Björn Baldursson fæddist í Reykjavík 2. júlí 1966. Hann lést 31. desember 2016.
Foreldrar Björns voru Baldur Bjarnason, f. 9.11. 1918, d. 8.7. 1998, og Sigríður Salvarsdóttir, f. 17.5. 1925, d. 1.3. 2013, bændur í Vigur. Systkini Björns eru 1) Björg, f. 10.9. 1952, 2) Ragnheiður, f. 11.7. 1954, 3) Bjarni, f. 14.2. 1957, 4) Salvar, f. 5.9. 1960. Hálfbróðir Björns, sammæðra, er Hafsteinn Hafliðason, f. 25.2. 1946.
Árið 1998 kvæntist Björn Ingunni Ósk Sturludóttur, f. 23.12. 1959. Foreldrar hennar eru Solveig Thorarensen, f. 9.9. 1933, og Sturla Eiríksson, f. 21.10. 1933, d. 19.1. 2015. Börn Björns og Ingunnar eru Baldur, f. 7.7. 1998, og Snjólaug Ásta, f. 15.6. 2000.
Björn var alinn upp í eyjunni Vigur í Ísafjarðardjúpi þar sem foreldrar hans héldu bú ásamt Birni, föðurbróður Björns. Hann hóf nám í barnaskólanum í Reykjanesi og var þar einn vetur en fór síðan í barnaskólann í Hnífsdal og því næst í grunnskólann á Ísafirði. Ári eftir að hann lauk grunnskóla hóf hann nám við Bændaskólann á Hvanneyri og tók skyldubundið starfsnám á Lómatjörn í Grýtubakkahreppi. Björn útskrifaðist sem búfræðingur árið 1985 og sneri þá heim í Vigur þar sem hann tók við búinu ásamt Salvari, bróður sínum, og Hugrúnu, konu hans. Voru þeir bræðurnir fjórði ættliðurinn sem byggði eyjuna síðan ættin fluttist þangað árið 1884. Sambúð Björns og Ingunnar Óskar hófst árið 1995 og bættist hún þá í hóp bændanna í Vigur. Árið 2004 fluttu Björn og Ingunn ásamt börnum sínum til Ísafjarðar þar sem Björn starfaði til skamms tíma hjá verktakafyrirtækinu Ágúst og Flosi ehf. Haustið 2004 hóf hann störf hjá Byggðasafni Vestfjarða þar sem hann vann sem safnvörður alla tíð síðan. Björn var um tíma þáttagerðarmaður hjá svæðisútvarpi Vestfjarða.

Björn gegndi ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Súðavíkurhrepp og Ísafjarðarbæ. Hann átti sæti í búnaðarmálanefnd og var búfjáreftirlitsmaður um nokkurra ára skeið. Þá átti hann sæti í sóknarnefnd Ísafjarðarkirkju frá 2011 og var formaður nefndarinnar frá 2013 til dauðadags. Um tíma söng hann með Sunnukórnum á Ísafirði og var í Rótarýklúbbi Ísafjarðar. Björn var áhugaljósmyndari, hann hafði mikinn áhuga á sögu og íslenskum þjóðháttum safnaði saman miklum fróðleik tengdum því og skrifaði greinar sem birtust víða, m.a. í Ársriti Sögufélags Ísfirðinga og á vefsíðu hans vigur.123.is
Útför Björns fer fram frá Ísafjarðarkirkju í dag, 14. janúar 2017, kl. 14.

Ungur maður stendur grafkyrr og teinréttur á Hreggnesaklettinum í Vigur, yfir fjörukambinum og virðist horfa á haf út.
Þekki auðvitað baksvipinn á Birni frænda mínum Baldurssyni, enda erum við bræðrabörn og höfum þekkst alla tíð.
Þar sem ég fylgist með frænda út um gluggann á Pukru, bústað hinna brottfluttu Vigursystkina, aðeins utar á eyjunni en sjálfur Vigurbærinn,
velti ég því fyrir mér hvernig einn maður geti staðið svona kyrr, svona lengi.
Það mætti halda að hann væri orðinn að myndastyttunni af Sigurði, föðurbróður sínum Bjarnasyni, sem stendur þarna nálægt.
En í Vigur stendur tíminn stundum kyrr og auðvitað er Böddi frændi að skoða eitthvað sem máli skiptir.
Geng rólega að frænda til að athuga hvað það sé sem vekur athygli hans með þessum hætti. Hann snýr sér hægt að mér og bendir þegjandi á lítinn selkóp.
Kópurinn er næstum hvítur og því sennilega nýfæddur. Hann liggur á steini utarlega í fjörunni og Björn vill skiljanlega ekki styggja hann, allra síst ef urtan skyldi nú skila sér til afkvæmisins, enda næmur maður og mikill dýravinur,
Hann er bara að stúdera litla dýrið í rólegheitum og njóta augnabliksins. Eins og honum lætur öðrum mönnum betur.
Það eru ekki svo mörg ár síðan selir og jafnvel hvalir fóru að sækja aftur inn í Ísafjarðardjúp þannig að þetta er ekki hversdagsleg sjón, svona innarlega í Djúpinu.
Þessi mynd er ein af ótalmörgum fallegum sem ég á í hugskotinu af mínum kæra frænda, Birni Baldurssyni, sem nú er horfinn frá okkur, allt of snemma.
Allar myndir af mínum elskulega frænda eru góðar og fallegar. Ekki allar jafn stórmerkilegar fyrir öðrum kannski, en í mínu hugskoti allar jafn skýrar og ljúfar.
Ekki síst brosið hans fallega, sem mun lifa í hugum allra sem báru gæfu til að þekkja þennan mikla mannkostamann.
Böddi smápatti í bát með mér og eldri bræðrum sínum, Bjarna og Salvari, jafnvel líka föður sínum, Baldri og föðurbróður, Birni. (Fyrir þá sem ekki vita þá gerist hálft lífið í Vigur á sjó.)
Böddi svo farinn að stýra fleyi sjálfur og við tvö á bát að skreppa út í Súðavík á sumarkvöldum að sækja okkur spólu í sjoppuna þar eins og ekkert sé sjálfsagðara. Man þegar við lögðum á okkur slíkt ferðalag á sumarkvöldi til að sækja hryllingsmyndina Fluguna, sem okkur þótti óborganlega fyndin og vel ferðarinnar virði.
Sumar myndirnar eru þannig að nú vantar mig Bödda minn til að geta grínast með þær. Það eina sem ég lagði aldrei í að grínast með við Bödda var hundurinn hans, hann Lappi.
Sá hundur, (reyndar eini hundurinn sem ég man eftir að hafi nokkrun tíma fengið að ganga laus í Vigur, nema kannski um hávarptímann), þótti mér alltaf frekar hvimleiður, en vegna þess hvað Bödda þótti vænt um hann sagði ég aldrei styggðaryrði um Lappa. Það gerði heldur enginn annar.
Annars var Böddi þannig frá fyrstu ferð að hann náði alltaf öllu sem sagt var, eiginlega áður en það var sagt. Slík var næmni hans og greind.
Hann var ljúfur í skapi, líkt og Baldur faðir hans, en langt í frá skaplaus. Fór bara vel með það, líkt og allt annað.
Síðan vex Böddi minn úr grasi, verður búfræðingur frá Hvanneyri og tekur við búskap í Vigur ásamt Salvari bróður sínum, miklum listasmið.
Eins og Sigríður Salvarsdóttir, móðir þeirra, sú skynuga kona, sagði eitt sinn við mig Við Baldur höfðum vit á að hætta að búa meðan við höfðum vit á að hætta að búa." En henni varð stundum tíðrætt um það að sumt fólk hefði einmitt ekki vit á nákvæmlega þessu.
Öll er samvinna og verkaskipting þeirra bræðra með besta móti og eyjan heldur áfram að blómstra. Þeir eru fjórða kynslóð frá Sigurði Stefánssyni, langafa okkar, presti og alþingismanni, sem kemur úr Skagafirði og hefur búskap í Vigur með miklum myndarbrag, þó að þyrfti að sinna jafnframt bæði prestsskap og stjórnmálum, ásamt konu sinni, Þórunni Bjarnadóttur frá Kjaransstöðum, Akranesi. Af þeim taka við yngri synir þeirra, Bjarni og Stefán. Einnig þeim búnast vel. Stefáni varð ekki barna auðið, en börn afa míns og ömmu, Bjarna Sigurðssonar og Bjargar Björnsdóttur, frá Veðramóti í Skagafirði, eru bræðurnir Sigurður, faðir minn, Björn og Baldur. Aftur taka tveir yngri bræður við búskap í Vigur meðan elsti sonurinn, Sigurður, heldur til annarra starfa. Það gera systurnar þrjár, Þorbjörg, Þórunn og Sigurlaug einnig, en öll halda þó brottfluttu systkinin og þeirra afkomendur miklum og góðum tengslum við eyjuna.
Af þeim systkinum lifa nú tvær yngstu föðursystur mínar, Þórunn og Sigurlaug. En það eru börn Baldurs, föðurbróður míns, sem taka við búskap í Vigur. Þó að hér hafi aðeins verið minnst á þá bræður, Salvar og Björn, sem við nú kveðjum með trega, þá hefur þeirra samheldni og góði systkinahópur einnig komið að Vigurbúinu og sýnt bræðrum sínum mikla og góða samstöðu. Elstur er Hafsteinn, sonur Sigríðar og Hafliða Jónssonar. Þá koma mínar yndislegu frænkur og kæru vinkonur, Björg og Ragnheiður, síðan Bjarni, elstur bræðranna, frábær sögumaður og smíðar báta öðrum mönnum betur. Yngstur var Björn.
Eftir er að geta þess hve lánsamir þeir yngstu Vigurbræður hafa verið með kvonfang. Salvar kvæntist ungur Hugrúnu, miklum kvenkosti sem seint verður ofmetin. Þau eiga fjögur myndarleg börn.
Seinna kvæntist Björn Ninnu sinni, Ingunni Ósk Sturludóttur, yndislegri konu og eðalfínni söngkonu, sem einhvern veginn smellpassaði svo við Bödda að það var var engu líkt. Þvílíkt sem þau Böddi og Ninna voru falleg og skemmtileg hjón, elskuð af öllum. Þau áttu fyrst soninn Baldur, sem fæddist daginn fyrir andlát afa síns, Baldurs í Vigur, og hefur æ síðan verið mikið ljós í húsi allra sem hann þekkja. Einnig öflugur vinnumaður hjá Salvari föðurbróður sínum í Vigur. Líkur Birni föður sínum og svo líkur afa sínum og nafna, þeim væna manni, að sumum finnst það varla einleikið. Síðan kom dóttirin Snjólaug Ásta, glæsileg stúlka, sem heitir eftir sinni góðu móðursystur, Snjólaugu Sturludóttur, sem lést langt fyrir aldur fram.
Lífið hefur leikið við þetta góða fólk og fallegu fjölskyldu árum saman og það hefur sannarlega glatt okkur öll sem höfum borið þau fyrir brjósti.
Þrátt fyrir breytta búskaparhætti hafa þessi hjón, Salvar og Hugrún, Björn og Ingunn Ósk, þeirra börn og okkar frændfólk, haldið lífinu gangandi í Vigur, auk þess að sinna öðrum störfum á Ísafirði, þar sem Björn hafði m.a. umsjón með hinum myndarlegu byggðasöfnum á Eyrinni. Þar nýttust einnig hæfileikar hans, ritfærni og sögulegur áhugi, m.a. í ritum um sögu Vigur, sem hann skrifaði með Björgu systur sinni.
Ingunn Ósk er skólastjóri Tónlistarskóla Ísafjarðar og hefur þannig nýtt sínu tónlistarmenntun og miðlað af henni. Fjölskyldan hefur búið í fallegu gömlu Krambúðinni á Eyrinni, þangað sem gaman hefur verið að heimsækja þau.
Lífið hefur verið gott og engin var ástæðan til að ætla að svo yrði ekki áfram.
En skjótt skipast veður í lofti. Það dimmir yfir Djúpinu við missi þess öðlings og mannkostamanns, sem Björn Baldursson var.
Hann er sárt syrgður af öllum sem báru gæfu til að kynnast honum. Það er stórt skarð höggvið í okkar frændgarð. Einnig í samfélagið fyrir vestan, þar sem hver einstaklingur er svo mikilvægur og öllum þótti vænt um þennan ljúfa, góða og greinda mann.
Fékk fallegt bréf á dögunum frá konu á Ísafirði, okkur alls óskyldri, hvar sagði að þar væri fólk lamað af sorg yfir að hafa misst þennan öðling frá sér.
Þakka mínum elskulega frænda fyrir allt og allt. Veri hann kært kvaddur þó að þungbært sé að sjá á bak honum.
Mestur er þó missir Ingunnar Óskar, Baldurs og Snjólaugar Ástu. Til þeirra hugsum við nú með harm og samhryggð í hjörtum.
Þau eiga þó fallegu minningarnar um sinn góða mann. Og sólin mun rísa aftur í Djúpinu.


















































Hildur Helga Sigurðardóttir.