Margrét G. Ingólfsdóttir fæddist 1. júní 1939 á Húsavík. Hún lést 14. mars 2017.
Hún var dóttir hjónanna Pálínu S. Þórðardóttur húsmóður, f. 23. apríl 1917, d. 1. mars 1972, og Ingólfs Sigurðssonar, f. 20. ágúst 1914, d. 14. október 1999, skrifstofumanns hjá Eimskipafélagi Íslands. Hún var elst þriggja systkina, en hin tvö eru: Elín Lára Ingólfsdóttir, f. 3. mars 1943, og Sigurður Ingólfsson, f. 25. nóvember 1948. Margrét ólst upp í Reykjavík. Hún lauk grunnskólaprófi frá Laugarnesskóla. Vann hjá Ríkisféhirði og síðar launadeild fjármálaráðuneytisins frá árinu 1954 til 1980. Útskrifaðist frá Öldungadeild Menntaskólans við Hamrahlíð vorið 1981. Haustið 1981 hóf hún nám í forvörslu við Konservatorskolen, Det kongelige kunstakademi. Hún útskrifaðist þaðan sem forvörður árið 1985. Áður en námi lauk stofnaði Margrét Morkinskinnu ásamt Hilmari Einarssyni og Ríkharði Hördal. Hún starfaði þar sem forvörður í nokkur ár. Margrét starfaði einnig á Heilsugæslustöð Miðbæjar frá 1991-1994. Síðustu árin dvaldi hún á hjúkrunarheimilinu Mörk við Suðurlandsbraut. Margrét giftist Knúti Bruun árið 1961. Þau skildu. Börn þeirra eru: 1) Elín Björk, f. 8. desember 1959, dætur hennar og Garðars Ólafssonar eru: a) Hildur Snjólaug, f. 2. september 1994, og b) Margrét Agla, f. 25. febrúar 1999. 2) Ingólfur, f. 5. maí 1963, maki Margrét Helga Hjartardóttir, synir þeirra eru: a) Hjörtur, f. 14. nóvember 1996, b) Njörður, f. 31. ágúst 2001, og c) Börkur, f. 9. maí 2009. 3) Hildur Snjólaug, f. 24. maí 1964, maki Björn Hróarsson. Sonur Hildar og Garðars Sigurðssonar er Knútur, f. 17. mars 1994, sonur Hildar og Jóns Hinriks Garðarssonar er Steinn, f. 28. maí 2000.
Útför Margrétar fór fram í kyrrþey að ósk hinnar látnu.
Það var einmitt í aðstöðunni sem leiðir okkar Grétu tengdamömmu lágu saman þegar ég fór að gera mig heimakomna þar á bæ snemma vors árið 1989. Ég varð fyrir svipuðum áhrifum og fyrrnefndur kunningi, hreifst strax af þessu fallega heimili sem bar þess vott að hér höfðu miklir fagurkerar og listunnendur hreiðrað um sig. Við nöfnurnar vorum báðar svolítið vandræðalegar og feimnar í fyrstu, en fljótlega hristum við það af okkur og lærðum að meta hvor aðra. Þegar fólk talar um erfiðar og sígagnrýnandi tengdamæður skil ég ekki hvað það á við. Gréta sýndi mér aldrei annað en vinsemd og hjálpsemi, tók mig algjörlega inn í fjölskylduna og studdi mig og hvatti á allan hátt. Hún gaf mér rausnarlegar gjafir við hin ýmsu tækifæri, svo stundum þótti mér nóg um og varð hálffeimin, en þar var Grétu rétt lýst, gjafmild og höfðingleg, gerði allt með stæl.
Eitt af því sem við tengdamæðgurnar áttum sameiginlegt var áhugi á fallegri tónlist. Stundum fórum við saman á tónleika, stundum í óperubíó þegar það kom til. Alltaf var gaman að rabba við Grétu eftir slíkar ferðir um það sem við höfðum fengið að sjá og heyra. Mér er einkum minnisstætt haustið þegar ég kom heim úr vinkonuferð á listahátíð í Edinborg þar sem ég hafði heillast af hljómsveitarstjóranum Gustavo Dudamel. Ég sagði Grétu frá honum og hún varð spennt og uppnumin eins og smástelpa. Hún gat ómögulega látið sér þessa fátæklegu frásögn mína nægja svo hún dreif strax í að panta geisla- og mynddiska með Dudamel og kynna sér málið sjálf. Svona var Gréta þegar vel lá á henni, hrifnæm með eindæmum og ekkert að tvínóna við hlutina!
Grétu var svo ótal margt til lista lagt. Allt lék í höndunum á henni og nýttist það henni vel í starfi sínu sem forvörður. En hæfileikar hennar fengu ekki síst útrás í eldhúsinu þar sem Gréta var engri lík. Hún dreif upp ótrúlegar veislur sem margir minnast þar sem hver rétturinn af öðrum lék við bragðlaukana. Ég þarf ekki nema rétt að loka augunum til að sjá Grétu fyrir mér við eldavélina á Hverfisgötunni með sleifina í annarri hönd og sígarettuna í hinni, þrjá potta á vélinni og steik í ofninum. Þá var hún aldeilis í essinu sínu.
En Grétu leið ekki alltaf vel á síðustu árum. Veikindi og langvinn barátta við Bakkus settu mark sitt á líf hennar og ollu hennar nánustu hugarangri. Það var erfitt að upplifa vanlíðan Grétu, hvernig hún einangraði sig í auknum mæli og var sjálfri sér verst eftir því sem tíminn leið. En hún átti þó sem betur fer sínar góðu stundir, einkum með barnabörnunum sem hún elskaði svo heitt. Hún var boðin og búin að hjálpa til við uppeldið, prjóna peysur og sokka, skutla í íþróttir og tónlistarskóla og gefa eitthvað gott að borða. Börn og tengdabörn studdi hún líka með ráð og dáð þegar á þurfti að halda og hún hafði heilsu til, hvort sem það var í formi tertubaksturs fyrir afmæli og fermingar eða fjárstuðnings þegar illa stóð á í heimilisrekstrinum. Gréta var svo sannarlega til staðar fyrir sína nánustu á sinn hljóðláta hátt.
Að leiðarlokum kveð ég Grétu með þakklæti í hjarta, minnist dillandi hláturs og góðra stunda. Ég vona að okkur Ingólfi auðnist að heiðra og halda minningu nöfnu minnar á lofti, ekki síst í hjörtum sonarsona hennar sem allir sakna nú góðrar ömmu.
Margrét Helga Hjartardóttir