Magnús fæddist 17. nóvember 1935 og ólst upp í Reykjavík. Hann lést á Landspítalanum 11. apríl 2017.

Foreldrar Magnúsar voru Oddur Erik Ólafsson, verkstjóri hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur, f. 17.3. 1905, d. 16.6. 1977, og kona hans, Guðný Maren Oddsdóttir, húsfreyja, f. 26.6. 1909, d. 1.3. 2010.

Eftirlifandi eiginkona Magnúsar er Svandís Pétursdóttir, f. 1.2. 1941, sérkennari. Þau giftu sig 7. ágúst 1965. Svandís er dóttir Péturs Ágústar Árnasonar, sjómanns og verkamanns í Reykjavík, og konu hans, Helgu Jónsdóttur frá Tungufelli í Hrunamannahreppi.

Sonur Svandísar og Magnúsar er Pétur Magnússon, f. 16.2. 1971, forstjóri Hrafnistuheimilanna. Kona hans er Ingibjörg Eydís Ingimarsdóttir, f. 30.8. 1973, hjúkrunarfræðingur. Börn þeirra eru: Ágúst Logi, f. 24.6. 1996, Magnús Árni, f. 25.1. 2003, og Svandís Erla, f. 8.3. 2011.

Systur Magnúsar eru: Sigríður Oddsdóttir Malmberg, f. 10.3. 1932, og Ólöf Jóna Oddsdóttir, f. 4.10. 1944.

Að loknu námi í Laugarnesskólanum fór Magnús í Kvöldskóla KFUM og Iðnskólann í Reykjavík, jafnframt því sem hann lærði rafvirkjun hjá Vilbergi Guðmundssyni í Segli. Síðan stundaði hann framhaldsnám í rafmagnsdeild Vélskóla Íslands og rafmagnstækninám í Tækniskóla Kaupmannahafnar og tók lokapróf í mars 1964. Nám í rekstrar- og viðskiptagreinum tók hann í Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands 1992-1994.

Magnús starfaði á háspennuverkstæði og á verkfræðideild Rafmagnsveitu Reykjavíkur. Hann kenndi um skeið rafmagnsfræði í Vélskóla Íslands og starfaði hjá Raftækjasmiðju Ólafs Tryggvasonar.

Árið 1968 réðst hann sem rafveitustjóri til Rafveitu Akraness og gegndi því starfi til 1974. Þá var hann ráðinn bæjarstjóri á Akranesi næstu fjögur árin og endurráðinn 1978-1982. Síðan tók hann aftur við starfi rafveitustjóra og gegndi því til 1995. Árið 1995 var hann ráðinn veitustjóri Akranesveitu, sem var þá nýstofnuð og gegndi hann jafnframt starfi framkvæmdastjóra Andakílsárvirkjunar og Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar. Þessum störfum gegndi Magnús fram á árið 2000.

Magnús fór í Leiðsöguskólann í Kópavogi og starfaði sem leiðsögumaður á árunum 2002-2013, aðallega með danska hópa.

Magnús starfaði mikið í íþróttahreyfingunni. Var hann formaður ÍA 1984-1992 og varaforseti ÍSÍ 1992-1997. Var heiðursfélagi bæði í ÍA og ÍSÍ. Hann átti sæti í fjölda nefnda og gegndi fjölbreyttum trúnaðarstörfum fyrir íþróttahreyfinguna, Akraneskaupstað og fleiri aðila.

Á yngri árum starfaði Magnús í KFUM, bæði í Laugarneshverfinu og í sumarbúðunum í Vatnaskógi. Magnús var félagi í Oddfellow-reglunni og Gídeonfélaginu og stjórnarmaður í Sóknarnefnd Akraneskirkju. Hann var í nokkur ár formaður Orkusenatsins, félagi fyrrverandi starfsmanna orkufyrirtækja sem hafa unnið í tengslum við Samorku, samtök veitufyrirtækja.

Útför Magnúsar fer fram frá Akraneskirkju í dag, 25. apríl 2017, og hefst athöfnin kl. 13.

Aldrei hefur mér veist jafn erfitt að festa á blað minningarorð og nú, þegar vinur minn til 70 ára,  Magnús Oddsson, er fallinn frá.  Það er eins og eitthvað úr sjálfum mér hafi horfið.
Leiðir okkar lágu saman um 10 ára aldurinn, þegar foreldrar mínir fluttu úr austurbænum  og inn í Laugarneshverfi,  sem þá var í byggingu. Faðir minn hafði fengið lóð við Gullteig og stóð þar í framkvæmdum. Fyrsta árið bjuggum við inni í Laugarneskamp og þar segist Magnús fyrst hafa hitt mig er hann knúði dyra til að spyrjast fyrir eða rukka. Í dyrunum stóð strákur, sem reyndi að snúa út úr öllu sem hann sagði. Eftir þessu man ég ekki, en hitt er víst að þar hittust tveir jafnaldra, sem áttu eftir að halda vináttu þar til yfir lauk. Þótt við værum sjaldnast bekkjarfélagar bundumst við sterkum böndum innan KFUM.  Vorum reyndar einu  KR-ingarnir í stórum hópi unglinga innan KFUM,  sem varð þess stundum valdandi að við urðum að forða okkur út úr húsi í aðalstöðvunum við Amtmannsstíg, þegar umræðan varð of heit.  Þar réð Valur ríkjum.
Okkar starfsstöð var í Laugarnesinu,  sterkustu útstöð félagsins. Þar var Magnús frábær foringi, hugmyndaríkur, glaðvær og markviss. Þegar á þurfti að halda samdi hann gamansögur sem lifðu kynslóða á milli innan starfsins.  Trúin á Jesúm Krist sem frelsara var honum eðlislæg og þar gat hann allt sitt líf leitað trausts. Unglingsárin renna í gegnum huga minn.  Hann var í launuðu námi, ég í skóla. Því  var það mikill fengur þegar hann eignaðist bílinn. Nú gátum við kippt ýmsum  með okkur á rúntinn og orðið margs vísari
En árin liðu. Ég lauk námi í Danmörku og flutti nokkru síðar á Akranes um það leyti sem hann hóf nám ytra. Ég er ekki frá því að vera mín og konu minnar  á Akranesi hafi orðið til þess að hann réðst hingað einnig og tók við starfi rafveitustjóra. Víst er að ég hvatti hann til þeirrar ákvörðunar.  Með honum og Svandísi konu hans fengum við líka tvo öfluga starfsmenn í starf KFUM og K á Akranesi, sem blómstraði um þær mundir og árin sem á eftir fylgdu og Akranes fékk traustan og öflugan stjórnanda, sem svo sannarlega hefur reynst traustsins verður.  Í áranna rás hlóðust á hann margvísleg  störf, sem urðu þess valdandi að hann varð að draga sig út úr virku KFUM-starfinu. Bæjarstjórastörfin gefa ekki mikið rúm til tímafreks æskulýðsstarfs. Og að því loknu bætist við formennska í  ÍA.  Í öllum þessum störfum komu forystuhæfileikar og skipulagsgáfur hans vel í ljós. Stríðnispúkinn var taminn  og í stað hans kominn varkár stjórnandi, sem ekki flanaði að ákvörðunum án umhugsunar. Reglusemi  réði  ríkjum og öguð staðfesta. Hann kynnti sér málin vel áður en hann myndaði sér skoðun og tók ákvörðun.
Hvernig kveður maður vin eftir 70 ára vináttu? Ég veit ekki svarið. Fréttin um andlát hans kom mér í opna skjöldu. Ég hafði komið til hans nokkrum dögum fyrr og þóttist þekkja til veikinda hans. Hafði fylgst með þeim um nokkurra ára skeið og hvernig þau höfðu eins og tekið völdin sl. áramót.  Í huga mér er  hryggð og eftirsjá en þó einnig fullt af þakklæti. Þakklæti fyrir þær einstöku minningar sem ég á af samveru og samstarfi  við góðan dreng. Þakklæti til Guðs fyrir það að hafa leitt okkur saman í trúarsamfélagi sem okkur var dýrmætt.  KFUM sér á eftir tryggum félaga og fyrrum verkamanni. Gídeonfélagið á Akranesi einnig og ég nefni einnig hópinn Káta drengi, sem er hópur gamalla KFUM-félaga úr Laugarnesinu, sem haldið hafa hópinn öll þessi ár. En hann er kvaddur í þeirri fullvissu að við megum í öruggri trú fela hann í faðm þeim Guði sem hann setti traust sitt á.
Ég og Sigurbjörg kona mín vottum Svandísi, Pétri og fjölskyldu hans okkar innilegustu samúð. Guð blessi minningu Magnúsar Oddssonar.



Jóhannes Ingibjartsson.