Margrét Sigurðardóttir fæddist í Reykjavík 1. desember 1931. Hún lést á Landspítalanum við Hringbraut 23. febrúar 2017. Foreldrar hennar voru Guðrún Markúsdóttir, f. í Kirkjulækjarkoti í Fljótshlíð 22. júlí 1895, d. 23. júlí 1971, og Sigurður Einarsson, f. í Reykjavík 6. júní 1903, d. 23. janúar 1971.
Systkini Margrétar voru Magnús Ragnar, f. 1928, d. 2006, Gunnvör Erna (Stella), f. 1930, Oddný Steinunn, f. 1934, d. 1997, Markús, f. 1935, d. 2017, og Einar, f. 1937, d. 2010.
Fyrri eiginmaður Margrétar var Búi Steinn Jóhannsson, f. 25. júlí 1931, d. 13. mars 2001. Þeirra börn eru Sigurður Örn, f. 1952, kvæntur Þórunni Erlu Sighvats, f. 1951, þau eiga fjögur börn og átta barnabörn; Elsa Hrönn, f. 1953, gift Sigurði Jónassyni, f. 1953, þau eiga fjögur börn og átta barnabörn.
Margrét giftist 22. desember 1957 Guðmundi Einarssyni, f. 4. september 1932, d. 1. júní 2007. Foreldrar hans voru Guðrún E. Brynjólfsdóttir, f. í Reykjavík 13. ágúst 1905, d. 9. júlí 1956, og Einar Ingimundarson, f. í Reykjavík 24. júní 1906, d. 4. janúar 1971.
Börn Guðmundar og Margrétar eru: Guðbjörg, f. 1958, maki Jón Hrafn Jónsson, þau eiga tvö börn og tvö barnabörn; Einar Már, f. 1960, maki Jóna Hálfdánardóttir; Guðrún Eygló, f. 1963, maki Heiðar F. Jónsson, þau eiga fimm börn og fimm barnabörn; og Hafdís Björk, f. 1968, maki Jóhann Sveinsson, þau eiga þrjá syni og eitt barnabarn.
Langömmubörn Margrétar eru 20.
Margrét bjó alla tíð í Reykjavík. Hún ólst upp á Njálsgötu 69. Þau Guðmundur voru frumbyggjar á Háaleitisbraut, bjuggu þar lengst af beggja vegna götunnar, með viðkomu á tveimur öðrum stöðum í borginni. Hún var síðustu árin á Sléttuvegi, þangað sem þau voru nýlega flutt áður en Guðmundur féll frá.
Margrét var sjómannskona og stóð löngum ein að uppeldi og umönnun stórrar fjölskyldu, samhliða ýmiss konar störfum utan heimilisins, við afgreiðslu-, uppeldis-, verksmiðju- og ræstingarstörf.
Útför Margrétar fer fram frá Bústaðakirkju í dag, 7. mars 2017, og hefst athöfnin klukkan 13.

Það er svo margt að una við,
að elska, þrá og gleðjast við,
jafnt orð, sem þögn og lit sem lag,
jafnt langa nótt, sem bjartan dag.
Mér fátt er kærra öðru eitt
ég elska lífið djúpt og heitt,
því allt, sem maður óskar, næst
og allir draumar geta ræzt.

Ég byggi hlátraheima
í húmi langrar nætur.
Af svefni upp í söngvahug
með sól ég rís á fætur.
Og augun geisla af gleði
sem grær í mínu hjarta.
En syrti að ég syng mig inn
í sólskinsveröld bjarta.

(Kristján frá Djúpalæk)

Í dag kveðjum við þig mín yndislega tengdamamma, nú ertu komin til hans tengdapabba sem þú elskaðir svo heitt.

Þó að sorgin sé mikil að þá er gleðin eiginlega meiri, því að öll þín 85 ár varstu sannkallaður gleðigjafi sem lést engan ósnortinn sem var svo gæfuríkur að fá að kynnast þér. Sem betur fer er ég ein af þeim gæfuríku! Þegar við Einar Már, hann Mossi sonur þinn, byrjuðum saman í febrúar fyrir 33 árum fann ég mjög fljótt að ég væri ekki bara að kynnast einstökum manni heldur líka einstökum foreldrum og systkinum. Ég kom sjálf úr stórri samheldinni fjölskyldu. Foreldrar mínir á sama aldri og þið Guðmundur, ég númer fjögur í sex manna systkinahópi eins og Mossi, svo eiginlega fannst mér ég bara eiga heima hjá ykkur frá upphafi. Enda settist ég að í fjölskyldunni. Vanafesta? Nei ég hafði dottið í lukkupottinn! Allt í einu átti ég tvennt af öllu, tvo pabba og tvær mömmur, tvenna foreldra sem bæði sýndu manni að sönn ást er til og tvennan náinn systkinahóp. Enginn bingóvinningur trompar þennan ekki satt elsku tengdamamma?

Þú komst sjálf úr stórum samheldnum systkinahópi og því var það erfitt samtal þegar þú hringdir í mig 13 febrúar síðastliðinn með þær fregnir að hann Markús litli bróðir væri látinn. Ég vissi ekki þá að þú myndir fylgja honum bróður þínum einungis tíu dögum síðar. Ég vissi ekki heldur þá að það væri eitt af síðustu símtölunum í lífi mínu sem enduðu á: og verið nú alltaf góð við hvort annað elskurnar mínar. Ég vissi ekki þá að aðeins 8 dögum seinna væri í síðasta skiptið sem þú endaðir símtalið við Mossa á: og mundu nú að vera góður við hana Jónu mína elsku drengurinn minn.

Þó að tárin streymi við þessi skrif þá er hjartað létt því að það er ekki annað hægt en að hugsa til þín með bros á vör og hlýju í hjarta.

Og minningarnar eru svo margar, og svo ótrúlega góðar. Eins og sagt er í dag, þú varst falleg bæði að utan sem innan. Sannkölluð Reykjavíkurdama sem allaf vildir líta vel út, sama hvernig á stóð. Og líka sannkölluð íslensk kvenhetja sem annaðist þinn stóra barnahóp og sást um allt heimilishaldið ein, oft á tíðum mánuðum saman, þegar tengdapabbi var úti á sjó. Þú varst sannur vinur sem aldrei talaðir illa um aðra. Þú varst sannkölluð ástrík móðir, amma og langamma sem elskaðir að hafa hóp af afkomendum í kringum þig.

Þvílík gæfa sem það er að hafa mátt kynnast þér elsku tengdamamma. Og þvílík gæfa sem það er að hafa mátt kveðja þig í hinsta sinn. Við Mossi trúum því að þú hafir beðið eftir okkur þegar við hentumst frá Hollandi í skaðræðisstormi og náðum að kyssa þig bless þann 23 febrúar. Þessi dagur, brúðkaupsdagurinn okkar, verður okkur ennþá hjartkærari hér eftir. Ég mun sakna þín óendanlega mikið en ég er sem betur fer svo ótrúlega heppin að eiga part af þér. Því þú lifir áfram: í manninum mínum, öllum þínum börnum, barnabörnum og barnabarnabörnum. Í hvert skipti sem ég horfi í augu Mossa þá sé ég þig og tengdapabba og þá veit ég að sönn ást er til. Nú eruð þið tengdó aftur sameinuð og leiðist hönd í hönd fram í sumarlandið. Og ég lofa þér því af öllu hjarta að við skulum vera áfram góð við hvort annað.

Þín elskandi tengdadóttir,

Jóna Hálfdánardóttir

Jóna Hálfdánardóttir