Soffía Guðmundsdóttir fæddist á Suðureyri við Súgandafjörð 28. september 1951. Soffía lést á gjörgæsludeild Landspítalans í Fossvogi 9. júlí 2016.

Foreldrar hennar eru Guðmundur Kr. Hermannsson frá Suðureyri við Súgandafjörð, f. 30. ágúst 1920, d. 21. nóvember 2002, og Sigríður Kristjánsdóttir frá Haukadal, síðar Felli í Biskupstungum, f. 22. ágúst 1922. Systkini Soffíu eru sex. Þau eru Katrín, f. 1949, Jóhanna Kristín, f. 1950, Fjóla Björk, f. 1953, Guðbjörg Sigríður, f. 1955, Steinþóra, f. 1957, og Rúnar, f. 1961. Hálfbróðir, Jóhannes Guðmundsson, er látinn.
Soffía giftist Sverri Bergmann, kaupmanni í Herrahúsinu, á gamlársdag árið 1988. Foreldrar hans eru Vilhjálmur S. V. Sigurjónsson, f. 1. mars 1918, d. 1. september 2004, og Erla Bergmann Danelíusdóttir, f. 16. október 1935. Soffía var áður gift Árna Stefánssyni en þau skildu.
Sverrir og Soffía eignuðust tvær dætur, þær Berglindi Bergmann, f. 27. september 1988, doktors- og læknanema, maki Stefán Þórarinsson, hagfræðingur og stærðfræðingur, og Hönnu Soffíu Bergmann, f. 12. apríl 1990, nema í viðskiptafræði, maki Daði Örn Andersen, stjórnmálafræðingur.
Soffía ólst upp á Suðureyri við Súgandafjörð. Soffía hóf nám í Fósturskóla Íslands árið 1972 og útskrifaðist þaðan sem leikskólakennari árið 1974. Samhliða stundaði hún söngnám í Tónlistarskólanum í Reykjavík og síðar einnig í Tónlistarskóla Kópavogs og Garðabæjar. Soffía lauk 8. stigi í söng með ágætiseinkunn og hélt út fyrir landsteinana til þess að stunda nám í óperusöng við Trinity College of Music í London árið 1980 hjá hinni virtu Morag Noble. Soffía sneri aftur til Íslands og þegar þau Sverrir kynntust var hún leikskólastjóri í Grænuborg. Árið 1983 fluttust þau Sverrir vestur á Ísafjörð þar sem Soffía hóf nám við Menntaskólann á Ísafirði. Þau fluttust til Garðabæjar 1985 og lauk hún stúdentsprófi frá Fjölbrautaskólanum í Garðabæ 1987.
Árið 1992 setti Soffía á stofn leikskólann Lundaból í Garðabæ og vann þar sem leikskólastjóri. Þar lagði hún áherslu á söng og listgreinar. Soffía nam við Kennaraháskóla Íslands árin 1995-1997 og útskrifaðist þaðan með embættispróf grunnskólakennara. Soffía starfaði sem kennari við Hofsstaðaskóla og Flataskóla í Garðabæ og Salaskóla og Hörðuvallaskóla í Kópavogi, en þar kenndi hún þegar hún veiktist. Söngurinn var ætíð stór þáttur í lífi Soffíu en hún kenndi söng, raddþjálfaði kóra, söng einsöng við ýmsar athafnir, bæði hérlendis og erlendis, og notaði söng og tónlist mikið við kennslu. Soffía söng m.a. í Pólýfónkórnum, Bústaðakirkju og Ljóðakórnum. Soffía sat í leik-, grunn- og tónlistarskólanefndum í Garðabæ, vann að skólastefnu Tónlistarskóla Garðabæjar og sat í níu ár sem fulltrúi menntamálaráðuneytisins í skólanefnd Fjölbrautaskólans í Garðabæ.
Útför Soffíu fer fram frá Hallgrímskirkju í dag, 20. júlí 2016, og hefst athöfnin kl. 15.

Með þessum orðum langar mig að kveðja elskulega og afar kæra vinkonu mína, Soffíu Guðmundsdóttur, sem kvaddi þann 9. júlí síðastliðinn, eftir stutta en stranga baráttu. Þegar dauðann ber að dyrum, eins og hann gerði þennan fallega sumardag, verður manni orðavant og það er erfitt að lýsa þeirri harmatilfinningu sem sótti á mig þegar ég fékk fregnina af andláti hennar..
Þeirri stund, þegar fundum okkar Soffíu bar fyrst saman gleymi ég aldrei. Ég hóf nám í Kennaraháskóla Íslands haustið 1995, var heldur í eldri kantinum miðað við aðra nemendur skólans og fannst það dálítið óþægilegt. Einn dag, í upphafi annar, var ég á leið niður tröppur, sá ljóshærða glæsilega konu á aldur við mig standa við glugga og ákvað að gefa mig á tal við hana. Þetta var Soffía, háskólanemi eins og ég og mikið var ég fegin að hitta hana. Á þessari stundu myndaðist svo sterkur þráður á milli okkar sem hefur haldist alla tíð. Við Soffía vorum báðar leikskólakennarar, komnar í KHÍ til að efla okkur í starfi með auknu námi og báðar með áherslu á kennslu yngri barna. Tveir sérlega skemmtilegir vetur liðu með samvinnu okkar Soffíu í margs konar verkefnum og vettvangsnámi. Soffía var svo víðsýn og hugmyndarík. Hún hafði einstakan áhuga á lífinu og tilverunni, var einlægur mannvinur og samræður okkar voru alltaf svo fjörugar og skemmtilegar. Samstarf okkar var ævintýri líkast, mikið grúskað, lesið og hlegið. Þegar eitthvað bjátaði á þá söng Soffía með sinni fallegu lærðu söngrödd:

Maður hefur nú, maður hefur nú
lent í öðru eins í vetur
og staðið sig og staðið sig
Svo miklu, miklu, miklu, miklu betur.

Dúbí dúbí dú, dúbí dúbí dú &..

Ef það gengur stirt, næstum ekki neitt
þá vinnum við að því í vor.
Ef það gengur ekki í vor og ekki nú í sumar
þá heppnast allt saman í haust,
örugglega.
(Gunnar Reynir Sveinson)



Og þetta heppnaðist allt hjá okkur. Margar af okkar vinnustundum fóru fram á Ölduslóðinni, þar sem ég og Rikki maðurinn minn bjuggum. Við göntuðumst stundum með það að hann væri hinn maðurinn hennar Soffíu, því ófáar stundir rétti hann okkur hjálparhönd, teiknaði myndir í verkefnin og síðast en ekki síst veitti hann okkur neyðarhjálp við tölvuna. Þessi námstími var oft annasamur og var Soffía, auk námsins, með tvær litlar skólastúlkur sem þurftu að sjálfsögðu sinn tíma. En hún átti sinn einstaka eiginmann, Sverri Bergmann, sem stóð með henni í blíðu og stríðu í öllum þeim verkefnum sem hún tók sér fyrir hendur. Mörg kvöld var kallað á okkur í mat í Garðabæinn þar sem Sverrir, aðalmaðurinn hennar Soffíu, reiddi fram sínar dýrindis krásir með gleði, gítarspili og söng í ábæti.
Við Soffía skrifuðum saman lokaverkefni fyrir B.Ed.- gráðuna þar sem við fjölluðum um barnabækur í námi og útskrifuðumst sem grunnskólakennarar í júní 1997, með glæsibrag. Þetta var góður tími sem aldrei gleymist.
Svo tók alvaran við. Báðar fórum við í kennslu í sitthvorum grunnskólanum en fundum okkur alltaf tíma til að hittast og rækta vináttuna og símtölin okkar voru mörg og oft löng. Seinna kenndum við Soffía saman, í nokkra mánuði og var sá tími okkur báðum dýrmætur. Við náðum að spinna saman fjölbreyttar kennsluleiðir og fórum oft á flug í draumum okkar þar sem við fléttuðum saman reynslunni sem leikskóla- og grunnskólakennarar.
Soffía var einstök manneskja. Hún var gáfum gæddur, listhneigður söngfugl sem vann verk sín af glaðværð, kostgæfni, alúð og nákvæmni. Soffía var björt og hlý eins og sólin, stráði sólargeislum allt í kringum sig með glæsileik og gleði, kveikti líf með sínu bjarta brosi og syngjandi sveiflu. Hún birtist ávallt sem ferskur blær að vori og fagnaði manni af áhuga.. Soffíu tókst alltaf að klæða hversdagsleikann í litríkan búning og hreif mann með sér í ákafa sínum, glæsileika og einlægni. Hún gladdi með söng og óvæntum uppákomum og oftar en ekki sameinuðust Soffía og Sverrir í að breyta stuttri heimsókn okkar í menningarstund þar sem öllu var tjaldað til. Það er ekkert betra til á jörðu en að eiga samvistir og samtal með vinum sem gera lífið dýrmætara og fegurra. Soffía umvafði vini sína og fjölskyldu, hún var vinur bæði í gleði og sorg.
Það er ekki hægt að minnast Soffíu án þess að nefna mikilvægasta hlutverk hennar því kærleiksríkari móður er vart hægt að finna. Þrátt fyrir annasöm verkefni og krefjandi störf, var hún alltaf með hugann við stúlkurnar sínar og heimili. Veitti endalausa hvatningu, birtu og gleði inn í líf þeirra. Berglind og Hanna Soffía eiga eftir að bera minningu um einstaka móður sem gaf þeim ást sína ómælda.
Í janúar síðast liðinn, áttum við, ég og Rikki, góða stund með Soffíu og Sverri á fallega heimilinu þeirra. Þá óraði okkur ekki fyrir því að þetta yrði síðasta samverustundin með henni. Nokkrum vikum seinna hófst erfitt veikindastríð Soffíu. Þetta minnisstæða kvöld ræddum við Soffía um að með hækkandi sól og þegar krían okkar kæmi fljúgandi, úr ferðinni löngu, yfir öll heimsins höf þá myndum við færa samverustundir okkar út undir bert loft og njóta. Við ætluðum endalaust að hlúa að vináttu okkar, en nú er komið að kveðjustund.
Soffíu vinkonu mína kveð ég með virðingu og þakklæti. Samleið mín með henni var mér mjög dýrmæt. Vinátta okkar var einstök, hún var mér lífsnauðsyn og ég get bara ekki hugsað þá hugsun til enda hvernig hægt verður að halda áfram án hennar. Soffía studdi mig með ráðum og dáðum í verkefnum lífsins alla tíð og er ég þakklát fyrir það. Hún gladdist af öllu hjarta þegar Elín Hanna okkar fæddist, hún barðist með okkur í þeim veikindum og slysum sem við hjónin höfum þurft að reyna, hún hvatti mig til dáða í námi, starfi og leik. Þegar ég missti systur mína fyrir rúmum 18 árum þá stóð Soffía eins og klettur við hlið mér í sorginni og studdi mig eins og systir. Þær voru svo ótrúlega líkar á margan hátt, Soffía og Hanna Sigga systir mín, báðar svo lífsglaðar, hláturmildar, hugmyndaríkar, söngelskar heimskonur. Ég veit að systir mín tekur hlýjum örmum á móti Soffíu og saman syngja þær um sólina, vorið og fallegu stúlkurnar sínar.
Kvöldið áður en Soffía okkar dó þá vorum við Rikki stödd út í sveit. Sátum með góðum vinum við lítinn varðeld og sungum. Ljóðið Alparós/Edelweiss birtist í söngbók sem ég fékk í hendur og mér fannst mjög sérstakt að það skyldi birtast á þessu kvöldi því lag og ljóð minnir alltaf á Soffíu mína. Það minnti líka á að hún, Sverrir og yndislegu dætur þeirra spiluðu og sungu Edelweiss fyrir okkur Rikka á brúðkaupsdaginn fyrir 19 árum. Eftir á erum við viss um að Soffía var að kveðja okkur á þessari stundu.
Foreldrar mínir í Stykkishólmi, Gréta og Einar, senda Sverri, Berglindi og Hönnu Soffíu sínar innilegu samúðarkveðjur. Þau þakka fyrir yndisleg heimboð og góða daga þegar Soffía og Sverrir heimsóttu okkur í Flatey. Einnig þakka þau allan söng og gleði sem hafa fylgt vináttunni við þau.
Ég, Rikki og Elín Hanna, munum minnast Soffíu sem einstakrar vinkonu um ókomna ævidaga. Við viljum votta Sverri og dætrunum, Berglindi og Hönnu Soffíu, okkar dýpstu samúð. Guð veri með ykkur og styrki í sorginni. Minning Soffíu er ljós í lífi okkar allra.

Alparós, alparós,
árgeislar blóm þitt lauga.
Hrein og skær,
hvít sem sem snær
hlærðu sindrandi auga.
Blómið mitt blítt
ó, þú blómgist frítt,
blómgist alla daga.
Alparós, alparós,
aldrei ljúkist þín saga.
(Texti: Baldur Pálmason)

Þakka þér elsku besta vinkona mín fyrir allt og allt, aldrei gleymist þín saga.



Elfa Dögg Einarsdóttir.