Jón Guðbrandsson fæddist 18. mars 1929. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi þann 9. ágúst 2016.
Foreldrar hans voru Sigríður Bjarnadóttir, húsmóðir, f. 23.1. 1911, d. 27.1. 2007, og Guðbrandur Jónsson, Landsbókasafnsvörður, f. 30.9. 1888, d. 5.7. 1953. Systur Jóns samfeðra voru Kristín og Ragnheiður, maki Þórður Guðjohnsen. Albræður Jóns eru Bjarni, maki Guðrún Guðlaug Ingvarsdóttir, Logi, maki Kristrún Kristófersdóttir og Ingi, maki Theodóra Hilmarsdóttir.
Jón kvæntist 31. ágúst 1951 Þórunni Einarsdóttur, f. 15.5. 1931. Foreldrar hennar voru Einar Ólafsson, f. 1.5. 1896, bóndi í Lækjarhvammi í Reykjavík, d. 15.7. 1991, og Bertha Ágústa Sveinsdóttir, f. 31.8. 1896, húsmóðir, d. 28.3. 1968. Börn Jóns og Þórunnar eru: 1) Bertha Sigrún, f. 22.5. 1953, maki: Pétur Guðjónsson, f. 24.9. 1958, eiga þau sex börn og níu barnabörn. 2) Sigríður, f. 5.1. 1955, maki: Hjörleifur Þór Ólafsson, f. 13.9. 1955, eiga þau fimm börn og sex barnabörn. 3) Einar, f. 28.1. 1958, maki: Guðfinna Elín Einarsdóttir, f. 14.3. 1963, d. 29.12. 2013. Einar á fjögur börn og þrjú barnabörn. 4) drengur, f. 8.3., d. 9.3. 1960.
5) Ragnhildur, f. 8.3. 1961, maki: Anton Sigurjón Hartmannsson, f. 9.4. 1960, eiga þau þrjú börn og fjögur barnabörn. 6) Guðbrandur, f. 28.2. 1962, maki: Guðrún Edda Haraldsdóttir, f. 29.12. 1962, eiga þau þrjú börn. 7) Ingólfur Rúnar, f. 29.9. 1963, maki: Svanborg Berglind Þráinsdóttir, f. 1.1. 1970, eiga þau sex börn. 8) Sveinn Þórarinn, f. 10.9. 1965, maki: Selma Sigurjónsdóttir, f. 5.11. 1974, eiga þau þrjú börn. 9) Brynhildur, f. 8.7. 1969, maki: Guðjón Kjartansson, f. 27.8. 1964, eiga þau þrjú börn og fjögur barnabörn. 10) Matthildur, f. 11.1. 1976, maki: Hjörtur Bjarki Halldórsson, f. 23.2. 1976, eiga þau fjögur börn.
Jón var fæddur í Finnbogahúsi við Kringlumýrarveg í Reykjavík og ólst hann þar upp til 13 ára aldurs. Eftir það flutti hann að Bjargarstíg 6 með móður sinni, bræðrum, afa og móðurbróður sínum Sverri. Jón varð stúdent frá MR 1950 og lauk háskólaprófi í dýralækningum frá Den Kongelige Veterinær- og Landbohøjskole í Kaupmannahöfn 1957. Hann starfaði sem aðstoðardýralæknir hjá Jakoby Andersen í Bredsten á Jótlandi árið 1957. Þá fluttu Jón og Þórunn heim þar sem hann starfaði sem forstöðumaður rannsóknarstofu Mjólkursamsölunnar í Reykjavík frá 1958 til 1961 og sinnti dýralækningum með störfum sínum þar. Fjölskyldan flutti á Selfoss 1962. Þar tók hann við sem héraðsdýralæknir og gegndi því starfi til 30. nóvember 1999. Jón sat í hreppsnefnd Selfosshrepps eitt kjörtímabil. Einnig sinnti hann trúnaðarstörfum fyrir sveitarfélagið. Jón var formaður Sjálfstæðisfélagsins Óðins á Selfossi í tvö ár og formaður fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Árnessýslu í fjögur ár. Jón var gerður að heiðursfélaga í Óðni 1998. Hann var formaður og ritari Dýralæknafélags Íslands um árabil og varð heiðursfélagi þess 2004. Jón keypti Piper Cub tveggja sæta flugvél í félagi við annan mann, gerði vélina upp og fékk heiðursviðurkenningu fyrir. Hann var stofnfélagi í Flugklúbbi Selfoss og sat í stjórn hans um árabil og var hvatamaður um gerð Selfossflugvallar. Jón gekk í Rotarýklúbb Selfoss 1964 og varð Paul Harris-félagi klúbbsins 2014.
Útför Jóns Guðbrandssonar fer fram frá Selfosskirkju í dag, 17. ágúst 2016, klukkan 13.30.
Í dag verður pabbi minn Jón Guðbrandsson dýralæknir jarðsetur frá
Selfosskirkju. Pabbi var Reykvíkingur þó hann væri alinn upp í sveit.
Hann fæddist í Finnbogahúsi sem stóð við Kringlumýrarveg og árið 1929 var
sá hluti Reykjarvíkur enn sveit. Þar bjuggu afi og amma hans, Bjarni
Sverrisson og Ingibjörg Steinunn Brynjólfsdóttir, með nokkrar kýr og hesta
samhliða því sem Bjarni vann í gasstöðinni. Þarna í kring voru bæir eins og
Berg, Hamrar, Hraun, Helgadalur, Höfn, Hlíðardalur og Fagridalur. Rétt
fyrir austan þessa bæi stóð reisulegur bær sem hét Lækjarhvammur og þar
bjuggu myndar búi Einar Ólafsson og Bertha Ágústa Sveinsdóttir ásamt
dóttur sinni Þórunni. Lækjarhvammur stóð þar sem Lágmúlinn er nú. Fyrir
ofan Lækjarhvamm stóð bærinn Seljaland þar sem gatnamót Ármúla og
Háaleitisbrautar eru í dag. Pabbi átti þarna dásamlega tíma og var
endalaust að segja okkur sem heyra vildu frá þessu svæði sem undirritaður
fékk sjálfur að kynnast. Sögurnar voru þannig að manni fannst maður hafa
verið þáttakandi í þeim og setning sem ég missti út úr mér manstu þegar
við vorum. En þetta gerðist 20 árum áður en ég fæddist þannig að ekki gat
ég munað það þó langminnugur sé. Ekki það að pabbi sagðist alltaf muna það
þegar Zeppelin loftfarið kom 1931 þá í fangi Sigríðar móður sinnar þannig
að þetta gæti verið ættgengt.
Fór hann snemma að venja komu sína í Lækjarhvamm bæði voru það kýrnar og
ekki síst hafði nautið sem var í Lækjarhvammi mikið aðdráttarafl en ekki
voru sæðingarmenn á hverju strái. Komu menn af svæðinu í kring með kýrnar
til þess að halda þeim undir nautið og þetta þótti krökkunum þar í kring
einhverra hluta vegna mjög spennandi. Kom þar að Einar bóndi spurði
strákinn úr Finnbogahúsi hvort hann væri ekki til í að koma sem vinnumaður
hjá sér, þetta var sumarið 1940, pabbi var þá 11 ára. Fyrsta verkefnið sem
hann fékk hjá nýjum húsbændum var að fara niður í bæ og kaupa stígvél handa
heimasætunni Þórunni. Það var farið að þrengja að þeim í
Kringlumýrinni þannig að Lækjarhvammshjónin voru nýbúin að festa kaup á
jörðina Bæ í Kjós, og í Kjós fékkst aukið rými og auk þess gátu þau byrjað
með kindur sem hafðar voru þar. Þetta var því nokkuð merkilegur búskapur
sem stundaður var á tveimur stöðum. Að sjálfsögðu fór pabbi með í Kjós.
Þessi saga gat eiginlega ekki farið nema á einn veg, pabbi náði í
heimasætuna Þórunni og hafa þau verið par frá 16 ára aldri og eiga 65 ára
brúðkaupsafmæli 31. ágúst.
Pabbi var mjög seigur smiður og laginn með vélar. Fylgdist hann með af
áhuga og eflaust tekið þátt að einhverju leyti í smíði stýrishúss á Dodge
Vibon herbíl, sem Einar afi hafði keypt af hernum. Örugglega komið með
góðar ráðleggingar. Síðar smíðaði hann yfir Rússajeppa sem hann eignaðist
1958 og eins og hann sagði var það eina ástæðan fyrir því að hann vissi upp
á hár hvenær undirritaður fæddist. Setning eins og þessi: Einar, jú hann
fæddist árið sem ég smíðaði yfir Rússann. Haustið 1950 fór hann að læra
dýralækningar í Kaupmannahöfn og kom mamma út til hans ári seinna. Á þessum
árum ferðaðist hann um á mótorhjóli og fór unga parið sumarið eftir í ferð
um Þýskaland á þessu mótorhjóli með leðurhjálma á höfði, nokkuð flott.
Pabbi var alla tíð nátengdur sveitinni og eitthvað þótti Guðbrandi afa
sonurinn vera sveitalegur þegar hann heimsótti pabba í Kaupmannahöfn. Því
í bréfi til Sigríðar móður pabba skrifar hann að drengurinn sé óttalega
sveitamannslegur og hafði verið í lopasokkum í miðri Kaupmannahöfn. Dvöldu
foreldrar mínir í Danmörku fram á árið ´57 en fóru aftur utan haustið ´58
þá fór hann í nám varðandi meðhöndlun á mjólk, komu síðan alkomin heim
´59. Starfaði hann meðal annars í Mjólkursamsölunni, jafnframt var hann við
dýralækningar á Reykjarvíkursvæðinu meðan beðið var eftir því að
dýralæknisembætti losnaði. Fékk hann héraðsdýralæknisembættið á Selfossi og
fluttumst við þangað ´62, tók hann við af Jóni Pálssyni sem eðlilega var
kallaður Jón dýri. Fljótlega þegar pabbi tók yfir hækkaði hann gjaldskránna
sem Jón dýri hafði ekki hækkað lengi, fékk hann fljótlega viðurnefnið Jón
rándýri. Fyrstu ár okkar á Selfossi kom hvert barnið á eftir öðru og mesti
vandræða guttinn var hafður með í vitjanir um alla sveitir þannig að við
umgengust mjög mikið á þessum árum. Hafði hann alltaf haft mikinn áhuga
fyrir flugi og hendumst við um allt með svifflugvél nokkuð stóra sem hann
smíðaði meðan á dvölinni í Danmörku stóð og flaug hún ótrúlega fannst mér.
Auk þess var hann alltaf að hugsa um hvort ekki væri hægt að koma fyrir
flugvelli hér á Selfossi. Að endingu var hann komin á niðurstöðu um hvar
best væri að hafa hann. Fór svo að hann tók á leigu af bændum í
Sandvíkurhrepp svæðið þar sem flugvöllurinn er í dag. Á sama tíma var
athafnamaðurinn Einar Elíasson með sömu pælingar en þeir vissu ekki af hvor
öðrum í fyrstunni. Eiginleg ekki fyrr en Einar hafði tal af sömu bændum að
þeir tjáðu honum að dýralæknirinn væri komin með þetta svæði undir
flugvöll. Stofnuðu þeir Flugklúbb Selfoss og eru þeir upphafsmenn að
flugvellinum ásamt að sjálfsögðu fleirum. Svo skemmtilega vildi til að
Einar varð síðar tengdafaðir minn þegar ég giftist dóttir hans Guðfinnu
Elínu. Eins og áður sagði smíðaði pabbi svifflugvél sem hent var á loft og
enginn maður gat setið í. Nú var komið að því að smíða alvöru flugvél.
Keypti hann ásamt Gísla Sigurðssyni Piper Cub sem hafði skemmst í lendingu,
fór þessi gjörningur fram í bílskúrnum á Reynivöllum 12 og tók nokkur ár en
er glæsilegur gripur sem flýgur um loftin blá með einkennistafina
TF-DÝR.
Pabbi hefur alltaf verið að kenna hvort sem það voru börn eða barnabörn,
mín börn hafa notið góðs af þessu og er ég þakklátur fyrir það kannski má
segja það að hann hafi lagt sig allan fram við að kenna barnabörnunum. Eitt
sinn kom einn kærulaus úr hópnum og var í vandræðum með framhaldsskóla
stærðfræðina, pabbi hafði lært þetta en var aðeins farin að ryðga í henni.
Til þess að vera ekki að kenna stráknum einhverja dellu hringdi hann í
kennarann og spurði hvort ekki væri í lagi að hann kæmi bara í tíma með
stráknum. Að sjálfsögðu fékk hann það. Eðlilega fékk þetta aðeins á strák
en hann samþykkti þó að hafa afa sinn með í tíma, en hann yrði að lofa því
að vera ekki of áberandi. Þið sem þekkið til hvernig pabbi var gat hann
ekki haldið þetta loforð og spurði kennarann spurninga svo nánast enginn
komst að. En strákurinn náði prófum og gott ef hann er ekki kennari í
dag.
Í rúm 58 ár höfum við haft samskipti og hefur að sjálfsögðu gengið á ýmsu
eins og gengur. Eitt er að við höfum ekki alltaf verið sammála þó við séum
sammála, oftast hefur annar getað fundið einhvern flöt til þess að vera
ósammála hinum. Þetta hefur vissulega sína galla stundum en kostirnir tel
ég vera þeir að þegar þú ert sannfærður um að allt sem þú ert að gera sé
það rétta kemur einhver og bendir þér á að það séu fleiri hliðar á
teningnum sem vert er að skoða. Er ég þakklátur fyrir það að hann hafi
fengið mig til að hugsa á þessum nótum þó auðvitað þurfi að láta vaða
stundum. Fyrir um þremur vikum var hann lagður inn á spítala þar sem hann
var orðin verulega veikur. Hitti ég hann um verslunarmannahelgi í síðasta
skiptið þar sem ég bý á Akureyri um stundar sakir. Var af honum dregið og
það tók nokkra stund að komast á flug og að átta sig á hver var á ferðinni.
Settist hann síðan upp og fékk kaffi og kökusneið svo áttum við dásamlega
stund saman. Þar sem við teiknuðum upp sögusviðið í kringum Finnbogahús og
enn voru sögur sagðar, sumar sem ég hafði heyrt áður en aðrar sem ég hafði
aldrei heyrt. Það sem pabbi var þakklátur fyrir sitt lífshlaup, þakklátur
fyrir að hafa fengið stóru ástina í sínu lífi, þakklátur fyrir að byrjunin
sem lofaði kannski ekki góðu en rættist vel úr. Vil ég að lokum votta mömmu
mína dýpstu samúð því hún er að kveðja lífsförunaut til 70 ára, þakka ég
fyrir þann heiður að geta kallað mig son ykkar. Fyrir mína hönd og barna
minna kveð ég þig með gleði. Gleði yfir að hafa átt þig að, fyrir frábærar
minningar um góðan föður og afa. Kveð þig með mikilli eftirsjá. Hvíl í
friði.
Þinn sonur
Einar.