Símon Ólafur Viggósson fæddist á Patreksfirði 23.apríl 1956. Hann lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 1. janúar 2017.Foreldrar hans voru Þorleifur Viggó Ólafsson verkamaður, f. 15. maí 1921, og Herborg Hulda Símonardóttir verkakona, f. 21. júní 1932, og eru þau bæði látin. Systkini Símonar eru: a) Ingibjörg Guðrún Viggósdóttir, f. 1950, maki hennar er Elías Kristinsson. b) Snæbjörn Geir Viggósson, f. 1952, maki hans er Helga Jónasdóttir. c) Sigurður Viggósson, f. 1953, maki hans er Anna Jensdóttir. d) Þorbjörn Hermann Viggósson, f. 1955, maki hans er Lilja Baldvinsdóttir. e) Bjarni Frans Viggósson, f. 1958, maki hans er Jóhanna Þórðardóttir. f) Kristín Viggósdóttir, f. 1961, maki hennar er Hilmar Jónsson.Símon kvæntist Birnu Sigurbjörgu Benediktsdóttir 30. desember 1979 og börn þeirra eru: 1) Herborg Hulda Símonardóttir, f. 19. desember 1979, maki hennar er Arnar Heiðarsson. Börn Huldu af fyrra hjónabandi eru Símon Freyr, f. 1999, og Friðbjörn Valur, f. 2002. Dóttir Huldu og Arnars er Herdís Helga, f. 2012. 2) Karólína Helga Símonardóttir, f. 22. október 1984, maki hennar er Daði Garðarsson. Sonur Daða er Alexander Máni, f. 2002. Börn Helgu og Daða eru Dagur Máni, f. 2007, Fjóla Huld, f. 2010, og Bríet Ýr, f. 2013. 3) Theodór Valur Símonarson, f. 14. júlí 1986, maki hans er Merenia Kristín Duff-Hrafnkelsdóttir. Símon hlaut full vélstjórnarréttindi frá Vélskóla Íslands árið 1984 og vann á hinum ýmsu skipum og bátum allan sinn starfsaldur.

Útför Símonar fer fram frá Garðakirkju á Álftanesi í dag, 12. janúar 2017, klukkan 13.

Komið að kveðjustund. Ég er varla að trúa því, ég er bara ekki að skilja þetta óréttlæti, þú ert bara 60 ára og öll góðu árin framundan. Ég er nýbúin að skrifa ræðu um þig þegar þú varst 60 ára og átti ekki von á því að þurfa að kveðja þig svo nokkrum mánuðum seinna. Það er langt frá því að mig langi að kveðja þig, hjartað mitt er svo brotið og viðkvæmt og mig langar svo að hafa þig lengur hjá okkur. Þú kenndir mér svo margt og varst svo þolinmóður, hefði svo viljað að barnabörnin þín hefðu fengið að kynnast þér betur. Ég er endalaust stolt af því að geta kallað mig stóru stelpuna þína. Það er svo margt sem kemur upp í hugann hjá mér þegar ég hugsa um þig t.d. þegar þú klifraðir upp rafmagnsstaurinn í Móatúninu því að hún Kola (kisan okkar) var búin að klifra upp hann, þegar við fórum á tófuveiðar út í Litla-Laugardal, hvað þá allar veiðiferðinar í Laugardalsánni þar sem var setið á bakkanum og veitt í marga klukkutíma. Í þessum veiðiferðum okkar var ýmislegt notað fyrir beitu á öngulinn og okkur fannst við veiða lang best á rækju. Ég fékk að skottast mjög mikið með þér þegar ég var yngri. Fór margar ferðir á Patró með þér og þær ferðir enduðu nú gjarnan á kók, pylsu og prins póló í eftirrétt áður en við héldum aftur yfir í Tálknafjörð. Prins póló-lagið minnir mig alltaf á þig og ég er alveg sannfærð um að lagið er samið um þig. Ein af mínum uppáhalds ljósmyndum er jólamyndin þegar þú stilltir myndavélina á tíma hljópst af stað og þá small takkinn, við sátum fjölskyldan í sófanum sæt og fín en rassinn og höndin á þér endaði inni á myndinni þar sem tímastillirinn var aðeins of stutt stilltur í þetta skiptið. Mikið hlógum við að því.
En talandi um þolinmæði og þrautseigju, þegar ég var að læra á bíl þá gat ég ekki lært að bakka en pabbi var með ráð við þessu, hann fór með mig út á gömlu bryggjuna á Tálknafirði og lagði bílnum á bryggjuendann, fór út úr bílnum og sagði: jæja Hulda mín, nú er komið að því að þú lærir að bakka og ég hélt nú ekki, ég myndi bara bakka út í sjó eða á bryggjukantinn, þá sagði pabbi bara: ég fer ekki af bryggjunni fyrr en þú ert búin að bakka svo ég neyddist til þess að bakka og eftir nokkrar tilraunir þá tókst það og ég bakkaði ekki út í sjó. Ég fékk þann heiður að gefa þér fyrsta afabarnið þitt og auðvitað varð hann nefndur strax Símon í höfuðið á þér. Ég gleymi aldrei svipnum á þér, þú varst bæði frosinn og montinn yfir þessu öllu. Þú varst svo stolturn hélst á honum aðeins nokkurra mínútna gömlum í þínum stóru höndum. Þú kallaðir hann alltaf frá fæðingu Nafni minn. Þremur árum seinna þá eignaðist ég annan strák, Friðbjörn Val, sem þú kallaðir alltaf stubb og þú einn máttir kalla hann það og enginn annar. Svo má nú ekki gleyma henni skellibjöllu, Herdísi Helgu, mikið spyr hún um þig; hvenær getum við heimsótt afa? Hvenær setjum við afa ofan í jörðina og fleira í þeim dúr. Um daginn fórum við í búð og þá kallar hún yfir búðina: þetta er tyggjóið hans afa, sem er Lemon extra. Börnin mín hafa alltaf verið mjög háð þér, það er bara eitthvað við þig pabbi, það verða allir háðir þér, þú ert svo rólegur, hefur allan tímann í heiminum, þolinmóður og ert svo hjálpsamur og skilningsríkur.
Sjómannadagshelgina 2009 þá komum við strákarnir vestur, þá var ég farin að hitta Arnar, núverandi manninn minn, og auðvitað elti ég hann vestur þar sem hann var að fara að syngja með Fjallabræðrum. Þið mamma vissuð ekkert að ég væri farin að slá mér upp. Á laugardagskvöldinu þá er ég að keyra ykkur á ball á Patró og seinna um kvöldið þá kem ég að sækja ykkur aftur og þar situr Arnar í framsætinu, þú settist i aftursætið og ég varð ekkert smá hissa en þarna var strákur sem þér leist greinilega mjög vel á þar sem þú baðst hann ekki að setjast aftur í bílinn. Þegar við Arnar keyptum húsið á Kvistavöllum 2013 þá varst þú mjög reglulega hér í bænum í lyfja- eða geilsameðferð en það stoppaði þig ekki neitt þó þú værir slappur eftir það, þú varst alltaf mættur að hjálpa til. Núna í sumar þá fékk ég þann heiður að hafa þig við hliðina á mér þegar við Arnar giftum okkur, það var ómetanleg stund og góðar minningar sem fylgja þeim degi. Þú varst mjög slappur þennan dag en sagðir við mig: við klárum þennan dag, elsku Hulda mín, það gerðum við og þú leiddir stóru stelpuna þína inn í athöfnina. Ég er svo þakklát fyrir að þú hafir verið með okkur þar sem við ætluðum að gifta okkur 1. júlí 2017 en ákváðum að flýta því þar sem ekki var eftir neinu að bíða. Mikið er ég þakkát fyrir að hafa hlustað á hjartað okkar og gift okkur 26. ágúst 2016. Svo var það punkturinn yfir i-ið 5. nóvember síðastliðinn, þá vorum við með brúðkaupspartí og þú sagðir við mig: ég kem en stoppa stutt. Þetta kvöld gleymist seint, þú varst svo hress og það var svo gaman að þú gerðir veisluna enn skemmtilegri og það sem gladdi mig svo mikið var hvað þú skemmtir þér vel og stoppaðir fram yfir miðnætti, það var eiginlega besta brúðargjöfin sem ég fékk - það að hafa þig með okkur. Elsku pabbi, ég get aldrei lýst því hvað þú gerðir líf mitt miklu auðveldara, ef ég datt þá greipstu mig, ef ég gerði einhver mistök þá hjálpaðir þú mér að leiðrétta þau, þú gerðir mig með hjálp mömmu auðvitað að þessari flottu stelpu sem ég er í dag. Alveg sama hvað hefur gengið á í lífinu þá hafið þið alltaf passað mig. Takk fyrir allar stundirnar og öll tækifærin sem þú gafst mér og fjölskyldunni minni, við elskum þig óendanlega mikið. Það verða mjög skrítnir tímar framundan og alltaf sár í hjartanu á mér sem á aldrei eftir að gróa. Það er nú þegar mjög skrítið að koma heim til ykkar og þú ert ekki þar, mig langar svo að faðma þig, tala við þig, hringja í þig og vildi óska að það væri sími á himnum. Ég sé þetta ekki fyrir mér, þú og mamma ekki saman, ég þekki ekkert annað en að hafa ykkur bæði hjá okkur. Ég veit að þú þjáist ekki núna en hefði viljað hafa þig lengur. Eins og ég sagði við þig þá pössum við mömmu og reynum að gera það eins vel og þú gerðir. Takk fyrir allt, elsku pabbi, þú lifir alla tíð í minningunum hjá okkur og það verður endalaust minnst á þig, þú ert stór hluti af okkur og verður það alltaf.

Hér er svo dapurt inni,
ó, elsku pabbi minn,
ég kem að kistu þinni
og kveð þig hinsta sinn.
Mér falla tár af trega
en treginn ljúfsár er
svo undur innilega
þau einmitt fróa mér.

Ég þakka fræðslu þína
um það, sem dugar best,
er hjálpráð heimsins dvína,
og huggað getur mest.
Þú gekkst með Guði einum
og Guði vannst þitt starf,
hið sama af huga hreinum
ég hljóta vil í arf.

Nú ertu farinn frá mér,
en föðurráðin þín,
þau eru ávallt hjá mér
og óma blítt til mín:
Guðs orðum áttu að trúa
og ávallt hlýða þeim,
það mun þér blessun búa
og ber þig öruggt heim.
(B.J.)



Þín stóra stelpa, .

Hulda Sím.

Elsku pabbi, bara ég gæti fengið að faðma þig aðeins oftar, heyra í hlátrinum þínum eða fylgjast með þegar þú ert að stríða krökkunum. Bara að þú hefðir getað fengið að fylgja okkur aðeins lengur. Elsku pabbi, það er allt eitthvað svo tómt. Það er erfitt að koma öllu því í orð sem um huga minn fer nú þegar ég sest niður og skrifa þessar línur til að minnast þín.

Eitt af þínu skemmtilegustu hlutverkum var að vera afi, það sem þú elskaðir að vesenast með krökkunum, fara með Dag Mána niður á bryggju á Tálknafirði eða út í á að veiða. Mikið voru þau heppin að eiga þig sem afa, leyfa Fjólu Huld að tala þig í kaf og sýna þér allar heimsins fimleikasýningar. Eða hvað þú gast strítt Bríeti Ýri en þið voruð svo miklir félagar. Hvernig þú og Alexander Máni gátuð setið saman í marga klukkutíma og rætt fótbolta, hvernig þú tókst honum strax sem einu af þínu barnabörnum. Hjartað þitt var svo endalaust stórt og alltaf pláss fyrir alla.

Minningabrotin birtast hvert af öðru. Frá því ég man fyrst eftir mér hefur þú verið hetjan mín, í mínum augum kunnir þú svo mikið, vissir alltaf allt og þú gast gert allt. Ég elskaði ferðirnar okkar yfir á Patró, fara með þér í bátinn þegar þú varst eitthvað að vesenast. Alltaf fékk maður að fara með og í minningunni hafðir þú alltaf tíma til þess að útskýra allt, hvernig vélin í bátnum virkaði, hvað allir þessir mælar og takkar gerðu.

Sérstaklega fannst mér sjóferðirnar skemmtilegar. Þegar þú náðir í mig, líklega vel sjóveika, niður í koju til að sýna mér hinar og þessar fisktegundir. Mér er minnisstæðast þegar ég fékk að sigla bátnum inn í höfn á Patreksfirði, ég hafði fulla trú á því að ég hefði gert það ein hjálparlaust. Alltaf nenntir þú að skutla manni á diskótek eða yfir á Patreksfjörð til að hitta vinkonurnar eða jafnvel redda fari. Ég man eftir því þegar ég missti einu sinni af rútunni sem átti að skutla okkur á diskótek á Örlygshöfn, þú varst ekki lengi að redda pabbastelpunni og brunaðir með hana yfir fjöll á diskótek.

Okkar yndislega áhugamál, bækur. Öll okkar samtöl um bækurnar sem við vorum að lesa eða búin að lesa. Þessi heimur bókmennta sem þú kynntir fyrir mér. Eitt sinn, þegar ég var að lesa Bókasafnslögguna eftir Stephen King þá var ég við það að pissa á mig úr hræðslu og læðist upp í rúm til ykkar mömmu. Þú tókst á móti mér hlæjandi og spurðir mig hvort ég væri komin á kafla 5 að mig minnir. Vissir nákvæmlega hvað var að gerast, ég fékk að kúra örugg þá nóttina en gat að lokum klárað bókina. Þessi heimur bókmennta er einstakur, þú varst einstakur að ýta á mig að lesa hina og þessa bók, gefa mér þennan heim, þetta er eitthvað sem fylgir mér og ég kenni börnunum mínum.

Ég er svo þakklát fyrir síðustu ferðina okkar á leik með Machester United, sem voru þínir menn. Þvílík markaveisla sem þú fékkst. En mikið vildi ég að þú hefðir fengið tækifæri til þess að horfa á mig fara með jómfrúarræðuna enda varst þú aðdáandi minn númer eitt - my number one fan. Takk, elsku pabbi, fyrir ómetanlegan stuðning í öllu því sem ég tók mér fyrir hendur, tímann sem þú gafst mér og traustið sem þú hafðir á mér. Þú varst stoð okkar og stytta, Guð hvað ég á eftir að sakna þín.

Allar umræðurnar okkar um pólitík og að fá að fylgjast með ykkur mömmu taka þátt í samfélaginu, með nefndarsetum, undirbúningi á hinum og þessum hátíðum, stjórn húsfélagsins eða annað. Að þínu mati er það skylda okkar allra að taka þátt í samfélaginu okkar, hvernig svo sem við veljum að gera það en við getum ekki setið hjá. Ég steig í ykkar spor, enda ekki við öðru að búast eftir að hafa alist upp hjá svona virkum og flottum foreldrum.
Elsku pabbi, þú varst einstakur. Þolinmæðin og hjartahlýjan, hvernig þú kenndir okkur að taka fólki eins og það er og vera ekki að dæma aðra. Vináttan þín og mömmu var svo falleg, það var yndislegt að fylgjast með ykkur þegar þið hélduð að enginn sæi til, stríðnisglottið, ástin og virðingin sem einkenndi sambandið ykkar. Takk fyrir að kenna okkur þetta æðruleysi og hvað hugafarið getur gefið mikið, hvað fjölskyldan skiptir miklu máli og samveran er mikilvæg. Þú sagðir mér svo oft að það skipti miklu máli að halda tengsum, ég lofaði þér oft að ég skyldi halda tengslunum við ættingja, ég stend við það.

Síðustu ár hafa verið ofboðslega erfið, en það er svo magnað að horfa til baka og sjá baráttuna og styrkin sem þú bjóst yfir á þessum erfiðum tímum. Hvernig það var alltaf stutt í grínið og gleðina þrátt fyrir erfiðleika. Hvernig þú tókst veikindunum, öllum þessum meðferðum og baráttu á þinn einstaka hátt. Þú ert með svo einstakt geðslag, elsku pabbi, takk fyrir að vera alltaf þú.

En nú breytist svo margt, það eru svo margar minningar sem rifjast upp, ég hef ekki pláss til þess að skrifa þær allar hér niður. Ég er þakklát fyrir að þú varst valinn sem pabbi minn og þann tíma sem við fengum saman, þann lærdóm sem þú kenndir mér og það sem ég get tekið með mér inn í framtíðina. Ég á allar okkar frábæru minningar, þær munu ylja mér um hjartarætur. Elsku pabbi, nú er komið að kveðjustund og hjartað mitt grætur, það er ekki hægt að lýsa því hvað ég sakna þín mikið og það særir mig að þú fáir ekki að fylgja okkur lengur á þessari jörð. Ég veit þú ert þarna einhvers staðar og þér líður betur, þar sem er alltaf birta og ylur og allar heimsins bækur sem þú getur lesið, ég veit þú fylgir okkur eftir og passar okkur þar til við hittumst á ný.

Karólína Helga Símonardóttir.

Í dag fylgi ég honum Símoni mínum síðustu skrefin í þessu jarðlífi þar sem hann mun leysa landfestar og sigla inn í ljósið á lygnu himinshafi.
Hann Símon minn er búin að heyja harða baráttu við veikindi sín í tæp fimm ár og síðasti mánuður ársins var honum mjög erfiður og bið ég góðan guð að honum líði vel núna. Veikindi Símonar fylgdi reglulegir sigrar og ósigrar en alltaf tók hann þessu öllu með æðruleysi og vonarneista í hjarta. Hann var þolinmóðasti maður sem ég hef kynnst, alltaf með sitt jafnaðargeð á hverju sem á dundi, en hann var alveg mannlegur og átti sínar döpru stundir en þær voru ekki margar og oftar en einu sinni sagði hann við mig Dúlla mín við komumst í gegnum þetta ekki hafa áhyggjur. Hann ætlaði að komast yfir þessi veikindi og hafið jákvæðnina og húmorinn að vopni allan tímann.
Ég get ekki hugsað þá hugsun til enda að verða án hans Símonar míns í framtíðinni svo samrýmd vorum við enda fetað veginn saman í fjörtíu ár. Við kynntumst fyrst á Tálknafirði 1975 og fórum að vera saman ári seinna, okkar tilhugalíf var ekki flóknara en það að þegar við hittumst í fyrsta skipti þá horfðumst við í augu og þar með var framtíð okkar ráðin. Elskulegastur hjarta mitt grætur af miklum söknuði við að horfa á sæti þitt tómt hér heima og engin Símon að koma með mér í litla húsið okkar í sveitinni í sumar. Við dúlluðumst mikið saman eins og börnin okkar kölluðu það okkur leið mjög vel saman hvort sem var alein í sumarhúsinu okkar, hér heima eða Tálknafirði. Hjarta mitt berst i brjósti mér þegar ég hugsa hvað við elskuðum hvort annað mikið og öll ævintýrin sem við eignuðumst og hversu samstíga við vorum í gegnum lífið, en þetta allt verður varðveitt í minningabankanum mínum og á eftir að hlýja mér innilega þegar ég hugsa til þín elskan.
Við Símon eigum mikið ríkidæmi sem eru börnin okkar þrjú Herborg Hulda, Karólína Helga og Theodór Valur öll flottir einstaklingar og hafa öll góðan mann að geyma.
Við eigum líka yndisleg tengdabörn og demantana sjö barnabörnin okkar, en þau elskuðu afa sinn af lífi og sál. Afi átti alltaf tyggjó í brjóstvasanum sem og varð til þess að þegar þau komu til að heimsækja okkur afa var fyrsta spurningin afi má ég fá tyggjósem hann hafði gaman af. Það var þrennt sem afi átti alltaf til var gult Extra tyggjó, kleinur og Prins póló. Börn löðuðust að Símoni hann hafði svo gaman að spjalla við þau og fundu hvað hann hafði mikla ánægju af að leyfa þeim að dandalast með sér og hann hafði endalausa þolinmæði og ánægju að leyfa krökkum að prófa hluti, undir vökulum augum sínum, eins og borvél, sláttuvél eða önnur tæki sem eru ekki ætluð börnum.
Símon fagnaði sextíu ára afmæli sínum í apríl á síðast ári og var ein af góðu gjöfunum sem hann fékk ferð á fótboltaleik sem hann fór með stórum hluta fjölskyldunnar til Manchester í september enda mikill aðdáandi Man. Utd. Hann var orðin mjög veikur á þessum tíma, en ferðin heppnaðist vel og hann naut sín á afar vel í henni, enda vann hans lið stórt. Þessi ferð var honum greinilega góð vegna þess að þegar hann lá fárveikur inni á sjúkrahúsi á aðventunni og ekki einu sinni á leiðinni heim, nefndi hann það í gríni við bróðir minn Loga að þeir ættu bara að skipuleggja svona hópferðir á leiki mánaðarlega eftir áramót.
Við Símon áttum dásamlegan hálfan mánuð á ættaróðalinu hans Litla Laugardal á Tálknafirði í nóvember ásamt góðum gestum sem komu til okkar í kaffispjall frá nærliggjandi stöðum og innan úr þorpi og  enda bjuggum við fjölskyldan þar inni í þorpi í húsinu okkar í Móatúni 3 ein þrjátíu ár.
Það var svo yndisleg upplifun að vera í kyrrðinni, anda að sér sjávarilminum og heyra í briminu.
Þessi ferð var eiginlega sérstök að mörgu leyti vegna þess að þar með var hringnum okkar eiginlega lokað, vegna þess að við stofnuðum okkar fyrsta heimili ásamt Bjarna og Jóhönnu í Litla Laugardal árið 1977 og bjuggum þar í ein tvö ár. Símon var komin til að kveðja heimastöðvarnar það vissum við innst inni og ætluðum að vera eins lengi og við hefðum nennu til, en því miður veikist hann eftir tveggja vikna dvöl og ég taldi ráðlegast að fara suður. Símon hafði oft orð á því hvað það hefði verið gott að koma heim og líka líta inn á okkar gamla heimili í Móatúninu. Þar ólum við upp börnin okkar þrjú og höfðum búið nákvæmlega 30 ár í húsinu þegar við ákváðum að flytja vegna veikinda Símonar og eignuðumst góðar minningar frá þessum árum með mörgum vinum. Ég held að hann hafi alltaf saknað Tálknafjarðar þó svo hann hafi ekki nefnt það en þar átti hann heima.
Hann var alla tíð sjómaður og elskaði sérstaklega að róa litlum bátum á skak og línu. Þar var hann í essinu sínu hlusta á veðurspá, athuga strauma og fylgjast með aflabrögðum hjá öðrum hvar þeir voru að fiska mest sunnan við eða norðan, já þetta var Símon minn alltaf með seltuna í hárinu sínu fallega. Það voru margir sem gerðust hásetar hjá Símoni og hef ég fengið fallegar kveðjur frá nokkrum þeirra með þeim orðum hvað Símon var þolinmóður og þægilegur í umgengni. Hann hjálpaði þeim að komast yfir sjóveiki og kenndi þeim réttu handtökin, en aldrei með neinum hávaða eða látum enda var aldrei neinn hávaði í kringum hann.
Ég vil senda hjartans þakkir og hlýhug til hjúkrunarfólks á krabbameinsdeild Landspítalans á 11 E og Líknardeildarinnar í Kópavogi fyrir gott hjartalag og afbragðs góða ummönnun. Við fjölskyldan eigum þeim líka mikið að þakka fyrir alla góðvildina og hjálpina sem þau sýndu okkur í baráttunni.
Fjölskyldum okkar Símonar og vinum sendi ég mínar dýpstu samúðarkveðjur og megi minning um góðan dreng lifa í hjörtum okkar.
Guð blessi þig, elsku Símon, ég veit að þér líður betur núna.

Sólin brennir nóttina
og nóttin slökkvir dag.
Þú ert athvarf mitt fyrir
og eftir sólarlag.

Þú ert yndið mitt áður
og eftir að dagur rís,
svölun í sumarsins eldi
og sólbragð af vetrarins ís.

Söngur í þöglum skógum
og þögn í borganna dyn,
þú gafst mér jörðina og grasið
og Guð á himninum að vin.

Þú gafst mér skýin og fjöllin og Guð,
til að styrkja mig.
Ég fann ei, hvað lífið var fagurt,
fyrr en ég elskaði þig.

Ég fæddist til ljóssins og lífsins,
er lærði ég að unna þér,
ást mín fær ekki fölnað
fyrr en með sjálfri mér.

Ást mín fær aldrei fölnað
því eilíft líf mér hún gaf.
Aldirnar hrynja sem öldur
um endalaust tímans haf.

Aldir og andartök hrynja
með undursamlegum nið,
það er ekkert í heiminum öllum
nema eilífðin, Guð og við.

(Sigurður Nordal)


Þín eiginkona,

Birna.