Magnús Ólafsson fæddist í Reykjavík 8. febrúar 1943. Hann lést 24. júlí 2016.Hann var einkabarn hjónanna Ingibjargar Magnúsdóttur, f. 5. september 1915, d. 12. ágúst 1977, og Ólafs Kristmannssonar, f. 27. janúar 1915, d. 12.maí 2000.

Magnús giftist árið 1964 Laufeyju Jörgensdóttur, f. 27. mars 1942, og eignuðust þau tvö börn: 1) Ingibjörgu, f. 22. október 1964, gift Þorsteini Andréssyni. Ingibjörg á með fyrrum sambýlismanni sínum, Hafliða Halldórssyni, börnin a) Magnús Hrafn, b) Hafþór, í sambúð með Auði Jónsdóttur en sonur hennar og fyrrum sambýlismanns er Daníel Darri, og c) Hafrúnu, í sambúð með Þrándi Gíslasyni Roth og eiga þau soninn Þorberg. 2) Jörgen Hrafn Magnússon, f. 1. mars 1970, giftur Hjördísi Ólöfu Jóhannsdóttur og eiga þau börnin Jóhann Ólaf og Laufeyju. Magnús og Laufey slitu samvistir.
Magnús var í sambúð með Jóhönnu Harðardóttur, f. 6. apríl 1948, frá 1991 og á hún börn úr fyrra hjónabandi sem Magnús gekk í föðurstað: 1) Thomas Már Gregers, f. 16. janúar 1977, í sambúð með Áslaugu Ínu Kristinsdóttur og eiga þau börnin Ínu Kolbrúnu og Dagbjörtu Laufeyju. 2) Christinu Gregers, f. 14. október 1979, í sambúð með Sigurði Arnljótssyni. Christina á með fyrrum sambýlismanni sínum, Oddgeiri Harðarsyni, börnin Tristan og Marinó. Magnús og Jóhanna slitu samvistir.
Eftir grunnskóla fór Magnús í Verslunarskóla Íslands. Að honum loknum stundaði hann nám í viðskiptafræði við Háskóla Íslands og útskrifaðist þaðan sem viðskiptafræðingur. Með skóla vann Magnús á sjó og hjá Hval hf. þar sem hann vann allt þar til hann útskrifaðist úr háskólanum, fyrst á plani og svo á skrifstofu. Árið 1970 réð Pálmi Jónsson í Hagkaup hann til sín og vann hann að uppbyggingu fyrirtækisins, lengst af sem framkvæmdastjóri. Magnús starfaði fyrir Hagkaup, síðar Baug, í rúm 30 ár. Frá 2004 starfaði hann sjálfstætt við bókhald og ráðgjöf. Magnús var virkur í störfum fyrir íþróttahreyfinguna og var viðloðandi körfuknattleiksdeild KR nánast frá upphafi (1956) og sat í stjórn körfuknattleiksdeildar KR frá 1993 til ársins 2007, eða samfleytt í 14 ár og hafa fáir setið jafnlengi. Hann gegndi lengst af starfi gjaldkera og var enn fremur lengi í kvennaráði deildarinnar. Magnús var sæmdur gullmerki félagsins árið 2004 fyrir störf sín fyrir deildina. Hann var stofnfélagi þegar Júdófélag Reykjavíkur var stofnað árið 1965 og formaður þess frá 2000 til 2015. Magnús var varamaður í fyrstu stjórn Júdósambands Íslands (JSÍ) 1973 og sat í stjórn þess meira og minna frá 1989, fyrst sem endurskoðandi og meðstjórnandi, síðar gjaldkeri til fjölda ára eða þar til hann var kosinn formaður JSÍ árið 2002. Var hann formaður þess í 11 ár eða til ársins 2013. Hann var gerður að heiðursformanni JSÍ 2013. Hann var sæmdur heiðurskrossi ÍSÍ og gullmerki JSÍ árið 2013 fyrir ómetanlegt starf í þágu íþrótta á Íslandi.
Útför Magnúsar fer fram frá Bústaðakirkju í dag, 2. ágúst 2016, klukkan 13.

Pabbi ólst upp á Holtsgötunni í sannkölluðu fjölskylduhúsi þar sem bjuggu saman, foreldrar hans á neðstu hæðinni, afi hans og amma í föðurætt á miðhæðinni og föðurbróðir hans á efstu hæðinni. Þar sem íbúðin hjá foreldrum hans var mjög lítil var hann með herbergi hjá afa sínum og ömmu og veit ég að þau voru honum mjög kær.

Hann var einbirni og átti mjög náið samband við foreldra sína enda byggði afi bara hæð ofan á húsið okkar í Básenda 10 þegar amma dó 1977 og bjó hjá okkur allt þar til hann flutti í þjónustuíbúð á Grandavegi.

Þó að ég muni ekki mikið eftir ömmu Ingibjörgu virðast þær minningar sem ég á allar tengjast mat og enn þann dag í dag eru hakkabollur með kartöflustöppu og spældu eggi í miklu uppáhaldi hjá mér en ég man vel eftir okkur feðgum við litla borðið á Holtsgötunni í slíkri veislu.  Pabbi sagði mér oft söguna af því að þegar amma dó sumarið 1977 og mér voru færðar fréttirnar að ég hafi setið þögull í dágóða stund en sagt svo  hátt og snjallt en hvar á ég þá að borða um jólin?

Sama ár og ég fæddist hóf pabbi störf hjá Pálma í Hagkaup sem réði hann nánast beint úr háskólanum eftir að kennari þar hafði bent honum á pabba þegar Pálmi var að leita að manni með sér í verkefnin sem framundan voru.

Árin 1970 til 1990 voru ævintýri líkust og ekki mörg fyrirtæki á Íslandi sem uxu jafn hratt og Hagkaup gerði á þessum árum. Fyrsta verkefnið var að opna verslunina í Skeifunni sem var bylting í verslun á Íslandi og svo komu verslanirnar hver á fætur annarri

Pabbi vann alltaf langan vinnudag enda í mörg horn að líta en ég held samt að honum hafi aldrei leiðst í vinnunni enda mikið af úrvalsfólki sem vann með honum á þessum tíma. Það var alltaf verið að brjóta niður múra og höft sem voru í gangi í íslensku verslunarumhverfi á þessum árum. Breytingar sem urðu á þessum árum eru mjög margar til komnar vegna þess að þeir gengu eins langt og þeir gátu og stundum aðeins lengra.

Sambandið milli pabba og Pálma var mjög sérstakt og bar hann mikla virðingu fyrir honum þó hann hafi stundum ekki alveg skilið allt sem hann gerði. Má þar nefna þegar Pálmi keypti fyrsta skammtinn af kínaskónum, það þarf ekkert að fara nánar út í hvernig það gekk enda held ég að hvert einasta mannsbarn á Íslandi hafi átt hið minnsta eitt par.

Í minningunni finnst mér ég nánast hafa alist upp í Skeifunni en ég fór með pabba í vinnuna um helgar og á kvöldin en einnig á daginn, starfsfólki þar til lítillar gleði þar sem ég gat verið mjög líflegur svo vægt sé til orða tekið. Margar sögur eru til af prakkarastrikum mínum og gekk það svo langt að það var farið að kalla í kallkerfið aðvaranir til starfsmanna ef ég var tekinn með í vinnuna.

Við systkinin byrjuðum snemma að vinna í Hagkaup og unnum þar með skóla öll unglingsárin og svo síðar í fullri vinnu. Ekki hefði mig þá órað fyrir því að ég ætti eftir að vinna við verslun og rekstur tengdan þeim enn þann dag í dag en það segir kannski eitthvað um áhrifin sem pabbi og hans starf hafði á mig.

Frá því að ég var krakki var pabbi tengdur íþróttum. Hann var einn af stofnfélögunum í Júdófélagi Reykjavíkur þar sem hann sjálfur æfði og sat síðan í stjórn í fjöldamörg ár. Þar eignaðist hann vini og félaga fyrir lífstíð. Hann var mikill KR-ingur og var tengdur körfuknattleiksdeildinni þar frá unga aldri og sat svo síðar í stjórn . Pabbi fór á fótboltaleiki með KR og gekk með þeim í gegnum súrt og sætt en á mínum uppvaxtarárum var ekki mikið um titla í vesturbænum og ég sem er alinn upp í smáíbúðarhverfinu og að sjálfsögðu Víkingur minnti hann ekki sjaldan á það og var það eitthvað sem hann og afi áttu ekki gott með að kyngja. Það sama er að segja um enska boltann en þeir feðgar voru Manchester United menn en ég Liverpool maður. Það var oft gaman að sitja uppi hjá afa með pabba í Básendanum og gera grín að gengi þeirra. En segja má að ég hafi fengið þetta allverulega í bakið og þótti pabba ekki leiðinlegt að svara skotunum þegar KR vaknaði til lífsins í fótboltanum, svo ekki sé talað um rauðu djöflana.

En þrátt fyrir að vera glerharður KR- ingur mætti hann á nánast alla leiki hjá mér í handboltanum, studdi með ráðum og dáðum og kepptum við nánast upp alla flokka í nýjum treyjum með Hagkaupsauglýsingu á brjóstinu. Einnig var hann liðsstjóri hjá okkur í nokkur ár og voru leikskýrslurnar sem hann fyllti út alveg kostulegar því hann gat aldrei munað fornöfn leikmanna en númer og föðurnöfn mundi hann . Við feðgar spiluðum í allmörg ár saman körfubolta en hann var í nokkrum hópum í körfu í gegnum tíðina. Var sá gamli merkilega lunkinn og þurfti maður stundum að minna sig á að maður var að spila við tæplega sjötugan mann.

Pabbi hafði mjög gaman af því að veiða og gilti þá einu hvort það var á sjó, í vatni eða í á.

Hann kenndi mér að kasta í vatninu uppi í bústað. Síðar fórum við á Þingvelli og í Hvalvatn á bátnum og áttum við mörg ævintýrin þar. Minnisstætt er þegar hann veiddi mink á Þingvallavatni, náði honum með árinni og ég á utanborðsmótornum.

Þar sem pabbi átti ekki gott með að vera kyrr lengi var hann ekki lengi að kynna sér vötn  og  ár í Vopnafirði þaðan sem móðir mín er og með árunum varð hann líklegast sá sem best þekkti svæðin uppá fjöllum og fór ófáa túrana.

Einhver besta ferð sem við feðgar fórum saman í er líklega ferðin okkar tveggja austur á Vopnafjörð. Við gistum á Bökkum og fórum á fjöll með Sverri frænda og veiddum. Einnig er minnisstætt kvöldið sem móðurafi minn og nafni kom í mat til okkar, við gáfum honum öl á eftir og var setið langt fram eftir og afi sagði sögur frá gamalli tíð

Einn daginn var mikil þoka eins og vill gerast á Vopnafirði og við gátum ekkert gert. Þar sem pabbi átti ekki gott með að gera ekkert var ákveðið að hringja í hana Hólmfríði í Laxá við Mývatn og athuga hvort mögulega væri laus stöng eða stangir þann daginn, viti menn, laus stöng og við rukum norður og áttum frábæran hálfan dag í ótrúlegu umhverfi og lönduðum að mig minnir sitthvorum tveimur.

Eftir að ég varð fullorðinn fórum við í 2 fasta veiðitúra á hverju ári. Í Veiðivötn,  fyrst með hópi tengdum Hagkaup, síðar með félögum mínum og svo varð til feðgaferð sem fór árlega  alveg þangað til að hann treysti sér ekki með okkur lengur fyrir tveimur árum.

Seinni ferðin var með veiðifélaginu Conráð sem er félagsskapur stofnaður um haustveiðar  í Stóru-Laxá í Hreppum og var farið á svæði 4, upphaflega af því að það var eina svæðið sem ungir menn sem voru að koma undir sig fótunum höfðu efni á.

Pabbi var langelstur í þessum hópi en var samt einn af félögunum og áttum við þar frábærar stundir. Eftir að hann hætti að treysta sér til veiða var hann gerður að heiðursfélaga í veiðifélaginu Conráð og verður í haust skálað á bakkanum honum til heiðurs.

Pabbi var sérstakur veiðimaður á margan hátt. Honum leiddist magnveiði og var ég alltaf jafn hissa þegar hann stakk upp á að fara eitthvað annað þegar maður var í mokveiði. Hann vildi gjarnan veiða á stöðum þar sem ekki nokkrum manni datt í hug að dýfa færinu og setti labb ekkert fyrir sig. Þetta hefur kennt mér heilmargt en jafnframt orðið til þess að við vorum kallaðir Urriðagengið í Stóru- Laxá. Það kom fyrir að við vorum með flesta fiskana, bara ekki af réttri tegund. Seinna festist við okkur nafnið Gullmolagengið út af bílnum hans en bílasmekkur hans var alveg sérstakur kafli sem ekki verður tíundaður hér.

Á meðan mátti veiða á maðk og spún í ám var skiptingin á milli okkar feðga þannig að spúninn áttum við sameiginlegan, ég sá um fluguna og hann um maðkinn og hafði hann líklega mest gaman af því að veiða á maðk. Veiddi hann oftast á maðkinn þannig að hann var með sökkuna í stuttum veikum taum á þreföldum segulnagla og maðkinn á löngum sterkum taum þannig að ef sakkan festist þá var kippt hressilega í og þá fór bara sakkan. Einhver minnisstæðasti lax sem ég sá hann taka var á Pallinum í Stóru-Laxá.  Við vorum rétt búnir að reyna við laxa sem lágu undir berginu en það gekk illa að koma flugunni á réttan stað. Hann sýndi mér mikla þolinmæði á meðan ég reyndi allar mögulegar kúnstir við að koma flugunni á réttan stað en að lokum gafst ég upp og hann mætir með maðkinn. Kastar einu kasti í bergið, festir sökkuna í sprungu í berginu þannig að maðkurinn leggst fullkomlega fyrir laxana sem réðust á maðkinn. Kippt hressilega í, sakkan slitin af og 10 punda laxi landað.

Pabbi veiktist fyrir tveimur  árum, fékk fyrir hjartað og þurfti að fara í stóra aðgerð sem segja má að hann hafi aldrei náð að jafna sig á. Fór kannski ekki nógu vel með sig og að lokum gaf hjartað sig. Eftir sitjum við sorgmædd en höfum endalausan brunn minninga sem við munum ylja okkur við um ókomin ár.

Hvíl í friði.


Jörgen Hrafn (Daddi).