Magnea Gestrún Gestsdóttir fæddist í Reykjavík 18. ágúst 1928. Gestrún lést á hjúkrunarheimilinu Mörk 3. janúar 2017.
Foreldrar hennar voru Gestur Ámundason frá Rútsstöðum í Gaulverjabæjarhreppi, f. 29. júní 1878, d. 4. mars 1937, lengst af verkamaður í Reykjavík, og Guðrún Antonsdóttir, f. 2. maí 1902, d. 29. ágúst 1985, matselja. Systkini Gestrúnar eru Sigríður Gestsdóttir, f. 10. júní 1924, d. 30. september 2003, maki Hilmar Björnsson. Guðmundur Ingólfur Gestsson, f. 11. desember 1925, d. 28. desember 2001, maki Karólína Steinunn Halldórsdóttir. Andrea Guðrún Erla Gestsdóttir, f. 11. janúar 1934, d. 3. desember 2014, maki Viðar Þórðarson. Gestrún giftist 1953 Guðbrandi Ásmundssyni, f. 26. febrúar 1927, d. 6. september 2008, sem starfaði lengst af sem stýrimaður og skipstjóri. Börn Guðbrands og Gestrúnar eru: 1) Eygerður Guðbrandsdóttir, kennari, f. 29. apríl 1965, maki Jóhannes Sturlaugsson líffræðingur, f. 22. mars 1964. Börn þeirra eru Guðbrandur, f. 7. október 1986, Dalrún, f. 11. nóvember 1989, og Snæfríður, f. 20. júlí 1993. 2) Gestur Guðbrandsson rafvirkjameistari, f. 29. ágúst 1968, maki Þórdís Sæmundsdóttir skrifstofukona, f. 21. september 1969. Dætur þeirra eru Magnea Gestrún, f. 13. nóvember 1992, og Ólafía Kolbrún, f. 19. desember 1995. Gestrún fæddist í Reykjavík og ólst upp á Ásvallagötu 16. Að náminu loknu í Kvennaskóla Reykjavíkur hóf Gestrún störf í skartgripaverslun Jóns Sigmundssonar, þar sem hún starfaði í átján ár sem afgreiðsludama. Gestrún bjó sín fyrstu hjúskaparár í Reykjavík, fyrst á Laugavegi og síðan í Gnoðarvoginum en síðustu 40 árin í Lyngbrekku 21 í Kópavogi, þar sem hún starfaði sem húsmóðir í fjórtán ár. Síðari hluta starfsævinnar starfaði Gestrún sem verslunarstjóri í Kosta Boda í Kringlunni. Á ævikvöldi sínu dvaldi Gestrún á hjúkrunarheimilinu Mörk í Reykjavík.
Útför Gestrúnar fer fram frá Kópavogskirkju í dag, 12. janúar 2017, og hefst athöfnin klukkan 15.

Daginn sem þú fórst, fann ég þig. Það var sár og fagur fundur. Bústaður þinn líkaminn, var yfirgefinn. Þú varst farin á fund horfinna vina. Eftir sat ég um kyrrt við hlið þér, þráði að leggja hönd mína á ó svo mjúka hönd þína og segja: Amma, ertu nokkuð sofnuð? Ég vissi ekki hvað það var að sakna fyrr en þá stundina, og tilfinningin var þú, bara þú. Ég saknaði þín, hver þú varst frá fæðingu til þessarar stundar. Ég saknaði þín sem lítils barns, ég saknaði þín sem stúlku, kíma glaðlega með hina fegurstu drauma. Ung fagurklædd kona á svarthvítum ljósmyndum sem nú fyrst öðluðust bókstaflega líf í hendi mér, urðu lifandi og skarpar líkt og minningar mínar af þér sem eldri konu. Söknuðurinn stýrði nú öllum mínum aðgerðum, þú varst að hverfa, minning þín var líkt og þúsund fífur í svölum sumarvindi sem var reiðubúinn að nema þig á brott. Ég varð að varðveita þig, ofar öllu öðru. En hvernig skal varðveita konur sem þig, konur sem gátu sigrað heiminn, geta enn, ef ekki væri fyrir kynbundnar hömlur. Konur sem eru stólpar allra samfélaga, en rata aldrei á blöð sögunnar. Í herberginu þínu ríkti alger þögn, en rödd þín var ei hljóðnuð. Í ljós komu blöð. Ég opnaði helgiskrín, innst inn í náttborðskúffunni þinni var hulinn söguheimur, dagbók 17 ára stúlku frá árinu 1945. Ég opnaði fagurbláa bókina og á fyrstu síðunni blasti við kveðja, frá þér til mín: Halló! Kveðjustundin var rofin. Ég fletti á næstu síðu, þriðjudagurinn 6-11 45: Ég vaknaði í morgun, eins og vanalega þegar klukkan var að verða hálf átta. Klæddi mig, þvoði og greiddi mér í flýti, því engan tíma mátti ég missa, þreif síðan töskuna mína. Þú varst á leiðinni í skólann. Mér féllust hendur, ég vissi um leið hví þú skrifaðir þessa bók. Þú varst að nema í Kvennaskóla Reykjavíkur, eitt mesta ævintýri ævi þinnar, sagðir þú mér oft. Ferðalagið var hafið og þú fannst þörf til að skrásetja það, en ferðalag það endaði of skjótt. Þú hefðir viljað fara í háskóla.
Skriftin í dagbókinni er tignarleg, líkt og þú. Listakona sem að loknu námi vann í 18 ár í skartgripaverslun Jóns Sigmundssonar á Laugaveginum, demantur umkringdur gulli og silfri, með leynda drauma um að verða sjálf gullsmiður. Því þú varst margbrotin, líkt og demanturinn er. Síðar áttu listrænir hæfileikar þínir eftir að njóta sín þegar þú vannst í áraraðir í Kosta Boda, daglega umkringd glerverkum, postulíni og gyllingum. Hve allir þeir munir hafa fallið í skuggann er þú brostir. Brosið sem beið barna þinna þegar þau komu heim úr skólanum, öll þau ár sem þú helgaðir þig þeim, sem húsmóðir. Og nú skaltu láta alla þína hæfileika njóta sín, á stað sem er æðri öllum öðrum. Því á himnaríki ríkir jafnrétti, og þar eru húsmæður forsetar og stórsagan sjálf. Og nú er ríki þitt á himnum. Þú sem varst alltaf himnesk. Kveðjustund okkar reyndist þá vera fundur, 17 ára skólastúlku og afkomanda hennar á 27. aldursári. Stúlkan sem skrifaði  forðum í fagurbláa bók, ákallaði framtíðina með eftirvæntingu, orðin svo fögur líkt og þú sjálf ert, ætíð. Þá kom nótt og penni hvíldi á blaði: Fór að sofa langt gengin í 11. Þú varst ung og þreytt. Morgundagurinn beið þín, og allfögur framtíð. Og nú löngu seinna, syfjaði þig í faðmi okkar sem elskum þig svo heitt. Flaugst upp við fegursta hljómfall sem nokkur manneskja getur hugsað sér, ástarorð þinna nánustu. Ég held fast um dagbókina, um minninguna um þig, og veit um leið að mér var ætlað að halda henni á lofti. Þá hugsa ég um orðin sem ómuðu gjarnan er ég las upp fyrir þig, hér áður: Amma, ertu nokkuð sofnuð? Ne, nei ég var bara að loka augunum.

Dalrún Jóhannesdóttir.