Einar Guðmundsson fæddist í Hamri á Breiðdalsvík 8. febrúar 1952. Hann lést á Landspítalanum í Fossvogi 21. maí 2017. Foreldrar hans voru Guðmundur Tómas Arason, verslunarmaður á Breiðdalsvík, f. 28. febrúar 1923, d. 11. nóvember 2001, og Sigrún Gunnarsdóttir, húsmóðir og verkakona á Breiðdalsvík, f. 5. janúar 1926, d. 10. febrúar 2005. Einar kynntist Jay Chalor Kaewwiset 1988 og hófu þau sambúð 1990. Þeirra sonur er Guðmundur Rúnar Einarsson, f. 4. desember 1990, og á hann einn son, Leon Leví, f. 1. maí 2016. Dóttir Jay frá fyrra sambandi er Selja Janthong, f. 31. janúar 1986. Unnusti hennar er Sigurður Grétar Sigurðsson, f. 12. febrúar 1987. Dóttir þeirra er Jasmín Líf, f. 29. ágúst 2015. Einar og Jay slitu sambúð 2001 en héldu ávallt góðum vinskap. Systkini Einars eru: 1) Gunnar Ari, f. 25. ágúst 1950. 2) Björn, f. 11. ágúst 1953. 3) Aðalheiður Guðrún, f. 16. nóvember 1954. 4) Friðrik Mar, f. 25. ágúst 1960. 5) Sigrún, f. 11. október 1969.
Eftir nám í Barna- og unglingaskólanum í Staðarborg stundaði Einar nám við Stýrimannaskólann í Reykjavík og lauk þaðan prófi frá Fiskimannadeild vorið 1973. Einar var sjómaður allan sinn starfsaldur og byrjaði á sjónum 16 ára gamall á bátnum Hafdísi SU 24 frá Breiðdalsvík. Eftir fyrra árið í Stýrimannaskólanum var hann stýrimaður og afleysingaskipstjóri á humarbátnum Hauki SU 50 á Djúpavogi hjá Einari Ásgeirssyni. Þegar hann lauk námi vorið 1973 fór hann um borð í skuttogarann Hvalbak SU 300 frá Breiðdalsvík, fyrst sem háseti og síðan sem 2. stýrimaður. Hann lenti í alvarlegu slysi 31. október 1973. Einar vann eftir það um hríð við fiskvinnslu á Breiðdalsvík en fór aftur á sjóinn um leið og hann gat og var þá í áhöfn hjá Einari Ásgeirssyni og Ólafi Helga Gunnarssyni nær óslitið upp frá því.
Útför Einars fer fram frá Heydalakirkju í dag, 3. júní 2017, kl. 14.
Elsku Bói minn.
Hvar á ég að byrja? Mikið er erfitt að sætta sig við þetta allt saman. Þótt þú hafir verið á þínu 65. ári þá var þinn tími svo sannarlega ekki komin. Þú fórst svo snögglega frá okkur sem gerir þetta svo sárt en vissulega eru öll dauðsföll sár. Þú barðist lengi við erfið veikindi sem ætluðu engan endi að taka. Það var svo sannarlega mikið á þig lagt, ósanngjarnt þetta líf stundum. Erfitt að trúa því. Ég er svo sannarlega þakklát fyrir þessar tvær vikur sem ég fékk með þér eftir að þú varst sendur suður. Þetta var erfitt en ég hefði hvergi annars staðar viljað vera. Við ákváðum fjölskyldan að ég skyldi taka Jasmín með mér, hún hélt manni á jörðinni og hún hélt manni við efnið. Það var verst hvað ég gat stoppað stutt hjá þér í einu því ég var með hana með mér. Hún hafði ekki þolinmæðina í það að bíða á biðstofunni, vildi auðvitað hitta þig líka. Það fór ekki vel í hana þegar ég þurfti að skilja hana eftir frammi með einhverjum öðrum því við þurftum að skiptast á að fara inn til þín. Því miður gátum við ekki öll verið hjá þér á sama tíma og Jasmín mátti helst ekki fara inn til þín þótt ég vildi það. En ég skildi aðstæðurnar og reyndi að láta kyrrt liggja en svo kom að því að við mæðgur þurftum að fara heim og ég bað hjúkkurnar um að leyfa mér að koma með hana aðeins inn til þín. Ég sá að hún varð lítil og knúsaði mig en svo sagði hún: mamma, Bói lasinn, sjáðu, það má ekki hafa hátt mamma. Svo horfði hún á þig og hélt áfram: mamma Bói vóvó þarna," og benti á næringuna sem þú varst að fá. Fyrir mér var þetta dýrmæt stund þótt ég vildi óska að þær væru fleiri hjá ykkur við aðrar aðstæður. En ég sé ekki eftir þessari ákvörðun og mun geyma hana vel í minningabankanum. Ég held að við séum öll sammála um að þú sért búinn að fá hvíldina sem þú þurftir og ró.
Það eru liðin heil 25 ár frá því þú og mamma sóttuð mig til Taílands. Árið 1992 sóttuð þið mig ásamt Guðmundi sem var þá u.þ.b. eins og hálfs árs. Mamma var búin að vera á Íslandi í u.þ.b. þrjú ár þegar hún náði i mig og það var ekkert annað en ævintýri sem var framundan fyrir litlu mig sem aldrei hefði getað ímyndað sér þetta líf sitt í dag, þegar hún var sex ára gömul og yngri, eltandi og veiðandi drekaflugur í krukku eins og var vinsælt úti. Aldrei hefði ég getað trúað því að ég ætti eftir að enda á Íslandi. Það hljómaði kalt og langt í burtu.
Fyrir mér var það mjög spennandi að fá að sjá þig því ég er nokkuð viss um að þú varst fyrsti hvíti maðurinn sem ég sá eða a.m.k. sá fyrsti sem hafði komið í pínulitla þorpið mitt ásamt Bjössa, bróður þínum, sem var með þér. Fólkið mitt og aðrir í þorpinu tala ennþá um það, þetta þótti rosalega merkilegt á þeim tíma. Í minningunni var spennan mikil og miklar pælingar í gangi og ég man að ég þorði fyrst ekki að koma við þig af einhverjum ástæðum en ég hafði mig svo í það og ég byrjaði að nudda á þér handlegginn með fingrunum til að athuga hvort þetta væri nokkuð hvít málning á þér. Þú hlóst bara að mér. Ég man að mamma bað mig um að stríða þér og kenndi mér eina setningu á ensku og var hún sú eina sem ég náði sérstaklega vel og var það einfalt og gott: Give me money. Svo brosti ég og deplaði augunum bara og þóttist saklaus. Þessa setningu held ég að ég hafi notað óspart allan okkar tíma saman úti. Ég vona að þú sért búinn að fyrirgefa mér það.
Þegar ég hugsa til baka þá hryggir það mig að við áttum ekki margar minningar saman en þó auðvitað einhverjar, kannski aðallega minningar frá matarborðinu, það eru nú oftast bestu minningarnar sem verða til þar. Þú varst mikið á sjó og sjaldan eða aldrei í fríi nema þegar það var löndunarstopp. Þú kunnir aldrei að taka þér frí, þótti einfaldlega best að vera á sjó og þar leið þér líka örugglega best. Slysið sem þú lentir í þegar þú varst 21 árs stoppaði þig ekkert að halda áfram sjómennsku og gerðir þú það af prýði og dugnaði í 40 ár. Þú varst mörgum til fyrirmyndar þar. Ef þú varst í landi varstu duglegur að fara að veiða silung eða lax, fór eftir skapi kannski. Það var held ég þitt eina áhugamál og ekkert að því enda flott sport og gott næði fyrir þig en oftast tókstu Guðmund með og við mamma fengum líka að fljóta með annað slagið. Þá var kannski útbúið nesti og farið á einhvern rúnt. Þú varst lítið fyrir að fara í ferðalög nema þá eitthvert sem afi eða Bjössi drógu þig í og fórst helst ekki lengra en á Egilsstaði ef þú fórst norðurleiðina og helst ekki lengra suður en á Höfn. Ég er því mjög þakklát fyrir þessar örfáu heimsóknir sem þú nenntir með mömmu hingað á Vopnafjörð eftir að ég flutti að heiman, þótt þær hefðu gjarnan mátt vera fleiri. Ætli þú hafir ekki bara verið svona heimakær, ég held að það sé bara málið. Ég man að þar síðasta sumar þegar systir mömmu kom í heimsókn á Breiðdalsvik alla leið frá Englandi þá keyrðir þú þær systur til mín, komst inn og spurðir um klósettið. Komst út og sagðir: Jæja, nú skulum við fara." Þetta sagðirðu alveg eftir heilar tíu mínútur. Þú varst aldrei mikið fyrir að stoppa lengi á sama stað. En sem betur fer var þetta góður dagur sem við áttum og þú spjallaðir heilmikið við Sigga og við borðuðum held ég þriggja rétta máltíð sem þær systur elduðu kannski á klukkutíma og svo varstu klæddur í skóna og jakkann og auðvitað með derhúfu og sagðir: bless, takk fyrir maí og gleðilegan júní og fórst útí bíl. Alveg týpískt þú.
Ég man þegar þú komst heim af sjónum þá komstu oftast nær með hertan harðfisk sem þú verkaðir sjálfur, hálfan eða heilan ruslapoka eftir flesta túra, það var engin smá hátíð þá. Við gátum setið lengi við sjónvarpið og borðað þennan harðfisk og er hann og verður alltaf besti harðfiskur sem ég hef smakkað. Þegar þú varst heima þá var alltaf Bóamatur" á borðum. Þú áttir þrjá uppáhaldsrétti og voru það nr. 1 Heinz-spaghettí úr dós steikt á pönnu með pylsum og toppað með kartöfluflögum. Réttur nr. 2 var auðvitað steiktur fiskur í raspi með 5 kg af lauk og nóg af smjöri og svo var alltaf venjan hjá þér að hrúga remúlaði og sweet chili-sósu á þetta allt saman. Ég man að mamma var alltaf að skamma þig fyrir þetta, ekki nóg með að þú gerðir matinn mjög ólystugan heldur var henni alltaf annt um heilsu þína. Réttur nr. 3 var djúpsteiktur skötuselur, laukhringir og franskar með, heimatilbúið allt saman, en ekki hvað og orly-deig upp á tíu. Svo borðaðirðu auðvitað tonn af kokteilsósu, annað var bara ekki í boði. Kleinubakstur verður ekki eins án þín en þú getur bókað að bakstrinum verður haldið við til heiðurs þér það sem eftir er og uppskriftin vel geymd. Ég hlakka til að kenna Jasmín að baka þær eins og þú og mamma kennduð mér.
Takk fyrir að hafa gefið okkur mömmu kost á nýju lífi og tækifærum. Takk fyrir að hafa verið hennar hægri hönd. Þrátt fyrir sambúðarslitin þá varstu alltaf hennar besti vinur og alveg fram undir það síðasta. Það var mér alveg ómetanlegt og henni líka ,það efa ég ekki. Mér þykir vænt um hvað þið voruð alltaf góðir vinir, svoleiðis er ekki sjálfgefið eftir að fólk slítur samvistum. Jasmín dóttir mín spurði mig: ,Hvar er Bói afi? Ég sagði henni að þú værir kominn til himna. Þá sagði hún: Já, svona hátt upp í ský í himinlinnlin" og benti upp. Þú yrðir kannski ekki sáttur við þá skýringu hjá mér en ég veit að þú gefur mér smá slaka. Ég trúi því að þú sért kominn á góðan og fallegan stað þar sem afi, amma, Ragnheiður, Stefán, Birgir og Auður eru og ég veit að þau taka öll vel á móti þér. Hvíldu í friði, elsku Bói minn, þín verður sárt saknað. Ég skal hugsa vel um mömmu þangað til við sameinumst öll aftur. Þín
Selja Janthong.