Guðrún Helgadóttir fæddist 17. ágúst 1934 í Reykjavík. Hún lést 13. janúar 2017 á Heilbrigðisstofnun Suðurlands.
Hún var dóttir hjónanna í Tungufelli, Helga Jónssonar, f. 22.4. 1906, d. 1945, og Valgerðar Ingvarsdóttur, f. 14.12. 1908, d. 1995. Bróðir Guðrúnar er Sigurjón Helgason, verkfræðingur í Reykjavík, f. 16.4. 1937. Þann 25. júní 1955 giftist Guðrún Guðjóni Erlingi Loftssyni, syni hjónanna á Sandlæk, Lofts Loftssonar, f. 8. október 1896, d. 1978, og Elínar Guðjónsdóttur, f. 14. sept. 1901, d. 1991. Börn Guðrúnar og Erlings eru: Helgi, f. 29. ágúst 1956, d. 10. júlí 1981, Elín, f. 25. maí 1959, Valgerður, f. 11. apríl 1963, og Loftur, f. 14. júní 1968. Helgi lést af slysförum í júlí 1981.
Elín er landfræðingur, gift Bjarna Jóni Matthíassyni, f. 1953. Dóttir þeirra er Guðrún Heiða, háskólanemi, f. 1996. Sonur Elínar er Helgi Haukur Hauksson, f. 1984, viðskiptafræðingur, í sambúð með Helgu Margréti Friðriksdóttur. Til samans eiga þau 4 börn. Dóttir Bjarna Jóns er Ester Elín hjúkrunarfræðingur, f. 1972, í sambúð með Steinari Orra Sigurðssyni. Til samans eiga þau 4 börn. Valgerður er land- og skógfræðingur, gift Brian R. Haroldssyni, f. 1966. Dætur Brians eru Freyja og Alba Rós, sem á eina dóttur. Loftur er tónlistarkennari, giftur Helgu Kolbeinsdóttur, f. 1976. Börn þeirra eru Ljósbrá, f. 2001, Kolbeinn, f. 2002, Þórkatla, f. 2006 og Vésteinn, f. 2008. Með fyrri konu sinni, Sólveigu, á Loftur börnin Ásrúnu Höllu bifvélavirkja, f. 1996, og Erling Snæ, nema í húsasmíði, f. 1991. Hann er giftur Hlín Magnúsdóttur, eiga þau einn son. Guðrún ólst upp hjá foreldrum sínum í Tungufelli í Hrunamannahreppi. Faðir hennar lést í júní 1945. Þá flutti Guðrún ásamt móður sinni og bróður að Gröf í sömu sveit en næstu þrjú ár bjó fjölskyldan á Gilsbakka á Flúðum. Frá 1949 voru þau heimilisföst í Háholti í Gnúpverjahreppi hjá Filippusi föðurbróður Guðrúnar og Valgerði konu hans. Móðir Guðrúnar vann fyrir sér og sínum á þeim tíma sem matráðskona í skólunum í sveitunum og í kaupavinnu í Háholti á sumrum. Guðrún fór snemma að vinna fyrir sér. Hún var kaupakona í garðyrkju í Hvammi í Hrunamannahreppi í nokkur sumur, og einnig í Háholti. Hún var vetrarstúlka í Hlíð í Gnúpverjahreppi einn vetur á milli skóla. Guðrún var tvo vetur í héraðsskólanum á Laugarvatni og tók landspróf vorið 1952. Hún útskrifaðist frá Húsmæðraskólanum á Laugarvatni vorið 1954. Þá var hún trúlofuð Erlingi, verðandi eiginmanni sínum, og vann í búskapnum hjá foreldrum hans á Sandlæk þar til þau giftust og stofnuðu sitt eigið bú á Sandlæk, bú sem þau ráku fram á áttræðisaldur. Guðrún starfaði í Kvenfélagi Gnúpverja og þeim kórum sem störfuðu í sveitunum á hverjum tíma, Söngfélagi Hreppamanna, Árneskórnum, með kirkjukórunum og Tvennum tímum. Um tíma var hún í barnaverndarnefnd Gnúpverjahrepps. Þá var hún virkur félagi í félagsskap eldri borgara á sínu svæði allt fram að ævilokum. Guðrún hafði mikið yndi af ferðalögum innanlands sem utan.
Útförin fer fram frá Skálholtskirkju í dag, 28. janúar 2017, klukkan 14.
Mamma átti sín bernskuár í Tungufelli í Hrunamannahreppi. Uppvöxturinn í Tungufelli var sveipaður dýrðarljóma. Sögurnar sem hún sagði okkur frá því tímabili lífsins voru margar og hún skreytti þær með örnefnum frá Tungufelli og af Tungufellsdalnum enda þetta allt ljóslifandi í minningunni. Hún lýsti vinnubrögðum og lífi fólksins á fjallabænum þar sem allt snerist um sauðfé, talaði um föðurinn sem fór daglega til gegninga í Skógarkot á Tungufellsdal og móðurina sem vann inniverkin, mjólkaði kýrnar og hafði gaman af hestum. Þau Siggi bróðir hennar, sem var þremur árum yngri og hennar eina systkini, tvímenntu stundum á hestinum og fyrir kom að þau fóru fullhratt. Sögurnar lýstu líka leikjum þeirra og Sigga, Einars frændans sem bjó í sama húsi og frændsystkinanna á Jaðri. Þeir drógu dám af daglegum störfum hinna fullorðnu. Það var búið stórbúi með leggi og kjálka, smalað, heyjað, bundið í bagga með snæri og flutt í hlöðuna hjá Árna föðurbróður þeirra. Kirkjan og kirkjugarðurinn voru jafn sjálfsagður leikvöllur og hvað annað. Leiðin á kirkjugarðinum breyttust í viljuga gæðinga þegar á þurfti að halda. Svo dró ský fyrir sólu, faðirinn missti heilsuna og dó sumarið sem mamma varð 11 ára. Þau þrjú sem eftir stóðu héldu alla tíð fast saman, þótt í fyllingu tímans færu systkinin til náms og stofnuðu sínar fjölskyldur.
Haustið eftir föðurmissinn flutti fjölskyldan að Gröf til Emils og Eyrúnar sem var vinkona Völu ömmu. Árið eftir fluttu þau í litla húsið á Flúðum sem nú kallast Gilsbakki. Í Grafarhverfi, á Flúðum og í nágrenninu bjuggu mörg börn á sama reki. Þar urðu til vináttubörn sem entust allt lífið, t.d. við Gunnu frá Hrafnkelsstöðum. Hugmyndaflug barnanna í Grafarhverfinu var mikið og léttleiki yfir öllu. Einn var dubbaður upp með prestakraga og í peysufatapilsi fyrir hempu þegar skíra þurfti köttinn. Börnin lærðu að synda í gömlu lauginni við Hvamm og þegar nýja laugin við Flúðir var vígð syntu þrjár Gunnur (sú þriðja frá Hvammi) vígslusundið, mamma var ein þeirra. Þegar mamma varð unglingur var hún í kaupavinnu nokkur sumur í garðyrkjunni í Hvammi og hugsaði hún alltaf með mikilli hlýju til fólksins sem hún umgekkst þarna á bökkum Litlu-Laxár.
Árið 1949 flutti mamma, Siggi og amma austur fyrir Stóru-Laxá, að Háholti
til Fillipusar föðurbróður hennar og Völu konu hans sem var vinkona ömmu. Á sumrin voru þau í vinnumennsku þar en á veturna sótti mamma skóla, fyrst í Ásaskóla. Svo tók við bjartasti tími æskunnar, 3ja vetra skólavist á Laugarvatni. Eflaust að hluta til svo bjartur því þá var pabbi okkar kominn til sögunnar, jafnvel hafði örlað á návist hans í hennar lífi hans örlítið fyrr. Mamma tók landspróf og eftir einn vetur sem vetrarstúlka í Hlíð hjá Katrínu og Steinari, tók húsmæðraskólinn við, en það var menntaleiðin sem sveitastúlkum var eðlilegust á þeim tíma. Á Laugarvatni bundust ævilöng tengsl við t.d. þær Ingu frá Húsatóftum, Boggu á Arnarhóli og Ingu í Núpstúni svo einhverjar séu nefndar úr þeim stóra hópi. Skólasysturnar héldu sambandi og á efri árum urðu skipulagðir hittingar algengari aftur. Okkur hefur alltaf verið ljóst að á Laugarvatni fékk mamma góða menntun, tækifæri til að rækta vel sína eðlislægu greind og hæfileika, bóklega og verklega. Hún miðlaði okkur af sínu þegar hún studdi okkur menntaveginn og í daglegu lífi. Alla ævi miðlaði hún af þekkingu sinni á íslensku máli, og reynslu úr ævistarfinu sem einkenndist af samviskusemi, nákvæmni og útsjónarsemi. Hún setti okkur skýr mörk á sinn hljóðláta, en jafnframt umhyggjusama hátt. Ef manni varð fótaskortur á veginum beina, skipti mestu að læra af því eða ræða ágreininginn, eflast og halda áfram.
Foreldrar okkar giftust 1955 og hófu búskap á Sandlæk. Þar bjuggu þau með kýr, kindur, hesta, hænur og um tíma líka svín. Við börnin urðum 4 á 12 árum. Búið stækkaði og efldist ár frá ári, enda höfðu þau bæði brennandi áhuga á ræktun. Mamma var sérstaklega natin við skepnurnar og var lagin við að velja í ásetning, bæði kvígur og gimbrar. Hún hafði líka mikla ánægju af garðrækt og eftir að hitaveitan kom var hún með gróðurhús í garðinum í nokkur ár þar sem hún ræktaði tómata, gúrkur, rósir og fleira. Mamma notaði saumavélina sína mikið og saumaði föt á sig og okkur börnin þar til við urðum unglingar. Þrátt fyrir bindandi búskapinn gáfu foreldrar okkar sér dýrmætan tíma til að rækta önnur sameiginleg áhugamál, eiga tómstundir, sem var ekki algengt þegar bændur áttu í hlut á þeim tímum sem þau voru ung.
Mamma hafði alltaf náið samband við Sigga bróður sinn. Hann fékk landspildu í túnfætinum á Sandlæk undir sumarbústaðinn Ranakot. Samgangur milli fjölskyldnanna er mikill og góður. Mamma hafði og reyndar við öll gott samband við fjölskyldu bróður pabba sem bjó í Breiðanesi neðar í túninu, og einnig þau af systkinafjölskyldum pabba sem áttu heima lengra í burtu. Þegar bróðir okkar dó var dýrmætt að eiga þessi góðu tengsl við frændfólkið í bæjartorfunni.
Mamma lét aldrei mikið fyrir sér fara í fjölmenni en þótti traustur félagi. Heimavið lét hún til sín taka, léttstíg, rösk, ákveðin en hljóðlát og sannarlega glettin inn við beinið. Mamma var bóndi af lífi og sál, hafði mikla ánægju af tónlist og söng, og fann því farveg í kórstarfi. Alltaf var bók á náttborðinu, ljóð voru henni hugleikin. Dagbók hélt hún á meðan heilsa til skrifta entist. Hún hafði líka mikla ánægju af náttúruskoðun og ferðalögum. Ekki spillti að aðal áhugamál voru útbreidd innan hinna fjölskyldnanna í torfunni þannig að oft hafði hún góðan félagsskap stærri hóps í söng eða ferðalögum sínum til viðbótar við okkur og pabba Oft var slegið í sameiginlega sunnudagsbíltúra eða barnaafmæli. Pabbi var hennar besti og tryggasti félagi og förunautur í þessu öllu. Og við börnin fylgdum þeim með einhverju móti, fús til þátttöku, hvert á sinn sérstaka hátt á leið okkar til sjálfstæðs lífs.
Mamma hafði auga fyrir fuglum og gróðri og víður sjóndeildarhringur, fagur fjallahringur, sólarupprás eða sólarlag var eitthvað sem við börnin hennar lærðum að meta í gegnum hrifningu hennar. Hún eignaðist gítar á barnsaldri og orgel hafði verið til á hennar heimili síðan í Tungufelli. Söngur var mömmu jafn tamur og talað mál,- óhjákvæmilega hefur það mótað okkur systkinin líka.
Fimmtug varð mamma amma í fyrsta sinn. Hópurinn stækkaði vel næstu 24 árin upp í 8 barnabörn. Hún fylgdist áhugasöm með vexti þeirra og þroska. Fyrir gat komið að hún lagði hljóðlega til eitthvað vel meint sem við bættum í reynslubankann okkar í barnauppeldinu. Án hennar hefði uppeldi barna okkar sannarlega verið snauðara af visku og réttlæti. Svo bættust langömmubörnin 4 við og einnig þau sem fylgdu mökum afkomendanna inn í fjölskylduna, einhver 5 í viðbót þegar allt er talið. Þessi kynslóð varð henni til ómældrar gleði síðustu æviárin og eiga foreldrar þeirra þátt í því að langamma fékk að kynnast þeim og fylgjast með þessum gleðigjöfum sínum fram á síðustu stundu. Það var sama hver átti í hlut úr þessum stækkandi hópi, mamma átti hlut í þeim öllum, breiddi áhuga sinn og umhyggju jafnt yfir þau öll, hvert og eitt.
Við vorum svo lánsöm að hafa alist upp hjá foreldrum sem höfðu ánægju af ævistarfinu þar sem þau unnu saman alla daga og áttu sér sameiginleg áhugamál sem þau ræktuðu saman af miklum áhuga. Þau höfðu líka álíka viðhorf í virðingu fyrir fólki og jákvæðni og umhyggjusemi í mannlegum samskiptum. Við fengum aldrei að verða vitni að því hvernig foreldrar okkar leystu sín ágreiningsmál, en það hafa þau þó örugglega þurft að gera eins og allir aðrir.
Það er sagt að fjórðungi bregði til fósturs, svo drekkur maður eitthvað með móðurmjólkinni. Þótt okkur hafi verið ætlað að vaxa upp sem sjálfstæðir einstaklingar, dettur okkur oft í hug að það hafi ekki verið eintóm tilviljun hvaða ævistarf við völdum okkur hver um sig. Eða hvert hugurinn leitar áfram á því sviði,- eða þá í hvað við eyðum tímanum í frístundum .
Við lítum á það sem mikið lán að hafa alist upp hjá foreldrum sem höfðu gleði og ánægju af ævistarfinu og gáfu sér tíma til að rækta áhugamál sín. Þau höfðu viðlíka viðhorf til mannlegra samskipta, umburðarlynd gagnvart alls konar fólki og aðstæðum, jákvæð og umhyggjusöm.
Mamma var góð fyrirmynd í mannlegum samskiptum. Neikvæðni og dómharka var eitthvað sem átti ekki upp á pallborðið hjá henni, við þannig umræðu lokaði hún eyrum og hleypti aldrei lengra.
Heiðarleiki, umhyggja, mikilvægi skilnings og almenns umburðarlyndis og virðingar fyrir náunganum, ásamt samheldni og ræktarsemi innan fjölskyldunnar, virðing fyrir náttúrunni og öllu öðru sem andar, að standa með sínum nánustu í gegnum þykkt og þunnt, voru viðhorf mömmu í hnotskurn. Með því að leitast við að leggja rækt við þessi viðhorf og miðla áfram til afkomenda okkar heiðrum við minningu mömmu best. Í þakklæti fyrir það sem hún gerði fyrir okkur systkinin og maka okkar, börnin okkar átta og barnabarnabörnin öll. Hvíli hún í eilífum friði.
Elín, Valgerður og Loftur Erlingsbörn.