Reynir Zoëga fæddist á Nesi í Norðfirði 27. júní 1920. Hann lést 7. september 2016.
Foreldrar hans voru Steinunn Símonardóttir húsfreyja, f. 7. október 1883, d. 10. sept. 1977, og Tómas Zoëga sparisjóðsstjóri, f. 26. júní 1885, d. 26. apríl 1956. Systkini hans voru Unnur Zoëga, póstfulltrúi, f. 25. maí 1915, d. 30. ágúst 2006, og Jóhannes Zoëga, hitaveitustjóri, f. 14. ágúst 1917, d. 21. september 2004.
Reynir kvæntist 23. janúar 1942 Sigríði Jóhannsdóttur, f. 12. desember 1921, d. 18. nóvember 1988. Börn þeirra eru: Jóhann, vélvirki og kennari, f. 26. febrúar 1942, Tómas, rafvirkjameistari, f. 9. júní 1946, Ólöf, sjúkraliði, f. 14 apríl 1953, Steinunn, fiskverkakona, f. 28. ágúst 1960.
Reynir lauk barna- og unglingaskóla á Norðfirði og gagnfræðaprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1936. Hann var svo að vinna við olíuafgreiðslu næstu ár en 1941 gerðist hann hluthafi í útgerð. Var það rúmlega 70 tonna bátur, Magnús NK 84. Var hann gerður út til siglinga með fisk til Englands og síldveiða á sumrin. Aflaði hann sér vélstjórnarréttinda og var vélstjóri á bátnum. Voru þeir í þeim siglingum til stríðsloka. 1945 hætti Reynir sjómennsku og lærði rennismíði á vélaverkstæði Dráttarbrautarinnar á Norðfirði. Vann hann þar til 1974 og var verkstjóri frá 1954. Þar var unnið að viðgerðum á skipum og þar að auki sá verkstæðið um niðursetningu á vélum í á annan tug báta er þar voru smíðaðir.
Reynir var kjörinn í bæjarstjórn Neskaupstaðar 1958 fyrir Sjálfstæðisflokkinn og sat þar í yfir 20 ár. Reynir gegndi mörgum trúnaðarstörfum um ævina. Hann var formaður björgunarsveitar Slysavarnafélagsins. Hann sat í stjórn Sparisjóðs Norðfjarðar og var þar formaður frá 1971. Var í stjórn Iðnaðarmannafélags Norðfjarðar. Hann var formaður sóknarnefndar. Hann sat í stjórn Sambands sveitarfélaga á Austurlandi og var þar formaður 1970 til 1972. Hann var í stjórn Viðlagasjóðs eftir snjóflóðin á Norðfirði 1974.
Eftir að hann hætti á vélaverkstæðinu vann hann á skrifstofu Dráttarbrautarinnar og seinna Síldarvinnslunnar til 79 ára aldurs.
Reynir verður jarðsettur frá Norðfjarðarkirkju í dag, 16. september 2016, klukkan 14.
Fyrir unga menn á mínum aldri bauð bæjarlífið á Neskaukstað upp á margvíslega atvinnu á sumrin. Þrettán og fjórtán ára var ég í bæjarvinnu og einnig í fiskvinnslu. Eftir að hafa tekið gagnfræðapróf frá Eiðaskóla vorið sem ég varð 15 ára var óvíst hvað við tæki. Faðir minn, Gunnar Ólafsson, spurði mig þá hvort ég vildi ekki læra vélvirkjun í Dráttarbrautinni. Honum tókst með lagni að hafa mikil áhrif á hvað við bræður, Magnús, Gunnar Ingi og ég, lögðum fyrir okkur á lifsleiðinni. Nú, ég samþykki þetta, þótt ég hefði lítið gefið vélum gaum það sem var af ævinni. Drattarbrautin var á þessum árum ótrúlega öflugt fyrirtæki með um 50 manns í vinnu. Þá á miðju ári 1955, kynntist ég Reyni Zoëga, sem var verkstjóri á vélaverkstæðinu. Hann sá síðan að nokkru leyti um uppeldið á mér milli klukkan 7 og 18 alla virka daga í fjögur ár. Vinnan hófst kl. 7 á morgnana og stimpilklukkan sýndi rautt ef komið var of seint. Þessi klukka stendur reyndar núna inni í stofu hjá mér. Við Siggi, Hjalti og Sigurþór mættum nánast alltaf á réttum tíma. Ég man eftir því að einu sinni ákváðum við að taka okkur frí á laugardegi, en kl.8 bankaði Reynir á gluggann hjá mér svo ekki var lengur til setunnar boðið.
Reynir og faðir minn voru góðir vinir og naut ég góðs af því. Báðir höfðu gaman af fjallaferðum. Ég var með í þeim ferðum og stundum félagar mínir og seinna synir Reynis, Jóhann og Tómas. Margs er að minnast: Lónsöræfi, Herðubreið, tilraun til að komast á Snæfell o.fl.,o.fl.
Það var sennilega árið 1958 að við ráðgerðum, Reynir, faðir minn og Sigurður Jónsson og ég að ganga á Snæfell. Við komum að Laugarfellskofa seint um kvöld. Veðrið var þá þokkanlegt en við áttum þar heldur slæma nótt því þetta var moldarkofi og klaki á gólfinu.
Næsta dag rigndi og rigndi. Þegat leið á daginn var ákveðið að snúa við. Allir lækir voru í miklum vexti og nóg af þeim á leið okkar út Norðurdalinn. Við vorum ekki í rigningargöllum og urðum því fjótlega blautir og hugsuðum um það eitt að komast til byggða. Þegar við erum í einum læknum og öslum þar yfir með vatn upp á mið læri segir Reynir rétt hjá mér: Hvers vegna notið þið ekki brúna, strákar? Hann hafði þá hitt á brú sem við sáum ekki.
Reynir átti auðvelt með að segja sögur og gat verið skemmtilegur og gamansamur. Ég reyndi stundum að endursegja þessar sögur. Það tókst nú ekki betur en svo að menn skemmtu sér ágætlega þegar Reynir sagði frá, en lítið varð um hlátur þegar ég var að reyna að herma eftir honum.
Saga er til, sönn eða login, en hefur lifað í nokkra áratugi að þegar Reynir var í barnaskóla og Eyþór Þórðarson kennti nátturufræði hafði Eyþór sagt að rándýr sem ættu kjöt væru grimm. Eyþór vildi hafa aga í bekknum. Eitt sinn þegar hann hafði haldið skammarræðu yfir nemendum sínum heyrðist Reynir segja: Nú hefur Eyþór étið kjöt.
Reynir var sjálfstæðismaður í húð og hár. Mér fanst hann reyndar fremur vera íhaldsmaður sem vildi halda í gamlar og góðar hefðir og ekki breyta of miklu. Faðir minn var nú ekki alveg á sömu línu, en það truflaði þeirra vinskap ekki neitt. Reynir var lengi forystumaður sjálfstæðismanna á Neskaupstað. Það hefur sjálfsagt oft verið erfitt verkefni því vinstri menn voru þar öflugir eins og þekkt er. En hann hugsaði fyrst og fremst um hag bæjarins og rak ekki óbilgjarna minnihlutapólítík. Sem dæmi um það má nefna að eitt sinn átti bærinn kost á því að kaupa rússneska ýtu á hagstæðu verði. Það var ekki mikið um slík tæki á Íslandi á þeim tíma. Þær raddir heyrðust að það væri svo sem eftir kommunum á Neskaupstað að kaupa rússneska ýtu. Reynir fór og skoðaði ýtuna og mælti síðan með því að hún yrði keypt, því honum fannst það skynsamleg kaup. Ekki voru allir í hans röðum ánægðir með þá ákvörðun. Reynir hafði nokkuð fastmótaðar skoðanir á lífinu og tilverunni, en hélt þeim að mestu fyrir sig. Ekki veit ég til þess að hann hafi nokkur tíma rifist við nokkurn mann. Eftir að hann hætti að vinna snerist líf hans mikið um að heimsækja börnin og fjölskyldur þeirra ,svo og að fara í bíltúr með Þórði Þórðarsyni.
Reynir hélt fullri reisn fram á síðasta dag. Nú er höfðingi fallinn frá. Blessuð sé minning hans. Við Helga sendum börnum hans og fjölskyldum þeirra innilegar samúðarkveðjur.
Ólafur Jóhann Gunnarsson.