Friðmey Eyjólfsdóttir fæddist í Reykjavík 14. nóvember 1923. Friðmey lést 20. október 2016.
Foreldrar hennar voru Eyjólfur Björnsson, f. 1883, d. 1941, vélstjóri, og Guðrún Guðmundsdóttir, f. 1895, d. 1973, húsfreyja. Systkini Sigurrós, f. 1918, og Kristófer, f. 1920, uppeldisbróðir Björn Gunnlaugsson, f. 1917.
Friðmey giftist Ástgeiri Ólafssyni (Ása í Bæ), f. 1914, d. 1985, skáldi, skipstjóra o.fl. frá Vestmannaeyjum. Börn þeirra: 1. Tvíburadrengir, f. 1947, sem dóu skömmu eftir fæðingu. 2. Gunnlaugur, f. 1949, menntaskólakennari. Maki Ósk Magnúsdóttir, f. 1949, fv. móttökustjóri og skrifstofustjóri. Börn þeirra eru: a. Kári Gunnlaugsson, f. 1975, kvikmyndaleikstjóri og leiðsögumaður, maki Árný Björg Bergsdóttir, f. 1974, sölustjóri, og er sonur þeirra, Baldur Kárason, f. 2014, leikskólanemi. b. Freyja, f. 1979, klarínettuleikari og aðstoðarskólastjóri Tónlistarskólans í Reykjavík, sambýlismaður Egill Arnarson, f. 1973, ritstjóri. 3. Kristín, f. 1951, jafnréttisstýra og fv. þingmaður Kvennalistans. 4. Eyjólfur, f. 1957, d. 1984. 5. Ólafur, f. 1960, byggingatæknifræðingur. Maki Aldís Einarsdóttir, f. 1966, viðskiptalögfræðingur. Sonur þeirra er Ástgeir, f. 1995, háskólanemi.
Friðmey fæddist á Skólavörðustíg 4C í Reykjavík og fluttist ung með foreldrum sínum að Laxnesi í Mosfellssveit og bjó þar til fullorðinsára. Hún flutti til Vestmannaeyja með Ása 1947 þar sem þau bjuggu til 1968. Þá fluttu þau í Mávahlíð 22 í Reykjavík þar sem hún bjó til æviloka.
Friðmey lauk námi frá Kvennaskólanum í Reykjavík 1940. Hún útskrifaðist frá Hjúkrunarskóla Íslands 1946 og stundaði síðan framhaldsnám í skurðhjúkrun. Á námsárunum vann hún á Landspítalanum, Sjúkrahúsinu á Ísafirði og á Vífilsstöðum. Starfaði við Sjúkrahús Vestmannaeyja 1948 og 1964-1968. Hjúkrunarfræðingur við geðdeild Borgarspítalans 1968 til 1994.
Friðmey hafði mikinn áhuga og yndi af óperutónlist og sótti flestar óperusýningar sem í voru í boði hér á landi. Hún hafði góða söngrödd og söng m.a. með Samkór Vestmannaeyja. Hún hafði mikla ánægju af ferðalögum og ferðaðist mikið á efri árum, fór m.a. til Kína og í heimsreisu með Útsýn.
Útför hennar fer fram frá Fríkirkjunni í Reykjavík í dag, 28. október 2016, kl. 15.

Hún mamma mín lifði svo sannarlega tímana tvenna. Hún fæddist  á uppgangstímum þegar allt mögulegt fékkst í búðunum í Reykjavík og útgerðin blómstraði. En þetta voru líka tímar berklanna. Guðrún amma mín missti með nokkurra ára millibili þrjár systur sínar úr berklum. Hún ól upp son þeirrar elstu, Björn Gunnlaugsson (Bangsi). Eyjólfur afi minn var vélstjóri sem hafði brotist til mennta og keypt sér lítið hús við Skólavörðustíg 4c þar sem fjölskyldan bjó fyrstu æviár mömmu. Hún átti tvö eldri systkini, Sigurrós og Kristófer og svo var uppeldisbróðirinn Bangsi. Afa langað alltaf að verða bóndi og lét þann draum rætast þegar hann keypti jörðina Laxnes ásamt Einari bróður sínum af móður Halldórs Laxness árið 1927. Fjölskyldan flutti í sveitina en afi var áfram á sjónum og lét ömmu um búskapinn. Fyrir nokkrum árum sagði mamma upp úr þurru: Ekkert skil ég í honum pabba að taka börnin úr skóla og flytja upp í sveit. Elstu börnin voru byrjuð í skóla í Reykjavík en í sveitinni hófst skólaganga síðar. Lífið var gott í Mosfellsdalnum þótt heimskreppa gengi í garð með miklum innflutningshömlum og átökum. Nóg var að bíta og brenna og börnin sóttum skóla fyrst í sveitinni, en síðan í Reykjavík. Afi var svo heppinn að hafa alltaf vinnu á togurum og línuveiðurum. Mamma hóf nám í Kvennaskólanum 1937, bjó með systur sinni sem farin var að vinna og borðaði hjá Fríðu móðursystur sinni. Ingibjörg H. Bjarnason, sem fyrst kvenna tók sæti á Alþingi, var skólastýra Kvennaskólans á þessum árum en var orðin heilsulítil þannig að fröken Ragnheiður, sem þótti afbragðskennari, stýrði skólanum. Mamma var einmitt í prófum vorið 1940 þegar breski herinn steig á land og hernam Ísland.

Stríðið hafði mikil áhrif á líf fjölskyldunnar í Laxnesi. Afi fórst með línuveiðaranum Jarlinum í september 1941, Bangsi var í bandaríska flotanum og sigldi til Murmansk og Sigurrós giftist til Ameríku í lok stríðsins. Allt var þetta ömmu og mömmu þungbært. Seinna flutti Kristófer með fjölskyldu sína til Flórída og amma fór með.

Mamma ákvað að verða hjúkrunarkona og hóf nám 1943 og lauk því 1946. Hún ætlaði síðan að sérhæfa sig í skurðstofuhjúkrun en þá birtist sjarmörinn úr Eyjum, Ási í Bæ, bráðskemmtilegur, sætur og afar vinstrisinnaður og þar með var teningunum kastað. Þau giftust í mars 1947 og fluttu til Vestmannaeyja. Mamma var svo heppin að halda til Eyja áður en innflutningshöft voru sett enn einu sinni og gat keypt eitt og annað í búið. Í Eyjum leigðu þau pínulitla íbúð í verkamannabústað að Heiðarvegi 38 sem var í eigu Stefáns Árnasonar yfirlögregluþjóns og eins af stórleikurum bæjarins.

Það væri hægt að skrifa langt mál um lífið á Heiðarveginum og allar þær frábæru konur sem þar bjuggu, Saló, Helgu í Verkó, Huldu frá Hrafnagili, Siggu í Skuld og síðast en ekki síst hana Svövu Guðjóns en heimili hennar og Oddgeirs Kristjánssonar tónskálds að Heiðarvegi 31 var nánast okkar annað heimili. Það verður þó að bíða betri tíma. Pabbi var um skeið ritstjóri Eyjablaðsins og þegar vinstri menn voru í meirihluta í bæjarstjórninni (það er liðin tíð eins og allir vita) var hann í ýmsum störfum fyrir félagana og flokkinn. Þess á milli stundaði hann sjóinn, oft á eigin bátum með alls konar skrautlegu liði. Á þessum árum fæddust mörg fegurstu laga Oddgeirs og textar Ása í Bæ. Fjölskyldan flutti af Heiðarveginum árið 1957 inn í Bæ við íþróttavöllinn en þá voru börnin orðin þrjú.

Mamma og pabbi eignuðust fyrst tvíbura 1947. Annar þeirra dó í fæðingu og hinn lést skömmu síðar. Þetta var mikið áfall en á sama tíma misstu Svava og Oddgeir ungan son sinn, Kristján, úr berklum. Þau brugðist við sorginni með því að mynda kvartett og sungu saman ýmis lög. Margt var brallað á næstu árum og m.a. fóru mamma og pabbi með Lúðrasveit Vestmannaeyja í mikla ævintýraferð til Tékkóslóvakíu 1959. Á fertugsafmæli mömmu 1963 gerðust þau stórtíðindi að gos hófst í hafi vestan við Heimaey og þar reis Surtsey úr sæ.

Árið 1968 urðu þáttaskil þegar fjölskyldan flutti til Reykjavíkur. Mamma hafði þá unnið um skeið á sjúkrahúsinu í Vestmannaeyjum. Pabbi átti við mikil veikindi að stríða, við Gunnlaugur vorum komin í menntaskóla og Eyjólfur bróðir okkar, sem var þroskaheftur, þurfti nauðsynlega að fá þjónustu. Ekkert þurfti að hafa fyrir Óla sem var yngstur, hann var eins og fiskur í vatni.

Menntun mömmu kom sér heldur betur vel en það var ekki algengt að konur af hennar kynslóð hefðu sérmenntun. Ég hef oft sagt frá því hve mikil áhrif það hafði á mig þegar ég áttaði mig á því hvað menntun var konum nauðsynleg og hve mikilvægt fjárhagslegt sjálfstæði var fyrir konur. Mamma opnaði augu mín fyrir því og gerði mig að femínista. Hún hóf störf á Borgarspítalanum þar sem hún vann á geðdeildinni um árabil. Ég er enn að hitta fólk sem hún hjúkraði eða vann með þar á bæ og ber henni vel söguna. Á síðari árum lagðist mamma í ferðlög og naut þess heldur betur að komast á Kínamúrinn, til Ísrael og Egyptalands og til ættingjanna á Flórída.

Mamma var skemmtileg kona, kunni ótalmargt sem m.a. kom í ljós þegar hún fór að passa Ása eftir að hann fæddist 1995. Þar má nefna kvæði og vísur, gátur og máltæki sem mörg voru ættuð úr Mosfellssveitinni. Hún var kona sem bar ekki tilfinningar sínar á torg en gat verið ansi kaldhæðin og snögg í tilsvörum. Mamma hafði mikið yndi af tónlist, einkum klassískum söng. Þar skipaði Amelita Galli-Curci háan sess en hún hljómaði oft í útvarpinu á fyrstu árum þess. Jussi Björling var í sérstöku uppáhaldi sem og Maria Callas og Luciano Pavarotti. Kvöldið fyrir forsetakosningarnar 1980 fórum við mamma að hlusta á Pavarotti í Laugardalshöllinni og slepptum lokaumræðunum enda báðar sannfærðar Vigdísarkonur. Þær voru líka margar óperurnar sem við sáum. Mamma var góð til heilsunnar þar til á allra síðustu árum að heyrn og hjarta tóku að gefa sig.

Eitt sinn skal hver deyja orti skáldið og nú er komið að kveðjustund eftir langa ævi. Hvíl í friði, móðir góð, og takk fyrir allt sem þú gafst og varst okkur systkinunum.

Kristín Ástgeirsdóttir.