Snæbjörn Hörgsnes Kristjánsson fæddist í Reykjavík 23. júlí 1939. Hann lést á heimili sínu 16. mars 2016.
Hann var sonur hjónanna Kristjáns Guðmundar Sigurmundssonar forstjóra, f. 3. september 1905, d. 17. október 1997, og Guðnýjar Jóhannsdóttur húsmóður, f. 15. júní 1916, d. 17. mars 1993. Snæbjörn lætur eftir sig tvö börn, þrjú barnabörn og tvö barnabarnabörn. Eftirlifandi eiginkona Snæbjörns er Hulda Ingibjörg Scheving Kristinsdóttir, fædd í Reykjavík 15. nóvember 1940. Hún er dóttir hjónanna Sigurlínu Scheving Hallgrímsdóttur húsmóður, f. 7. apríl 1911, d. 18. júní 1976, og Kristins Maríusar Þorkelssonar bifreiðarstjóra, f. 17. ágúst 1904, d. 10. mars 1980. Börn Snæbjörns og Huldu eru: 1) Guðný Kristín, f. 7. júlí 1963, sonur hennar er Þórður Kristján, og 2) Kristján Guðmundur, f. 18. júlí 1968, dætur hans eru Kristjana Ósk og Snædís Yrja. Fyrir hjónaband átti Hulda Ellert Sigurð Markússon, f. 1. desember 1960, kvæntur Rósu Ólafsdóttur, f. 26. apríl 1963 og eru dætur þeirra Guðrún Björg og Anna Karen. Snæbjörn lætur eftir sig einn albróður, Smára Arnfjörð Kristjánsson, f. 26. maí 1946, og tvo hálfbræður, Grétar Svan, f. 17. júní 1938, og Kristján Steinar, f. 26. mars 1937.
Snæbjörn ólst upp í Vesturbæ Reykjavíkur og gekk í Melaskóla og síðar Núp í Dýrafirði árin 1952-1954, eftir það lá leiðin til Bretlands í skóla. Eftir heimkomu frá Bretlandi fór hann í Verslunarskóla Íslands þaðan sem hann lauk verslunarprófi. Snæbjörn starfaði megnið af sinni starfsævi við eigin verslunarrekstur, Laugarneskjör við Laugarnesveg og Myndberg sf. í Nethyl sem margir kannast við. Snæbjörn var þekktur laxveiðimaður. Kristján faðir hans var um tíma leigutaki Laxár í Leirársveit, Svartár í Svartárdal og Laxár í Dölum og endurleigði hann þær útlendingum. Þar voru Snæbjörn og Smári bróðir hans öll sumur að leiðbeina útlendingum við laxveiði.
Snæbjörn var jarðsettur 13. maí 2016 í Fossvogskirkjugarði. Útförin fór fram 7. apríl 2016 frá Neskirkju.
Snæbjörn fyrrverandi mágur minn er horfin af sjónarsviðinu. Hann hefði
orðið 77 ára í dag og því tilefni til að minnast hann á þessum degi.
Hljóðlega lagði hann upp í þá ferð sem bíður okkar allra án þess hann eða
nokkuð annað gæfi það til kynna að hann væri á förum. Eftir standa hans
nánustu, eiginkona, börn, barnabörn og bróðir og velta fyrir sér hve hve
dauðinn er oft í hróplegu ósamræmi við lífið sjálft.
Snæbjörn Kristjánsson var ekki maður þess gerðar sem læðist um og hverfur á
brott hljóðlega. Þvert á móti var ævinlega líf og fjör þar sem hann fór um
og það fór ekki fram hjá neinum að að Snæbjörn væri í nánd. Lífsgleði hans
og kátína smitaði alla sem á vegi hans urðu frá fyrsta degi og allar götur
til enda.
Ég kynntist Snæja eins og við kölluðum hann fyrir nærri hálfri öld eftir
að hafa bundið trúss mitt við yngri bróður hans Smára. Ég kunni strax vel
við Snæja létta lund hans og áhyggjuleysi af amstri hversdagsins. Hann var
atorkumikill og hafði gaman af að tala og það fylgdi honum ferskur gustur.
Hann var snillingur í því sem hann tók sér fyrir hendur einkum því sem hann
hafði gaman af að fást við. Fáir áttu roð í hann við þegar kom að laxveiði.
Það var í blóði hans og uppeldi hæfnin og þekkingin á hegðun laxins. Eins
tamt og það er okkur öllum að takast á við hversdaginn, fyrir Snæja að
renna fyrir lax og landa.
Smári yngri bróðurinn gaf þeim eldri lítt eftir og þeir bræður öttu kappi
hvor við annan sem og aðra, enda ólíkir veiðimenn, en frábærir hvor á sinn
hátt.
Kunnáttuna öðluðust þeir frá föður þeirra Kristjáni Sigurmundssyni sem
kenndur var við fyrirtæki sitt. Kristján átti að baki farsæla og langa sögu
að baki við allar helstu veiðiár landsins þegar hann lést á háaldraður árið
1996. Hann var þá þegar orðin goðsögn í huga þeirra sem þekktu til og af
honum voru sagðar kynngimagnaðar sögur.
Snæi hóf ungur að fylgja föður sínum í veiði og nam af reynslu hans allt
frá barnsaldri. Síðar fór sá yngri að fylgja með og drukku þeir bræður í
sig þekkingu hans á hegðun laxins, göngu stofnsins í árnar, hegðun laxins
við ólíkar aðstæður og allt hans og atferli. Það varð skjótt ljóst að
laxveiðigenin höfðu erfst frá föður til sona.
Kristján þekkti árnar eins og fingur sínar. Hann vissi hvenær var best að
beita flugu og hvenær maðki. Hann vissi upp á hár hvar laxinn lá og hvernig
hann gekk upp árnar. Hann hafði ofursjón þegar kom að því að rýna ofan í
djúpið og það nægði honum að ganga spölkorn upp með á til að átta sig á hve
mikill fiskur var í henni. Á um tuttugu til þrjátíu ára tímabili 1965 - til
1985 var þrenningin Crystalfeðgarnir öllum samtíðarmönnum þeirra og
áhugamönnum um laxveiði vel kunn.
Kristján var umfangsmikill leigutaki bestu veiðiáa landsins og á hans vegum
komu í áraraðir heimskunnir auðjöfrar oftar en ekki á einkaþotum og slökuðu
á við veiðar við íslenskri náttúru. Snæi og síðar Smári voru leiðsögumenn
þeirra við árnar en útlendingar veiddu aðeins á flugu og það var þeim ekki
keppikefli að landa sem flestum enda gátu þeir ekki tekið með sér
veiðina.
Snæi varð skjótt vel þekktur og þeir sem höfðu brennandi áhuga á laxveiðum
sóttu í að vera með honum og þeim feðgum við veiðar og læra kúnstirnar. Það
vissi það hver laxveiðimaður að ef Snæi kom fisklaus heim úr einhverri
ánni, væri ekki bein að hafa úr þeirri á. Hann var gríðarlega sterkur
veiðimaður góður félagi og vinur sem aldrei brá skapi en hélt upp i
húmornum og glettni hans og gleði voru bráðsmitandi.
Flest sumur á hátindi lífsins eyddi Snæi við laxveiði en hans aðalstarf var
kaupmennska og síðar útgáfa og auglýsingasöfnun í blöð og tímarit um
laxveiði. Þar var hann umfangsmikill og góða skapið og lífsgleðin var honum
drjúg við það verk. Hann var aufúsgestur þar sem hann bar niður við að afla
auglýsinga og ekki síst fyrir góðar móttökur var það honum létt.
Síðust árin var Snæi sestur á helgan stein með með eiginkonu sinni Huldu og
lét ekki eins mikið að sér kveða. Hann lifði þó l lífinu áfram af gleði og
eins og fyrrum voru samvistir við annað fólk hans gleði og ánægja. Þeir
bræður sem svo lengi höfðu staðið hlið við hlið við laxveiðiár landsins
áttu með aldrinum orðið tíðari samskipti.
Smári sem nálgast sjöunda tuginn hafði ákveðið að bjóða bróður sínum með í
siglingu í tilefni þess. Það var mikil tilhlökkun í Snæja að eiga
skemmtilega ferð í vændum, en mennirnir áætla en almættið ræður og tók við
taumunum og stýrði Snæja í þá ferð sem bíður okkar allra og enginn kemst
hjá að fara í. Það var enginn fyrirboði, tíminn var kominn og undan því
varð ekki vikist. Snæi færi einn í þá ferð.
Lífið kemur manni stöðugt á óvart og það er ekki fyrr en maður sest niður
og hugsar til baka að maður áttar sig á fyrirboðunum sem við stundum finnum
en sjáum ekki í amstri dagsins. Aðeins hálfum sólarhring áður en Snæbjörn
hélt í sína hinstu ferð, ráðgerði Hulda að fara með dóttur þeirra beggja,
Guðnýju vestur á Snæfellsnes. Snæbjörn vissi af því og þær reiknuðu með af
fenginni reynslu að hann vildi frekar nota tímann í annað. Þær ætluðu einar
og koma aftur síðdegis.
En þennan dag sagðist Snæbjörn óvænt að hann væri að hugsa um að koma með
þeim. Þær voru hálf hvumsa við og spurðu hvað hefði komið yfir hann að
nenna skrölta með þeim vestur á Snæfellsnes. Hann var fastur fyrir og
sagðist bara hafa gaman af því, þeim til undrunar.
Og Snæbjörn fór í sína hinstu ferð um landið sem fóstraði hann og naut þess
mjög að virða fyrir sér náttúruna og hafði orð á því. Síðustu kornin voru
að renna niður úr stundaglasi Snæbjörns án þess að þau þrjú hefðu hugmynd
um. Almættið gefur og tekur án þess að við fáum við neitt ráðið. Minninguna
eiga þær mæðgur, þakklátar fyrir dásamlegan dag sem þær vissu sólahringi
síðar að var ekkert venjulegur.
Þær ylja sér við minninguna um gleðina sem þær nutu svo óvænt með þeim
manni sem skipti þær svo miklu og hafði fylgt þeim svo lengi. Snæbjörn
settist niður og horfði sólarlagið í hinsta sinn á meðan hann beið
kaffibolla og stóð ekki upp aftur. Það var ekki í neinum takti við líf mágs
míns og tilveru að kveðja á þann hátt. Það vita allir þeir sem þekktu
Snæbjörn Kristjánsson. Það segir okkur aðeins að við vitum ekkert hvað,
hvenær eða hvernig líf okkar og framtíð fer með okkur eða skilar okkur til
baka út í eilífðina. Sem betur fer. Blessuð sé minning hans. Hann var
drengur góður.
Huldu, Guðnýju, Kristjáni, mökum og barnabörnum og Smára bróður hans
samhryggist ég innilega.
Bergljót Davíðsdóttir.