Adam Steinn Guðmundsson fæddist í Reykjavík 11. ágúst 1986. Hann lést 8. nóvember 2016. Hann var sonur Þorbjargar Steins Gestsdóttur og Guðmundar Helga Gústafssonar. Hann ólst upp í Seljahverfi, yngsta barn foreldra sinna, átti tvær systur móðurmegin, Evu og Donnu Kristjönu, og fimm systkini föðurmegin. Hann giftist Bergdísi Örnu Guðbjartsdóttur 2010 og eignuðust þau einn dreng, Daníel Stein. Þau slitu samvistum 2015. Adam var í sambúð með Thelmu H. Hilmarsdóttur og á hún tvo syni, Marko og Matthías.
Adam útskrifaðist sl. sumar frá verk- og raunvísindadeild á Keili og stundaði nám í mekatrónískri hátæknifræði við Háskóla Íslands.
Útför hans fer fram frá Seljakirkju í dag, 23. nóvember 2016, klukkan 13.
Elsku hjartans ástin mín.
Ég trúi varla að ég sitji hér og skrifi minningarorð um þig. Ég trúi ekki að ég eigi að sitja hér og rifja upp eitt fallegasta tímabil í lífi mínu, tímabilið okkar. Þegar ég kynntist þér þá vissi ég að ég væri að kynnast fallegum dreng með stórt hjarta. Við fengum okkar skerf af brotsjó en við tókumst ávallt á við mótlætið saman. Við kynntumst hratt og fljótt og fyrr en varði höfðum við búið til okkar einingu af fjölskyldu sem við elskuðum svo heitt. Barnavikurnar voru dásamlegar með öllu því sem fylgdi í Sælukoti. En svo voru vikurnar okkar þar sem við vorum tvö og nutum hvors annars í botn. Þá breyttist stofan okkar í hreiðrið okkar tveggja. Stundirnar þar eru ógleymanlegar. Þar sem við kjöftuðum fram á nótt, horfðum á þættina okkar, elduðum mat hvenær sem var sólarhrings og nutum þess að kúra yfir kertaljósi.
Það er svo skrítið að vakna og sjá engin skilaboð á speglinum frá þér á morgnana. Ég stend sjálfa mig að því að stara á spegilinn og hugsa um að skrifa þér en man svo að það er engin til að lesa skilaboðin. Þú varst svo ljóðrænn elsku Adam minn, það sýndi sig svo sannarlega í skilaboðaskjóðunni okkar. Hún hefur að geyma heimsins fallegustu ástarljóð og bréf sem við skrifuðum til hvors annars. Ég hef nú skrifað í hana mitt síðasta bréf og ég veit að þú lest það á fallegu skýi. Ég veit að það er klisjukennt að segja frá því að við höfum sofið í faðmlögum allar nætur og trúði því aldrei sjálf að pör gerðu það. En þannig var það nú samt hjá okkur. Við hlógum oft að því að við værum eins og fullunnið púsluspil. Næturnar eru mér erfiðar þá sakna ég þín óendanlega og vantar lokapúslið mitt.
Fróðleiksfúsari manni hef ég aldrei kynnst. Það var alveg sama hvað ég var að fást við þú hafðir alltaf áhuga á því. Ég fór í kór og eftir hverja æfingu þá spurðir þú mig hvernig gekk, hlustaðir með mér á lögin og lærðir. Þegar kom að tónleikum þá varstu á fremsta bekk og horfðir á mig stoltur.
Ég vildi fara íslenska jólatónleika en ég vissi alveg að það væri ekki þinn stíll. Þú hefðir frekar valið þungarokk. Það kom mér því verulega á óvart þegar þú bauðst mér út að borða og sagðir mér svo að við værum að fara á jólatónleika með Bjögga ásamt vinum okkar. Oftar en ekki þegar tónlist glumdi í litla hreiðrinu okkar þá dróstu mig út á stofugólf og við dönsuðum saman. Við vógum hvort annað svo fallega upp, elsku Adam. Ég var svo stolt af þér fyrir að stíga út fyrir þægindarammann þinn og gera hluti með mér sem voru svo skemmtilegir. Lékum kleinuhringi á Laugaveginum, jólasveina í desember og grínþjóna á árshátíðum. Ég vissi vel að þú værir stressaður en þú sagðir oft að þig langaði að gera allt til að lifa lífinu á sem skemmtilegastan hátt og það gerðum við svo sannarlega. Enda léstu langþráðan draum rætast með því að drífa þig í fallhlífastökkið í sumar.
Ég á það til að vera fiðrildið sem flögrar kannski of hátt en þá varst þú alltaf til staðar til að hnippa í mig og segja mér að doka aðeins við. En stundum þurftir þú á fiðrildi að halda til að hjálpa þér á loft og fá aðra sýn. Þetta tókst okkur saman. Þarna vorum við enn og aftur eins og púsluspil.
Það var magnað hvað við gátum talað mikið saman. Og þá skipti engu máli hvort við vorum hlið við hlið, í næsta húsi eða í sitthvoru landinu. Við skrifuðumst bara á í staðinn. Ég ylja mér við að lesa öll skilaboðin á milli okkar og brosi þegar ég hugsa til þess hversu oft vinir okkar gerðu grín að okkur og bentu okkur á að við hefðum kvatt hvort annað fimm mínútum áður. En okkur var alveg sama. Við áttum erfitt með að vera í sundur og svona leystum við það. Þegar ég var á næturvöktum þá var algjör regla að bjóða hvort öðru góða nótt öðruvísi gátum við ekki sofnað enda eins og áður hefur komið fram vorum við klisjukennd og höfðum sérlega gaman að því.
Við fengum stórt hlutverk í lífi hvors annars. Við urðum stjúpforeldrar. Með þér fylgdi elsku fallegi Daníel sem á fyrsta degi varð ljósið í lífi okkar strákanna. Þú varst honum stórkostlegur faðir og samband ykkar var dásamlegt. Á hverjum morgni skreið Daníel upp í okkar ból og undir hlýja sæng. Hann hélt alltaf í skeggið þitt og spjallaði við þig um heima og geima á óskiljanlegu tungumáli sem engin skilur en allir elska. Á sama tíma vöknuðu strákarnir mínir og slegist var um að liggja við hlið hans og okkar. Fyrir Daníel var engin fyndnari en þú og aðdáun skein úr augum hans þegar hann horfði á þig. Í dag er erfitt að horfa á litla gullið okkar kyssa myndir af þér og brosa til þín en á sama tíma svo einstaklega fallegt. Með mér fylgdu gaurarnir mínir tveir, Marko og Matti. Þú varst hræddur við það hlutverk líkt og ég en þær áhyggjur voru svo sannarlega ástæðulausar því frá fyrsta degi urðu þið bestu vinir og kærleikurinn skein á milli ykkar. Drengirnir mínir hefðu ekki geta verið heppnari með stjúpföður. Þú varst svo þolinmóður og viljugur til að gera hluti með þeim. Sú minning mun alltaf lifa með okkur. Við sem stjúpforeldrar stóðum okkur með stakri prýði í þessu hlutverki og líf okkar saman var hamingjuríkt og einkenndist af hlátri, gleði, tónlist, leik og söng.
Eftir situr tómarúm við fráfall þitt, elsku Adam minn. Það er gott að geta huggað sig við minningarnar. Takk fyrir að koma inn í líf mitt. Þú kenndir mér svo margt og varst mér svo mikið. Eitt skaltu vita að þér mun ég aldrei gleyma og mun elska þig ávallt.
Þín
Thelma.