Sveinbjörn Hjálmarsson fæddist í Vestmannaeyjum 11. september 1931. Hann lést á sjúkrahúsinu í Vestmannaeyjum 27. október 2016.
Foreldrar hans voru Hjálmar Jónsson, f. 5. júní 1899 á Bólstað í Mýrdal, d. 25. júlí 1968, og Guðbjörg Helgadóttir, f. 16. október 1898 á Gili í Fljótum í Skagafirði, d. 23. júní 1958. Systkini Sveinbjörns: Markús, f. 1918, d. 2010; Þorgerður, f. 1921, d. 2004; Jón, f. 1922, d. 2014; Kristín Helga, f. 1925, d. 1995; Svava, f. 1929, d. 1988; Jakobína, f. 1932.
Hinn 31. desember 1955 kvæntist Sveinbjörn Ernu Margréti Jóhannesdóttur, f. 2. janúar 1937. Foreldrar Ernu voru hjónin Guðrún Einarsdóttir, f. 28. febrúar 1909, d. 28. desember 1986, og Jóhannes Gunnar Gíslason, f. 14. júlí 1906, d. 2. janúar 1995. Börn Sveinbjörns og Ernu eru: 1. Guðrún, f. 22. október 1955, gift Gunnlaugi Claessen. Sonur þeirra er Sveinbjörn, f. 1986. Dóttir Guðrúnar og stjúpdóttir Gunnlaugs er Erna Margrét, f. 1980. Börn Ernu og Leifs Steins Árnasonar eru Berglind Björt, Arnór Steinn og Jakob Kári. Börn Gunnlaugs af fyrra hjónabandi eru Þórdís, f. 1974 og Haukur, f. 1977. 2. Guðbjörg Helga, f. 1. ágúst 1957, gift Sigurði Vigni Vignissyni. Börn þeirra eru Birna Vigdís, f. 1979, og Daði Már, f. 1991. Börn Birnu Vigdísar eru Dagur, faðir Davíð Arnórsson, og Elma Björg, faðir Davíð Halldórsson. Dóttir hans er Saga Margrét.
3. Egill, f. 25. júní 1963, kvæntur Guðnýju Þórisdóttur. Synir þeirra eru Darri, f. 1994, Nökkvi, f. 2000, og Hugi, f. 2008. 4. Ásdís Ingunn, f. 9. ágúst 1968. Dætur hennar og Kristjáns Þórs Jakobssonar eru Guðrún Ósk, f. 1994, og Elísa, f. 1999.
Sveinbjörn ólst upp í Vestmannaeyjum og starfaði við fiskverkun í Hraðfrystistöð Vestmannaeyja 1946-1948 og sem háseti á bát 1948-1950. Á því ári lauk hann vélstjóranámi og var síðan vélstjóri á fiskiskipum í Eyjum til 1953 og aftur 1955-1957. Hann starfaði sem vélstjóri í Fiskiðjunni í Eyjum 1954 og 1958-1959 og vann síðan í skamman tíma á skrifstofu Hafnarsjóðs. Frá 1960-1972 var hann bæjargjaldkeri hjá Vestmannaeyjabæ. Umboðsmaður Happdrættis HÍ í Eyjum varð hann 1972 og jafnframt útibússtjóri Skeljungs hf. á staðnum frá 1977. Þessum störfum gegndi hann allt þar til hann lét af störfum vegna aldurs. Hann var félagsmaður í Oddfellowstúkunni Herjólfi þar sem hann var virkur í starfi, gegndi trúnaðarstörfum og var gerður heiðursfélagi í stúkunni. Fyrr á árum tók hann einnig þátt í starfi Akoges í Eyjum og sat um skeið í stjórn Vélstjórafélags Vestmannaeyja, Starfsmannafélags Vestmannaeyja, Knattspyrnufélagsins Týs og átti sæti í fulltrúaráði Sjálfstæðisflokksins. Hann var sæmdur heiðursskildi Sjómannadagsráðs 1. júní 2003 fyrir vel unnin störf í þágu sjómannastéttarinnar.
Útför Sveinbjörns fer fram frá Landakirkju í Vestmannaeyjum í dag, 5. nóvember 2016, og hefst athöfnin klukkan 13.

Mér er minnisstæð fyrsta ferð mín til Vestmannaeyja ásamt konuefninu í byrjun sumars fyrir býsna mörgum árum síðan.  Þarna var ég kominn til að vera kynntur fyrir verðandi tengdafjölskyldu á staðnum.  Reyndar hafði ég einu sinni áður tyllt þarna niður fæti, en þekkti fáa og stoppaði stutt.  En þessi heimsókn og margar aðrar sem á eftir fóru bættu úr því.  Eftir því sem kynni tókust við fleiri eyjarskeggja varð sú hugsun áleitnari að það væri eitthvað sérstakt sem einkenndi þjóðflokkinn sem þarna býr.  Niðurstaða greiningar á þeim sérkennum fór ekki á milli mála.  Létt lund og gamansemi annars vegar og ósérhlífni til verka hins vegar voru þau einkenni sem aðkomumaðurinn taldi sig merkja hjá mjög mörgum sem hann kynntist eða sá til.  Hvað vinnusemina varðar var ekki erfitt að sjá myndina þannig fyrir sér að oftlega stirð sambúð við náttúruöflin hefði á löngum tíma hert mannskapinn, - hvort sem þessi öfl komu af hafi eða nú síðast úr iðrum jarðar.  Mér fannst einnig fljótt að tengdafaðir minn uppfyllti ágætlega báða þá góðu eiginleika sem áður voru nefndir.



Það sagði mér nokkuð um manninn að skelfileg lífsreynsla á yngri árum hefði ekki náð að svipta tengdaföður minn jákvæðni og lífsgleði þó að skuggi færðist jafnan yfir andlitið þegar hann gaf færi á að ræða þann atburð.  Hann var þá 21 árs gamall og nýlega útskrifaður vélstjóri þegar hann starfaði á fiskiskipinu Guðrúnu VE 163.  Hinn 23. febrúar 1953 fékk skipið tvö mikil brot á sig með örstuttu millibili þar sem það var statt nærri Bjarnarey á leið heim úr róðri og lagðist á hliðina.  Á þeirri skömmu stund sem leið þar til skipið sökk tókst Svenna að brjóta rúðu í brú skipsins, þröngva sér þar út og skera gúmmíbjörgunarbát lausan með vasahníf sínum.  Í hann komust fjórir skipverjanna en hinir fimm hurfum fyrir augum þeirra í öldurótinu.  Stundum var björgunarbáturinn á hvolfi en þess á milli hálffullur af sjó sem reynt var að ausa eftir mætti.  Í bátnum velktust þeir síðan þar til hann rak á land á Landeyjasandi.  Þaðan komust skipsbrotsmennirnir örmagna að bænum Hallgeirsey þar sem heimamenn og fleiri hlúðu að þeim.  Það mátti ekki tæpara standa því fyrir utan kulda og vosbúð um hávetur hafði Svenna blætt mjög vegna sára frá brotinni rúðu.  Þetta var í fyrsta eða annað skiptið sem mannslíf hafa bjargast hér við land eftir sjóskaða með notkun gúmmíbjörgunarbáta sem þá voru nýkomnir til sögunnar.  Með Svenna er nú genginn hinn síðasti fjórmenninganna sem komust lífs af úr þessum hildarleik.



Það fór ekki á milli mála að Svenni  var tengdur heimabyggðinni sterkum böndum.  Sennilega hvaflaði aldrei að honum að halda sig til frambúðar á fastalandinu svonefnda eftir að eldsumbrotum lauk í Eyjum.  Fjölskyldan flutti heim aftur 1974 en varð að búa í leiguhúsnæði meðan húsið við Kirkjubæjarbraut var endurgert.  Húsið fór ekki undir hraun, en endurgerð var ekki einfalt mál.  Það stendur austast í bænum þar sem öskufall var mest og öskustálið stóð upp á miðja þakkvisti á þessu þriggja hæða húsi þegar ósköpunum linnti.  Hluti götunnar næst Helgafellsbraut og lóðir þar voru hreinsaðar í ágúst 1973 og eftir stóðu óþekkjanleg hús í afleitu ástandi, nánast soðin í brennheitri öskunni.  Húsið sjálft var líka hálffullt af ösku.  Svenni hafði reist það 20 árum fyrr og verkefnið nú var litlu minna en í fyrri umferð.  Flest annað en steinsteypan og þakviðir var ónýtt og varð að endurnýja.   Jafnvel einangrun í öllu húsinu og lagnir urðu að víkja.  En hann setti í herðarnar og réðst til atlögu.  Inn flutti fjölskyldan svo 1976 og þar hafa þau hjón búið allar götur síðan. Umhyggja þeirra fyrir húsi og heimili sést m.a. af því að eitt sumarið fengu þau verðlaun Garðyrkjufélagsins fyrir fallegasta garðinn í bænum og 2012 verðlaun Vestmannaeyjabæjar og Rotary fyrir snyrtilegustu eignina þar.  Síðustu árin hafa þau verið einu íbúar austan Helgafellsbrautar sem bjuggu þar einnig fyrir gos.



Fyrir fjölskyldu mína var alltaf tilhlökkunarefni að skreppa til Eyja þar sem jafnan var gist á hótel tengdamömmu.  Gestrisni húsráðenda var einlæg.  Fyrir kom að farið var til þeirra að vetri til en langoftast að sumarlagi.  Það var strax í fyrstu heimsókn sem Svenni kannaði hjá verðandi tengdasyni hvort hann gæti hugsað sér að veiða lunda.  Sá síðarnefndi sló til.  Svenni fór með hann í Kervíkurfjall og kenndi handtökin.  Um námsárangur tengdasonarins skal sem fæst sagt.  Betur gekk hins vegar þegar Svenni fór með okkur og eftir það einnig börnin oftsinnis í Brimurð til að tína söl sem síðan voru þurrkuð í garðinum á Kirkjubæjarbraut.  Slík uppskerustörf þóttu ómissandi í flestum heimsóknum til Eyja, rétt eins og gönguferðir á Eldfell.  Þá kom fyrir að við fullorðnir og börnin eltumst við lundapysjur á götum bæjarins síðari hluta sumars, settum þær í kassa og slepptum síðan á Eiðinu næsta morgun.  Enn var Svenni lífið og sálin í tiltækinu og hafði jafn gaman af  og við hin.  Augljóslega var þetta heldur ekki í fyrsta sinn sem hann tók þátt í slíkum veiðiskap.



Þegar ég tengdist fjölskyldu Svenna var hann á kafi í félagsmálum.  Hann var m.a. virkur í starfi Oddfellowstúkunnar Herjólfs og æðsti embættismaður hennar í mörg ár og hafði fengið heiðursmerki stúkunnar.   Áður hafði hann einnig tekið þátt í starfi AKOGES.   Á sama tímamarki hafði hann í mörg ár gegnt tveimur störfum samtímis, þ.e. sem útibússtjóri Skeljungs hf. í Eyjum og sem umboðsmaður HHÍ þar.  Reyndar var Erna tengdamóðir mín virkur þátttakandi með honum í síðarnefnda starfinu og þannig tókst þeim í sameiningu að axla þær skyldur sem þessu fylgdi um árabil.  Það fór saman að heilsu hans tók að hnigna og hann lét af þessum störfum eftir langan og farsælan feril.  Þessi heilsteypti maður tók veikindum sínum af yfirvegun.  Jafnvel undir lokin þegar hann fékk þann úrskurð læknis á fundi með fjölskyldunni að ekki væri lengur unnt að andæfa gegn framrás krabbameins tók hann því af miklu æðruleysi.
Ég kveð tengdaföður minn með söknuði og virðingu.  Hans verður minnst sem heiðursmanns með hlýja nærveru.  Ernu, börnum þeirra og öðrum ástvinum votta ég samúð og bið honum sjálfum blessunar á eilífðarbrautinni.



Gunnlaugur Claessen.