Elísabet Guðrún Brynjólfsdóttir fæddist að Hellum á Vatnsleysuströnd 31. janúar 1933. Hún lést á Landspítalanum, Fossvogi, 10. desember 2016.
Foreldrar hennar voru Brynjólfur Hólm Brynjólfsson, f. 6. janúar 1903, d. 14. október 1979, og Margrét Þórarinsdóttir, f. 9. febrúar 1911, d. 27. júlí 1995. Systkini Elísabetar eru Brynjólfur, f. 1930, Þórarinn, f. 1931, d. 2005, Reynir, f. 1934, Ólafía, f. 1936, og Unnur, f. 1937, d. 1981, Garðar, f. 1939, d. 2012.
Elísabet giftist 11. apríl 1954 Reyni Reykjalín Ásmundssyni, f. 13. júní 1925, d. í mars 2013. Foreldrar hennar voru Margrét Þórarinsdóttir og Brynjólfur Brynjólfsson frá Minna-Knarrarnesi, Vatnsleysuströnd. Elísabet ólst upp hjá móðurforeldrum sínum, Guðrúnu Þorvaldsdóttur og Þórarni Einarssyni í Höfða, Vatnsleysuströnd. Eignuðust þau Guðrún og Þorvaldur fimm börn og tóku að sér fjögur fósturbörn og ólst því Elísabet upp í stórum systkinahóp. Eftirlifandi fóstursystir Elísabetar er Kristjana Guðmundsdóttir.
Börn Reynis og Elísabetar eru fjögur: Jóhannes Hólm, Þórarinn Gunnar, Rannveig Ása og Kristín Sigríður. Jóhannes Hólm Reynisson er í sambúð með Ásdísi Runólfsdóttur og eiga þau eina dóttur, Sólveigu Þóru. Fyrir átti Ásdís fjóra syni, Runólf, Þóri, Heiðar Má en yngstur er Óttarr Örn, stjúpsonur Jóhannesar. Óttarr er kvæntur Katrínu Reynisdóttur og eiga þau þrjár dætur. Áður var Jóhannes kvæntur Sigríði Ólafsdóttur og eignuðust þau tvö börn: Ólaf Þór, sem er kvæntur Aldísi Arnardóttur og eiga þau þrjú börn, og Elsu Guðrúnu, sem er gift Jóni Kjartani Kristinssyni og eiga þau þrjú börn. Rannveig Ása Reynisdóttir er gift Svanbergi Sigurgeirssyni. Þau eiga einn son, Sigurgeir, sem er í sambúð með Sóleyju Gísladóttur og eiga þau eina dóttur. Fyrir átti Ása Reyni Elís Þorvaldsson sem er kvæntur Jóhönnu Einarsdóttur og eiga þau þrjár dætur og eitt barnabarn. Þórarinn Reynisson var áður kvæntur Pálínu Guðmundsdóttur. Fyrr átti Pálína soninn Sigurþór Martein Kjartansson og gekk Þórarinn honum í föðurstað. Sigurþór er kvæntur Guðrúnu Fríði Hansdóttur og eiga þau þrjú börn. Fyrir átti hann son með Brynhildi Björnsdóttur. Kristín Sigríður Reynisdóttir var áður gift Aðalsteini Þórarinssyni og eiga þau dótturina Heklu Elísabetu Aðalsteinsdóttur.
Elísabet kom víða við á langri starfsævi. Á yngri árum vann hún ýmis sveitastörf í Höfða á Vatnsleysuströnd ásamt fiskvinnslu í Vogum. Sautján ára réði hún sig í vist í Reykjavík og gekk þar í húsmæðraskóla. Hún eignaðist ung sitt fyrsta barn. Elísabet vann ýmis störf eftir að börnin hennar voru að hluta uppkomin, mest verkakvennastörf eins og á Hrafnistu DAS, við umönnun á Skjóli en lauk starfsævi sinni á veirufræðideild Landspítala háskólasjúkrahúss.
Útförin fer fram frá Víðistaðakirkju í dag, 21. desember 2016, klukkan 15.

Hún hressist, hún rífur þetta af sér, hún gerir það alltaf en einn
dimman desemberdag gerist það ekki. Ekki veit ég hver fjárinn hljóp í
mig núna segir hún. Hvað er gerast?
Þú ert að fara að deyja mamma mín segjum við. Já, það er allt í
lagi segir hún á móti. Ég er ekki hrædd við að deyja og það er alveg
eðlilegt að ég deyi, ég er orðin svo gömul og lasin. Elsku börn, að
lifa mömmu sína er eðlilegt en að að lifa börnin sín, það held ég að
sé alveg óbærilegt. Ég er þakklát fyrir að hafa aldrei þurft að lifa
mín börn eða afkomendur mína. Ég get þakkað mínum guði fyrir það.
Móðir okkar hefur yfirgefið þetta líf. Tómleikinn virðist óendanlegur
og engu máli skiptir hve gamall maður er, móðir manns tilheyrir bæði
fortíð og framtíð. Næstu jól, næsta afmæli, næsta sumarfrí mamma
kemur með, við ræðum þetta við mömmu, spyrjum mömmu. Mamma veit, mamma man, mamma getur og mamma kemst þetta. Hún hjálpar okkur, hún skilur og mun sjá þetta í öðru ljósi. Allt er sjálfsagt og dauðinn er
óralangt frá hverjum degi.
En hún má ekki deyja. Hún er lífið okkar og sálin okkar, kletturinn,
fjölskyldan okkar og sagan okkar. Hún gerir öllum bara gott öllum
ávallt og ætíð. Svo er hún svo klár og svo sniðug, fyndin, minnug,
víðsýn, áhugasöm um alla skapaða hluti, mannelsk, góð við dýr,
hjálpsöm við þá sem minna mega sín, einlæg, innileg, falslaus, sterk,
ráðagóð, æðrulaus og svo einstök. Enginn er eins og hún. Hennar skarð
verður aldrei fyllt - er enginn hér að gera sér grein fyrir því hvað
hún er merkileg kona? Hún er ómissandi hún mamma, amma, langamma,
langalangamma okkar.
Það er svo skrítið að vera að fara að deyja segir mamma. Bara allt í
einu er þetta búið segir hún og vingsar höndunum upp í loftið. Þetta
er alveg furðulegt, finnst ykkur þetta ekki skrýtið líka? spyr hún og
forvitnin skín úr augunum hennar. Þetta verða skrýtin jól hjá ykkur
börnin mín. Hvar ætlið þið að vera - verðið þið ekki örugglega saman?
Já, þetta verða skrýtin jól og þetta verður líka skrýtinn janúar og
febrúar og páskar og vor og sumar. Það verður skrýtið líf án hennar en
við förum að sjálfsögðu að hennar góðu ráðum. Þið megið alveg syrgja
mig og þetta verður erfitt fyrir marga og þið verðið að passa upp á þá
sem eru viðkvæmari en aðrir. Þessum orðum fylgdi listi með nöfnum
brothættustu töffara fjölskyldunnar. En við ykkur vil ég segja & ekki
syrgja of mikið og & alls, alls ekki of lengi og hendurnar takast á
loft til áherslu. Ekki gráta mikið, bara hóflega. Reynið bara að hafa
það gaman. Ég er bara svo þakklát ykkur, börnin mín, barnabörn og
barnabarnabörn, þið hafið verið mér svo góð og hugsað svo vel um mig.
Við vitum ekki hvert mamma fór eða hvar hún er. Við óskum henni góðrar
ferðar og að hún fái uppskorið eins og hún sáði í þessu lífi. Við
óskum þess að á eftir þessu lífi taki við betra líf fyrir mömmu þar
sem hún getur gengið hönd við hönd við hlið pabba yfir grænt tún án
verkja. Við vonum að pabbi hafi tekið á móti henni og það hafi þá
verið konunglegar móttökur því enginn elskaði mömmu eins heitt og
pabbi og hún saknaði hans mikið alla daga. Við vonum að Jesús hafi
boðið hana velkomna í sinn betri heim þar sem engin börn þjást og
engin stríð geisa því það var draumaveröld mömmu eins og flestra
annarra. Þar hafa allir nóg að borða og nóg að gera. Þar ríkir
náungakærleikur og málfrelsi, gleði og velvild. Við vonum að hún hafi
fengið kaffisopa og kringlur hjá móður sinni og föður og kruðerí og
hlýtt faðmlag hjá öfum, ömmum, frænkum og frændum og vinkonum því
marga hafði mamma kvatt með trega og eftirsjá. Við vonum að hún sé
glöð, í fínum kjól, við góða heilsu, minni áhyggjur, að þar sé fallegt
veður og útsýni til allra átta, falleg sólarlög á sumrin og mögnuð
norðurljós um vetur. Að hún sé dansandi glöð alla daga og taki þannig
á móti okkur þegar við deyjum. Ef svo fer, er engu að kvíða.
Og vissulega er þetta skrýtið. Þetta er svo skrýtið allt saman að mann
sundlar og svíður í hjartað og hugurinn fuðrar upp af minningum. Mamma
þekkti okkur vel og hún vissi að dauði hennar yrði erfiður fyrir okkur
fjölskylduna. Hún þekkti ást okkar, virðingu og óttann við framtíð án
hennar. Hún þekkti okkur svo vel. Hennar móðurlegu ráð fylgja okkur
eins og ævinlega alla daga og nú ná þau út yfir gröf og dauða. Við
munum reyna eftir fremsta megni að hafa gaman og hugsa vel hvert um
annað, standa saman, hjálpast að og vera vinir. Hún hafði stundum á
orði já, ég held að ég hafi það sem kallað er ofurást á börnunum
mínum. Ég held að þetta sé ekki alveg normalt hvað ég elska ykkur
mikið.
Sú ást var og verður endurgoldin. Við höfðum ofurást á mömmu og það
mun aldrei breytast. Þú varst okkur þakklát en þakklætið er og verður
þó ætíð allt okkar megin elsku yndislega og ástkæra móðir okkar.

Jóhannes Reynisson, Rannveig Ása Reynisdóttir, Þórarinn Reynisson og Kristín Sigríður Reynisdóttir.