Jón Guðmundsson frá Óslandi fæddist 6. apríl 1931 á Siglufirði. Hann lést á Dvalarheimili aldraðra á Sauðárkróki 1. október 2016.
Foreldrar hans voru hjónin Guðmundur Jónsson, f. 1891, d. 1961, og Ingibjörg Jónsdóttir, f. 1901, d. 1956. Systkini Jóns eru Guðrún M., f. 1920, d. 1963; Jóhann P., f. 1924; Anna S., f. 1926, d. 1975; Þorgerður, f. 1927, d. 2008; Oddur, f. 1932, d. 1932; Oddrún S., f. 1936, d. 2001, og Sigurður H., f. 1941. Jón flutti tveggja ára að aldri frá Siglufirði og ólst upp í framsveitum Skagafjarðar.
Jón kvæntist 21. júlí 1957 Þóru Sigrúnu Kristjánsdóttur, f. 11. sept. 1936. Þau bjuggu á Sauðárkróki þar til þau fluttu í Ósland í Óslandshlíð 1959 og bjuggu þar ásamt Kristjáni, föður Þóru. Jón og Þóra eignuðust sjö börn, tólf barnabörn og tvö barnabarnabörn. Börn þeirra eru 1) Ingibjörg Kristín, f. 1958. Fv. m. Árni Sigfússon. Þau eiga dæturnar a) Þóru, f. 1983. K. Ellen Augland. Eiga þær dótturina Kristínu Sögu Augland, f. 2014, b) Unni, f. 1988. 2) Kristján, f. 1959. Fv. k. Ingibjörg Sigurðardóttir. 3) Ásta Ólöf, f. 1960. M. Ingólfur Bjarni Vilhjálmsson. Þau eiga þrjá syni a) Jón Ægi, f. 1981, k. Jóhanna S. Eiríksdóttir, og eiga þau dótturina Ástu Ólöfu, f. 2009, b) Vilhjálm Breka, f. 1982, c) Helga Hrannar, f. 2002, 4) Guðmundur, f. 1962. K. Hrafnhildur Björk Jónsdóttir og á hún fimm börn og tvö barnabörn. 5) Þórir Níels, f. 1965, d. 2011. K 1) Carolina Linder. Þau áttu dæturnar a) Ingrid Sögu, f. 1992. M. Jonathan Fahlen Godö, b) Kristínu Líf, f. 1995. M. Tobias Sorkka. K. 2) Áslaug Fjóla Guðmundsdóttir; 6) Ásgeir Ingvi, f. 1966. Sambýlisk. hans er Halldóra Halldórsdóttir. Ásgeir á tvö börn a) Nóna Sæ, f. 1998, og b) Svandísi Þulu, f. 2001, d. 2006. Halldóra á tvö börn og tvö barnabörn; 7) Oddur Gunnar, f. 1969. K. Sigurlaug Einarsdóttir og eiga þau þrjú börn a) Eyþór Erni, f. 1991, b) Hafþór Pálma, f. 2000, og c) Magneu Dís, f. 2005.
Barnaskólaganga Jóns var af skornum skammti. Hann fór seinna í bændaskólann á Hvanneyri og lauk búfræðiprófi 1952 með góðum árangri. Hann stundaði síðan almenn störf allt þar til hann gerðist bóndi á Óslandi og bjó þar til ársins 1994. Hann hóf snemma afskipti af félagsmálum og var virkur þáttakandi í mótun síns samfélags. M.a. var hann oddviti Hofshrepps og síðustu ár starfsævi sinnar sveitarstjóri sameinaðs Hofshrepps. Hann var fulltrúi í Stéttarsambandi bænda árum saman, sat í sýslunefnd og var virkur félagi í Framsóknarflokknum svo eitthvað sé nefnt. Hann var mikill hugsjónamaður og af þeirri kynslóð sem studdi ötullega kaupfélagshugsjónina. Hann var einn af stofnendum Lionsklúbbsins Höfða á Hofsósi og var félagi þar til æviloka. Árið 1995 missti hann heilsuna og fluttu þau Þóra þá til Sauðárkróks. Hann fylgdist vel með og var áfram þátttakandi í sínu samfélagi sem studdi vel við bakið á honum. Síðustu árin dvaldi hann þrotinn að kröftum á Dvalarheimili aldraðra á Sauðárkróki.
Útför hans fer fram frá Sauðárkrókskirkju í dag, 8. október 2016, kl. 14.
Ég hef átt gott líf sagði hann við mig þegar hann var nýfluttur á
dvalarheimili aldraðra og taldi stutt í endalokin.
Ég verð að viðurkenna að mér vafðist tunga um tönn enda fannst mér lífið
ekki alltaf hafa farið mjúkum höndum um hann. Jú sagði hann. Ég eignaðist
góða konu og hóp af börnum og barnabörnum sem hafa staðið við hlið mér í
gegnum allt. Það er ekki öllum gefið.
Endalokin voru hins vegar ekki alveg handan við hornið þegar þarna var
komið því árin á dvalarheimilinu urðu fjögur og hálft.
Pabbi var fæddur að Steinaflötum á Siglufirði árið 1931 og var fimmta barn
foreldra sinna. Foreldrar hans Guðmundur Jónsson og Ingibjörg Jónsdóttir
voru alþýðufólk og lífsbarátta þeirra snérist um að eiga í sig og á. Þegar
pabbi var um fermingu hafði hann átt heima á sjö stöðum. Skólaganga hans
markaðist af aðstæðum í sveitum landsins á þeim tíma. Það var honum því
mikið keppikefli að búa börnum sínum þær aðstæður að þau gætu menntað sig í
því sem hugur þeirra stóð til. Hann fór þó í Bændaskólann á Hvanneyri og
útskrifaðist þaðan sem búfræðingur árið 1952. Árin 1955-1957 vann hann á
Hólum í Hjaltadal og kynntist þar ungri stúlku úr Óslandshlíðinni Þóru að
nafni. Samband þeirra hófst haustið 1956 og opinberuðu þau trúlofun sína um
jólin það ár. Samband þeirra spannaði því sextíu ár. Þau giftu sig árið
1957 og hófu sinn búskap á Sauðárkróki. Vorið 1959 fluttu þau í
Óslandshlíðina og og var hann kenndur við Ósland eftir það. Árin þar urðu
nærri 35 talsins en í upphafi árs 1994 fannst þeim tími til komin að skila
af sér til næstu kynslóðar og fluttu í Hofsós en pabbi var þá starfandi
sveitarstjóri í Hofshreppi. Ekki fengu þau lengi notið því árið eftir fékk
hann heilablóðfall og var heilsulaus upp frá því. Þau fluttu því á
Sauðárkrók í árslok 1995 og þar gerði móðir mín honum kleift að búa heima í
rúmlega sextán ár. Það var ekki fyrr en í byrjun árs 2012 sem hann flutti á
dvalarheimili aldraðra þar sem hann naut hinnar bestu aðhlynningar til
hinstu stundar.
Hann fór snemma að starfa að félagsmálum, var í hreppsnefnd, oddviti og
síðar sveitarstjóri. Hann starfaði að hagsmunamálum bænda og fleiru eða
eins og ég hef komist að orði, hann kom sér í allar nefndir og ráð sem hægt
var enda bjó hann það vel að eiga stóran hóp af börnum og eiginkonu sem sáu
um búskapinn. Hann hafði yndi af hestum og var meining hans að njóta þess
áhugamáls í ríkara mæli eftir að hann hætti búskap á Óslandi. Pabbi var
skapríkur maður, gat verið fljótur upp ef því var að skipta en heiðarlegur
fram í fingurgóma og naut trausts síns samferðafólks. Ein af mínum
bernskuminningum er þegar heimagangurinn réðist á yngsta bróður minn á öðru
ári og hafði hann undir þá fuðraði faðirinn upp og rauk á eftir
heimaganginum með húfuna sína í hendinni niður eftir túninu. Mig minnir nú
að heimagangurinn hafi sloppið en sá hefur trúlega ekki þurft að kemba
hærurnar um haustið. Það hlýtur því að hafa verið pabba gríðarlega erfitt
að vera kippt út úr hringiðu lífsins í einum vetfangi rúmlega sextugum að
aldri.
En þrjósku átti hann nóga og hún hélt honum gangandi til hinstu stundar.
Oft hefur mér dottið í hug máltækið Skipað gæti ég væri mér hlýtt í
gegnum þessi síðustu ár. Það var oft þannig að ef það var eitthvað sem
honum datt í hug þá kallaði hann mig á sinn fund og fól mér framkvæmdina.
Og þegar einu verkefninu var lokið þá tók gjarnan bara annað við. Ég lærði
það í gegnum tíðina að treina mér verkefnin.
En það er nú þannig að fáir komast áfallalaust gegnum lífið og það hlífði
honum svo sannarlega ekki. Móður sína missti hann árið 1956 þegar hann var
einungis 25 ára gamall og föður sinn fimm árum síðar. Guðrún elsta systir
hans lést einnig langt um aldur fram árið 1963 rúmlega fertug að aldri. Þá
lenti hann í þeirri erfiðu lífsreynslu að þurfa að fylgja fimm ára
barnabarni sínu til grafar fyrir tíu árum síðan og einum sona sinna árið
2011.
En þrátt fyrir allt fannst honum hann hafa átt gott líf. Þetta snýst víst
um það að vera þakklátur fyrir það sem maður hefur.
Að leiðarlokum finn ég fyrir þakklæti fyrir að hafa átt traustan föður sem
lét sig varða líf og störf afkomenda sinna jafnvel þó örlögin höguðu því
þannig til að hlutverkin snérust við þegar ég var einungis þrjátíu og fimm
ára og hann fór að sækja stuðning til mín. Ég vil þakka starfsfólki
Dvalarheimilis aldraðra á Sauðárkróki fyrir einstaka umönnun og þægilegheit
í viðmóti við fjölskylduna þessi ár sem hann dvaldi þar.
Hvíldu í friði, elsku pabbi, og hafðu þökk fyrir allt.
Ásta Ólöf Jónsdóttir.