Guðmundur Pétursson læknir fæddist að Nesi í Selvogi 8. febrúar 1933. Hann lést á Landspítalanum í Reykjavík 23. janúar 2017. Foreldrar hans voru Pétur Magnússon læknir, f. í Reykjavík 30. apríl 1911, d. 4. nóvember 1949, og Bergljót Guðmundsdóttir kennari, f. á Hvammi í Lóni 18. febrúar 1906, d. 19. júní 1980.
Rannsóknir Guðmundar beindust einkum að hæggengum veirusjúkdómum í sauðfé, sérstaklega að mæðivisnuveirunni. Guðmundur gegndi enn fremur fjölmörgum trúnaðarstörfum fyrir Háskóla Íslands og Læknafélag Íslands, átti sæti í stjórnum og vísindanefndum innanlands og utan. Hann var mikilvirkur vísindamaður og eftir hann liggur fjöldi vísindagreina.
Guðmundur var mikill útivistarmaður og stundaði fjallgöngur og klifur. Hann kleif fjölda fjalla á Íslandi en fór einnig utan að klífa fjöll, s.s. Mont Blanc og Matterhorn auk ferða til Himalaya til að klífa fjöll.
Guðmundur var lengi í stjórn Ferðafélags Íslands og varaformaður þess frá 1986 til 1990, hann var leiðsögumaður í ótal ferðum á vegum félagsins. Hann var jafnframt félagi í Íslenska alpaklúbbnum.
Hann ferðaðist vítt og breitt um Evrópu en einnig til landa í Asíu, Afríku og Suður- og Norður-Ameríku.
Guðmundur kvæntist Ásdísi Steingrímsdóttur, lífeindafræðingi og kennara, 19. maí 1956, f. 28. júlí 1929, d. 1. september 2007. Þau áttu þrjú börn, en þau eru; Pétur Magnús, leiðsögumaður, f. 21. október 1956, d. 9. nóvember 2006, hans maki var Sveinn Haraldsson, f. 11. júlí 1962, Bergljót Björg, sérkennsluráðgjafi, f. 14. júní 1958, hennar börn eru Halla Björg Sigurþórsdóttir, f. 12. apríl 1993, búsett í Sviss, og Guðmundur Páll Sigurþórsson, f. 14. maí 1998, búsettur í Reykjavík, og Steingrímur Eyfjörð, tónlistarmaður, f. 8. janúar 1960, d. 2. nóvember 2009, börn hans eru Sigurður Árni, f. 15. desember 1987, búsettur í Þýskalandi, og Sindri Már, f. 12. maí 1995, búsettur á Svíþjóð.
Útför Guðmundar fer fram frá Háteigskirkju í dag, 8. febrúar 2017, klukkan 13.
Guðmundur Pétursson læknir, ferðafélagi og vinur lést nýverið og votta ég fjölskyldu hans samúð mína.
Ég kynntist Guðmundi fyrir um fjörutíu árum, var þá tæplega tvítugur áhugamaður um fjallgöngur og ferðalög, hann kominn hátt á fimmtugsaldurinn. Guðmundur byrjaði seint á ævinni að ganga á fjöll að einhverju marki en byrjaði af miklum krafti. Hann fór til Sviss á námskeið í fjallamennsku, dreif sig síðan til Zermatt, réði sér leiðsögumann og kleif með honum fjallið Matterhorn.
Flestir láta sér nægja drauminn um slíka fjallgöngu en það er til marks um einurð Guðmundar að hann lét drauminn rætast strax og má segja að gangan á Matterhorn hafi markað upphaf fjallgönguferils hans. Okkur ungu mönnunum þótti þetta óneitanlega vasklega gert af miðaldra manni nýbyrjuðum að ganga á fjöll. Ein fyrirmynd Guðmundar var kollegi hans læknirinn Þórður Guðjohnsen sem kleif bratta tinda í Noregi þar sem hann bjó og starfaði. Þórður skrifaði ógleymanlegar lýsingar á ferðum sínum, m.a. um ferð sína á Matterhorn. Þórður var jafnframt fyrsti Íslendingurinn til að klífa fjallið.
Við Guðmundur urðum miklir mátar, annar ungur og hvatvís, endalaust tilbúinn í einhverja vitleysu með óljósar hugmyndir um eigin takmörk. Hinn lífsreyndur, varkár og athugull, vísindamaður. Guðmundur var ákaflega skemmtilegur maður, frábær húmoristi og fróður um margt. Betri félagi vandfundinn. Við áttum saman margar skemmtilegar ferðir, langar og stuttar með mörgum frábærum ferðafélögum, bæði heima og erlendis. Mig langar til að rifja upp eina ferð sem er mér ákaflega eftirminnileg og þar vorum við bara tveir á ferð. Þetta var í júlí 1980.
Hvannadalshnúkur var vinsæll í árlegri ferð Ferðafélags Íslands, farin var Sandfellsleið. Örugg leið og lítt sprungin, þægileg óvönu fólki. Mér, og fleirum, þótti hún löng og tilbreytingarlítil. Langaði að breyta til, kanna hvort önnur leið, upp Virkisjökul, gæti hentað. Ég færði þessa hugmynd í tal við Guðmund og honum leist vel á. Aðdragandinn stuttur, hvorugur okkar hafði farið leiðina áður. Keyrðum austur á föstudegi eftir vinnu. Eftir stuttan svefn lögðum við af stað snemma morguns. Fengum ágætt færi en talsvert um sprungur. Tveir í línu á jökli er lágmark og ekki má mikið út af bera. Þennan dag var sú hætta raunveruleg, harður vindpakkaður snjór huldi sprungur en víða ekki nægjanlega traustur. Ég fór fyrir, var léttari og þurfti að kanna snjóbrýrnar með ísexinni án afláts. Guðmundur var þolinmæðin uppmáluð. Leiðin er löng og klukkustundirnar liðu. Eftir því sem ofar dró urðu sprungurnar dýpri og í meiri bratta verður erfiðara að klöngrast yfir sprungubarmana, stöku sinnum rak ég fót niður í gegnum snjóinn og hyldýpið blasti við. Guðmundur traustur á hinum enda línunnar, rólegur að sjá. Síðar sagði Guðmundur mér að oft hafi honum ekkert litist á blikuna.
Eftir langan dag stóðum við á Hnúknum um miðnætti! Íslenska sumarnóttin björt og falleg, útsýnið stórkostlegt, ískalt. Leiðin upp hafði verið erfið og tafsöm. Flókið leiðaval og hættulega þunnt vindskafið snjólag yfir sprungum, ótraust og ekki gæfulegt að fara niður sömu leið. Úr vöndu var að ráða, leiðin upp lá sunnanvert meðfram Hvannadalshrygg upp að Dyrhamri og við hann voru stærstu sprungurnar. Við ákváðum að fara niður með hryggnum norðanverðum í þeirri von að það væri skárra. Efst var talsverður bratti og broddafæri enda sólin komin niður fyrir sjóndeildarhringinn þótt enn væri ratljóst. Tunglið komið hátt á loft og lýsti upp fannhvítt umhverfið. Leiðin reyndist betri þarna norðan hryggjar, við vorum orðnir þreyttir enda búnir að vera lengi á göngu.
Ég hef oft farið ámóta ferðir en sjaldan upplifað jafn áreynslulaus samskipti og milli okkar Guðmundar þarna, ekkert þref, engin mótmæli eða efi um ákvarðanir af neinu tagi. Traust og samhljómur nánast án orða. Þótt báðir væru þreyttir var ekkert kæruleysi í gangi. Fórum bara hægar yfir, enda eini hraðinn sem skiptir máli á stóru fjalli sá sem kemur manni upp og niður aftur.
Fjallgangan hafði tekið tæpan sólarhring. Hvíldinni fegnir urðum við einhuga um að leiðin hentaði vel til hópferða en þá aðeins við betri skilyrði og fyrr um vorið. Skömmu síðar fórum við Guðmundur með Ferðafélagshóp upp Sandfellsleiðina. Það varð úr að Ferðafélagið fór síðar fjölda ferða upp Virkisjökul en þá um Hvítasunnu og við Guðmundur oft sem fararstjórar ásamt fleirum. Nú er þessi leið torfær og víða klungur og brölt þar sem áður voru fannir eða þykkur jökull. Þessi ferð var ein sú besta sem ég hef farið um ævina.
Fyrir ungan mann með fulla trú á eigin getu og brennandi áhuga á að láta draumana rætast var Guðmundur Pétursson hinn fullkomni félagi, rólegur og fullur trausts á hinum ungu ferðafélögum sínum. Með nærveru sinni varð hann til þess að hvatvísin varð ekki allsráðandi, við þurftum að axla ábyrgð, okkur var treyst og undir henni þurfti að standa. Þannig félagi var Guðmundur Pétursson. Hans er saknað, minningarnar lifa, enginn sleppur óbreyttur maður úr slagtogi við slíkan öðling, ekki án þess að verða sjálfur aðeins betri maður.
Torfi Hjaltason.
* Æviágrip þetta hefur verið uppfært eftir birtingu í blaðinu en inn var bætt upplýsingum um eiginmann Bergljótar og systkini hins látna.