Bjarni Jónsson, prófessor emeritus í stærðfræði við Vanderbilt-háskólann í Nashville í Bandaríkjunum, fæddist á Draghálsi í Svínadal 15. febrúar 1920. Hann lést í Cincinnati í Ohio, 96 ára að aldri, 30. september 2016.
Foreldar hans voru hjónin Jón Pétursson, f. 23. mars 1887, bóndi þar og svo hreppstjóri á Geitabergi í Svínadal, d. 22. september 1969, og Steinunn Bjarnadóttir, f. 17. mars 1895, húsmóðir á Geitabergi, d. 27. desember 1972. Bjarni fór til afa síns og ömmu á Geitabergi þegar hann var á fyrsta ári en árið 1929 fluttist hann til foreldra sinna og ólst upp hjá þeim á Draghálsi og á Geitabergi í stórum systkinahópi. Systkini Bjarna voru Sigríður, f. 1916, d. 1986, Pétur, f. 1918, d. 2003, Einar, f. 1921, d. 2009, Halldóra, f. 1923 d. 1923, Halldóra, f. 1925, d. 2014, Erna, f. 1927, d. 2014, Haukur, f. 1929, d. 1991, Pálmi, f. 1932, d. 1956, og Elísa, f. 1939, d. 1986.
Bjarni var tvíkvæntur. Fyrri kona hans var Amy Spraque Jónsson, f. 11. september 1929, d. 30. apríl 1988. Þau skildu. Börn þeirra eru: a) Eric Marshall, f. 27. ágúst 1951, maki Sandra Kaye Woollard, f. 23. apríl 1942, þeirra dóttir er Elisabeth Steinunn, f. 11. janúar 1976. Elisabeth er gift Terrence Lee Winslow Jr. b) Meryl Steinunn, f. 25. nóvember 1953, maki Michael Runion, d. 13. maí 1986, þeirra sonur David Skyler, f. 26. febrúar 1981. Seinni maður Meryl er Bob Rose, f. 29. október 1948. Seinni kona Bjarna var Harriet Parkes Jónsson, f. 14. apríl 1930, d. 19. desember 2014. Þeirra dóttir er Mary Kristín, f. 4. ágúst 1971, maki Rick Porotsky, f. 10. október 1970. Þeirra börn eru Brent, f. 14. febrúar 1999, Gena, f. 1. mars 2001, Aaron, f. 10. apríl 2003, William, f. 20. mars 2006, og Cole, f. 6. maí 2011.
Bjarni ólst upp á Geitabergi við hefðbundin sveitastörf en fór ungur að heiman til náms við Menntaskólann í Reykjavík og tók þar stúdentspróf 1939. BA-prófi í stærðfræði lauk hann frá háskólanum í Berkeley í Kaliforníu í Bandaríkjunum 1943 og doktorsprófi þar 1946. Bjarni var merkur vísindamaður, frumkvöðull í stærðfræði og virtur í heimi algebrunnar en mörg hugtök í greininni eru tengd við hann. Eftir að Bjarni hóf störf við Vanderbilt-háskólann 1966 var hann lykilmaður í því að koma þar á framhaldsdeild í stærðfræði og er hún nú talin meðal hinna bestu í Bandaríkjunum. Hann kom þar á fót rannsóknarhópi í algebru sem hefur laðað til sín stærðfræðinga víðs vegar að úr heiminum. Hann ritaði margar vísindagreinar um algebru í virt fagrit auk þess sem hann var í ritstjórnum margra stærðfræðitímarita. Bjarni var sæmdur heiðursdoktorsnafnbót við Háskóla Íslands árið 1986 og sæmdur stórriddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu 1991. Í tilefni af sjötugsafmæli hans árið 1990 var haldið málþing á Laugarvatni honum til heiðurs. Hann hlaut ýmsar viðurkenningar í heimi stærðfræðinnar og var tekinn inn í það sem kalla má frægðarsetur stærðfræðinga í Bandaríkjunum árið 2012.
Bjarni bjó síðustu æviárin í Cincinnati í Ohio í næsta nágrenni við Kristínu dóttur sína og fjölskyldu hennar.
Útför hans verður gerð í Nashville í Tennessee í Bandaríkjunum í dag, 12. nóvember 2016.
Í dag verður jarðsettur, í Nashville Tennessee, Bjarni Jónsson
stærðfræðingur. Þar mun Bjarni hvíla við hlið eiginkonu sinnar, Harriet,
sem lést árið 2014. Nashville er óralangt frá æskustöðvum Bjarna í
Svínadal í Hvalfjarðarstrandarhreppi og lífshlaup þessa sterk greinda,
ljúfa og einstaklega hógværa manns var mjög óvenjulegt fyrir bóndason,
fæddan á Íslandi á fyrri hluta síðustu aldar. Bjarni var sonur hjónanna
Steinunnar Bjarnadóttur og Jóns Péturssonar, einn 10 systkina. Vegna
barnafjöldans var ákveðið að Bjarni myndi búa hjá afa sínum og ömmu, þeim
Bjarna Bjarnasyni hreppstjóra og Sigríði Einarsdóttur á Geitabergi í
Svínadal. Amma mín, Björg, var yngst Geitabergs systkinanna. Hún og Bjarni
ólust að hluta til upp saman og amma var alla tíð mjög stolt af Badda
sínum. Afi Bjarna og Jón faðir hans munu snemma hafa séð að Bjarni litli
var góður í að fara með tölur. Þegar Bjarni hreppstjóri lá fyrir dauðanum
árið 1928, bað hann son sinn Bjarna lækni um að koma Bjarna litla til
mennta, sem hann og gerði. Eftir stúdentspróf vann Bjarni um skeið á
Akureyri en sigldi síðan til Bandaríkjanna þar sem honum hafði verið
boðin skólavist í Harvard og Berkley. Bjarni valdi Berkley og hóf þar
grunnnám árið 1941. Þá var nýlega komin til starfa hinn þekkti
stærðfræðingur Alfred Tarski frá Póllandi. Skv. ævisögu Tarski, fékk
Bjarni, sem þá var enn í grunnnámi, það verkefni að yfirfara Hausdorff
sannanir og varð Tarski yfir sig spenntur þegar neminn ungi fann villu í
einni slíkri. Bjarni varð síðan fyrsti doktorsnemi Tarski í Bandaríkjunum.
Bjarni og Tarski eyddu miklum tíma saman og það er alveg í takt við hógværð
Bjarna að halda því fram að það hafi verið vegna vinaleysis Tarski í nýja
landinu. Eftir doktorsnám kenndi Bjarni og vann við vísindastörf. Hann
kenndi m.a við Ivy League skólann Brown, en lengst af kenndi hann við
Vanderbilt háskólann í Tennessee þar sem hann byggði upp
framhaldnámsdeild sem nú þykir meðal þeirra bestu í Bandaríkjunum. Ég og
mín fjölskylda erum afar þakklát fyrir að hafa átt vináttu Bjarna þau 10 ár
sem við höfum verið í USA. Við heimsóttum þau hjónin bæði til Cincinnati
þar sem þau eyddu ævikvöldinu og í paradísina þeirra, sumarbústaðinn í
Minnesota. Við hlið bústaðsins í Minnesota var Bjarni með lítinn kofa sem
hann notaði til vísindastarfa á sumrin. Skv. nágrönnunum þá var Bjarni með
gríðarlanga pappírsörk sem hann byrjaði á að festa á veggina allan hringinn
í kofanum. Þegar leið á sumarið og útreikningurinn varð lengri og lengri,
kom örkin út um gluggann. Bjarni var alltaf spenntur fyrir fréttum að
heiman og best var að fá fréttir af ættingjunum. Eftir 75 ár í
Bandaríkjunum var íslenskan lýtalaus og hann mundi hvað öll hans fjölmörgu
systkinabörn voru að sýsla. Minni Bjarna var með ólíkindum. Sem dæmi, þá
urðum við orðlaus þegar hann þuldi upp ljóð eftir Björgu ömmu mína sem
höfðu verið lesin upp fyrir hann, einu sinni, 25 árum áður. Bjarni lét sér
annt um nám og starf Eddu dóttur minnar, sem einnig er stærðfræðingur,
ráðlagði henni varðandi framhaldsnám, skrifaði meðmæla bréf og fylgdist með
framgangi hennar af áhuga. Sem dæmi um hógværð Bjarna þá hafði hann sagt
börnunum sínum að hann var með slaka einkunn þegar hann tók inntökupróf í
menntaskóla en nefndi ekki að hann var langyngstur, einungis 12 ára gamall.
Hann hafði heldur ekki flíkað viðurkenningum sínum við neinn og þannig kom
t.d. nýverið í ljós að Bjarni hafði verið sæmdur Stórriddarakrossi hinnar
íslensku fálkaorðu. Þegar við vorum að dáðst að verkum hans og ótrúlegum
starfsferli, þá beindi Bjarni talinu umsvifalaust að einhverju öðru, en
hann var alltaf óspar á að hrósa öðrum. Bjarni hafði sérstaklega góða
nærveru, það var stutt í hláturinn og hann var sérstaklega ljúfur. Orðið
snillingur er ofnotað í daglegu tali en það er fullljóst að Bjarni Jónsson
var snillingur í eiginlegri merkingu þess orðs. Við munum sakna Bjarna
frænda og sendum börnum Bjarna, Kristinu, Meryl og Eric og fjölskyldum
samúðarkveðjur.