Þorbjörg Halldóra Gunnarsdóttir fæddist 19. desember 1959 á sjúkrahúsi Akureyrar. Hún lést á krabbameinsdeild Landspítalans við Hringbraut 29. ágúst 2016.
Þorbjörg var dóttir hjónanna Guðrúnar Sigurveigar Jóhannsdóttur, f. 3. apríl 1941, og Gunnars Hámundarsonar, f. 27. maí 1940, d. 16. mars 2014. Þorbjörg átti þrjú systkini; Jóhönnu Gunnarsdóttur, fædd 1960, Sigurð Gunnarsson, fæddur 1962, giftur Rannveigu Gunnarsdóttur, og Ólaf Gunnarsson, fæddur 1974, giftur Þórnýju Birgisdóttur. Þorbjörg eignaðist þrjú börn: 1) Gunnar Trausti Magnússon, fæddur 10. september 1977, giftur Sigrúnu Huld Auðunsdóttur. 2) Guðbjörg Ingunn Magnúsdóttir, fædd 22. febrúar 1980, í sambúð með Ragnari Þór Ingólfssyni. 3) Andri Freyr Óskarsson, fæddur 6. mars 1987, í sambúð með Lilju Rut Þórarinsdóttur. Einnig átti hún tvær fósturdætur, Lindu Björk Óskarsdóttur, fædd 17. ágúst 1977, gift Halldóri Magnússyni, og Berglindi Dögg Óskarsdóttur, fædd 15. júlí 1982. Þorbjörg átti 16 barnabörn.
Þorbjörg var menntaður leikskólaliði og vann sem deildarstjóri á leikskólanum Maríuborg í Grafarholti.
Útför Þorbjargar fer fram frá Guðríðarkirkju, Grafarholti, í dag, 8. september 2016, klukkan 13.
Allt er í heiminum hverfult. Og það er akkúrat þess vegna sem ég set
þessi orð á blað. Hún Obba mín hefur kvatt þetta líf. Alltof snemma og
alltof fljótt.
Það var fyrir rúmum 30 árum að leiðir okkar lágu saman og úr varð strax
afskaplega mikill og góður vinskapur. Það var ekki erfitt að vingast við
hana þessa elsku, það vita allir sem þekktu hana. Alltaf boðin og búin
fyrir allt og alla svo fremi hún hefði ráð og rúm til og með opinn faðm ef
manni leið illa. Oftar en ekki hafði hún ráð til að láta mann brosa í
gegnum tárin. Þannig var Obba.
Fyrstu árin eftir að við kynntumst bjuggum við ekki í mikilli nálægð við
hvor aðra. En það breyttist svo fyrir tæpum 20 árum þegar við fluttum báðar
ásamt fjölskyldum okkar á höfuðborgarsvæðið. Við það styrktust
fjölskyldusamböndin og okkar vinskapur enn frekar. Það sama haust var
stofnaður saumaklúbbur sem saman stóð af nokkrum vöskum konum sem áttu það
sameiginlegt að hafa búið í Vestmannaeyjum. Það hafði ég hins vegar ekki
gert, en henni Obbu minni var svo umhugað um að ég kæmist inn í félagslífið
og eignaðist vinkonur á nýjum stað, að hún bað um leyfi að fá að taka mig
með inn í klúbbinn. Og það leyfi fékkst og á ég það því henni að þakka að
eiga slíkar dásemdir að sem þessar saumaklúbbsvinkonur okkar eru.
Og það er fleira sem ég á þessari elsku að þakka. Mig hefur löngum skort
allt sem heitir tiltrú á sjálfa mig. Það átti við um prjónaskapinn eins og
hvað annað. En hún hætti ekki fyrr en hún fékk mig til að prófa og trúa því
að ég gæti þetta eins og hver annar. Núna ég veit fátt betra en að sitja
með prjónana í höndunum á kvöldin &.eins og Obba mín. Endalaus hrós og
gullhamrar& alltaf & það var Obba.
Á öllum þessum árum höfum við brallað ýmislegt saman eins og gefur að
skilja. Fórum í hinar ýmsu ferðir saman, bæði innanlands og utan. Eins og
svo margt annað, áttum við það sameiginlegt að elska sólina og áttum
nokkrar dásemdar stundir á einum uppáhalds staðnum okkar, Torrevieja á
Spáni. Þangað fórum við saman síðast fyrir 2 árum. Eyddum 18 dögum í sól og
sælu með foreldrum mínum, sem þótti óskaplega mikið vænt um hana Obbu sína.
Og það var klárlega gagnkvæmt. Margt hafði gengið á í okkar lífi á þessum
tíma og var alveg kominn tími á að komast í annað umhverfi. Og njóta. Þrátt
fyrir margar ferðir okkar saman, þá er þessi eiginlega sú sem stendur upp
úr. Við vorum eins og prinsessurnar á bauninni. Lágum og böðuðum okkur í
sólinni og sjónum. Fengum nánast ekkert að koma nálægt neinu sem hét
eldamennska eða frágangur. Og það fór okkur bara vel og held okkur hafi
jafnvel líkað það enn betur.
Já, þær eru margar minningarnar sem ég á um og með þessari yndislegu
vinkonu. Sumarbústaðaferðir, þjóðhátíðir, útilegur, utanlandsferðir og
saumaklúbbar svona til að nefna eitthvað. En ekki síður margar, já mjög
margar, dásamlegar stundir í sófanum heima á Kristnibrautinni. Bara við
tvær. Ég á eftir að sakna þeirra sárt.
Elsku hjartans, fallega Obba, vinkona mín. Það er með þungum trega sem ég
kveð þig í dag, gullið mitt. Þetta er erfiðara en nokkur orð fá lýst.
Treysti því að vel hafi verið tekið á móti þér á nýjum stað, þú átt ekkert
annað skilið.
Elsku Gunnar Trausti, Guðbjörg Ingunn, Andri Freyr, Linda Björk, Berglind,
Guðrún og ykkar fjölskyldur. Ég og mín fjölskylda sendum ykkur okkar dýpstu
samúðarkveðjur. Megi Guð vera með ykkur í þessari miklu sorg.
Þú gengin ert hugglöð á frelsarans fund
og fagnar með útvaldra skara,
þar gleðin er eilíf, þar grær sérhver und.
Hve gott og sælt við hinn hinsta blund
í útbreiddan faðm Guðs að fara.
Nú kveðja þig vinir með klökkva og þrá
því komin er skilnaðarstundin.
Hve indælt það verður þig aftur að sjá
í alsælu og fögnuði himnum á,
er sofnum vér síðasta blundinn.
(Hugrún)
Kveðja,
Katrín Magnúsdóttir og fjölskylda.