Þórhallur Þórhallsson fæddist í Reykjavík 9. september 1946. Hann lést á heimili sínu í Reykjavík 2. febrúar 2017.
Foreldrar hans voru Steinunn Ásgeirsdóttir, f. 21.7. 1911, d. 5.4. 1998, og Þórhallur Leósson, f. 24.1. 1900, d. 8.3. 1988. Hann átti fjögur systkini. Þau eru: Lea Kristín, Ásrún og Leó, sem öll eru látin, og Ásgeir, sem einn lifir bróður sinn og systkinin öll.
Eiginkona Þórhalls var Theódóra Guðlaug Emilsdóttir íþróttakennari, f. 26.3. 1940, d. 9.11. 2014. Dóttir þeirra er Álfheiður, f. 10.2. 1976. Dætur hennar og Vals Þórs Gunnarssonar eru Áróra Ísól, f. 3.9. 2001, og Elín Björt, f. 1.10. 2005. Sonur Theódóru er Birgir Baldursson, f. 17.3. 1967. Hann á soninn Birki Hólm, f. 7.1. 1993.
Þórhallur ólst upp í Sörlaskjóli 74 þar sem fjölskylda hans bjó. Hann æfði knattspyrnu og keppti með yngri flokkum KR. Var einn af stofnfélögum Björgunarsveitarinnar Alberts á Seltjarnarnesi.
Þórhallur lauk verslunarprófi frá Verslunarskóla Íslands á árinu 1965. Starfaði sem skrifstofumaður hjá sveitarstjóra Seltjarnarneshrepps, rak verslun með félaga sínum, var skrifstofustjóri hjá Arkitektafélagi Íslands og starfaði hjá Frjálsri fjölmiðlun, Eymundsson og fleirum. Lengst starfaði hann sem bókavörður og skrifstofumaður hjá Borgarbókasafni Reykjavíkur. Hann hóf fyrst störf þar á árinu 1972 og var síðast í Sólheimasafni.
Þórhallur tók þátt í félagsstarfi hjá Starfsmannafélagi Borgarbókasafns, Starfsmannafélagi Reykjavíkur og samtökum bókavarða. Hann átti sæti í fyrstu stjórn Upplýsingar – félags bókasafns- og upplýsingafræða árið 2000. Hann var ritstjóri Kallimacchosar, málgagns Starfsmannafélags Borgarbókasafns.
Þórhallur hafði frá unga aldri áhuga á bókmenntum, las mikið, orti ljóð og skrifaði sögur. Hann birti ljóð sín í tveimur eigin ljóðabókum (Vetrarkvíði 1989 og Feigðarleikur 2010), í bókum með öðrum ljóðskáldum, dagblöðum og tímaritum. Smásögur gaf Þórhallur út í tveimur hljóðbókum. Þá íslenskaði hann ljóð og sögur erlendra höfunda, birti í tímaritum og bókum og las upp í útvarpi. Um nokkurra ára skeið flutti hann hugleiðingar í Orði kvöldsins í Ríkisútvarpinu.
Útför hans fór fram í kyrrþey 14. febrúar 2017.

Minn ástkæri bróðir Þórhallur Þórhallsson hefur nú yfirgefið okkar lifandi jörð. Hann varð bráðkvaddur þann 2. febrúar 2017, einn síns liðs á heimili sínu. Það syrgir mig mjög.

Hann var fæddur í Reykjavík þann 9. september 1946 og ólst upp í Sörlaskjóli 74 við Ægisíðuna. Þórhallur var alltaf kallaður Doddi á meðal ættingja og vina. Hann stundaði nám við Verslunarskólann og fyrsta starfið var á skrifstofu Seltjarnarneshrepps. Hann rak skóbúð með vini sínum og var skrifstofustjóri hjá Arkitektafélagi Íslands. En lengst af vann hann hjá Borgarbókasafninu, því þar var áhugi hans.

Hann var mikill lestrarhestur frá unga aldri og elskaði bækur. Hann var víðlesinn og mikill grúskari. Hann fylgdist vel með nýjum skáldsögum sem komu út. Þegar hann var í Verslunarskólanum skrifaði hann skemmtilegar smásögur sem hittu í mark.

Um tvítugt réri hann á grásleppu með föður okkar við Skerjafjörðinn og elskaði að veiða. Hans uppáhald var að fara í veiðiferðir upp á Arnavatnsheiði. En samt fannst honum meira spennandi að finna Eyvindarholu, því það var meira sagnargildi í því.

Hann var minn stóri bróðir, átta árum eldri og hann kenndi mér allt sem ég kann um lífið. Fyrst kenndi hann mér að drekka Milkshake á Hressingarskálanum svo kenndi hann mér að skrifa smásögu. Alla sína tíð var hann að hrósa og hvetja litla bróður en sló slöku við varðandi sitt eigið líf.

Ég man fyrst eftir mér er ég hélt í hlýja hönd stóra bróður á sjávarkambinum við Sörlaskjólið, og við horfðum á nýsmíðað skip koma út úr skemmu er stóð í Faxaskjólinu og sett á flot í vörinni. Í minningunni fannst mér þetta vera risastórt skemmtiferðaskip. En þetta var víst í raunveruleikanum aðeins 12 tonna bátur og ég var aðeins tveggja ára gamall. En ég man samt en eftir hlýrri hönd stóra bróður.

Síðast þegar ég heimsótti hann vildi hann gefa mér gamla stílabók þar sem hann hafði skráð allar okkar sjóferðir. Því þeir feðgar áttu lítinn plastbát sem við rérum á, og veiddum grásleppu og rauðmaga á Skerjafirðinum.

Alltaf hafði ég neitað að taka við þessari stílabók, en nú var það hans krafa. Mér varð það að orði að hann væri nú ekki að fara að deyja strax og mætti alls ekki skilja mig einan eftir.

En í þessari bók er hverri sjóferð lýst. Doddi var þá 20 ára en ég var 12 ára. Bókin heitir: Sjósókn feðganna í Sörlaskjóli 74. Nú geymi ég þessa stílabók eins og gullmola því hún lýsir Dodda bróðir vel.

Þann 3. júní 1966 festum við feðgarnir Þórhallur Leósson og Þórhallur Þórhallsson kaup á 14 feta löngum plastbáti frá Noregi. Báturinn er hvítur nema borðstokkur og þóftur eru rauðar. Hann er 100 kg. 1,60 metrar á breidd og 51 cm á dýpt.

4. júní 1966 Laugardagur.
Fengum bátinn í dag. Rérum svo að segja samstundis út á sjó í indælu veðri með ýmsa gesti. Okkur fannst báturinn afbragð. Það hefur verið draumur okkar að kaupa bát í fleiri ár, nú loksins er hann uppfylltur. Og sannarlega erum við ánægðir.

Svona er ferðunum lýst hverri á fætur annarri. Ég var lítið með fyrstu tvö árin út af sjóveiki. Lýst er 69 sjóferðum á 3 ára tímabili.

Oft var farið út á kvöldin því þá er oft fagurt veður við Skerjafjörðinn. Lognkyrr sjór og glampandi í kvöldsólargeislum. Þeir lögðu kolanet við Shellbryggjuna fyrir utan Nauthólsvík. En þegar þeir vitjuðu var allt í flækju og ekki branda. Rok og hellirigning á heimleiðinni.

Oft voru netin flækt og full af þara og stundum hreinlega eyðilögð. Þeir hættu útgerðinni nokkrum sinnum en byrjuðu alltaf aftur. Þeir lærðu af hinum grásleppukörlunum og lögðu út við Kerlingaskerin og þar fengu þeir rauðmaga. Á leiðinni á miðin sáum við sel og einnig sáum við hnísur stökkva nálægt okkur.

Ánægjuleg sjóferð og um kvöldið átum við signa grásleppu, okkar eigin, gæðamatur alveg. Í dag fór pabbi með þrjátíu og tvo rauðmaga í reykhúsið. Við feðgarnir erum stoltir.

Þessar frásagnir lýsa vel Dodda. Hann var heiðarlegur, hjálpsamur, tryggur og góður félagi. Tók gjarnar þátt í draumum annarra. Það er svo margt sem missir tilgang sinn þegar stóri bróðir er farinn.

Það var alltaf hann sem var vinur í raun ef eitthvað bjátaði á, hann reyndist öllum vinur. Þórhallur var þekktur sem góður maður.

Jarðaförin fór fram 14. febrúar 2017 í kyrrþey.



Ásgeir Þórhallsson, Hvítaskáld.