Guðríður Soffía Sigurðardóttir, húsmóðir og fyrrverandi kaupmaður, fæddist á Geirseyri við Patreksfjörð 23. febrúar 1928. Hún lést á dvalarheimilinu Grund aðfaranótt 7. janúar 2017.
Foreldrar Guðríðar voru Sigurður Andrés Guðmundsson, f. 29. nóvember 1886, d. 23. desember 1948, skipstjóri og bóndi á Geirseyri og Svandís Árnadóttir, f. 9. september 1893, d. 29. febrúar 1968, húsmóðir. Systkini Guðríðar eru Árni, vélsmiður í Reykjavík, f. 24. október 1918, d. 12. ágúst 1975, Sigurður, vélsmiður á Patreksfirði, f. 3. janúar 1919, d. 23. júní 2012, Ásta, húsmóðir í Borgarnesi, f. 14. júlí 1921, d. 11. mars 2009, Þóroddur Thoroddsen, vélaverkfræðingur og vatnsveitustjóri í Reykjavík, f. 11. október 1922, d. 14. júní 1996, Ingveldur Helga, fyrrverandi kaupmaður í Reykjavík, f. 14. júlí 1924, Guðmundur, verkstjóri hjá Jarðborunum ríkisins, f. 29. janúar 1926, d. 28. febrúar 1996, Anna María, f. 25. nóvember 1929, d. 28. apríl 1942, Rögnvaldur Geir, stórkaupmaður í Reykjavík, f. 19. ágúst 1931, d. 15. desember 2016, Svandís, f. 16. mars 1934, d. 8. ágúst 1936, Ásgeir Hjálmar, f. 10. desember 1936, fyrrverandi skrifstofumaður í Reykjavík, og óskírð stúlka, f. 24. nóvember 1939, lést í frumbernsku. Guðríður giftist 17. júní 1955 eftirlifandi eiginmanni sínum Jónasi Ásmundssyni, f. 24. september 1930, fyrrum oddvita og framkvæmdastjóra á Bíldudal og síðar aðalbókara Háskóla Íslands. Foreldrar hans voru Martha Ólafía Guðmundsdóttir húsmóðir og Ásmundur Jónasson sjómaður og verkamaður á Bíldudal. Börn Guðríðar og Jónasar eru: A) Ásmundur, f. 20. júlí 1957, læknir, kvæntur Guðrúnu Vignisdóttur, hjúkrunarfræðingi og eiga þau tvo syni, Jónas og Tómas Vigni. Áður eignaðist Ásmundur soninn Jón Kristin og Guðrún soninn Heimi Snorrason. B) Gylfi, f. 24. júní 1960, framkvæmdastjóri, kvæntur Ásdísi Kristmundsdóttur, sviðsstjóra, og eiga þau tvær dætur, Gígju og Hrefnu Björgu. C) Helgi Þór, f. 20. júlí 1964, hagfræðingur, kvæntur Kristínu Pétursdóttur, löggiltum fasteignasala og eiga þau tvö börn, Hinrik og Mörthu Sunnevu. Dóttir Jónasar, stjúpdóttir Guðríðar er Guðrún Jóna, f. 31. desember 1952, fulltrúi. Sambýlismaður hennar er Ingi Halldór Árnason og á hún þrjú börn, Jónu Dís, Þóreyju og Ottó Inga Þórisbörn. Barnabarnabörn Guðríðar og Jónasar eru ellefu. Guðríður ólst upp á Geirseyri og sinnti þar bústörfum með foreldrum sínum. Að loknu barna- og unglinganámi stundaði hún nám við Húsmæðraskólann á Akureyri. Á árum sínum á Patreksfirði starfaði hún sem ráðskona við Sjúkrahúsið á Patreksfirði og við verslunarstörf. Guðríður fluttist til Bíldudals þegar hún hóf búskap með Jónasi árið 1955 og sinnti á árum sínum þar barnauppeldi og húsmóðurstörfum. Árið 1971 fluttist fjölskyldan búferlum í Kópavog og bjó lengst af á Sunnubraut 43. Guðríður festi kaup á versluninni Regnhlífabúðinni, Laugavegi 11, árið 1976 og starfrækti hana til ársins 1999. Guðríður tók alla tíð virkan þátt í félagsstörfum. Hún starfaði í skátahreyfingunni á Patreksfirði á sínum yngri árum, slysavarna- og kvenfélögum, bæði á Patreksfirði og Bíldudal og var um skeið formaður slysavarnafélagsins á Bíldudal. Auk þess söng hún með kirkjukórum á Patreksfirði og Bíldudal og síðari ár tóku þau hjónin þátt í félagsstarfi eldri borgara í Kópavogi.
Guðríður Soffía verður jarðsungin frá Kópavogskirkju í dag, 18. janúar 2017, klukkan 15.

Elsku amma.
Nú hefur þú kvatt og haldið á æðri stað. Ég sá það þegar við hittumst síðast að þú varst að undirbúa ferðalagið. Þú varst orðin lúin og þreytt í líkamanum og sálin var tilbúin að halda á vit ævintýra. á staðina sem þú talaðir um af undrun og aðdáun. Gömlu Geirseyrina eða grænan skóg í Noregi.
Ég ber stolt gælunafnið þitt amma. Það er heldur ekki leiðum að líkjast. Þér tókst að gera hverja samverustund svo góða og eftirminnilega. Ég á þúsund minningarbrot um þig úr æsku og þegar ég lít til baka ert þú ljóslifandi í minningunni.
Sunnubrautin var ævintýrahöll. Þar mátti allt, allavega í minningunni. Þar var seríos með safti í morgunmat, pönnukökur með kaffinu og gulur ís í eftirrétt með bíóinu. Afi sat í afastól og litla hafmeyjan sat á hillunni. Það voru þúsund bækur í hillum á ganginum. Ég man sérstaklega eftir marglituðum bókum um vísindin. Þær hétu ýmist líffræði, eðlisfræði eða geimurinn. Ég sat stundum og las titlana og ímyndaði mér um hvað bækurnar væru. Klukkan sló og ómaði um húsið. Ég man að ég taldi stundum þegar ég vaknaði á morgnana og mátti helst ekki fara framúr fyrr en slögin voru orðin sjö.
Þegar maður kom á Sunnubraut bankaði maður með ljóni á dyrnar. Svo komst þú til dyra og meðan maður klæddi sig úr ræddum við oft af hverju drengurinn á myndinni í forstofunni væri svona dapur. Þú sagðir ýmsar ástæður vera fyrir því, nýjar í hvert sinn. Eitt sinn var það vegna þess að hann hafði lesið Harry Potter því það var svo ljót saga. Þér leist aldrei vel á þennan Harry Potter.
Það var alltaf til kakómalt og það var ekki ónýtt að fá stórt glas af slíku þegar maður kom inn í eldhús. Stundum bentir þú á skrýtna mynd á veggnum í eldhúsinu og söngst gamla skátavísu sem ég kann ekki en ég man að hún hófst á orðunum Salem alaykum. Svo lékum við okkur. Það skipti engu máli hvað okkur krökkunum datt í hug að gera, þú varst boðin og búin að gera leikinn sem skemmtilegastan. Ef okkur langaði til að fara með báta út í fjöru var mogginn tættur í sundur og brotinn þannig að úr urðu bátar. Að sjálfsögðu fengu allir skipstjórahúfur að auki. Einhvern tímann vildum við senda flöskuskeyti til Kína. Ekkert mál.
Vinsælasti leikurinn hjá okkur systrum var búningaleikur. Þú hikaðir ekki við að opna fataskápinn þinn og draga fram kjóla, pils og skó og bjóða okkur svo sæti við snyrtiborðið þar sem skartgripaskúffan var opnuð upp á gátt og maður hlóð á sig gulli og gimsteinum. Stundum fengum við líka varalit. Það var toppurinn á tilverunni.
Seinna fengum við systur að eiga eitt og annað úr fataskápnum. Fjólublátt plíserað pils, brúna reimaða leðurskó, rautt spariveski, pels, pallíettubelti og bláa silkikjólinn sem þú varst í á brúðkaupsdaginn þinn. Í gegnum tíðina hef ég fengið ótal spurningar um hvar í ósköpunum ég hafi fengið svona fínerí. Þá hef ég getað sagt frá því að þetta kæmi úr skápnum hjá ömmu minni. Já, þú varst skvísa.
Ég man eftir að hafa fylgst með þér þegar þú settist við eldhúsborðið með stóra gula förðunarspegilinn og hafðir þig til. ,,Ég hef alltaf haft svo gott hár,sagðir þú og greiddir í gegnum hvítu krullurnar með fingrunum. Þú varst iðulega með bleikan glansandi varalit og naglalakk í stíl. Svo varstu með gullhálsmen sem var eins og gulrót í laginu.
Jólin á Sunnubrautinni voru yndisleg. Þá settir þú upp litlu húsin við arininn. Snjórinn var úr bómull og það kviknaði ljós inni í húsunum. Afi hengdi ljósaseríu undir þakskeggið sem var búin til úr alvöru ljósaperum. Serían á trénu var þó fallegust en ljósin voru full af vatni sem bubblaði. Svo voru loftkökur á eldhúsborðinu sem bráðnuðu í munni, bókstaflega.
Þegar sumarið kom skelltir þú þér í sólbað á brjóstahaldaranum og gullsandölum. Ein af mínum bestu æskuminningum er þegar við máttum tína jarðaber úr beðinu í garðinum. Þau voru lítil og stundum svolítið græn en þú settir þau í fínar desertskálar og stráðir sykri ofaná. Svo fengum við litla beitta pinna með bleikum perlum og borðuðum þau með bestu lyst.
Þú sagðir svo skemmtilegar sögur amma. Ekki tilbúnar sögur, heldur sannar sögur af þér og lífinu þínu. Mér er minnistætt þegar þú sagðir mér frá því þegar þú misstir litlu systur þína, hana Önnu Maríu. Þú sýndir mér mynd af lítilli stelpu og sagðir mér svo að hún hefðir verið systir þín sem varð mjög veik og dó. Ég fann fyrir sorginni þinni og tengdi svo vel, verandi stóra systir sjálf.
Þú sagðir líka hetjusögur af sjálfri þér sem er ekki algengt fyrir konu af þinni kynslóð. Þú varst best í handbolta, fallegasta stelpan, flottasti skátinn, hljópst hraðast og stóðst þig best í skóla. Þú tókst það yfirleitt sérstaklega fram að þú hafir rústað strákunum. Mikið óskaplega hef ég haft gott af því að eiga þig að fyrirmynd. Einlæglega stolt og ánægð með sjálfa þig og óhrædd við að segja frá því.
Þegar kom að háttatíma lögðumst við systurnar nýbaðaðar í bláröndóttum náttfötum sem áður tilheyrðu pabba, á frottelakið í gestaherberginu. Þá sastu hjá okkur við rúmstokkinn og við fórum saman með bænirnar okkar. Fyrst Faðir vorið, svo Vertu nú yfir og allt um kring og að lokum sungum við Ó Jesú bróðir besti.
Í seinni tíð fór minninu þínu að hraka. Það breytti þó ekki að þú hélst lífsgleðinni, húmornum og hlýjunni sem þú sýndir okkur. Þú hafðir alltaf sama áhugann á tísku og hrósaðir manni alltaf þegar maður var smart í tauinu. Þú safnaðir ýmsu eins og jólakortum, úrklippum úr dagblöðum, hrafntinnu, steinum og skeljum og geymdir það í krukkum og krúsum hér og þar. Þú elskaðir litla drenginn minn sem var svo heppinn að fá að kynnast þér og sagðir hann vera fallegasta barn í heimi. Þú söngst með messunni á gamlársdagskvöld og messusvörin voru hvergi horfin úr minni. Þú kysstir mig alltaf þrisvar þegar við kvöddumst, líka í síðasta sinn.
Góða ferð elsku amma mín,

þín Gígja

þín Gígja