Auðbjörg Þorsteinsdóttir fæddist 4. júní 1924. Foreldrar hennar voru Þorsteinn Gunnarsson og Margrét Grímsdóttir, búsett á Ketilsstöðum í Mýrdal. Systkini Auðbjargar voru Unnur, Unnur Guðjónína, Gunnar, Jóna og Guðjón. Auðbjörg lést 23. mars 2017 og var jarðsungin frá Vesturkirkjunni í Þórshöfn 30. mars 2017.
Leivur Grækarisson Madsen fæddist 9. júní 1924. Foreldrar hans voru Gregorius (Grækaris) Madsen og Anna Sophie Elisabeth Madsen, búsett í Kvívík í Færeyjum. Systkini Leivs voru Arngrím, Gunnhild, Hjørdís, Tórstein og Ingibjørg. Leivur lést 24. júlí 2015 og var jarðsunginn frá Vesturkirkjunni í Þórshöfn.
Sonur Leivs og Auðbjargar er Leifur Grétar Leivsson, fæddur 9. október 1972, nú búsettur í Kaupmannahöfn; eiginkona hans er Connie Leifsson, fædd 17. janúar 1970; sonur þeirra er Gustav Leifsson, fæddur 21. desember 2008.
Þau Auðbjörg og Leivur voru þjóðum sínum einkar traustir þegnar í blíðu og stríðu og töluðu af stolti og öryggi fyrir sjálfstæði hinna færeysku og íslensku menningarsamfélaga. Allt til þess er yfir lauk var hugur þeirra tíðum í fornum heimabyggðum, þar sló hjartað heitast sem mamma og pabbi og börnin flest ólu drjúgan aldur. Leivur óx upp í garði foreldra sinna Grækaris og Önnu í Kvívík, ásamt fjórum systkinum. Öll báru þau vott um menningu samhygðar sem enn er ríkur þáttur í hinu færeyska samfélagi. Kornungur féll faðir Auðbjargar frá, en Margrét móðir hennar stóð af sér áföllin og hélt viðurværi af landinu meðan dugmikil börnin uxu úr grasi. En örlög Leivs og Auðbjargar urðu fleiri öflum undirorpin, sem mótuðu mest búsetu, lífsföruneyti, starfsvettvang og heimsmynd.
Svo margt er það sem sameinar færeyska þjóð og íslenska að fjarskyldum gæti virst um sömu þjóð að ræða með tvær mállýskur. Skyldleiki þeirra er augljós. En sérstaða hvorrar þjóðar er þeim mun gleggri þegnum þeirra á vissan hátt undirstaða sjálfsvitundar, og styrkur þessum smáþjóðum í baráttu fyrir tilveru menningarheima sinna í ólgusjó alþjóðavæðingar. Þrátt fyrir stærðarmun og ólíka þjóðréttarstöðu ríkir gagnkvæm virðing og vinátta í samskiptum Íslands og Færeyja. Tengsl þjóðanna eru mikil og margþætt og margt má hvor af hinni læra. Ekki er ofsagt að Færeyingar slái okkur við í örlæti þegar stóráföll hafa riðið yfir. Þegar horft er um öxl má sjá hvernig þessi grannríki hafa veitt fjölda þegna hvors annars skjól til lífsviðurværis á erfiðum tímum. Á áttunda áratug síðustu aldar sótti fjöldi Íslendinga til Færeyja í leit að bættum kjörum og atvinnuöryggi. Hið sama má segja um marga Færeyinga eftir lok síðari heimsstyrjaldar sem þá leituðu starfa á Íslandi. Þessi samskipti styrktu þjóðirnar og juku þeim samstöðu og kraft.
Leivur var einn þeirra mörgu sem mótaðist af þessu sameiginlega atvinnusvæði grannþjóðanna. Hann kom ungur til Íslands í lok stríðsins og réð sig fljótlega til umsjónar loðdýrabús athafnamannsins Sigurðar Pálmasonar á Hvammstanga. Hann stundaði sjómennsku á íslenskum vertíðarbátum og togurum og komst þá í kynni við fjölda fólks úr hinum norrænu sjávarbyggðum, allt frá Grænlandi til Norður Noregs. Að því loknu kom hann að nýju til Íslands ásamt fjölda annarra landa sinna, en þá til lengri dvalar. Um það leyti hafði Auðbjörg flutt til Reykjavíkur og hafið störf í sælgætisgerð þar sem hún starfaði síðan um árabil.
Auðbjörg og Leivur höfðu mikla unun af hvers konar ræktun, enda voru garðar þeirra jafnan til fyrirmyndar um grósku og snyrtimennsku. Atorka Leivs til verka, sem verkstjórn hans árum saman hjá Véltækni hf. í Reykjavík og fiskmóttaka í Bacalao P/F í Þórshöfn báru glöggt vitni um, virtist hvergi tæmd þótt heim væri komið að loknum löngum vinnudegi. Þá var jafnan tekið til hendinni við endurbætur og fegrun á húsakosti, ræktun grænmetis og trjáplantna, eða til fagnaðar í hópi góðra vina og ættingja.
Eins og sönnum vinum sæmir skiptu þau búsetu milli þjóðlanda sinna, en til Færeyja fluttu þau árið 1977, ásamt ungum syni sínum, Leifi Grétari sem nú starfar og býr ásamt eiginkonu og syni í Danmörku. Sonur þeirra, Gustav, var eins og faðir hans mikill sólargeisli í lífi þeirra Auðbjargar og Leivs. Dvöl þeirra, líf og starf, í tveimur þjóðlöndum einkenndist af þjóðrækni, félagshyggju og örlæti í garð góðra málefna. Má þar meðal annars tilgreina áralangt fórnfúst starf þeirra fyrir Færeyingafélagið í Reykjavík, en Leivur gegndi þar formennsku um hríð. Margir Færeyingar sem lögðu leið til Íslands nutu aðstoðar þeirra og gestrisni.
Auðbjörg og Leivur voru bæði virk í baráttu fyrir félagslegu réttlæti og frelsi smáþjóða til sjálfsákvörðunar. Leivur var þjóðveldismaður af lífi og sál, hann var vel máli farinn og lá ekki á liði sínu er þjóðréttur Færeyja var til umræðu. Að sama skapi lét Auðbjörg aldrei sitt eftir liggja í umræðu um stjórnmál, ekki síst ef þau vörðuðu Ísland og Færeyjar. Hún var jafnan reiðubúin að leggja lið róttækum umbótahreyfingum með framlögum, verkum og rökræðu. Allt til síðustu samræðna er við áttum við Audu fyrir fáum dögum brann hugur hennar heitt gegn því ranglæti sem hún vissi svo glöggt hve alþýða samlanda hennar má enn þola. Það hæfði vel að baráttukonan Auðbjörg skyldi kvödd 30. mars, þeim merka afmælisdegi átaka sem urðu á Austurvelli þegar almenningur reis upp gegn áformum um þátttöku Íslands í hernaðarbandalagi.
Á efri árum eftir að formlegri starfsævi Leivs lauk sátu þau hjónin ekki auðum höndum, gættu að húsum, gróðri og fólki, og komu reglulega til Íslands að hitta þá fjölmörgu ættingja og vini er þau áttu frá fyrri tíð, jafnan leiftrandi af lífsorku. Þegar halla tók undan fæti og heilsu hrakaði nutu þau hvort um sig góðrar umönnunar á hvíldar- og dvalarheimilum í Þórshöfn og ómetanlegs stuðnings frá ýmsu góðu fólki.
Við færum Leifi Grétari og fjölskyldu hans, svo og Jónu systur Auðbjargar, innilegar samúðarkveðjur. Löng og farsæl æviskeið eru að baki og margs að minnast hjá þeim er kynntust þessum ágætishjónum.
Við þökkum og kveðjum með söknuði.
Margrét S. Gunnarsdóttir og Gunnar Á. Gunnarsson.