Atli Viðar Kristinsson fæddist í Reykjavík 7. febrúar 1962. Hann lést á líknardeildinni í Kópavogi 23. júlí 2016.
Foreldrar Atla Viðars eru Kristinn Sigurðsson, f. 1931, og Erna Gunnardóttir, f. 1938. Systkini hans eru Agnar Logi, f. 1957, faðir Axel Eyjólfur Albertsson, f. 1933, d. 2008, Jóna Kristjana, f. 1959, Sigurður, f. 1961, og Óskar, f. 1963.
Eftirlifandi eiginkona Atla Viðars er Ellý Skúladóttir frá Þórshöfn á Langanesi, f. 1968. Foreldrar hennar eru Skúli Friðriksson, f. 1925, d. 1996, og Bára Sigfúsdóttir, f. 1940. Atli Viðar og Ellý eignuðust tvö börn: 1) Viðar Örn, f. 1989. Sonur hans og Auðar Aspar Magnúsdóttur, f. 1990, er Anton Elías, f. 2009. Viðar Örn er kvæntur Þórunni Jónsdóttur, f. 1989. Dóttir þeirra er Dagbjört Anna, f. 2014. 2) Bára, f. 1993.
Atli Viðar lærði bifvélavirkjun í Iðnskólanum í Reykjavík og lauk meistaraprófi í greininni 1987. Hann starfaði um tíma sem bifvélavirki á Þórshöfn á Langanesi og síðar í Stykkishólmi en starfaði þó lengst af hjá Bifreiðum & landbúnaðarvélum þar sem hann sinnti verkefnum á verkstæði, í tölvudeild og síðast sem ábyrgðarstjóri. Atli Viðar sat í stjórn Brúar, félags stjórnenda, í seinni tíð, nú síðast sem varaformaður.
Útförin hefur farið fram í kyrrþey að ósk hins látna.

Jæja þá ertu farinn yfir í Sumarlandið góða eins og þú kallaðir það Atli minn eftir erfiða baráttu við þennan illvíga sjúkdóm, krabbameinið. Ég hef aldrei vitað um neinn nema þig Atli minn hvernig þú tókst fréttunum um að þú værir kominn með krabbamein fyrir ca. 7 árum. Það var auðvitað áfall fyrir þig að að fá þessar fréttir þegar þú varst rétt 47 ára gamall, en þú ákvaðst að taka þessu sem hverju öðru verkefni sem þú fékkst með bros á vör, en það var þitt aðalsmerki alltaf brosandi og hlæjandi. Dugnaðurinn í þér hvernig þú mættir í vinnu næstum alla daga þegar að þú varst búinn að fara í krabbameinsmeðferð, þó svo að þér hefði verið ráðlagt að gera það ekki. Þú Atli minn áttir alltaf erfitt með að hlífa þér þó svo að kvöldin og helgarnar væru í staðinn ónýt að hluta.

Mig langar að rifja upp það sem yljar mér um hjartarætur þannig að ég sé dálítið gamaldags í tali, Atli minn. Minningarnar um þig eru orðnar ansi margar og skemmtilegar í gegnum tíðina. Við systkinin vorum öll frekar samheldin og stóðum saman í gegnum allt.  Þú varst og hefur alltaf verið mikill friðarsinni í gegnum tíðina, alltaf að stilla til friðar ef ég og Óskar eða þá Jóna systir vorum að slást með misjöfnum árangri fyrir þig. Eitt skipti sem ég man mjög vel eftir var að ég var eitthvað að tuska Óskar til og þú komst hlaupandi til að stilla til friðar en lentir í því að við brutum stofuljósið á hausnum á þér og auðvitað datt allt í dúnalogn. Þú varst dálítill hrakfallabálkur á þínum yngri árum, alltaf eitthvað að slasa þig. Eitt skiptið þegar ég var að koma með þig heim af slysó eitthvað lítillega slasaðan og við vorum á Bjöllunni minni á leiðinni heim í Hjallalandið ákvað ég að sýna þér hvernig átti að taka handbremsubeygju í hálku, ekki gáfulegt eftir á að hyggja en eitthvað klikkaði og blessaður bíllinn ákvað að faðma ljósastaur, en sem betur fer sluppu allir við meiðsli. Þú varst handlaginn með afbrigðum, bíllinn var dreginn inn í bílskúr og skipt um hluti sem höfðu skemmst og bíllinn kominn út daginn eftir.
Eitt atvik er mér minnisstætt en það var þegar við keyptum fyrir fermingarpeningana okkar hjól en jú við fermdumst saman. Þitt hjól var orðið löngu ónýtt en mitt var glansandi fínt og hreint. Einn daginn þegar ég ætlaði í hjólreiðartúr var hjólið á sínum stað, en drulluskítugt og krambúlerað og þegar ég gekk á þig með málið þóttist þú ekki kannast við neitt. Eftir ca. viku eða svo komst þú svo til mín skælbrosandi út að eyrum og sýndir mér mynd af þér á hjólinu mínu í loftköstum í Öskjuhlíðinni og þú sagðir sjáðu Siggi hvað ég stökk hátt. Elsku besti hvernig var annað hægt en að hlæja með þér, þannig varst þú bara.
Þú ákvaðst að læra bifvélavirkjun, jú þér fannst alltaf gaman að skrúfa hluti sundur og saman aftur og ekki í ófá skipti reddaðir þú stóra bróður þegar eitthvað var að bílunum mínum í gegnum tíðina, alltaf tilbúinn að hjálpa með bros á vör. Ég var og er svo þakklátur hvernig þú hjálpaðir honum Kristni mínum í gegnum bifvélavirkjann. Þar áttum við þig að eins og svo oft áður.
Þegar þú kynntir Ellý fyrir mér og Erlu þá náði brosið þitt næstum allan hringinn svo hamingjusamur sem þú varst með hana Ellý þína. Þið eignuðust hann Viðar Örn og ákváðuð að flytja til heimabæjar Ellýjar, Þórshafnar. Þar fórstu að vinna,  ekki bara við bíla heldur líka við fiskivélar, báta og fl., en það var langt að heimsækja þig, en ég og Erla ákváðum að heimsækja ykkur austur á Þórshöfn um páskaleitið þegar Viðar var rúmlega 1 árs og þegar við komum sáum við hvað þú varst hamingjusamur og leið vel. Eitt sumarið komum við Erla og Kristinn í heimsókn til ykkar og við ætluðum að vera samferða í bæinn, þú stakkst upp á að við færum Hellisheiði eystri heim og báðir vorum við á Lödu Samara og ég var eitthvað að hafa efasemdir um að við færum á þessum bílum upp þessa heiði en þú sagðir, við bara reynum og ef komumst ekki þá er bara að bakka niður og brostir, engar áhyggjur á þeim bæ og auðvitað komumst við yfir blessaða heiðina og heimferðin var frábær með ykkur, tjaldað, grillað og fl. skemmtilegt gert þá. Og eftir að þið fluttuð í bæinn þá kom hún Bára þín í heiminn brosandi eins og pabbinn. Það var mikil gleði og gjöf fyrir þig að hafa eignast tvö barnabörn hann Anton og Dagbjörtu og svo er það þriðja á leiðinni og ég veit að þú munt fá fylgjast með því og okkur öllum þar sem þú ert í Sumarlandinu.

Við ólumst upp við það að fara að veiða með pabba og mömmu og  þolinmæðin þín við veiðarnar var alveg frábær og hvað þú varst fiskinn, það var stundum ekki einu sinni fyndið, það kom ekki oft fyrir að þú kæmir fisklaus heim. Þú ákvaðst að hella þér út í golfið og Ellý fór að stunda golfið með þér, það var tími sem ég veit að var þér mjög kær. Hún Ellý þín er kjarnakona sem stóð og studdi þig eins og klettur í veikindum þínum. Sögurnar af golfferðunum ykkar, hvernig ykkur gekk í þessum ferðum voru oft á tíðum sagðar eftir hverja ferð. Það var ekki bara golfið sem heillaði þig, það var að vera úti. Þú varst mikið fyrir göngur,  fórst nokkrar ferðir á Esjuna, reyndir í þó nokkur skipti að fá mig með, en þar var nennan ekki hjá mér því miður, en það mun koma að ég mun ganga upp á Esjuna þó að seinna verði og þá veit ég að þú verður mér samferða í anda litli bróðir.

Seinustu mánuðina sem sem þú varst á lífi fórst þú að ræða meira og meira við mig um andleg mál, hvernig það væri þarna hinum megin, hverjir tækju á móti okkur þegar við færum á næsta tilverustig. Þú varst búinn að lesa Sumarlandið og vitnaðir í það ótt og títt og varst alveg rasandi að ég sem starfaði í andlegum málum væri ekki búinn að  lesa hana, en bara svo það sé á tæru þá er ég byrjaður á henni eins og þú veist. Þú fórst í að kryfja bókina af hverju væri þetta svona en ekki öðruvísi en það sem ég gat sagt var það sem mér fannst, óháð öðrum. En við vorum báðir sammála um að þegar þú færir þá myndu verkirnir og veikindin hverfa með öllu og ný tilvera tæki við.
Elsku Atli minn ég þakka þér fyrir öll þessu dásamlegu ár sem ég átti með þér,  þau munu aldrei gleymast. Allar þessar minningar sem þú gafst mér eru ómetanlegar og ég mun bera og varðveita að eilífu og eins og þú sagðir sjálfur daginn áður en þú kvaddir þennan heim. Ekki vera sorgmæddur við munum hittast hinum megin. Með þessum orðum ætla ég að kveðja þig elsku bróðir minn og enn og aftur þakka þér fyrir að hafa fæðst og gefið svo mörgum svo margt og mikið.
Það sem Guð gefur okkur:
Við fæðumst og lifum,
við komum og við förum
til að gleðja okkur og aðra,
til að kenna og læra
að mistök eru til að læra af
vitandi að það er tilgangur með öllu.
(Sigdórus)

Þinn bróðir,

Sigurður Kristinsson.