 2016.
Foreldrar hennar voru heiðurshjónin Kristín Sigurðardóttir og Jakob Karlsson, bóndi í Lundi við Eyjafjörð. Bergljót var næstyngst af fjórum systrum og einum bróður. Elst var uppeldissystirin Margrét Jónsdóttir. Systkinin hétu Guðný, þá Sigurður, sem lést níu ára gamall, og Kristbjörg, sem lést aðeins fjögurra ára, næst var Bergljót, og svo Kristbjörg yngri, sem fæddist tveimur árum eftir að nafna hennar lést. Bergljót var foreldrum sínum stoð og stytta í veikindum þeirra, hélt þeim heimili og sá um þau síðustu árin.
Árið 1959 breyttust hagir Bergljótar er hún giftist Kristni Jóni Jónssyni frá Siglufirði. Hann vann á Skipaafgreiðslu Jakobs Karlssonar á Akureyri. Hún starfaði þar hjá föður sínum. Þau eignuðust tvö kjörbörn: 1) Jakob, f. 17. desember 1962. Hann er kvæntur Gail Ann Hanson, f. 1. febrúar 1942, hún á þrjú börn og sjö barnabörn. 2) Sigríður, f. 4. apríl 1966. Hún er í sambúð með Geo Sternsdorf. Sigríður á dótturina Berglindi Einarsdóttur.
Kristinn á einn son frá fyrra hjónabandi: Carsten Jón, fæddur 25. nóvember 1952. Hann er kvæntur Bryndísi Bragadóttur, f. 17. maí 1960. Þau eiga dæturnar Elínu og Guðrúnu.
Útför Bergljótar fór fram í kyrrþey þann 1. júlí 2016 að ósk hinnar látnu.

Móðursystir mín, Bergljót Jakobsdóttir frá Akureyri, hefur kvatt þennan heim á 95. aldursári. Hún er síðust af systrunum frá Lundi á Akureyri sem kveður. Undanfarin ár hefur hún dvalið á Sunnuhlíð í Kópavogi, við mikla hreyfihömlun, en algjörlega fulla hugsun. Það hafa verið forréttindi okkar hjóna að hafa átt þess kost að heimsækja hana nokkuð reglulega undanfarin ár og njóta samveru við hana og fræðast af henni, bæði um fyrri tíma á Akureyri svo og skoðanir hennar á dægurmálunum, en hún fylgdist grannt með í fjölmiðlum og lagði sitt mat á hvaðeina.

Með Bergljótu, er í okkar huga, horfinn ekta Akureyringur í bestu merkingu þess orðs. Hún var næst- yngst fjögurra systra sem upp komust af börnum Kristínar Sigurðardóttur og Jakobs Karlssonar, bónda og athafnamanns á Akureyri. Þau hjón byggðu stórbýlið Lund ofan við Akureyri og ráku með miklum myndarbrag fram yfir miðja síðustu öld. Túnin í Lundi hafa nú öll verið tekin undir byggingar og götur, þar sem  heitir Lundarhverfi, en gamla íbúðarhúsið, fjósið og hlaðan standa enn og hafa fengið ný hlutverk.

Þær systur báru það með sér að þær höfðu verið  aldar upp við gott atlæti, gott fjölskyldulíf og virðingu fyrir lífinu. Þetta  ræktuðu þær áfram með sér  þannig að fjölskyldur þeirra tengdust sterkum böndum. Yngsta systirin, Kristbjörg, bjó í Hafnarfirði, Bergljót og Guðný á Akureyri en elst var móðir mín, Margrét, sem bjó á Blönduósi og var reyndar fóstursystir þeirra, en þau Jakob og Kristín tóku hana í fóstur, strax við fæðingu og ættleiddu hana.

Lítill drengur á Blönduósi minnist margra ferða norður á Akureyri í heimsóknir til ættingjanna og til lengri eða skemmri dvalar.  Sömuleiðis eru heimsóknir frændfólksins fyrir norðan til Blönduóss eftirminnilegar. Í huga drengsins eru þessir dagar sem ljómandi sólskinsstundir. Ekki held ég að nokkurt ár hafi liðið án þessara gagnkvæmu heimsókna á meðan allar systur lifðu. Síðan þótti það alveg sjálfsagt að við þrjú systkinin á Blönduósi dveldum nyrðra hjá þeim við skólagöngu okkar, hvert af öðru, áður en við héldum út í lífið. Systir mín var hjá Bergljótu og við bræðurnir hjá Guðnýju og ekki nóg með það, þegar sonur okkar hjóna fór til mennta, þá var enn sjálfsagt að hann dveldi hjá Bergljótu, ömmusystur sinni öll menntaskólaárin. Svona lagað verður seint metið til fullnustu  að verðleikum.

Það urðu hlutskipti Bergljótar að halda heimili og annast foreldra sína þegar þau höfðu misst heilsuna og líklega er það ástæðan fyrir því hversu seint hún stofnaði eigin fjölskyldu, en maður hennar, Kristinn J. Jónsson frá Siglufirði, kom inn í líf hennar um 1960. Börnin þeirra eru tvö, Jakob og Sigríður, búa bæði erlendis, dótturdóttirin Berglind hefur dvalið á Íslandi nú um skeið, ömmu sinni og afa til mikillar gleði.

Þau hjón Bergljót og Kristinn störfuðu saman að rekstri skipaafgreiðslu Eimskipa á Akureyri, fyrirtæki sem hafði verið rekið innan stórfjölskyldunnar, alveg frá stofnun Eimskipafélags Íslands. Síðan gerðist Kristinn starfsmaður hjá embætti sýslumannsins á Akureyri og starfaði þar á meðan aldur leyfði, en þá tóku þau hjón sig upp og fluttu suður í Kópavog.

Bergljót var margfróð, ljóðelsk og tónviss. Hún spilaði á píanó og kenndi ungum ættingjum og vinum píanóleik. Hún kunni ógrynni ljóða og fór stundum með ljóð og vísur fyrir okkur síðustu árin. Kvæði Davíðs Stefánssonar voru henni hugljúf.

Að leiðarlokum er mér ofarlega í huga hve samskipti okkar við Bergljótu eru ljómuð miklu sólskini, það rennur upp fyrir mér, að símtöl okkar á milli fóru oftast fram þegar veður var gott og sólríkt og sömuleiðis kom ég frekar við hjá henni í Sunnuhlíð  þegar sólin skein glatt. Allt þetta sólskin set ég í samband við bernskuna og samveruna með fjölskyldum systranna frá Lundi. Það var alltaf sól og gott veður á Akureyri á þeim góðu árum.

Við vottum Kristni, Jakobi, Sigríði og Berglindi, innilegrar samúðar okkar  og heiðrum minningu Bergljótar móðursystur  með erindi úr ljóði eftir Davíð Stefánsson frá Fagraskógi.

Hverju sem ár
og ókomnir dagar
að mér víkja,
er ekkert betra
en eiga vini
sem aldrei svíkja.



Blessuð sé minning Bergljótar Jakobsdóttur.



Sigurður Ágústsson og Anna Rósa Skarphéðinsdóttir.