Hlynur Sævar Óskarsson, tónlistarkennari og trompetleikari, fæddist 2. mars 1942 á Siglufirði. Hann lést 13. mars 2017 í Bremen í Þýskalandi.
Foreldrar Hlyns voru Anney Ólfjörð Jónsdóttir verkakona, f. 20. júní 1912, d. 28. nóvember 1975, Siglufirði og Óskar Garibaldason verkalýðsleiðtogi, f. 1. ágúst 1908, d. 2. ágúst 1984, Siglufirði. Eftirlifandi eiginkona Hlyns er Silke Óskarsson, tónlistarkennari og óperusöngvari, f. 28. febrúar 1943 í Gotha í Þýskalandi og börn þeirra, Salka Sólveig Hlynsdóttir fasteignasali, f. 20. maí 1969 á Siglufirði, og Wencke Valka Hlynsdóttir kennari, f. 29. september 1972 í Holzminden í Þýskalandi. Synir Sölku Sólveigar, Justin Sævar Julian, f. 21. desember 1994, sambýliskona hans, Nadine Klocke, f. 7. apríl 1994, og Ole Kranch, f. 28. júní 2001, og dóttir Wencke, Solvey Hlynsdóttir, f. 20. maí 2000.

Systkini Hlyns Sævars eru Hörður Sævar, íþróttakennari, f. 4. júlí 1932, Erla, hjúkrunarfræðingur, f. 5. maí 1936, Hallvarður Sævar, málarameistari, f. 24. nóvember 1944, Hólmgeir Sævar, húsasmíðameistari, f. 26. desember 1945, d. 18. apríl 2016, og Sigurður Helgi, f. 27. febrúar 1950, d. 18. febrúar 1961.

Hlynur stundaði tónlistarnám í Tónlistarskóla Siglufjarðar, sem faðir hans Óskar stofnaði, og lærði á trompet og píanó. Eftir Gagnfræðaskólann hóf hann sjómennsku en móðir hans tók þá ákvörðun að enginn sona hennar skyldi verða sjómaður. Árið 1961 sendu Anney og Óskar hann í Tónlistarháskólann í Leipzig (f.v. A-Þýskaland) og þar kynntist hann konu sinni, Silke Bochert, sem nam óperusöng við sama skóla. Þau giftu sig árið 1965 í Gotha, heimabæ Silke. Eftir tónlistarnámið fluttu þau til Siglufjarðar og störfuðu þar í 4 ár og fæddist dóttir þeirra Salka Sólveig þar. Árið 1970 fluttu þau til Holzminden í V-Þýskalandi og kenndu þar í 10 ár við heimavistarskólann „Landschulheim am Solling“. Í Holzminden fæddist seinni dóttir þeirra, Wencke Valka. Á þessum tíma sótti Hlynur nám við Kennaraháskólann í Göttingen og útskrifaðist með kennararéttindi og sem íþróttakennari. 1980 fluttu þau til Leeste og síðar til Kirchweyhe rétt sunnan við Bremen. Hlynur starfaði sem tónlistarkennari og stofnaði m.a. tvö Big Band, söng í kór og kenndi á tímabili íslensku við Lýðháskólana í Diepholz og Verden.

Útför Hlyns Sævars fer fram í dag, 31. mars 2017, klukkan 14 og verður í Friðarskógi (Friedewald), sem er frumskógur á milli Oldenburg og Bremen.

Hlynur Sævar, eða Hlynsi frændi eins og við kölluðum hann, er fallinn frá, eftir áralanga hetjulega baráttu við illvígan sjúkdóm, sem hann að lokum tapaði einvíginu við. Hann hefur alla tíð haft mikil áhrif á mig, alveg frá því ég man eftir mér og fannst mér á sínum tíma alveg stórkostlegt afrek að einhver færi alla leið til staðar, sem fólk kallaði erlendis, til að fara í skóla. Það hljómaði eins og ævintýri og Hlynsi var alltaf fyrir mér umlukinn ævintýrahjúp. Hann var ekki nema rétt orðinn 19 ára gamall þegar hann fer til Austur-Þýskalands og hóf nám í Tónlistarháskólanum í Leipzig, mjög virtan skóla. Þar kynntist Hlynsi fljótlega núverandi eiginkonu sinni, Silke, sem nam ópersöng við sama skóla. Hvort það voru norrænir guðir eða önnur forlög það varð ást við fyrstu sýn. Hlynur hávaxinn ljóshærður víkingur og hún, gullfalleg þýsk snót með dökk augu og svarta lokka. Þau byrjuðu strax að búa undir sama þaki á námsárunum og giftu sig 1965 í heimabæ Silke, Gotha. Á ótrúlegan hátt gat Hlynur tekið hina ungu austur-þýsku eiginkonu með sér heim, það var ekki sjálfgefið á þeim tíma, því austur-þýskir ríkisborgarar máttu ekki ferðast til vesturs. En Hlynsi var klókur og þar sem hann var útlendingur mátti hann ferðast frjálst á milli og því fór hann í bandaríska sendiráðið í V-Berlín og bað um brottfarar-vegabréf fyrir Silke.
Tónlistarháskólinn í Leipzig, vildi halda Hlyn hjá sér og bauð þeim lokkandi starf og góðar tekjur, en Hlynur vildi fara heim og þá voru stjórnendur skólans fljótir að snúa dæminu við og rukkuðu Silke um endurgreiðslu á námsstyrknum sem hún hafði fengið. Og það gátu þau ekki gert. Þá komu foreldrar Hlyns, Anney og Óskar til þeirra og greiddu upphæðina og síðan átti að halda heim á leið, því loksins kom brottfararleyfi frá ráðuneyti í A-Berlín, en með þeim skilyrðum að þau tækju beint flug frá Berlín Schönefeld til Íslands. Hlynur ætlaði þá að ná í leyfið frá bandaríska sendiráðinu, en þá sagði Óskar pabbi nei, við þurfum enga hjálp frá Kananum, við tökum ferjuna yfir til Danmerkur, látið mig um þetta. Dönsku landamæraverðirnir ætluðu í fyrstu ekki að leyfa Silke að fara yfir, því austur-þýsk vegabréf voru ekki viðurkennd hjá vestrænum ríkjum, en þá dró Óskar tengdafaðir upp úr buxnavasanum landvistarleyfi handa Silke frá íslenska ríkinu og um leið hleyptu dönsku tollararnir henni í gegn og þau héldu för sinni áfram til Íslands. Annars hefði Silke verið send beinustu leið til baka til A-Þýskalands.
Við þessa sögu minnkaði ekki ævintýraljóminn í kringum Hlyn og Silke. Þau störfuðu frá 1966 til 1970 við tónlistarskólann á Siglufirði og stofnaði Silke Kvennakór Siglufjarðar og iðaði Sigló af tónlist á þeim tíma. Þvílíkur happafengur fyrir Siglufjörð að endurheimta son sinn Hlyn, sprenglærðan og með þvílíkan gimstein, Silke, sér við hlið. Raunveruleg og náin kynni mín af þeim hjónum og dætrum, Sölku þá 4 ára og Wencke 18 mánaða, urðu þegar ég fór til þeirra haustið 1973 til Holzminden sem barnapía. Þegar Hlynur hafði samband við pabba minn, Hörð Sævar, til að athuga hvort ég hefði áhuga á að koma, varð hálfgerð sprengin í huga mínum! Að sjálfsögðu sagði ég strax já, því ég var farin að huga að námi erlendis og ætlaði til Kanada, en ég snarsnéri þeim plönum og ákvað að fara frekar til Þýskalands. Eftir nánari athugun í þýska sendiráðinu í Reykjavík, komst ég að því að bestu skólarnir fyrir það framtíðarstarf sem ég hafði í huga, sjúkranudd, væru einmitt í V-Þýskalandi. Og eftir því mun ég aldrei sjá, Hlynur og Silke hjálpuðu mér þvílíkt við að komast í góðan skóla og um leið í gegnum alla þýsku Bürokratíuna og með hjálp Hlyns komst ég þremur árum fyrr í námið en fyrirhugað var. Án þeirra hefði mér ekki tekist þetta svo auðveldlega. Þau hjón urðu á þessu tímabili pabbi minn og mamma í öðru veldi og reyndar allan tímann sem ég var þar. Sérstök tilviljun, ég var einmitt nýorðin 19 ára þegar ég hóf mitt nám, eins og Hlynur á sínum tíma.
Þó Hlynsi hafi búið nær alla sína tíð í Þýskalandi, sló hjarta hans alltaf til Íslands. Þau hjónin komu í óteljandi ferðir til gamla föðurlandsins og dvöldu oft í nær tvo mánuði yfir sumartímann, sérstaklega eftir að þau fengu sér húsbíl sem gerði þeim kleift að vera frjáls og óháð og dvelja á sínum uppáhaldsstöðum í ró og næði. Síðasta ferð þeirra var sumarið 2016 og dvöldu þau aðallega fyrir norðan. Í raun og veru var Hlynur að kveðja bæði landið og vini og ættingja. En við höfðum ekki trú á því, því hann var búinn að gera það síðustu þrjú árin þar á undan, en alltaf kom hann aftur! Þvílíkur baráttumaður, sannur Víkingur sem barðist til hins síðasta, með sverð í hendi en að lokum kominn með bakið upp við vegg. Sem betur fer þjáðist Hlynur aldrei og er það mikil huggun fyrir okkur sem elskuðum hann. Læknarnir hans sögðu að Hlynur væri gangandi kraftaverk og miðað við alvarleika sjúkdómsins, ætti hann að hafa kvatt þessa jarðvist milku fyrr.
Ég gæti sagt svo margar sögur um frænda minn, en ég er svo þakklát að ég gat heimsótt þau í lok janúar á þessu ári og voru það svo dýrmætar stundir sem við áttum saman og rifja upp gamla daga og spá í framtíðina. Ómetanlegar samverustundir. Takk, takk, takk, elsku frændi, fyrir allt og þú verður hjá okkur alla tíð og tíma. Elsku Silke, Salka, Wencke og barnabörnin, ykkar missir er lang mestur og elsku frændi ég mun alla tíð elska þig.

Þín frænka og vinkona,

Harpa Harðardóttir.