Þórhildur Jóhannesdóttir Sutherland fæddist í Reykjavík 18. janúar 1941. Hún lést 13. desember 2016.
Hún var dóttir Guðrúnar Þórðardóttur frá Mýrdal í Kolbeinsstaðahreppi og Jóhannesar Ólafssonar úr Borgarfirði. Hún ólst upp með móður sinni í Reykjavík og lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík vorið 1961. Hún giftist eftirlifandi eiginmanni sínum Larry Sutherland 15. júní 1968. Þau bjuggu á Keflavíkurflugvelli þar sem Larry var í flughernum og Þórhildur kenndi bandarískum nemendum um Ísland og íslenska menningu. Síðan fluttu þau til Virginiu og eftir það til Marion í Iowa. Þórhildur lauk prófi í kennslu heyrnardaufra frá háskóla í Iowa árið 1989 og eftir það kenndi hún nærri tíu ár við Heyrnleysingjaskólann í Reykjavík. Þegar þau hjónin komust á eftirlaun fluttu þau til Pflugerville í Texas. Þórhildur eignaðist þrjú börn með fyrri eiginmanni sínum Charles Kimborough; Alfreð Ray, Rut Elísabetu og Gunnar Jón. Hún varð fyrir þeirri miklu sorg að Gunnar var bráðkvaddur árið 2008 en Alfreð og Rut búa í Iowa. Larry og Þórhildur eignuðust Diane og hún býr í Pflugerville í Texas. Þórhildur barðist við krabbamein í fimm ár og lést hinn 13. desember 2016. Minningarathöfn hefur farið fram en Þórhildur verður jarðsett í leiði móður sinnar og sonar síns í Gufuneskirkjugarði.

Í dag 18. janúar hefði skólasystir mín og vinkona Þórhildur orðið 76 ára en því miður náði hún ekki þeim aldri þrátt fyrir mikinn lífsvilja.
Í byrjun desember fengum við þær slæmu fréttir frá Ameríku að Þórhildur væri komin á spítala. Við höfðum fylgst með því  í tæp fimm ár hvernig hún barðist hetjulegri baráttu við drekann ógurlega sem fáir sigra, krabbameinið.
Við  höfum þekkst frá unglingsárum vorum saman í landsprófi í Vonarstræti, og síðan fjögur ár í MR, það voru ár gleði og skemmtana.
Eftir stúdentspróf skildu leiðir, Þórhildur giftist og flutti til Ameríku með manni sínum, Larry, og ég fór til Þýskalands í nokkur ár.
En tíminn líður fljótt og allt í einu var komið að merkisafmæli, 25 ár frá því  að við urðum stúdentar og Þórhildur komin heim aftur til að gleðjast með gömlu félögunum.
Ég hafði heimsótt hana fáum árum áður og þá var hún komin langt í háskólanámi í til kennslu heyrnar-og mállausra.
Heimurinn minnkaði mikið á þessum árum og gerir enn. Börn Þórhildar voru nú öll vaxin upp og flest farin að heiman og hún kom oft heim yfir hafið til aldraðrar móður sinnar sem bjó ein.
Það var áreiðanlega mikill fengur fyrir Heyrnleysingjaskólann í Vesturhlíð þegar hún fór í heimsókn þangað í einni Íslandsferðinni og féllst á að kenna einn vetur til reynslu.
Þessi eini vetur varð að nærri tíu árum og talaði Þórhildur oft um nemendur sína.
Það var greinilegt að hún lagði sig alla fram við kennsluna og tengdist nemendunum og fjölskyldum þeirra vel.
Hún kunni vel við sig í hópi kennara og eignaðist þar marga góða vini sem sumir heimsóttu hana til Ameríku.
Við hjónin erum skólasystkini úr MR ásamt Þórhildi og auk þess voru hann og Þórhildur í sama gagnfræðaskóla svo að við þekktumst öll vel.
Við  heimsóttum Þórhildi og Larry oft bæði á heimili þeirra í Iowa,Texas og víðar. Þau voru ákaflega góð heim að sækja og ávallt var búið að skipuleggja ferðir um ýmis fylki.
Við skoðuðum heimahaga hins vinsæla þáttar Húsið á Sléttunni og sáum Devils Tower sem notaður var í kvikmynd Stevens Spielberg.
Við fórum til Salt Lake City og skoðuðum Tabernacle hljómleikahús mormóna.
Við stóðum með þeim hjónum við sólarlag og horfðum á andlit forsetanna höggvið í stein á Mount Rushmore undir þjóðsöng Bandaríkjanna.
Larry er mjög stoltur af landi sínu og fátt er skemmtilegra en sjá land í gegnum augu heimamanna.
Þórhildur var ekki aðeins fær í sínu starfi hún saumaði út og átti mikið af stórum útsaumsmyndum og púðum. Þórhildur málaði líka á postulín og gerði það snilldarvel og hún málaði fram á síðasta mánuðinn.
Þórhildur var mjög trúuð og sótti mikinn styrk í trúna, eftir að þau fluttu til Texas sóttu þau hjónin mikið kirkju og hún eignaðist þar góða vinkonu, íslenska konu sem vinnur mikið í kirkjunni.
Yngsta dóttir Þórhildar á heima rétt hjá henni og dóttir hennar er mjög falleg og dugleg tólf ára stúlka og var ömmu sinni til mikillar gleði.
Hin börn hennar, Ruth og Alfreð, búa bæði í Iowa og þar býr líka Danielle dótturdóttir Þórhildar og hún á tvö börn annað raunar fætt um jólin. Yngri sonur Þórhildar  Gunnar Jón dó langt um aldur fram og er jarðsettur í leiði Guðrúnar, móður Þórhildar.
Aska Þórhildar verður seinna á þessu ári jarðsett í leiði móður hennar.
Eiginmaður Þórhildar, börn, barnabörn og vinir hafa misst mikið og ég sendi þeim innilegar samúðarkveðjur.
Ég ætla að enda á lokaorðum þeirra til hennar:

Góða ferð og Guð geymi þig, elskan okkar.

Guðrún Hansdóttir (Gurra).