Snæbjörg Snæbjarnardóttir, óperusöngkona, söngkennari og kórstjóri, fæddist á Sauðárkróki 30. september 1932. Hún lést á Landspítalanum 16. febrúar 2017.Foreldrar hennar voru Ólína Ingibjörg Björnsdóttir, f. 23. maí 1903, d. 13. október 1980, og Snæbjörn Sigurgeirsson, bakarameistari á Sauðárkróki, f. 22. mars 1886, d. 3. september 1932. Fósturfaðir Snæbjargar var Guðjón Sigurðsson, bakarameistari á Sauðárkróki, f. 3. nóvember 1908, d. 16. júní 1986. Systkini Snæbjargar, samfeðra, voru Ólöf, f. 1922, d. 1947, Svanfríður Guðrún (Gígja), f. 1925, d. 2015, Geirlaug, f. 1927, d. 1927, Sigurgeir, f. 1928, d. 2005. Systkini Snæbjargar, sammæðra, eru: Elma Björk, f. 1935, d. 1984, Birna, f. 1943, og Gunnar Þórir, f. 1945. Fyrri eiginmaður Snæbjargar var Páll Kr. Pétursson stýrimaður, f. 22.12. 1927, d. 28.4. 1988. Dóttir þeirra er Ólöf Sigríður Pálsdóttir, f. 18. nóvember 1953. Seinni eiginmaður Snæbjargar var Kaj A.W. Jörgensen kaupmaður, f. 8. mars 1928, d. 8. júní 2010. Börn þeirra eru: 1) Snæbjörn Óli Jörgensen, f. 2. júní 1964, kvæntur Önnu Maríu Elíasdóttur, f. 1968. Börn þeirra eru: Snæbjörg, f. 1990, dóttir hennar er Maríanna Erla, f. 2012, Harpa María, f. 1993, og Kaj Arnar, f. 1999. 2) Guðrún Birna Jörgensen, f. 24. mars 1970, gift Halldóri Þorsteini Ásmundssyni, f. 1971. Dóttir þeirra er Hildur Ása, f. 2002.
Snæbjörg byrjaði ung að læra á hljóðfæri hjá skagfirska tónskáldinu Eyþóri Stefánssyni og að syngja í kirkjukór Sauðárkrókskirkju. Hún stundaði söngnám hjá Sigurði Birkis, Maríu Markan, Stefáni Íslandi og Sigurði Demetz, en fór í frekara söngnám í Salzburg í Akademie für Musik und darstellende Kunst Mozarteum. Þaðan útskrifaðist hún með hæstu mögulega einkunn. Hún tók þátt í alþjóðlegri söngvakeppni skólans og í framhaldi söng hún með sinfóníuhljómsveit Salzburg. Eftir þetta bauðst henni að syngja Aidu í La Scala en ákvað að snúa heim. Snæbjörg söng víða einsöng ásamt því að syngja í Dómkórnum undir stjórn Páls Ísólfssonar. Hún tók einnig þátt í uppfærslum á hinum ýmsu leikverkum hjá Leikfélagi Skagfirðinga sem og í Þjóðleikhúsinu. Hún fór til Vínarborgar 1974 og sótti námskeið í söng og kórstjórn hjá Helenu Karusso. Snæbjörg stundaði söngkennslu og kórstjórn í tugi ára og stofnaði á sínum tíma Skagfirsku söngsveitina, barnakór ásamt Söngsveitina Drangey. Hún kom að stjórnun fleira kóra. Hún skipulagði söngdeild Tónlistarskóla Garðabæjar þar sem hún kenndi söng í yfir 30 ár ásamt í Söngskólanum í Reykjavík. Eftir að hún hætti í Tónlistaskólanum vegna aldurs, kenndi hún söng á Hjúkrunarheimilinu Mörk þar til í desember sl. Snæbjörg var virkur félagi í Oddfellowreglunni í 50 ár og gegndi þar ýmsum trúnaðarstörfum ásamt söngstörfum. Snæbjörg og Kaj ráku til fjölda ára Verslunina Snæbjörgu á Bræðraborgarstíg og Verslunina Skerjaver.
Útför Snæbjargar Snæbjarnardóttur fer fram frá Dómkirkjunni í Reykjavík í dag, 3. mars 2017, og hefst athöfnin klukkan 15.
Haustið 1980 var ég ráðinn sem kennari við Tónlistarskóla Garðabæjar. Á
fyrsta kennarafundinum lágu leiðir okkar Snæbjargar Snæbjarnardóttur saman,
en hún hafði verið ráðinn til að koma á fót söngdeild við skólann. Hún var
þá þegar með nokkra nemendur sem komnir voru áleiðis í náminu og þurftu
kennslu á framhaldsstigi. Frá fyrstu tíð kom okkur vel saman og urðum við
með tímanum miklir vinir.
Árið 1984 tók Gísli Magnússon við stöðu skólastjóra skólans og ég var
ráðinn aðstoðar skólastjóri og yfirkennari. Ég vil meina að það tímabil sem
fór í hönd hafi verið eitt framsæknasta tímabil skólastarfsins. Að hafa
nemendur á efri stigum námsins gjörbreytti ímynd og ásýnd skólans. Við
tókum upp reglulega kennslu í hliðargreinum framhaldnámsins og gáfum kost á
að nemendur skólans gætu farið á tónlistarbraut og fengið metna áfanga til
stúdentsprófs frá skólanum. Fyrir 1980 hafði aðeins einn nemandi útskrifast
frá skólanum en þegar við Gísli tókum við höfðu 3 bæst í hópinn, tveir frá
Snæju og einn frá Gísla. Þegar við Gísli létum af störfum í lok árs 1999
höfðu meir en 30 nemendur í viðbót útskrifast með 8. stig og tónleika.
Skiptingin á þeim var nokkurn veginn jöfn á milli Gísla og Snæju.
Á þessum tíma vorum við með alls konar uppákomur og oft mjög glæsilega
tónleika nemenda skólans. Við vorum einnig með kennaratónleika og stóðum
fyrir öðru tónleikahaldi. Það eru þó tveir atburðir sem standa upp úr. Í
tilefni af 30 ára afmæli skólans árið 1996 fékk Gísli skólastjóri
Hildigunni Rúnarsdóttur til að semja tónverk fyrir skólann. Úr varð heil
ópera, Hnetu Jón sem flutt var í mars árinu áður. Texti ævintýrsins var
eftir Rúnar Einarssonar föður Hildigunnar og verkefnið varð að
samstarfsverkefni Tónlistarskólans, Barnakórs Garðabæjar og Myndlistarskóla
Garðabæjar. 30 manna hljómsveit nemenda spilaði undir stjórn Berharðs
Wilkinssonar, 40 börn í kórnum sungu með og Snæja skaffaði fimm söngvara í
hlutverk, en einn leikari var fenginn til að leika aðal hlutverkið.
Gagnrýnandi Morgunblaðsins, Ríkarður Ö. Pálsson, sá ástæðu til þess að
skrifa um þetta þó það væri að vísu ekki venja á þessum síðum að gagnrýna
skólatónleika, .... Hann hrósaði mjög þessu verki og sagði að það væri
verðskulduð rós í hnappagat Hildigunnar. Um söngvarana sagði hann: .Á
óvart kom hversu lipurt og hljómmikið sumir einsöngvararnir gátu sungið
....
Aðeins þremur árum seinna var sett upp annað stórvirki. Snæja hafði tekið
þá ákvörðun að setja upp eins og lagði sig alla óperuna Brúðkaup Fígarós
eftir W. A. Mozart. Hún byrjaði að kenna þetta verk haustið á undan og um
áramót var byrjað að æfa. Hún fékk nokkra kennara skólans til að taka að
sér hlutverk og var ég pússaður upp í það að leika Dr. Bartóló. Á engan er
hallað þó sagt sé, að þau Benedikt Elfar sem Fígaró og Margrét
Ásgeirsdóttir sem Súsanna fóru á kostum í hlutverkum sínum. Í þessu verki
kom fram mesti styrkur Snæju, en það var að fá fólk til að gera hluti sem
það hefði aldrei sjálft trúað að það gæti gert. Fengnir voru búningar að
láni í Þjóðleikhúsinu og það var æft mjög stíft. Svo gerðist þetta sem er
galdur leikhússins. Í atriðinu þar sem Dr. Bartóló og Marzelína komast að
því að Fígaró er í raun sonur þeirra sem hafði verið rænt mörgum árum fyrr
small allt í einu allt saman. Við fórum öll að leika. Og þessir töfrar
síuðust svo út í önnur atriði óperunnar þannig að úr varð ótrúlega glæsileg
sýning. Það er betra að nota orð annarra til að lýsa þessu. Við fengum ekki
formlega gagnrýni en Ingólfur Guðbrandsson skrifaði í Morgunblaðið þann 3.
júní 1998 grein um þessa sýningu sem hann kallaði Listahátíð í Garðabæ.
Ingólfur skrifaði: Áheyrendur í samkomusal Vídalínskirkju í Garðabæ urðu
vitni að merkum menningarviðburði sl. föstudagskvöld, þegar söngdeild
Tónlistarskóla Garðabæjar flutti hina vinsælu óperu Mozarts Brúðkaup
Figarós í heilu lagi undir stjórn Snæbjargar Snæbjörnsdóttur yfirkennara
við þvílíka hrifningu gesta að mörg atvinnuleikhús hefðu verið sæmd af
slíkum undirtektum. - Söngkennsla á heimsmælikvarða - Snæbjörg
Snæbjarnardóttir hefur unnið íslenskri söngmenningu svo mikið gagn með
kennslu sinni að enginn getur komist hjá að viðurkenna árangur hennar, sem
lýsir sér best í frammistöðu nemenda hennar heima og erlendis, en þeir
stefna hver af öðrum inn á svið þekktra óperuhúsa Evrópu. Hér sannast hið
algilda, að varðar mest ... að undirstaða rétt sé fundin. Raddbeiting
nemenda Snæbjargar bregst varla, þegar hún fær góðan, óspilltan efnivið.
Röddin er lögð vel frammí og í efstu hæðir hljómsins. Fyrir bragðið berst
röddin vel og áreynslulaust. Þetta einkenndi flutninginn á Brúðkaupi
Figarós hjá nærri öllum flytjendum og gerði hann óvenju samstæðan. Ég held
að fáir hafi gert sér grein fyrir, hve mikið var færst í fang, og þeim mun
einstakari var árangurinn. Sannast hér sem jafnan, hvers virði góð tilsögn
er og hvers virði er skóla að hafa frábærum kennurum á að skipa.
Snæja var mjög einstök sem kennari. Ég hef aldrei hvorki fyrr né síðar
kynnst kennara sem lagði sig eins mikið fram við að ná árangri með nemendum
sínum. Hún átti í þeim hvert bein og það voru ófáar stundirnar sem hún gaf
þeim aukatíma. Þegar hún var sjötug langaði okkur vinum hennar og nemendum
að halda tónleika henni til heiðurs. Það kom ekki til mála. Hún var sko
ekki tilbúinn til þess að viðurkenna aldur sinn. Þegar hún varð 75 ár
fengum við leyfi og við blésum til mikilla tónleika í Kirkjuhvoli í
Garðabæ. Mér auðnaðist sá heiður að stjórna þessari samkomu. Þegar ég sá
alla flóruna af þeim nemendum sem þar komu fram áttaði ég mig á einu.
Þeir sem komu til að læra hjá henni komu á sínum eigin forsendum og hún
vann það besta úr hverjum og einum hvað svo sem það var sem nemendurnir
höfðu til að bera.
Það er ekki að spyrja að því, að þegar tvö stórveldi sigla á sömu leið
getur komið til árekstra. Einhvern tímann líkaði Snæju ekki við einhverja
ákvörðun sem ég tók og fórum við bæði í þagnarbindindi. Eftir einhvern tíma
vorum við bæði búin að steingleyma því hvað hefði ollið því og ákváðum við
þá að hætta þessum fíflagangi. Þetta varð bara til þess að treysta
vináttu okkar enn meir og þetta gerðist ekki aftur.
Ég nota ennþá suma af gömlu frösunum hennar Snæju eins og t.d. það er
víðar en hjá fleirum! Veislurnar sem slegnar voru upp, stundum af litlu
tilefni, eru ógleymanlegar. Þá komu frasarnir: Borðiði!!! og: Fáið ykkur
meira!!! Ég held að hefði ég verið í fæði hjá henni Snæju væri ég a.m.k.
helmingi þyngri en ég er nú.
Eftir að ég hætti í Garðabænum lágu leiðir okkar Snæju ekki eins oft saman.
Við töluðum stundum saman í síma og hittumst nokkrum sinnum. Rúmri viku
fyrir andlát hennar heimsóttum ég, Ingibjörg Styrgerður kona mín og
Ingibjörg Guðjónsdóttir söngkona og fyrrum nemandi okkar hana og áttum með
henni mjög góðan dag. Við ræddum um heima og geima og áttum saman yndislega
samverustund. Ég sagði henni m.a. að Fígaró ævintýrið væri eitt það
skemmtilegasta sem ég hefði nokkurn tímann tekið þátt í og rifjuðum við það
upp. Þegar við fórum sagði hún: Komiði fljótt aftur! Ekki datt okkur þá í
hug hve stutt það væri að við stæðum yfir moldum hennar.
Ég kveð hér sanna og einlæga vinkonu sem lífgaði alltaf upp á
tilveruna.
Smári Ólason.