Þórarinn Viðar Hjaltason fæddist í Hafnarfirði 20. júlí 1962. Hann lést á líknardeild LSH í Kópavogi 17. desember 2016.
Foreldrar hans eru Ólöf Erla Þórarinsdóttir frá Viðfirði, f. 8.9. 1934, og Hjalti Auðunsson frá Dvergasteini, Súðavík, f. 10.9. 1928, d. 28.10. 2006. Systkini Þórarins eru Guðríður, f. 1959, Sigríður, f. 1960, og Auðunn Guðni, f. 1965. Auk þess átti Þórarinn fjögur hálfsystkini samfeðra. Þau er Auður, f. 1948, Helen, f. 1950, d. 2000, Skúli, f. 1953, og Dagbjört, f. 1955.
Þórarinn hóf sambúð með Helgu Kristinsdóttur, f. 1962, árið 1987 og gengu þau í hjónaband 23.11. 2012. Sonur þeirra er Elías Pétur, f. 1996, kærasta hans er Íris Svala Gunnarsdóttir, f. 1997. Fyrir átti Helga soninn Jón Orra Jónsson, f. 1983, unnusta hans er Margrét Sæný Gísladóttir, f. 1983, þeirra sonur er Jökull Máni, f. 2016.
Eftir BA-próf í sálfræði og réttindanám í uppeldis- og kennslufræði við HÍ 1990 vann Þórarinn í tæp 10 ár sem sálfræðikennari við Menntaskólann í Hamrahlíð. Árið 2000 flutti fjölskyldan til Danmerkur og útskrifaðist Þórarinn með cand. psych.-gráðu frá Háskólanum í Árósum 2002 og fékk löggildingu sem sálfræðingur. Fyrsta árið starfaði hann sem skólasálfræðingur hjá Reykjavíkurborg en starfaði síðan í um 10 ár sem sálfræðingur hjá Fangelsismálastofnun. Árið 2012 varð hann forstöðumaður á Stuðlum en þegar heilsan fór að gefa sig færði hann sig um set, vann sem sérfræðingur hjá Barnaverndarstofu og starfaði þar til dauðadags. Þórarinn tók að sér ýmis trúnaðarstörf, sat t.d. um tíma í stjórn Sálfræðingafélags Íslands og tók virkan þátt í nefndarstörfum innan félagsins.
Útför Þórarins fer fram frá Neskirkju í dag, 12. janúar 2017, og hefst athöfnin klukkan 13.

Hægt væri að eyða heilli mannsævi að telja upp og ræða allar þær frábæru minningar sem við feðgarnir eigum. Það eru margar sem standa upp úr þegar ég hugsa til baka. Þar er þó ein sterkust og er það síðasta veiðiferð okkar feðganna sem jafnframt var okkar uppáhalds ferð. Sú hófst á bökkum tveggja lítilla áa, Grjótá og Tálma á Mýrum, núna í lok september. Þar höfðum við aldrei veitt áður en höfðum þó heyrt góðar sögur af svæðinu. Spennan í okkur feðgunum var svo mikil að við ákváðum að leggja af stað seint um nóttina, degi áður en við máttum hefja veiðar, beint eftir að Evrópudeildarleik Manchester United lauk, auðvitað með sigri okkar manna.
Við vöknuðum svo eldsnemma daginn eftir, hámuðum í okkur skyri og hófum veiðar í organdi rigningu og roki. Um eittleytið var svo komið hlé, þá lágu tveir laxar plastaðir í skottinu á bílnum og við vorum orðnir glorhungraðir. Við pabbi höfum aldrei verið að flækja matinn í veiðiferðunum okkar mikið, en mottóið okkar var því einfaldara, því betra. Þannig var það í þessari ferð líka, í raun þó aðeins of mikið. Daginn áður í búðinni höfðum við gripið Bajon skinku sem við myndum éta um kvöldið og einfalt meðlæti. Í hádegismat yrðu svo grillaðar pulsur.
Þegar við vorum nýbúnir að fíra upp í grillinu þetta hádegi áttuðum við okkur á því að við höfðum einungis keypt pulsur og pulsubrauð en gleymt öllum sósum, steiktum lauk og öðru mikilvægu.  Við önduðum þó rólega því við vissum að við hefðum ekki gleymt Corona bjórnum og lime. Við enduðum á því að setjast úti á veröndina, með bjór í annarri og pulsu í hinni sem var með pikknikk frönskum og bernaise sósu frá kvöldinu áður. Á þessu augnabliki höfðu öll skýin farið og komin var mikil blíða og sólskyn. Þarna sátum við og horfumst djúpt í augu hvors annars, skáluðum, hlógum og nutum augnabliksins.
Seinna í sömu ferð hittum við Stjána, vin pabba, og Óla frænda og fórum við allir saman í Gljúfurá í Húnaþingi, sem var hans á. Þar var allt í flóðum, áin mórauð og illveiðanleg. Þar sló pabbi okkur öllum við, hann veiddi manna mest, hljóp upp og niður brekkur án þess að blása úr nös, enda þá á sterkum sterum, en það sem stóð upp úr var barátta hans við sinn langstærsta lax. Þá var hann nýbúinn að hlaupa niður eina af þessum snarbröttu brekkum, vopnaður Sage flugustönginni sinni og með sína uppáhaldsflugu á, sunray shadow. Eftir örfá köst var gripið hressilega í. Pabbi vissi strax að um stóran lax var að ræða.  Eftir um 15 mínútna baráttu gerðist hið ómögulega, stöngin hans brotnaði rétt fyrir ofan handfangið. Þarna hefðu flestir sagt game over en ekki pabbi. Hann var hinn rólegasti, greip brotna partinn og á einhvern ótrúlegan hátt náði að drösla laxinum á land. Þetta var feit hrygna sem var um 18 pund. Pabbi sleppti henni aftur eftir viðureignina en það er eitthvað sem ég er stoltur af að hafa náð að kenna honum en hann var ekki mikill veiða og sleppa maður. Fannst það alltaf óttalegt bull.
Við höfum alltaf verið nokkuð nánir feðgar, enda eigum við margt sameiginlegt, þá einna helst það að vera báðir ansi illa sýktir af hinni svokölluðu veiðibakteríu. Við höfum alltaf haft tíma fyrir hvorn annan og átt auðvelt með samskipti okkar.
Þegar að þú greindist með krabbamein fyrir rúmum fjórum árum síðan breyttist þú afskaplega mikið. Sú breyting sem á þér varð var í raun ekki eitthvað sem ég, mamma og aðrir áttum von á, en í dag get ég ekki þakkað þér nóg fyrir hana. Eftir að hafa meðtekið þessar gífurlega erfiðu fréttir ákvaðstu að síga ekki niður í þunglyndi og sjálfsvorkunn heldur gera akkúrat andstæðuna við það. Þú áttaðir þig á því hvað skipti þér raunverulega máli og hvað þér fannst gaman að gera, og gerðir þitt besta við að eltast við að sinna því. Þú breyttir afskaplega miklu. Þú varðst opnari við mig, byrjaðir að tala um tilfinningar, drauma, þrár og hræðslur. Þú fórst að sinna samböndum þínum betur, bæði við mömmu, vini þína, fjölskyldu og mig.  Veiðiferðum okkar feðganna fjölgaði til muna, hver ferð var mikilvægari og minningarnar urðu fleiri og sterkari. Þú sagðir það oft við mig að þér hafi fundist það erfitt þegar þú greindist að þá værir þú mögulega að skilja eftir 16 ára föðurlaust barn en núna værir þú að skilja eftir tvítugan fullorðinn og þroskaðan mann sem þú værir ótrúlega stoltur af, það munaði miklu fyrir þig. Undir lokin vorum við vorum orðnir meiri jafningjar og félagar og í raun má segja að á einhvern sérstakan hátt höfðum við orðið bestu vinir. Við gátum sagt hvor öðrum flest og rætt allt milli himins og jarðar. Þú gafst mér ráð og aðrar skoðanir á vandamálum sem voru mér á þeim tíma óleysanleg.
Sá maður sem þú varst orðinn þegar þú kvaddir okkur var ekki fullkominn en þú hafðir nýtt þér tímann sem þér var gefinn ótrúlega vel. Þú hafðir bætt þau sambönd sem þú vildir styrkja, þú hafðir náð að ala upp son þinn og hjálpa honum að verða að fullorðnum manni. Þú náðir að klára öll þín markmið, gera allt sem þú vildir gera og gott betur en það. Mikilvægast af öllu, var þó það hversu flottur þú varst í gegnum veikindin og hvernig þú tókst á við þau af miklu æðruleysi. Þú missti aldrei húmorinn og hlógum við mikið í gegnum þau. Sterkari og betri mann hef ég aldrei kynnst og mun líklega aldrei kynnast og þar af leiðandi finnst mér ekki skrýtið að ég líti á þig sem mína langstærstu fyrirmynd.
Aðrar minningar sem eru mér minnisstæðar eru til dæmis þegar við tókum tveggja vikna ferðalag um vestfirði, bara við tveir, í því sem við kölluðum laxveiðisafarí. Þar sem við veiddum óhemju mikið, borðuðum góðan mat, drukkum okkar fyrsta bjór saman og skemmtum okkur konunglega.
Þegar við fórum í Viðfjörð þar síðasta haust yfir helgi í tuttugu stiga hita og blíðu, veiddum laxa, töluðum um lífið og fleira.
Þegar við heimsóttum Þröst vin þinn í Boston, týndum epli, keyrðum til New York, fengum bestu nautasteikur sem við höfðum smakkað, auðvitað eldaðar af Bostongreifanum sjálfum, og lifðum eins og algjörir kóngar. Enda neitaðir þú að kaupa föt annarsstaðar en í Ralph Lauren eftir þennan hálifnað.
Þegar við fórum saman í Þverá í Haukadal í það sem átti að vera  laxveiði en endaði sem hrútabjörgun. Þar labbaðir þú 20km, upp fjöll og hæðir, veiddir eins og brjálæðingur en kvartaðir aldrei, samt nýskriðinn upp úr slæmri lungnabólgu og með lungnakrabbamein í þokkabót.
Ég gæti talið svona endalaust upp, jafnvel bíókvöld um helgar voru ótrúlega minnisstæð með þér. Þú lýstir svo oft upp herbergið með bröndurum og skotum á mann, enda varla hægt að finna stríðnari mann en þig. Þú áttir aldrei í vandræðum með að koma mér og mömmu til að hlæja, það er mér minnisstætt þegar þú varst nýkominn heim af heiladeildinni nú í haust, þegar þú viðurkenndir skömmustulega þrá þína að sniffa bensín á einhvern ótrúlegan hátt, og það að þú fyndir bara piparbragð af poppkorni.
Ég þakka þér fyrir allt sem þú hefur gefið mér í gegnum árin og fyrir þann vinskap sem við höfum þróað okkar á milli. Ég vona að þér líði betur núna og að þú sért á betri stað. Ég trúi því alla vegna að þú sért haldinn á aðrar veiðilendur, þar sem þú veiðir lax og rjúpu til skiptis, hleypur upp fjöll og hafir einstaklega gaman af. Einn daginn mun ég hitta þig þar.
Orð fá því ekki lýst hversu mikið ég mun sakna þín og þess að komast ekki í fleiri veiðiferðir með þér og að geta ekki rætt við þig um vandamál mín og drauma en ég mun þó spjara mig. Ég minnist þín sem yndislegs föður, fyrirmyndin mín, góður vinur og fyrst og fremst frábær og lífsglöð manneskja. Hvíldu í friði og megi englar Guðs vaka yfir þér í ljósinu.

Elías Pétur Þórarinsson