Kári Einarsson fæddist í Kaldrananesi í Mýrdal 18. júní 1938. Hann lézt á Landspítalanum við Hringbraut, deild 13G, 17. september 2016.Foreldrar hans voru Ragnhildur Sigríður Guðjónsdóttir, húsfreyja frá Vestmannaeyjum, f. 28.5. 1915, d. 5.6. 1990, og Einar Sverrisson, bóndi og rafvirkjameistari frá Kaldrananesi, f. 1.4. 1914, d. 30.1. 2004. Kári átti þrjár yngri systur: Guðrún, f. 15.4. 1940, Halldóra. f. 21.3. 1942, d. 25.8. 2000, og Margrét Guðný. f. 9.6. 1943.

Eiginkona Kára var Sigrún Magnúsdóttir umhverfisráðherra, f. 15. júní 1944. Börn þeirra eru Sólveig Klara, f. 6. febrúar 1971, og Ragnhildur Þóra, f. 25. nóvember 1975. Þau slitu samvistum 1986.

Kári lauk landsprófi frá Gagnfræðaskólanum á Selfossi 1954 og stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík, 1958 og nam síðan rafmagnsverkfræði í Tækniháskólanum í Darmstadt í Vestur-Þýskalandi haustið 1960. Hann lauk verkfræðiprófi (dipl.-Ing.) þaðan 1967. Stutt eftir komuna til Íslands varð hann kaupfélagsstjóri Arnfirðinga á Bíldudal og endurskipulagði niðursuðuverksmiðju og rækjuvinnsluna þar. Kári vann lengst af sem yfirverkfræðingur hjá Rafmagnsveitum Ríkisins, í Reykjavík, eða frá 1973 til 1985. Í verkahring hans var m.a. umsjón með Lagarfossvirkjun, Mjólkárvirkjun II, Byggðalínu og aðveitustöðvum, Vesturlínu og aðveitustöðvum, ýmsum dreifilínum og tilheyrandi aðveitustöðvum. Kyndistöðvar á Höfn og á Seyðisfirði heyrðu líka undir hann, sem og útboð á tæknibúnaði og framkvæmdum, endurskipulagningu og stefnumótun fyrirtækisins. Meðfram störfum sínum hjá RARIK og raunar lengur kom Kári nokkuð að kennslu í rafvélafræði og eðlisfræði við Tækniháskóla Íslands, fyrst 1975-1978, síðan 1985-1988 og enn frá 1997. Einnig kenndi hann eðlisfræði og stærðfræði við Menntaskólann í Kópavogi á árunum 1997-2007.

Kári stofnaði mörg fyrirtæki og kom á laggirnar ýmsum framkvæmdum, eins og lagningu flugvallar á Bíldudal. Hann keypti og rak sokkaverksmiðju á Sauðárkróki í rúman áratug og stofnaði Víkurprjón í Vík 1984. Landsverk stofnaði hann árið 1985, sá um verkfræðiþjónustu, áætlanagerð, endurskipulagningar fyrirtækja, eftirlit með framkvæmdum, viðskiptum og innflutningi, svo sem fyrsta Apple-umboðið hér á landi, og umboð fyrir Compaq-tölvur, auk fleiri rafmagnsvara og véla. Árið 2000 stofnaði hann Rafsegulbylgjuna, þar sem hann beindi kröftum sínum einkum að rannsóknum á segulsviði jarðar, þráðlausum orkuflutningi og þróun nýrrar tækni á því sviði, ásamt rannsóknum á rafsegulsviðs- og rafgeislunaróþoli og þróun nýrrar tækni til að eyða rafgeislun. Kári sat í stjórn Flugleiða á árunum 1981-1985 og stundaði um árabil gulrófnarækt á æskustöðvum sínum í Kaldrananesi.

Útförin fór fram frá Áskirkju 22. september 2016.

Vinur minn, Kári Einarsson, er látinn. Minningarnar streyma fram í hugann. Við kynntumst haustið 1954, þegar við byrjuðum í MR. Fyrsta daginn í skólanum stóðum við efst uppi á tröppunum við skólahúsið. Hann stóð hægra megin við mig , eilítið boginn í baki. Mér leist vel á hann og tók hann tali. Við urðum saman í 3ja bekk C og upp úr þessu varð ævilöng vinátta. Hann var ættaður úr Mýrdalnum. Síðla sumar 1955 heimsótti ég hann á æskuslóðir hans á bænum Kaldrananesi. Foreldrar hans, Ragnhildur og Einar, tóku mér afar vel, og þarna kynntist ég einnig afa hans, Sverri Ormssyni. Kári skýrði fyrir mér, hvernig hann veiddi fýlinn, þegar við gengum inn auranna í Hafursárgili. Annan daginn gengum við á Búrfell og nutum útsýnisins til Mýrdalsjökuls. Í Reykjavík bjó Kári hjá frænda sínum, Karli Eiríkssyni og konu hans, Bitten, á Selvogsgrunni. Stundum pössuðum við börn þeirra, Eirík og Þóru, þegar þau hjónin fóru út að skemmta sér. Á sumrin hjálpaði Kári okkur að mála hús foreldra minna að Shellvegi 6 í Skerjafirði og svo kom hann með okkur að veiða í Stíflisdalsvatni. Um sumarsólstöður 1956 gengum við síðla dags frá Álafossi að Esju og upp fjallið við Þverfellshorn. Næstu klukkustundirnar löbbuðum við eftir fjallinu endilöngu í austurátt. Svo skall á þoka, en við töpuðum ekki alveg áttum, en þegar þokunni létti höfðum við að vísu gengið í hring en vorum á réttri leið að Móskarðshnúkum. Þegar við komum að Vegaskörðum ákváðum við að fara niður fjallið að norðan, niður í Svínadal. Gekk það allt vel. Klukkan var nú orðin 3 og fólkið á Írafelli að koma af balli. Við gengum fram að nýdauðu lambi, sem refur hafði gætt sér á. Nú lá leið okkur í gegnum Kjósarskarð og framhjá Fellsenda að sumarbústaði okkar, Stíflisdal ll. Klukkan var gengin í átta, þegar við lögðumst til svefns við bæjarlækinn, dauðþreyttir eftir langa göngu. Tveimur tímum seinna vakti faðir minn okkur, þegar hann fór út að fá sér fótabað í læknum. Sumarið 1957 tjölduðum við hátt uppi í hlíðum Móskarðshnúka og gengum snemma morguns á efsta hnúkinn í blíðskaparveðri, en þaðan er stórkostlegt útsýni yfir allt Suðurlandsundirlendið. Um veturinn 1958 renndum við okkur á skíðum við Skálafell. Nú leið óðum að stúdentsprófi. Við ákváðum að lesa stærðfræði og eðlisfræði nokkra daga saman og dvelja í Fögruhlíð, veiðihúsi föður míns við Stíflisdalsvatn. Í byrjun maí ókum við sem leið liggur upp Mosfellsheiði og lögðum bílnum á háheiðinni, þar sem nú er vegurinn niður í Kjós. Töluverður snjór huldi allar dældir, svo að það var auðvelt að renna sér á skíðum niður að Laxá, þar sem hún á upptök sín við Stíflisdalsvatn. Hlýtt var í veðri svo að Kári klæddist stuttbuxum en ég lét mér nægja að fara úr yfirhöfninni. Okkur sóttist ferðin vel meðfram Grjótá, sem lá í klakaböndum, síðan óðum við Laxá og áttum þarna ánægjulega daga við lesturinn. Tómas Tryggvason, jarðfræðingur, hafði lánað mér Geigerteljara, en ekki urðum við varir við geislavirkni í nágrenninu!
Í júní 1958 lukum við stúdentsprófi úr MR. á aúr þeim hópi komu margir þjóðþekktir öðlingar, sem settu mark sitt á íslenska ævintýrið. Að loknu stúdentsprófi hélt ég til náms í Þýskalandi. Næsta sumar dvaldi ég heima og vann í líparítinu í Hvalfirði. Kári hafði ávallt haft áhuga á að fara í rafmagnsverkfræði í Tækniháskólanum í Darmstadt. Hann sótti um skólann og fékk inngöngu. Saman fórum við svo til Þýskalands í október 1959. Við flugum til Hamborgar og tókum lest til Frankfurt. Landið skartaði sínum fallegustu haustlitum og Kári var frá sér numinn yfir allri litadýrðinni. Í Darmstadt undi hann sér vel í fjölmennum hópi íslenskra stúdenta, sem stunduðu þar nám. Sumarið 1964 stofnuðum við Félag Íslendinga í Hessen, sáum um þorrablót, með mat frá Þorbirni í Borg, og fögnuðum 17. Júní. Sigrún, nýgift Kára, var nú komin til Darmstadt og bjuggu þau í góðu yfirlæti hjá Margot og Ludwig á Berliner Strasse 62 í Griesheim. Kári lauk diplómaprófi 1969 og hélt þá heim til starfa þar. Nú urðu samskipti okkar stopulli, þar sem ég starfaði í Þýskalandi, en upp úr 1985 höfum við hjónin, Margrét og ég, dvalið árlega á sumrin í sumarbústaði okkar við Stíflisdalsvatn. Nú var þráðurinn tekinn upp aftur, þar sem frá var horfið. En margt hafði breyst. Kári og Sigrún höfðu eignast tvær yndislegar dætur, Sólveigu og Ragnhildi, en þau hjón voru fráskilin, en gott samband á milli þeirra.
Kári var sami öðlingurinn, ávallt hjálpsamur og hann minntist þess með miklu þakklæti að hafa kynnst foreldrum mínum og svo Guðmundi Hlíðdal og Sigfúsi Blöndahl, þegar hann um sumarið 1958 réri með þá félaga til fiskjar í Stíflisdalsvatni. Seinna kynntist hann Svanhildi og það var árlegur viðburður að koma til okkar og grilla úti í guðsgrænni náttúrunni. Kári hafði mikinn áhuga á að rannsaka rafóþol og náði góðum árangri að mæla það út og koma með fyrirbyggjandi varnir. Nú er vinur minn látinn, en vegir Guðs eru órannsakanlegir. Við Margrét sendum dætrum hans innilegar samúðarkveðjur. Blessuð sé minning hans.


Sverrir Schopka.