Jens Albertsson fæddist á Krossi á Berufjarðarströnd 9. janúar 1939. Hann lést á Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað 28. júlí 2016.
Jens var sonur hjónanna Alberts Bergsveinssonar, f. 16.9. 1892, d. 22.5. 1983, og Margrétar Höskuldsdóttur, f. 11.9. 1906, d. 3.2. 1996. Jens var næstyngstur í hópi fimm systkina, þau eru: 1) Högni, f. 4.9. 1928, d. 20.12. 2010, 2) Hjördís Sigríður, f. 13.11. 1931, 3) Agnar Bergsveinn, f. 8.10. 1935, d. 12.10. 1937. 4) Jens, 5) Ari, f. 5.2. 1945.
Jens kvæntist Sigurlaugu Helgadóttur frá Borgarfirði eystri árið 1962. Hún er fædd 27. desember 1941. Foreldrar hennar voru Helgi Jónsson, f. 3.5. 1914, d. 27.8. 1972, og Sveinbjörg Steinsdóttir , f. 5.6. 1919, d. 7.5. 2002. Fyrstu búskaparár sín bjuggu Jens og Sigurlaug á Reyðarfirði, en fluttu til Stöðvarfjarðar árið 1969 og bjuggu þar alla tíð síðan. Synir þeirra eru: 1) Helgi, f. 14.9. 1962. Sambýliskona hans er Lillý Viðarsdóttir, f. 2.2. 1969. Þau eiga saman eina dóttur, Höllu, en áður átti Helgi tvö börn, Högna og Sigurlaugu með þáverandi eiginkonu sinni, Kristínu Albertsdóttur frá Fáskrúðsfirði. Högni á einn son. Lillý átti fyrir Heiðdísi Sigurjónsdóttur. 2) Albert, f. 26.7. 1967. Kona hans er Halldóra Dröfn Hafþórsdóttir, f. 3.5. 1969. Þeirra börn eru Jens, Þór og Hlíf Bryndís.
Á Krossi var stundaður hefðbundinn búskapur, en hugur flestra Krossverja var bundinn veiðiskap ýmsum, einkum því sem sjórinn gaf af sér. Ungur að árum varð Jens þátttakandi í daglegum störfum á bænum og hneigðist hugurinn snemma til sjósóknar. Fór svo að hann hóf nám í Stýrimannaskólanum í Reykjavík árið 1964 og útskrifaðist með skipstjóraréttindi tveimur árum síðar. Meðal báta, sem Jens stundaði sjómennsku á samhliða námi og upp úr því, voru: Gunnar SU frá Reyðarfirði og Sigurður Jónsson SU frá Breiðdalsvík. Árið 1969 tók Jens við skipstjórn á Álftafelli SU 200 (áður Gideon VE), sem gert var út undir nýju nafni frá Stöðvarfirði. Þegar Kambaröst SU 100 kom ný þangað árið 1977 gegndi hann frá upphafi starfi eins af yfirmönnum þar um borð og tók síðan alfarið við skipstjórn u.þ.b. ári síðar. Er störfum hans á Kambaröstinni lauk eftir u.þ.b. tíu ára tímabil, stundaði hann áfram sjómennsku og m.a. í mörg ár við stjórnun stórra úthafsveiðiskipa. Jens lét að mestu af sjómennsku 2006. Hann stundaði þó áfram sjómannsstörf af og til meðan heilsan leyfði og var t.d. skipstjóri á farþegaferjunni Gísla í Papey í fimm sumur, síðast árið 2011.
Útför Jens verður gerð frá Stöðvarfjarðarkirkju í dag, 6. ágúst 2016, klukkan 14. Jarðsett verður í Stöðvarkirkjugarði.
Þetta voru glæstustu ár byggðarlagsins í mörgum skilningi. Allir, sem vettlingi gátu valdið höfðu næga vinnu og íbúum fjölgaði jafnt og þétt. Og skip Hraðfrystihúss Stöðvarfjarðar voru burðarvirkið í því gangverki, sem lífið á staðnum snerist um.
Árin á undan skipstjórnarferli sínum á Kambaröst hafði Jens annast skipstjórn á Álftafellinu, sem keypt hafði verið frá Vestmannaeyjum. Hann hafði góð tök á nótaveiði og þeir voru margir loðnufarmarnir, sem samhent áhöfn þessa litla skips kom með að landi, meðan það var og hét. Hið sama gilti um afrakstur netaveiða á vetrar- og vorvertíð, enda þekkti skipstjórinn vel til fiskimiða.
Þannig hélt lífið áfram og menn uggðu ekki að sér, þótt upp væri að draga kólgu úr suðvestri, er síðar varð versti óvinur margra smærri sjávarbyggða og ber hið óaðlaðandi nafn; Kvótakerfi.
Jens var farsæll skipstjóri og sigldi fleyi sínu, ásamt áhöfn, ætíð heilu í höfn. Sjálfur orðaði hann það svo að það hefði verið sín mesta gæfa að lenda aldrei í neinu alvarlegra við hættustörf áhafna sinna, en minni háttar pústrum, sem hljóta að teljast óhjákvæmilegir, þegar haldið er til hafs í misjöfnum veðrum.
Jens var mikill fjölskyldumaður og fylgdist vel með ættlegg sínum. Seinni árin átti íþróttaiðkun barnabarnanna hug hans allan og fór hann ófáar ferðirnar milli staða til að fylgjast með þeim. Veiðiáhuginn var lengi til staðar og kunni hann vel til verka í þeim efnum. Ég hef engan séð, sem reytt hefur sjófugl af meiri list. Tækni hans byggðist á því að beita saman þumal- og vísifingri á ákveðinn hátt í því skyni að fullhreinsa fuglinn á þann veg að nánast óþarfi var að svíða hann. Þetta gerði hann síðast í kjallaranum hjá sér á liðnu vori og þótt hraðinn væri ekki sá sami dró hugurinn hann hálfa leið, auk þess að til staðar var ætíð góð lyst á vel verkuðu sjávarfangi.
Hann var vel að sér um fornar verkunaraðferðir á fiski og má segja að saman höfum við verið síðustu fiskverkendur í hinum forna hákarlahjalli feðra hans á Krossi, sem þoldi líklega ekki álagið og féll saman skömmu eftir að við höfðum þurrkað þar nokkur spyrðubönd.
Jens hafði alist upp við almenn sveita- og sjávarstörf, en það var sjórinn, sem átti hug hans allan. Til að komast í hóp sjómanna á Krossi varð hann þó að ná ákveðnum aldri og mátti þess í stað taka þátt í að verka aflann framan af, meðan þeir eldri stunduðu sjóinn. Þá varð hann og að taka þátt í að bera þungar byrðar af nauðþurftum upp úr Krossfjöru, sem seinna kom í ljós að áttu líklega sinn þátt í að verða baki hans að ofurliði, þótt mikill væri snemma á velli og enginn aukvisi til átaka.
Stangveiði stundaði Jens nokkuð lengst af í stopulum fríum og gat sagt áhugaverðar sögur af veiðiferðum í Breiðdalsá. Sjálfur fór ég með honum í eina slíka ferð og var þá unun að sjá hann setja í vænan fisk og fá að aðstoða hann við löndum aflans við erfiðar aðstæður.
Saman fórum við í margar veiðiferðir, bæði á rjúpu og annan fugl sem og til stangveiða. Áttum við nokkrum sinnum saman dýrðardaga á Hofi í Álftafirði og nutum þar samverunnar. Hið sama gilti seinustu árin, þegar við fórum í styttri ökuferðir um Stöðvarfjörð og nágrenni, en þá var hann undir það síðasta verulega farinn að kröftum. Þá naut hann sín samt vel og lýsti ætíð í ferðalok ánægju með ferðina og farandkaffið, sem við urðum okkur gjarnan úti um í upphafi ferða. Ég mun ætíð fyllast þakklæti fyrir ógleymanlega samverustund í einni af seinustu ökuferðunum okkar í sumarblíðunni fyrir nokkrum vikum, þegar við fórum að ánni Tinnu í Breiðdal og virtum fyrir okkur Stapabreiðuna og aðra veiðilega staði. Þar sagði hann mér fornar veiðisögur og varð aftur líkur þeim áhugasama veiðimanni, sem allir vissu að lengst af hafði búið í honum. Í slíku tveggja manna tali naut hann sín best.
Jens og Sigurlaug hafa alltaf verið góðir grannar og fólkið í kringum þau við götuna Heiðmörk á Stöðvarfirði afskaplega samhent. Þar búa margir af þeirra bestu vinum, sem áttu gjarna við þau dagleg samskipti síðustu árin, þegar hann hafði látið af störfum.
Eftir að í ljós kom sjúkdómurinn, sem varð Jens Albertssyni að aldurtila á mjög skömmum tíma, átti hann nokkra góða daga heima á Stöðvarfirði, þegar útséð var um bata hans á þrautagöngu þeirri, er nú tók við. Sigurlaug annaðist hann með aðstoð sinna nánustu af þeim mikla myndarskap, sem einkennir hennar fólk.
Við sem eftir stöndum viljum gjarnan muna svipmikinn og veðurbarinn mann með sterkt viðmót og líflegt augnaráð, mann, sem gekk ekki með vasahníf - þótt sjómaður væri - mann sem var jafn ófalskur og tennurnar, er hann bar í munni allt frá bernskuárum og teljast eitt af ættarmótum Krossverja, tennur sem dugðu til að naga í sundur veiðigirni og sterkari spotta, já og mann, sem - þrátt fyrir að hann væri ekki allra - gat orðið glettinn og borið fyrir sig kímni, þegar svo bar undir.
Um leið og við hjónin þökkum Jens Albertssyni góða og trausta vináttu og samfylgd, blessum við minningu hans og sendum samúðarkveðjur til allra, er eiga um sárt að binda við fráfall hans.
Björn Hafþór Guðmundsson og Hlíf B. Herbjörnsdóttir.