Þorbjörg Bergsteinsdóttir fæddist að Ási í Fellum þann 3. janúar 1931.  Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Dyngju Egilsstöðum 3. október síðastliðinn.  Foreldrar hennar voru hjónin Margrét Jónsdóttir (1894-1969) og Bergsteinn Brynjólfsson bóndi á Ási í Fellum (1891-1973).  Tobba var sú fjórða í röð átta systkina, eftirlifandi eru þeir Þorbjörn (1926) og Jón (1932), en látin eru; Rósa (1924-2016), Brynjólfur ( 1928-2014), Ragnar (1929-1932), Einar Óskar (1934-1941) og Ragnheiður (1939-1946).
Þorbjörg, eða Tobba eins og hún var oftast kölluð, ólst upp á Ási hjá foreldrum, systkinum og frændsystkinum fram á fullorðinsár. Árið 1962 var lagður af búskapur á Ási og fluttust þau Þorbjörg og Þorbjörn þá með foreldrum sínum í Egilsstaði þar sem þau byggðu húsið að Selási 18. Þar bjuggu þau Þorbjörn með foreldrum sínum meðan þeir lifðu. Árið 2003 fluttu þau systkinin  að Miðvangi 18, en síðustu árin dvaldi Þorbjörg á hjúkrunardeildunum á Seyðisfirði og Egilsstöðum.
Meðan búið var á Ási sinnti Þorbjörg þeim sveitastörfum sem til féllu og venja var. Eftir að hún flutti í Egilsstaði vann hún fyrst afgreiðslustörf hjá Kaupfélaginu en árið 1965 hóf hún störf hjá Pósti og Síma, á Símstöðinni eins það hét þá. Þar gaf hún öllum þeim „samband“ sem þurftu að hringja í miðstöð til að ná símasambandi við vini og vandamenn, hvort sem það var bara yfir götuna eða lengra til. Þó tæknin breyttist og starf hennar í samræmi við það, vann Tobba hjá fyrirtækinu þar til hún hætti störfum vegna aldurs.
Þorbjörg giftist ekki og átti ekki börn. Engu síður átti hún stóran og kæran barnahóp sem voru börn og barnabörn systkina hennar og í þeirra huga  var hún Frænkan með stóru effi.
Útför Þorbjargar fer fram frá Egilsstaðakirkju í dag, 22. október 2016, og hefst athöfnin kl. 11. Jarðsett verður í grafreitnum á Ási.

Það er komið að því að kveðja kæra frænku mína, Þorbjörgu Bergsteinsdóttur frá Ási.

Tobba, eins og hún var kölluð af flestum, hefur alltaf verið hluti af mínu lífi. Hún átti fyrst, þegar ég fór að muna eftir mér, heima uppi á Ási hjá afa og ömmu. Þangað átti fjölskylda mín margar ferðir, og þótt þetta þyki ekki langferð nú, var stundum gist og ekki farið heim fyrr en á öðrum degi. Þetta fannst mér skemmtilegar ferðir og þykist muna eftir því, að hafa tekið því verulega óstinnt upp, þegar eitt sinn þurfti að snúa frá, við drullupytt, sem var árlegur gestur á þjóðveginum fyrir neðan Kross. Einhverjar fyrstu minningar mínar eru frá því að ég tæplega sex ára var sendur í vist í Ás á þorranum 1960, til að forða mér og nýfæddum bróður mínum frá að smitast af kíghósta, sem þá gekk. Eðlilega man ég ekki ekki mikið frá þessari vist, svo ekki hefur hún verið mér erfið. Man þó eftir að hafa lært að spila lönguvitleysu og dansað við við Guðríði á auðum bás í fjósinu þangað til kvígan við hliðina fór að dansa líka. Og svo mikið er víst heim kom ég læs, en fór tæplega stautandi, og var Tobbu alltaf þakkað það.

Eftir að þau fluttu til Egilsstaða bjuggu afi og amma fyrsta veturinn heima hjá okkur á Selásnum, en byggðu sér síðan hús á ská hinum megin við götuna, og bjuggu þar meðan þau lifðu og Tobba og Bjössi hjá þeim. Mikill samgangur var þarna á milli og alltaf talað um það heima hjá mér að fara upp í Hús. Þangað áttum við öll fjölskyldan ófá spor og ekki var verið að gera boð á undan sér, heldur gengum þar um eins og við ættum þar heima. Ófá kvöldin var gripið í spil og er mér minnisstætt hvað ég, krakkinn, varð glaður að fá að vera fjórði maður í vist með fullorðna fólkinu. Annars varð maður að láta sér lynda að spila ólsen eða kasínu við Tobbu. Hún hafði alltaf gaman af að spila, spilaði vist og brids og var ólöt við að spila við okkur krakkana sem komu í heimsókn. Kannski lærði ég að spila eitthvað fleira en lönguvitleysu á Ási þarna um veturinn, allavega deildi ég með Tobbu spilaáhuganum.

Tobba var líka hagleikskona. Heima á Ási smíðaði hún eitt og annað smálegt, minnisstæður er mér kassi undir saumadót, sem Eva dóttir mín á nú. Ég þykist líka muna eftir því að hún tók myndir á gamaldags kassamyndavél og framkallaði myndirnar sjálf undir sænginni. Leiðrétti mig einhver ef þetta er bara bull. Allavega eru til margar myndir í albúmum hennar sem teknar voru á Ási á árunum milli 1950 og 1960.

Fljótlega eftir að Tobba fluttist til Egilsstaða byrjaði hún að vinna á Símanum, sem þá var til húsa í gömlu Símstöðinni. Þar sátu símastúlkurnar fyrir innan lúgu með gleri, framan við galdraborð með ótal snúrum, sem þær tóku og stungu í göt á veggnum, þannig að snúrurnar lágu þvers og kruss og ég skildi ekkert í hvernig hægt var að halda reiðu á. Þannig gáfu þær þeim sem hringdu á miðstöð, samband við þann sem óskað var eftir hvort sem hann bjó í næsta húsi, úti í sveit eða fyrir sunnan. Í síðasta tilfellinu varð þó símastúlkan að hringja suður og panta langlínusímtal! Þetta voru vinsælar konur og þekktar raddir og hverri hringingu svöruðu þær með; miðstöð. Eftir að ég var fluttur að heiman í skóla, var ekki ónýtt að eiga einhvern þarna að, sem gat gefið samband svona utan háannatímans! Hjá Pósti og síma vann Tobba svo alla sína starfsævi, þó hún væri fyrir löngu hætt að gefa samband!

Tobba var, eins og þau systkinin öll, frændrækin og vinamörg. Vinnan á símanum gerði henni auðveldara en ýmsum öðrum að rækja vináttusambönd. En hún þurfti líka oft að fara í heimsóknir á fornar slóðir í Fellunum. Þá var ekki verra að eiga góðan bíl, og það var eitthvað sem Tobba leyfði sér alltaf. Fyrst man ég eftir henni á grænni Volkswagen-bjöllu, sem ég fékk m.a. lánaða til að sækja ökuskírteinið mitt á Eskifjörð. Sú ferð endaði næstum út í skurði en það er nú önnur saga eins og góði dátinn Svejk hefði sagt. Seinna átti hún Citroen, sem dúaði eins og dívan, og mér fannst enginn í þorpinu eiga flottari bíl. Síðast lét hún sér Toyota nægja. Hún fór of í ferðalög innanlands á bíl sínum, þá oft í fylgd með einhverju systkina sinna, eða vinum af Símstöðinni.


Tobba giftist ekki og átti ekki börn. Engu síður átti hún stóran og kæran barnahóp sem voru börn systkina hennar og ekki síður barnabörn þeirra. Fyrir þeim var hún Tobba frænka með stóru effi, sem gaukaði nammi að glöðum munnum, kannski öllu oftar en foreldrunum þótti gott.

Síðustu æviárin voru Tobbu erfið. Hún greindist með Alsheimer-sjúkdóminn og ekki var nóg með að minni og skynjun gengju úr vistinni heldur lagðist hann einnig á líkamann þannig að um síðir gat hún sig ekki hreyft. Það var dapurlegt og oft þung spor að fylgjast með því hvernig þessi glaðsinna og félagslynda kona hvarf inn í annan heim depurðar og skilningsleysis. Það er kannski vandséður tilgangurinn með þessu jarðlífi en enn vandséðari tilgangur með því að leggja slíkt á fólk. En maður lærði jafnframt að meta vinnu þeirra sem að þessu fólki hlúir og vil ég nota tækifærið til að láta í ljós aðdáun á öllu því fólki, sem annaðist Tobbu á þessum síðustu árum hennar af einstakri umhyggju, og senda því þakkir okkar aðstandendanna.

Eftir andlát móður minnar í vetur flutti Tobba frá Seyðisfirði í herbergið sem mamma hafði búið í síðustu æviár sín. Það var alltaf kært með þeim systrum, og finnst mér það falleg minning að þær hafi fengið að kveðja þennan heim á sama stað með svo skömmu millibili. Ekki er verra að út um gluggann blasir við Bjargið á heiðabrúninni fyrir ofan Ás.

Óli Grétar Metúsalemsson.